Eftirlætisiðja lýðskrumara

Af takmörkuðum fréttum um efni stjórnarmyndunarviðræðna má ráða, að einn helzti ásteytingarsteinninn hafi verið fiskveiðistjórnunarkerfið.  Er það lýsandi dæmi um stjórnmálaástandið, að margir stjórnmálamenn skuli finna sér það helzt til dundurs að ráðast á kerfi, sem aflar svo vel í þjóðarbúið, að það er litið á það utanlands frá sem fyrirmynd umbóta á fiskveiðistjórnarkerfum, sem gefizt hafa illa. 

Lýðskrumarar hérlendis hafa beitt óvönduðum meðulum við að rakka niður núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi og alls ekki sýnt fram á með rökum, hvers vegna nauðsyn beri til að umturna því.  Hefði samt verið óskandi, áður en stjórnmálamenn taka að ræða breytingar, að hérlendis hefð verið notuð sama aðferð og í Færeyjum, þ.e. fengnir óvilhallir fræðimenn til að semja skýrslu um kosti og galla núverandi kerfis og síðan að leggja fræðileg rök að breytingum á því eða að öðru kerfi, sem væri þjóðhagslega hagkvæmara en núverandi kerfi, því að líklega er samdóma álit allra, að hér skuli vera við lýði fiskveiðistjórnunarkerfi, sem gagnast þjóðinni sem heild bezt til lengdar. Hér ber að geta þess, að beinir hagsmunaaðilar greinarinnar sjálfrar, útgerðarmenn og sjómenn, hafa lýst andstöðu sinni við þá illa þokkuðu hugmynd að bjóða fiskveiðiheimildir upp.  Aðferðin er illa þokkuð, þar sem hún hefur verið reynd, og reyndist hún hvorki nærsamfélaginu né viðkomandi ríkissjóðum vel.

Í byrjun október 2016 var gefin út ný skýrsla nefndar um nýskipan sjávarútvegsmála í Færeyjum, sem nefnd, skipuð af Högna Hoydal, sjávarútvegsráðherra Færeyja, samdi.  Svo segir í frétt Jóns Birgis Eiríkssonar í Morgunblaðinu 10. október 2016:

"Óvíst, hvort uppboð verður ofan á":

"Skýrslan er hluti af vinnu við endurskoðun á fiskveiðikerfi Færeyinga í ljósi þess, að á næsta ári [2017] rennur út gildistími veiðiheimilda, sem gefnar voru út fyrir 10 árum.  Í skýrslunni er m.a. boðað, að horfið verði frá sóknarmarkskerfi og tekið upp aflamarkskerfi.  Einnig, að hafrannsóknir verði auknar og að jafnaði verði afla landað í Færeyjum og hann unninn þar."

Þetta er haft eftir Steinari Inga Matthíassyni, sérfræðingi hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, SÍF. Höfundar skýrslunnar komust m.ö.o. að þeirri niðurstöðu, að hafna bæri sóknarmarkskerfinu, sem var við lýði í Færeyjum, og "uppboðsleiðinni", sem núverandi sjávarútvegsráðherra Færeyja er talsmaður fyrir, en taka upp íslenzka fiskveiðistjórnunarkerfið í einhverri mynd ásamt því að efla færeyskar hafrannsóknir.  Það er lærdómsríkt fyrir Íslendinga að kynnast því, hvað mikil fiskveiðiþjóð, sem horfir til allra átta við mótun nýs fiskveiðistjórnunarkerfis frá grunni, telur verða sér helzt til heilla við nýtingu villtra stofna í sjónum, en Færeyingar eru líka mikil fiskeldisþjóð. 

"Steinar Ingi segir Högna Hoydal, sjávarútvegsráðherra, hafa lagt nefndinni skýrar línur áður en vinnan hófst.  Eitt markmiðanna hafi t.a.m. verið að skoða sérstaklega uppboðsleiðina.  "Hann stendur fyrir þá pólitík, að þessi réttindi skuli boðin upp á opinberum uppboðsmarkaði.  Það er pólitíkin, sem hann og hans flokkur reka," segir Steinar Ingi."

Allar veiðiheimildir í færeyskri lögsögu og úr deilistofnum, sem falla í hlut Færeyinga, falla sem sagt í hlut færeyska ríkisins árið 2017, og ríkið getur gert við þær, það sem því sýnist.  Að mati sérfræðinganna á ríkið ekki að bjóða þær upp, heldur á ríkið (Landsstjórnin í Færeyjum) að úthluta núverandi færeyskum útgerðarmönnum aflahlutdeildir.  Þetta er sama staða og Íslendingar voru í 1983, fyrir 33 árum, þegar Alþingi ákvað þessa leið, og að aflahlutdeildir á skip skyldu ráðast af veiðireynslu 1981-1983.

Hvers vegna skyldu sérfræðingarnir hafa komizt að þessari niðurstöðu, sem er í blóra við vilja sjávarútvegsráðherrans ?:

  1. Sérfræðingarnir hafa litið til reynslu Færeyinga af sóknarmarkskerfi og fundið út, að árangur kerfisins væri óviðunandi m.t.t. vaxtar og viðgangs nytjastofnanna, afkomu sjávarútvegsins og verðmætasköpunar, svo að eitthvað sé nefnt.  Sóknarmarkskerfið fékk falleinkunn hjá sérfræðingum og helztu hagsmunaaðilum í Færeyjum á grundvelli eigin reynslu. Reynslan er jafnan ólygnust.
  2. Sérfræðingarnir hafa litið til reynslu fáeinna þjóða af "uppboðsleiðinni". Hún viðgengst enn á Falklandseyjum, brezkum eyjaklasa úti fyrir strönd Argentínu, en eyjarskeggjar stunda ekki fiskveiðar sjálfir að neinu marki, heldur leigja hæstbjóðandi erlendri útgerð veiðiheimildir í tiltekinn tíma. Eistar og Rússar prófuðu "uppboðsleið", en hurfu frá henni að um þremur árum liðnum, af því að hún var að rústa sjávarútvegi í héruðum, þar sem gerð var tilraun með hana.  Hún leiddi til mikillar skuldsetningar útgerða, gjaldþrota og samþjöppunar aflaheimilda á fáar hendur.  Engin nýliðun varð í greininni.  Hið opinbera fékk fyrst um sinn meir í sinn hlut í þessum æfingum, en er frá leið minnkuðu tekjur þess, og að endingu töpuðu allir, og meiri byggðaröskun varð en nokkru sinni áður.  Við öllu þessu hefur verið varað á Íslandi, ef stjórnmálamenn hérlendis láta glepjast af glópagulli. Færeyingar fengu smjörþefinn í sumar af "uppboðsleið" hjá sér.  Fá tilboð bárust, og engir nýir aðilar voru í hópi þátttakenda.  Gagnrýnendur segja, að veiðiréttindin hafi safnazt á færri hendur en áður og erlendar útgerðir eru taldar hafa beitt fyrir sig leppum til að bjóða fyrir sig í aflaheimildirnar.
  3. Téðir sérfræðingar færeyska sjávarútvegsráðherrans hafa vafalaust litið til bræðraþjóðarinnar á eyjunni í norðvestri frá sér, þar sem aflamerkskerfi með frjálsu framsali aflaheimilda hefur verið við lýði í aldarfjórðung. Það var sett á í andstöðu við útgerðarmenn þess tíma í landinu, sennilega af því að þeir sáu fram á miklar aflatakmarkanir samfara kvótasetningu, eins og reyndin varð, og fyrst nú hillir undir svipað aflamagn bolfisktegunda og þá. Lýðskrumarar hérlendir hamra á "gjafakvóta" til þessara útgerðarmanna, en staðreyndin er sú, að útgerðarmenn þess tíma fengu aflahlutdeild úthlutað út á veiðireynslu.  Þá voru veiðiskipin allt of mörg til að veiðar úr minnkandi stofnum gætu borið sig.  Þess vegna var fleirum ekki hleypt að í 7 ár til 1990-1991, er frjálst framsal aflahlutdeilda var heimilað af Alþingi. Síðan þá hafa nánast allar aflahlutdeildir skipt um hendur, þ.e. gengið kaupum og sölum á frjálsum markaði. Sérfræðingar færeysku Landsstjórnarinnar hafa vafalaust einnig litið til traustrar uppbyggingar þorskstofnsins í íslenzku lögsögunni og borið hana saman við hnignandi hrygningarstofn í færeysku lögsögunni og litið til verðmætasköpunar íslenzka sjávarútvegsins, sem er sú mesta, sem þekkist í heiminum á hvert kg úr sjó. 

 

 Viðkvæði lýðskrumara er, að útgerðarmenn greiði ekki nóg til samfélagsins, af því að þeir séu að nýta auðlind í "sameign þjóðarinnar".  Hér er, eins og vænta má, fiskað í gruggugu vatni.  Hvað er nóg, þegar þess er gætt, að bein opinber gjöld sjávarútvegsins 2015 námu miaISK 22,6 eða 32 % af EBITDA-framlegðinni.  Getur einhver bent á starfsgrein á Íslandi, sem greiðir hærri opinber gjöld eða t.d. hærra hlutfall af tekjum sínum til ríkisins ?  Hlutfallið var í þessu tilviki 22,6/275=8,2 %, og sem hlutfall af hagnaði fyrir skatta 22,6/60,1=38 %. 

Opinberu gjöldin skiptust þannig 2015:

  • Tekjuaskattur: miaISK 9,3=13,1 % af framlegð
  • Tryggingagjald:miaISK 5,8= 8,2 % af framlegð
  • Veiðigjöld:    miaISK 7,5=10,6 % af framlegð

Að óbreyttu stefnir í hærri veiðigjöld á fiskveiðiárinu 2017/2018 vegna góðrar afkomu árið 2015, og samkvæmt gildandi lögum fellur þá niður skuldaafsláttur veiðigjalda, sem eitt og sér mun hækka veiðigjöld um miaISK 1,0.  Á næsta fiskveiðiári gætu veiðigjöldin þannig hækkað um miaISK 2,5 eða um þriðjung og komizt upp í miaISK 10. Þetta er mjög alvarlegt fyrir afkomu sjávarútvegsins, því að á árinu 2016 munu tekjur hans dragast saman m.v. 2015 vegna versnandi viðskiptakjara.  Þar vegur gengishækkun ISK um 16 % þyngst.  Í aðalviðskiptalandinu, Bretlandi, hefur gengi gjaldmiðils landsins,sterlingspundsins, lækkað um 30 % gagnvart ISK.  Við svo búið má ekki standa, og vonandi er Seðlabankinn nú að rumska, en hann hefur sofnað á verðinum gagnvart hættulegri gengishækkun, sem efnahagsstöðugleikanum stafar ógn af.

Að teknu tilliti til versnandi markaðsaðstæðna almennt, einkum fyrir makríl og þurrkaðar afurðir, og hækkandi gengis, má búast við miaISK 30 lægri framlegð sjávarútvegs 2016 en 2015, þ.e. að framlegðin verði um miaISK 40, sem er lækkun um miaISK 30 eða 42 %.  Á sama tíma hækka veiðigjöldin, sem sýnir nauðsyn þess að endurskoða og einfalda útreikning þeirra. Í þessu sambandi þarf að benda á, að í aðalsamkeppnislandi Íslands á þessu sviði, Noregi, eru hvorki innheimt veiðigjöld né hafnargjöld af útgerðum, og launatengd gjöld eru þar lægri en hér.  Í Færeyjum og á Grænlandi greiða sjómenn hluta veiðigjalds á móti útgerðum. Í samkeppninni á erlendum mörkuðum hefur staða íslenzka sjávarútvegsins veikzt verulega.

Nú er svo komið, að afl íslenzkra útgerða til fjárfestinga, sem árið 2015 nam miaISK 26 eða 37 % af framlegð, mun veikjast mjög á næsta ári, og fé til ráðstöfunar af framlegð, EBITDA, til fjárfestinga verður mjög af skornum skammti.  Líklegt er þá, að skuldir útgerðanna vaxi aftur, en skuldir sjávarútvegs voru í hámarki árið 2009 í miaISK 494 og lækkuðu niður í miaISK 333 árið 2015 eða um miaISK 161, og skuldastaðan, sem árið 2015 var 333/71=4,7, þ.e. tiltölulega góð, mun vafalaust versna. Þetta fellir viðkomandi sjávarútvegsfyrirtæki í verði á hlutabréfamarkaði og dregur úr lánshæfni þeirra. 

Í ljósi versnandi horfa um tekjur og skuldastöðu sjávarútvegsins er með eindæmum, að stjórnmálamenn skuli sitja yfir því dögum saman með sveittan skallann í stjórnarmyndunarviðræðum, hvernig hægt sé að ná meira fé en nú þegar er gert af sjávarútveginum til þess að fjármagna aukin umsvif ríkisins, sem eru ótímabær fyrr en lækkaðar vaxtagreiðslur ríkissjóðs veita slíkt svigrúm og mundu setja fullþanið hagkerfi úr skorðum. Slíkir stjórnmálamenn eru buddu almennings stórvarasamir.

Líklegt er, að orðin "sameign þjóðarinnar" í umræðunni og í lagatexta fiskveiðistjórnunarlaganna virki á skattaglaða stjórnmálamenn, eins og þingmenn Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, VG, augljóslega eru, eins og blóðfnykur í loftinu virkar á rándýr. Þannig standa vinstri sinnaðir stjórnmálamenn iðulega á öndinni og halda því blákalt fram, alveg út í loftið, að hægt sé að stórauka skattheimtu með aðför skattheimtumanna að atvinnugreinum, sem hagnýta auðlindir landsins.  Er þá látið að því liggja, að fyrirtækin, sem breyta landsins gæðum í fjármuni séu með ótilteknum hætti að arðræna þjóðina um leið.  Þá er horft framhjá því, að greinarnar eru fjárfrekar og sjávarútvegurinn er áhættusöm grein, sem skilar starfsfólki sínu og viðkomandi byggðarlögum góðum tekjum og ríkissjóði meiri beinum og óbeinum tekjum en aðrar starfsgreinar. Að höggva í sama knérunn hefur löngum þótt ógæfulegt. 

Til að siðferðisgrundvöllur eigi að vera fyrir skattheimtu af einni starfsgrein umfram aðrar þarf að hafa greinzt rentusækni í þeirri grein og hún verið metin til fjár.  Rentusækni er það, að fyrirtæki eða starfsgrein sækist eftir og fái úthlutað ávísun á verðmæti úr takmarkaðri auðlind á kostnað annarra fyrirtækja eða þeim sé með einhverju móti hyglað af hinu opinbera við markaðssetningu á afurðum þeirra.  Sem dæmi um rentusæknar greinar má nefna sjókvíaeldi, orkuvirkjanir og fjarskiptageirann, en í þessum geirum fá fyrirtæki úthlutað starfsleyfum og rekstrarleyfum gegn vægu gjaldi, þar sem fleiri eru um hituna en fá. 

Hvers vegna er íslenzki sjávarútvegurinn ekki rentusækinn ?  Það er vegna þess, að útgerðarmennirnir hafa keypt eða leigt til sín veiðiheimildirnar á frjálsum markaði, og sjávarútvegsfyrirtækin selja afurðir sínar á frjálsum markaði, oftast í harðvítugri samkeppni erlendis við niðurgreidda (rentusækna) erlenda starfsemi. 

Hver ráðskast þá með "sameign þjóðarinnar" í þessu sambandi ?  Fyrst er þar til að taka, að enginn getur átt óveiddan fisk í sjó, enda syndir hann frjálst inn og út úr fiskveiðilögsögunni.  Miðin eru almenningur, þar sem "ítala" hefur verið sett af ríkisvaldinu af illri nauðsyn. Þessi "ítala" er aflamark í hverri kvótasettri tegund og aflahlutdeild veiðiskips.  Aflamarkið er sett af ráðherra á grundvelli rannsókna og ráðlegginga Hafrannsóknarstofnunar, en aflahlutdeildin ræðst á frjálsum markaði, og er þessi nýtingarréttur ígildi eignar, sem varinn er af eignarréttarákvæði Stjórnarskráarinnar. Ef Ísland væri í ESB, væru bæði aflamark innan landhelgi Íslands og aflahlutdeildir ákvarðaðar af framkvæmdastjórn ESB og samkvæmt CAP-"Common Agricultural and Fisheries Policy", mætti ekki mismuna veiðiskipum ESB um aðgang að íslenzku landhelginni til lengdar, enda félli hún undir lögsögu ESB.  Er þetta skýringin á því, að íslenzku ESB-flokkarnir vilja brjóta niður gildandi íslenzkt fiskveiðistjórnunarkerfi, eða ræður tilviljun því, afstaðan til ESB og fiskveiðistjórnunar fara saman ?  Tölfræðilega eru litlar líkur á slíkri samleitni, og þess vegna er tilgátan sú, að ekki sé um tilviljun að ræða. 

Að því leyti eru færeysk og íslenzk stjórnvöld í gjörólíkri aðstöðu, þar sem sóknardagaheimildir í færeyskri lögsögu falla allar til Landsstjórnarinnar á næsta ári, þar sem sóknardagakerfið verður aflagt, en íslenzka ríkisstjórnin verður annaðhvort að kaupa aflahlutdeildir íslenzkra útgerðarmanna eða að taka þær eignarnámi og greiða þá fébætur fyrir, ef hún vill leggja af núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi og taka upp annað fyrirkomulag, t.d. "uppboðsleið". Skyldi maður halda, að ríkið hafi annað við peningana að gera en að festa þá í útgerð.  Varpar þessi ráðstöfun ríkisins skýru ljósi á, að "uppboðsleið" er ekki markaðsleið, heldur þjóðnýting aflahlutdeilda í felubúningi markaðskerfis, þar sem gera á útgerðarmenn að leiguliðum ríkisins. 

Blekbóndi á engra beinna hagsmuna að gæta varðandi útgerðirnar í landinu eða kvótaeign þeirra né liggja nokkrir venslaþræðir frá honum til útgerðanna, en hann telur samt einsýnt, að ráðleggingar Hafrannsóknarstofnunar og aflamarkskerfið í sameiningu þjóni bezt hagsmunum hans allra þekktra fiskveiðistjórnunarkerfa, sem og þjóðarheildarinnar, og að hlutdeild ríkissjóðs af afrakstri auðlindarinnar hljóti að vera í hámarki til lengdar frá kerfi, þar sem verðmætasköpunin á hverja einingu er í hámarki

Vinstri hreyfingin grænt framboð, VG, hefur boðað hækkun á skattheimtu af einstaklingum og lögaðilum. Það mun leiða til enn meiri þenslu í hagkerfinu, því að fé þessara aðila, sem annars hefði m.a. verið varið til að greiða niður skuldir, spara, viðhalda húsnæði eða tækjum, fjárfesta í betri búnaði, fara á flandur til gamans eða markaðssetningar eða til einhverra annarra þarfa, fara þá í að þenja umsvif ríkissjóðs, sem ekki eru síður verðbólguhvetjandi en einkaneyzla. VG hefur sérstaklega boðað hækkun á veiðigjöldum, þótt fyrir því séu hvorki réttlætisrök, lögfræðileg rök né hagfræðileg rök.  Veiðigjöldin renna beint til ríkissjóðs, en það er lágmarks réttlætiskrafa, að þau séu eyrnamerkt og renni óbeint til sjávarútvegsins aftur sem framlög í hafnabótasjóð, til Hafrannsóknarstofnunar og til Landhelgisgæzlunnar.  Núverandi álagningaraðferð er ótæk, og væri tekjuskattsauki illskárri aðferð.                       Berlaymont sekkur

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónas Kr

Núverandi kerfi byggir á veiðigjaldi, því allir sem vilja hefja útgerð þurfa að kaupa kvóta. Í núverandi kerfi rennur gjaldið til þeirra sem eru hættir í útgerð og gæti þess vegna farið beint úr landi, en ef veiðiheimildirnar eru boðnar upp af ríkinu, þá rennur gjaldið í ríkissjóð. 

Jónas Kr, 14.12.2016 kl. 18:23

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Veiðigjöld voru í upphafi lögð á með þeim rökum, að útgerðirnar væru rentusæknar.  Það mátti til sanns vegar færa á þeim tíma, er genginu var handstýrt og skráningin tók aðallega mið af afkomu útgerðanna.  Nú eru gjörbreyttar aðstæður og aðaláhrifavaldur á gengisskráningu er ferðaþjónustan með sínu gríðarlega innflæði gjaldeyris.  Afkoma útflutningsatvinnuveganna markast ekki af aðgangi að náttúruauðlind, heldur af gengisskráningu. 

Auðlind hefur ekkert gildi, nema hún sé nýtt með einhverjum hætti.  Rekstur og afkoma rétthafa auðlindanýtingar er með margvíslegum hætti, en þegar aflahlutdeild (fiskveiðikvóti) skiptir um hendur, er líklegast, að hún fari til aðila með hagkvæmari rekstur en er hjá þeim, sem losar sig við hana.  Þannig verður auðlindanýtingin stöðugt þjóðhagslega hagkvæmari, og söluandvirðið verður auðvitað andlag skattheimtu samkvæmt reglum um skattlagningu söluhagnaðar.  Afgangurinn leitar væntanlega arðsamrar fjárfestingar, og þessi misserin leita menn of lítið utan með fé, væntanlega af því að von er um hærri ávöxtun innanlands. 

Ef ríkið á að geta boðið upp veiðiheimildir, verður ríkið fyrst að taka þær af útgerðarmönnum.  Sú leið er lagalegum þyrnum stráð og engan veginn í hendi og mun þá vafalaust kosta stórfé, en verði hún ofan á, mun efnahagur útgerðanna hrynja, og í slíku ástandi munu þær ekki verða í stakk búnar að bjóða í veiðiheimildir, svo að neinu nemi, af eigin rammleik, heldur verða að slá lán, eins og reyndin hefur verið, þar sem uppboðsleið var reynd.

Bjarni Jónsson, 15.12.2016 kl. 12:07

3 Smámynd: Jónas Kr

Af hverju ætti uppboð á aflaheimildum að leiða til skuldasöfnunar? Veiðigjaldið gæti verið innheimt við sölu afla á fiskmarkaði eða, ef skip landar beint í vinnslu, við sölu afurða. Núverandi kerfi hvetur aftur á móti til skuldsetningar sjávarútvegsfyrirtækja, vegna þess að menn verða að borga veiðigjaldið (kvótann) fyrir fram án þess að vita með vissu hver afkoman verður eftir td. fimm til tíu ár. Td. þeir sem keyptu rækjukvóta fyrir um tuttugu árum fá ekki mikið fyrir hann í dag.

Ef breytt er um fiskveiðikerfi þá þarf að gera það á löngum tíma 3% til 5% fyrning á kvóta á ári, eða þannig að þeir sem eiga kvóta verði ekki ver settir en þeir sem eru að byrja útgerð. 

Jónas Kr, 16.12.2016 kl. 12:01

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Ef greiðslugeta útgerðar er með þeim hætti, að bíða þurfi með greiðslu á andvirði veiðiheimildar, sem hreppt var á uppboði, þá hefur útgerðarmaður einfaldlega boðið verð umfram greiðslugetu útgerðarinnar.  Ef aflahlutdeildir, sem útgerðarmenn keyptu, verða rifnar af þeim, þá mun verðgildi útgerðanna á markaði hrynja vegna versnandi eignastöðu, hærri kostnaðar og minni arðsemi.  Þar af leiðandi mun eigið fé þeirra rýrna, og þau verða þess vegna mun háðari lánadrottnum en áður. 

Nú háttar þannig til, að framlegð útgerðanna fer hríðlækkandi, aðallega vegna ofris ISK.  Það líklegt, að gengisvísitalan verði varanlega lægri en árið 2015, sem var síðasta góða afkomuár útgerðanna um sinn.  Af þessu leiðir líka, að í örvæntingu munu þau fyrstu árin bjóða hátt til að reyna að viðhalda aflaheimildum sínum, og það gæti þýtt skuldsett kvótakaup.  Þó að útgerðirnar hafi lækkað skuldir sínar mikið á síðustu 5 árum, þá er skuldabyrði þeirra samt þung núna.

Þar sem uppboðsleið hefur verið valin, hefur aukin skuldsetning, sem hjá mörgum endaði með gjaldþroti, orðið raunin. 

Bjarni Jónsson, 16.12.2016 kl. 18:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband