Borgin er að sökkva í skuldafen

Samkvæmt ársreikningi Reykjavíkurborgar fyrir árið 2016 nema heildarskuldir borgarinnar af eigin rekstri og hjá dótturfyrirtækjum miaISK 290, og er þetta 187 % af heildartekjum sömu aðila.  

Í 64. grein Sveitarstjórnarlaga segir, að skuldir og skuldbindingar sveitarstjórnar, kjarna og dótturfyrirtækja, skuli vera innan við 150 % af tekjum samstæðunnar.  Hjá Reykjavík er þetta hlutfall 187 %.  Það er með öðrum orðum búið að kollsigla fjárhag borgarinnar, svo að við blasir að skipa henni tilsjónarmann.  Einhvern tíma hefði það þótt saga til næsta bæjar, ef fjármálastjórnun höfuðborgarinnar væri með þeim endemum, að hún stefndi í að verða svipt fjárhagslegu sjálfstæði sínu.  Nú eru hins vegar nýir tímar með endemis búskussa við völd í Reykjavík.  

Skuldir kjarnans (A-hluta) nema miaISK 84 og fara vaxandi í bullandi góðæri.  Það sýnir, að rekstur borgarinnar er ósjálfbær, en í lögum segir, að rekstur heildar, A og B hluta, skuli á hverju þriggja ára skeiði vera réttum megin við núllið.  Aðalfyrirtæki B-hluta er Orkuveita Reykjavíkur, OR, með sín dótturfyrirtæki, ON og Veitur.  Þar hefur loksins tekizt að bjarga orkusamstæðu frá greiðsluþroti með því að láta borgarana, notendur þjónustu OR, borga brúsann af röngum fjárfestingarákvörðunum á tímum R-listans og mjög áhættusömum samningum um raforkusölu til stóriðju frá jarðgufuorkuveri á fallandi fæti, þ.e. orkuveri með mjög háum  rekstrarkostnaði vegna mikillar viðhaldsþarfar af völdum tæringa, útfellinga, og gufuöflunar.  Aðrir viðskiptavinir ON en viðkomandi stóriðja eru látnir gjalda fyrir sífellda nýja orkuöflun í stað minnkandi afkasta á meðan orkusamningur til þessarar stóriðju tekur ekkert tillit til viðbótar kostnaðar vegna oflestunar á jarðgufuforða Hellisheiðarvirkjunar.  

Hafa almennir notendur hins vegar mátt axla um 50 % gjaldskrárhækkun síðan árið 2010, sem er um 25 % umfram hækkun neyzluverðsvísitölu.  Eru nú jafnvel boðaðar arðgreiðslur til borgarinnar frá OR, og er það til að bíta höfuðið af skömminni.  Það nær auðvitað engri átt, og væri OR öllu nær að skila verðhækkunum umfram vísitölu til baka til neytenda.  Fyrirtækið er áfram lágt metið af matsfyrirtækjum, og ákvað eitt þeirra, Moody´s, 15. júní 2017, að halda lánshæfiseinkunn óbreyttri, Ba2, sem er óvenjulega léleg einkunn til orkusamstæðu.  

Það er þess vegna allsendis undir hælinn lagt, að Reykjavík takist að sleppa undir 150 % mark sveitarstjórnarlaga fyrir 2023, en þá fellur úr gildi undanþága í lögum um þessi mörk til sveitarfélaga, sem eiga orkufyrirtæki.  

Vegna bágborinnar skuldastöðu Reykjavíkur hefur borgin ekki efni á neinum stórframkvæmdum, allra sízt algerlega óarðbærum, dýrum framkvæmdum á borð við Borgarlínuna, sem í fyrsta áfanga er áætlað, að kosta muni miaISK 22 og að lokum miaISK 70, en sá kostnaður fer yfir miaISK 100, ef að líkum lætur með gæluverkefni stjórnmálamanna, sem engin spurn er eftir á meðal notenda.  Framtíð Borgarlínu veltur þess vegna alfarið á því, hvort Alþingi samþykkir Borgarlínu inn á Samgönguáætlun  ríkisins, en þar er barizt um hvern bita, og það væri glórulaust athæfi að forgangsraða ríkisfjármunum í þágu gæluverkefnis, sem ætlað er að leysa umferðarvanda, sem miklu raunhæfara er að bregðast við í þágu allra vegfarenda á höfuðborgarsvæðinu með gerð mislægra gatnamóta og fjölgun akreina á stofnæðum þéttbýlisins fyrir mun lægri upphæð en nemur kostnaði við Borgarlínuna.  

Jónas Elíasson, prófessor emeritus, vakti máls á grafalvarlegri fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar með grein í Morgunblaðinu, 13. júní 2017, 

"Óstjórn í Reykjavík",

sem lauk með þessum orðum:

"Bjarga má fjármálum venjulegra bæjarfélaga með góðum vilja og samningum við lánadrottna, en 380 milljarða króna skuld Reykjavíkurborgar [mismunur 380 og 290 miaISK er e.t.v. vegna ófjármagnaðra lífeyrisskuldbindinga Reykjavíkurborgar - innsk. BJo] verður vart bjargað með slíkum hætti.  Til að svo megi verða, þarf þjóðarátak.  Skuldastaða Reykjavíkur er þjóðhættuleg.  

Hér er svo líklega skýringin komin á því, hve hægt gengur að viðhalda götum, að engar marktækar framkvæmdir eru í samgöngum og lagnakerfum eða þróun nýrra byggingarsvæða, svo að fátt eitt sé nefnt um stöðnun höfuðborgarinnar á flestum sviðum verklegra framkvæmda.  Þetta er kannski einnig skýringin á því, að pótintátar borgarinnar tala um fátt annað en umhverfisvæna hjólreiðastíga eða álíka gæluverkefni, verkefni, sem þeir vita, sem vilja, að leysir ekki umferðar- og skipulagsvanda borgarinnar - hvorki í bráð né langd - en eru þeim óneitanlega kosti búin að kosta lítið í samanburði við allar þær framkvæmdir, sem æpandi þörf er á.

Á sama tíma er skuldahamarinn á leiðinni niður, og við því verður væntanlega að bregðast ?"

Það er búið að keyra höfuðborgina í fjárhagslegt fúafen, og núverandi valdhafar þar hafa hvorki getu né vilja til að draga hana þaðan upp.  Til þess þarf nýja vendi í valdastólana, sem hafa bein í nefinu til að gera uppskurð á stjórnkerfi borgarinnar til að gera það bæði skilvirkara og ódýrara.  Jafnframt þarf að auka tekjur borgarinnar enn meir með því að bjóða upp á mikla fjölbreytni lóða, og umfram allt að auka heildarlóðaframboð á sanngjörnu verði, þ.e. sem næst upphafskostnaði við innviði til að þjóna nýjum húsbyggjendum.  Með þessum hætti mun skattstofn borgarinnar vaxa meira en ella. Þá misheppnuðu stefnu að láta allt snúast um þéttingu byggðar, svo að almenningssamgöngur verði raunhæfur valkostur fyrir fleiri en nú, verður að leggja fyrir róða. 

Staðan er orðin grafalvarleg, þegar prófessor emeritus við Verkfræðideild HÍ kallar hana þjóðhættulega.  

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Ein af þeim leiðum sem meirihluti borgarstjórnar ætlar að fara, til að rétta af fjárhaginn, er að loka mötuneyti fyrir eldri borgara, við Hæðargarð, í júlí. Þar munu eflaust sparast fúlgur fjár, sem vega munu þungt upp á móti þrjú hundruð þúsund milljóna króna halla borgarsjóðs.!

 Að skuldir borgarinnar skuli nema nálægt einni milljón króna, á hvert einasta mannsbarn á öllu Íslandi, er skuggalegt. Það er mjög undarlegt hve lítið er um þetta fjallað í fjölmiðlum og enn undarlegra hve fulltrúum meirihlutans virðist fjandans sama. Hundrað þúsund milljóna "projekt" undir nafninu "Borgarlína" skal verða næsta gæluverkefni þessara draumóra og óráðssíuliðs. 

Ef fram fer sem horfir, mun ekki líða á löngu þar til skuldir borgarinnar munu nema nær tveimur milljónum á hvert einasta mannsbarn í landinu. 

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 22.6.2017 kl. 10:57

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Já, það verður ekki á þennan meirihluta logið, og smámenni höggva jafnan, þar sem garðurinn er lægstur.

Það stefnir í, að fjárráðin verði tekin af borginni, og það er eiginlega bara spurning, hversu hroðaleg skuldasúpan verður, þegar að því kemur.  

Bjarni Jónsson, 22.6.2017 kl. 13:56

3 Smámynd: Jónas Kr

Í ársreikningi Reykjavíkurborgar segir "Heildareignir A- og B-hluta samkvæmt samanteknum efnahagsreikningi námu í árslok samtals 535.478 mkr og heildarskuldir ásamt skuldbindingum voru 290.465 mkr. Eigið fé nam 245.013 mkr" Semsagt skuldahlutfall A og B hluta er um 54% og eignir eru um 2 miljónir á hvern íbúa. Eignir Reykjavíkurborgar eru trúlega meiri en allra annara sveitafélaga landsins. Þú telur semsagt að þetta sýni sveitarfélag sem sé á leið í gjaldþrot.

sjá: http://reykjavik.is/sites/default/files/reykjavikurborg_arsreikningur_2016.pdf 

Jónas Kr, 22.6.2017 kl. 14:16

4 Smámynd: Eiríkur Hjálmarsson

Heill og sæll Bjarni.

Þarna eru ýmsar góðar ádrepur og áminning um að halda vöku okkar í fjármálunum. Mér finnst hinsvegar þessi kafli um verð fyrir þjónustuna ekki sanngjarn. Það er rétt að frá ágúst 2010 hafa hækkanir verið umfram vísitölu. Ef þú hinsvegar horfir yfir lengra tímabil (eða skemmra, t.d. frá miðju ári 2011) þá er niðurstaðan allt önnur, það er að verð á þjónustunni hefur nokkurn veginn verið í takti við vísitöluþróun. Ástæðan er sú að að á árunum 2005 til 2010 rýrnuðu gjaldskrárnar verulega.

Tekjur OR af sölu á heitu vatni og rafmagni á almennum markaði (ekki stóriðjan) rýrnuðu að raungildi um meira en tíu milljarða króna á þessu árabili. Ef við eigum að skila verðhækkunum, má þetta þá koma til frádráttar ;-)

Kær kveðja,

Eiríkur Hjálmarsson
upplýsingafulltrúi OR

Eiríkur Hjálmarsson, 22.6.2017 kl. 14:18

5 Smámynd: Kristin stjórnmálasamtök

Þú ert magnaður, Bjarni, líka í þinni síðustu grein hér, um Borgarlínuna sem bætir ekki úr skák.

Kristin stjórnmálasamtök, 22.6.2017 kl. 17:51

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Jónas: Opinberir aðilar fara ekki í hefðbundið gjaldþrot, heldur geta þeir orðið greiðsluþrota, ef allt um þrýtur.  Þá neyðast þeir til að selja eignir sínar fyrir skuldum og ekki víst, að þeir fái þá bókfært verð fyrir þær.  Síðan fara þeir í "klippingu", þ.e. hluti skuldanna er afskrifaður.  Allt leiðir þetta til hroðalegrar stöðu, því að lánstraust slíkra á fjármálamarkaði gufar upp.  Af þessum ástæðum gera lög ráð fyrir, að bágstöddum sveitarfélögum sé skipaður fjárhaldsmaður áður en í þetta óefni er komið.  Það mun þykja miklum tíðindum sæta, ef svo fer fyrir höfuðborg Íslands, en borgir, t.d. í Bandaríkjunum, hafa lent í þessu.   

Bjarni Jónsson, 22.6.2017 kl. 18:46

7 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þakka þér fyrir innlegg þitt, Eiríkur Hjálmarsson.

Það er hverju orði sannara, að tímaviðmiðunin skiptir höfuðmáli, þegar verðhækkanir eru til skoðunar.  Viðmiðun 2010 var notuð, af því að neyðaráætlun OR tók gildi um það leyti.  Það gefur hins vegar fyllri mynd og er sanngjarnt að fara lengra aftur í tímann, t.d. til 2005, sem þú nefnir.  Einu sinni voru lög í landinu, sem skylduðu Landsvirkjun til að lækka raunverð til almennra notenda um 3 % á ári.  Það er ekki lögmál, að orkufyrirtæki skuli hækka verð á sinni vöru og þjónustu a.m.k. sem nemur víritölu neyzluverðs.  Vel rekin orkufyrirtæki eiga að geta lækkað raunverð sitt, þegar skuldabyrði þeirra lækkar. 

Með góðri kveðju / 

Bjarni Jónsson, 22.6.2017 kl. 19:01

8 Smámynd: Jónas Kr

Bjarni, það sem ég var að benda á er að það er furðuleg aðferðarfræði að tala um skuldir án þess að minnast á hvaða eignir standa á móti. Reykjavíkurborg, ólýkt öðrum sveitarfélögum, á umtalsverðar eignir sem tengjast ekki rekstri borgarinnar. Samkvæmt ársreikningi er eignarhlutur Reykjavíkur í Orkuveitu Reykjavíkur yfir 100 milljarðar. Borgin gæti selt OR og borgað upp allar skuldir A hluta og átt talsverðan afgang. Því er Reykjavíkurborg ágætlega stödd fjárhagslega. 

Jónas Kr, 23.6.2017 kl. 10:05

9 Smámynd: Jónas Kr

"ólíkt öðrum sveitarfélögum" átti þetta að vera.

Jónas Kr, 23.6.2017 kl. 10:10

10 Smámynd: Bjarni Jónsson

Jónas: ég geri ekki lítið úr OR, en það er annað eignfært verðmæti í bókhaldi en markaðsvirði.  Hver mundi vilja kaupa OR á yfir 100 miakr ?  Starfsemin er að miklu leyti "náttúruleg einokunarstarfsemi", t.d. Veitur (dreifiveita rafmagns, heits og kalds vatns og fráveita).  Á samkeppnismarkaði eru ON með virkjanirnar, t.d. Hellisheiðarvirkjun og Andakílsvirkjun.  Hvorug er gæfuleg til eignar, og það er óeðlilegt, að markaðsaðilar stundi einokunarrekstur, enda er sennilega lítið upp úr því að hafa vegna opinberra reglna um arðsemi einokunarstarfsemi í almannaþágu.  

Bjarni Jónsson, 23.6.2017 kl. 11:33

11 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Það má eflaust benda á allskyns eignir, sem bókfærðar eru fyrir svo og svo mikið verðmæti, í bókhaldi Reykjavíkurborgar. Þessar eignir standa hinsvegar óhreyfðar og vega því ekkert annað en veð á móti skuldum, þar til þær seljast. Spurningin varðandi fjárhag borgarinnar er einföld.: Duga tekjur til að greiða rekstur og afborganir af lánum, með vöxtum? Þetta er ekki flókin spurning og svarið er einfalt.: Engan veginn. 

Samt skal haldið áfram í glórulausum fjáraustri í allskyns dauðans dellu, eins og til að mynda borgarlínu, sem er fyrirfram dauðadæmd aðgerð, hvort sem meirihlutanum líkar það betur eða ver. Ef hægt er fá það út að sú framkvæmd sé arðvænleg, hlýtur það að hafa verið reiknað út um rassgatið á einhverjum, í öfugum exel.

Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 24.6.2017 kl. 07:08

12 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Halldór Egill;

Þú hittir vissulega naglann á höfuðið.  Dæmi má taka af ráðhúsinu.  Það hefur sitt bókhaldsgildi og veðhæfni, en hefur það eitthvert markaðsverðmæti ?  Þótt einhver mundi vilja kaupa, verður það líklega aldrei selt, því að "einhvers staðar verða vondir að vera", eins og Guðmundur, góði, Hólabiskup sagði forðum tíð, þá er hann stökkti vígðu vatni á Drangey, en sleppti nokkrum stöðum að viðstöddum ásjáandi.

Það varpar ljósi á alvarlega stöðu A-hluta borgarsjóðs, að í bullandi góðæri ársins í fyrra jukust þar skuldir um 3 miakr.  Ef skyndilega harðnar á dalnum, hillir undir greiðsluþrot í sveit Ingólfs Arnarsonar og Hallveigar Fróðadóttur með þessu áframhaldi.  Rándýr og óþörf verkefni ríða samt ekki við einteyming.  Úr frétt í Mogga í dag: "Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Fluglestin-þróunarfélag hafa gert með sér samstarfssamning um þróun skipulagsmála vegna hraðlestar, sem ætlað er að tengja saman Keflavíkurflugvöll og höfuðborgarsvæðið."

"Vituð þér enn, eða hvað" ?

Kveðja suður / 

Bjarni Jónsson, 24.6.2017 kl. 13:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband