Fasteignir, fiskeldi og orkuöflun

Vestfirðingar berjast nú fyrir því að mega nýta landsins gæði alþýðu allri til hagsbóta.  Það er ekki vanþörf á auknum umsvifum athafnalífs á Vestfjörðum, eins og fasteignaverðið er vísbending um, enda er jákvætt samband á milli fasteignaverðs og atvinnuframboðs. 

Þetta má lesa út úr nýlegum upplýsingum Byggðastofnunar, sem fékk Þjóðskrá Íslands til að bera saman fasteignaverð í 31 bæ og þorpi víðs vegar um landið m.v. 161,1 m2 einbýlishús.  Sams konar samanburður hefur átt sér stað undanfarin ár.

Eignin er ódýrust á Bolungarvík, en hefur undanfarin ár verið ódýrust ýmist á Patreksfirði eða á Vopnafirði.  Nú bregður hins vegar svo við, að fasteignamatið hækkaði hlutfallslega mest 2016-2017 á þessum tveimur stöðum.  Er engum blöðum um það að fletta, að meginskýringin eru miklar fjárfestingar í fiskeldi á Suðurfjörðum Vestfjarða undanfarin misseri og miklar fjárfestingar HB Granda á Vopnafirði í atvinnutækjum og kaup á þorskkvóta fyrir skip, sem þaðan eru gerð út.  

Viðmiðunarhúsið á Bolungarvík kostar aðeins MISK 14,4, en miðgildi fasteignaverðsins á samanburðarstöðunum er MISK 26.  Nær það varla kostnaði við slíkt fullfrágengið hús.  Að byggja hús á Bolungarvík er greinilega mjög áhættusamt, því að þurfi húsbyggjandi að selja, fær hann aðeins um helming upp í kostnaðinn.  Þetta er vítahringur fyrir staði í þessari stöðu.  Á Höfn í Hornafirði er sveitarfélagið núna að reyna að rjúfa þennan vítahring með því að stuðla að nýbyggingum íbúðarhúsnæðis fyrir fólk, sem vantar í vinnu þar. Þar sem vinnu vantar, er eina ráðið til að rjúfa þann vítahring að efla framboð fjölbreytilegra starfa.

Nú vill svo til fyrir íbúa við Ísafjarðardjúp, að slík efling athafnalífs er innan seilingar.  Fyrir hendi eru fyrirtæki, sem sækjast eftir að hefja laxeldi í Ísafjarðardjúpi.  Allt bendir til, að umskipti til hins betra hafi átt sér stað við hönnun og rekstur laxeldissjókvía, svo að stroktíðni sé innan marka, sem talizt geta skaðleg fyrir "hreint" kyn villtra laxa í laxám, sem ósa eiga út í Ísafjarðardjúp, hvað þá annars staðar. 

Það er þess vegna fullt tilefni fyrir Hafrannsóknarstofnun að endurskoða fljótlega áhættumat sitt, enda verður árlegt hámarkstjón í Ísafjarðardjúpi innan við 5 % af næsta öruggri árlegri verðmætasköpun 30 kt laxeldis þar.  Raunveruleg áhættugreining vegur saman líkindi tjóns og ávinnings, og niðurstaðan verður þá ótvírætt almannahagsmunum í vil.  

Burðarþolsmat Vestfjarða fyrir laxeldi hljóðar upp á 50 kt.  Það er varfærnislegt og mun sennilega hækka í tímans rás.  Þar við bætist möguleikinn á laxeldi í landkerum.  Í heild gæti laxeldi á Vestfjörðum numið 80 kt árið 2040.  Orkuþörf þess má áætla 160 GWh/ár og aflþörfina 30 MW.

Ef svo vindur fram sem horfir um atvinnuþróun, mun íbúum á Vestfjörðum fjölga um 5 k (k=þúsund) 2017-2040.  Vegna almennrar rafhitunar munu þeir þurfa tiltölulega mikla orku, sem gæti numið 125 GWh/ár og 20 MW.

Rafbílavæðing er framundan á Vestfjörðum, eins og annars staðar á landinu, og gæti þurft 64 GWh/ár og 16 MW að 23 árum liðnum.

Hafnirnar verður að rafvæða með háspenntri dreifingu og gætu stór og smá skip þurft 35 GWh/ár og 8 MW árið 2040 á Vestfjörðum.

Ef spurn verður eftir repjumjöli í fóður fyrir laxinn, gæti vinnsla þess og repjuolíu á skipin þurft 12 GWh/ár og 8 MW.  

Alls eru þetta tæplega 400 GWh/ár og 80 MW.  Það er alveg útilokað fyrir íbúa og atvinnurekstur á Vestfjörðum að reiða sig á tengingu við landskerfið um Vesturlínu fyrir þessa aukningu.  Í fyrsta lagi er þessi orka ekki fyrir hendi í landskerfinu, og eftirspurnin er og verður sennilega umfram framboð á landinu í heild.  Í öðru lagi er afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum algerlega óboðlegt um þessar mundir, og á tímum orkuskipta er óásættanlegt að reiða sig á rafmagn frá dísilknúnum rafölum.  

Þá er enginn annar raunhæfur kostur en að virkja vatnsafl á Vestfjörðum, og samkvæmt gildandi Rammaáætlun, sem er miðlunarleið ríkisins við val á milli nýtingar orkulinda og verndunar, eru Hvalárvirkjun og Austurgilsvirkjun í nýtingarflokki á Vestfjörðum.  Líklega er nú verið að vinna að lögformlegu umhverfismati fyrir þá fyrrnefndu að stærð 340 GWh/ár og 55 MW.  Hún mun ein ekki duga fyrir aukninguna næstu 2 áratugina á Vestfjörðum.  Bændavirkjunum mun fjölga, en meira verður að koma til, svo að Vestfirðir verði raforkulega sjálfbærir, og orkulindirnar eru þar fyrir hendi. 

Hægt er að núvirða framlegð Hvalárvirkjunar fyrstu 20 ár starfseminnar, og fæst þá andvirði vatnsréttindanna í ánum, sem leggja virkjuninni til orku.  Andvirðið er þannig reiknað miaISK 14,4.  Hæstiréttur hefur dæmt, að sveitarfélögum sé heimilt að leggja fasteignagjald á andvirði vatnsréttinda.  Sé notað álagningarhlutfallið 0,5 %, fæst árleg upphæð í sveitarsjóð af vatnsréttindum Hvalárvirkjunar 72 MISK/ár.  Soltinn sveitarsjóð munar um minna.

Tómas Guðbjartsson, skurðlæknir, heldur áfram að skrifa greinar í Fréttablaðið með áróðri um það, að "náttúran skuli njóta vafans" og homo sapiens af kvíslinni Vestfirðingar, búsettir á Vestfjörðum, geti étið, það sem úti frýs, hans vegna.  Svo hvimleiður sem þessi málflutningur hans kann að þykja, á hann fullan rétt á að hafa þessa skoðun og tjá hana, þar sem honum sýnist.  Rökin eru samt varla tæk fyrir nokkurt eldhúsborð á Íslandi.  Þann 8. september 2017 birtist eftir téðan lækni grein í Fréttablaðinu:

"Umræða um Hvalárvirkjun á villigötum":

"Ástæðan [fyrir kynningarátaki Tómasar og Ólafs Más Björnssonar, augnlæknis, á landslagi í Árneshreppi] er sú, að okkur hefur fundizt skorta mjög á upplýsingagjöf um framkvæmdina og við teljum, að náttúran á þessu stórkostlega svæði hafi ekki fengið að njóta vafans.  Við erum ekki aðeins að beina spjótum okkar að framkvæmdaaðilum virkjunarinnar, HS Orku og Vesturverki, heldur ekki síður að þeim, sem veitt hafa virkjuninni brautargengi í Rammaáætlun og sveitarstjórn Árneshrepps.

Einnig truflar okkur, að eigandi Eyvindarfjarðarár sé ítalskur huldubarón, sem selt hefur vatnsréttindi sín til kanadísks milljarðamærings, Ross Beaty, sem er eigandi 68 % hlutar í HS Orku - fyrirtæki, sem síðan á 70 % í Vesturverki, framkvæmdaaðila virkjunarinnar.  Því er vandséð, að íslenzkir eða vestfirzkir hagsmunir séu í forgangi."

Hér er hreinn tittlingaskítur á ferðinni, nöldur af lágkúrulegum toga, sem engan veginn verðskuldar flokkun sem rökstudd, málefnaleg gagnrýni.  Síðasta málsgrein læknisins sýnir, að hann er algerlega blindur á hina hlið málsins, sem eru hagsmunir fólksins, sem á Vestfjörðum býr og mun búa þar.  Þetta "sjúkdómseinkenni" hefur verið kallað að hafa rörsýn á málefni.  Það var sýnt fram á það í fyrrihluta þessarar vefgreinar, að nýtt framfaraskeið á Vestfjörðum stendur og fellur með virkjun, sem annað getur þörfum vaxandi fiskeldis, vaxandi íbúafjölda og orkuskiptum á Vestfjörðum.  Að leyfa sér að halda því fram, að slík virkjun þjóni hvorki hagsmunum Vestfirðinga né þjóðarinnar allrar, ber vitni um þjóðfélagslega blindu og tengslaleysi við raunveruleikann, en e.t.v. er einnig um að ræða hroka beturvitans.  

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Takk fyrir þessa grein,þeir fara ekki  fram á mikið Vestfirðingar og virðist sem nei-ið hennar Þorgerðar Katrínar þýði ræðum það ekki meir. En kannski förum við að sjá framsýna ríkisstjórn eftir þetta vitleysiskast vinstrisins eða hvað kallar maður bútana alla sem sameinast um að koma Íslandi á kaldan klaka.Mb.Kv. 

Helga Kristjánsdóttir, 16.9.2017 kl. 15:44

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Ráðherranum, sem þú nefnir, Helga, er fyrirmunað að taka á nokkru máli sjávarútvegs og landbúnaðar af skynsemi og heilindum.  Hún gengur með böggum hildar til hvers verks, og ber þar furðuhugmyndir um uppboð réttinda hátt og aðlögun að sjávarútvegs- og landbúnaðarstefnu ESB.  Ef hún fengi að ráða, yrði landbúnaðurinn íslenzki rústaður með taumlausum innflutningi matvara frá ESB, sem engan veginn standast þó samanburð við heilnæmar og sýklalyfjafría framleiðslu innlends landbúnaðar.  Flokkurinn hennar er Trójuhestur ESB inn í íslenzk stjórnmál.

Bjarni Jónsson, 17.9.2017 kl. 11:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband