Vönduð vinnubrögð eða hitt þó

Stjórnmálafyrirbrigðið Björt framtíð, BF, hefur tönnlazt á slagorði sínu, "Vönduð vinnubrögð", í tíma og ótíma og eiginlega ekki haft neitt annað fram að færa í íslenzk stjórnmál.  

Nú hefur BF opinberað fyrir þjóðinni, að fólkið þar innanborðs hefur ekki einu sinni hugmynd um, hvað vönduð vinnubrögð eru í raun, hvað þá að það stundi þau.  Ráðsmennska ráðherra flokksins var mörkuð ákvarðanafælni annars þeirra og upphlaupum og fljótfærnislegum yfirlýsingum hins, svo að ekki sé nú minnzt á furðufatasýningu hennar í ræðusal Alþingis í auglýsingaskyni fyrir vinkonu sína.  Siðlaust athæfi samkvæmt reglum þingsins. Furðufyrirbrigði smáflokkanna eru reyndar "legíó" (fleiri en tölu verði á komið).

Allt sýndi þetta, að hvorugt þeirra bar nokkurt skynbragð á vönduð vinnubrögð.  Þetta er einkenni margra stjórnmálaflokka, ekki sízt af nýrra taginu, að fólk þar slær um sig með gjörsamlega innihaldslausum frösum og slagorðum.  Þegar til kastanna kemur, verður strax ljóst, að fólkið, sem gaf sig út fyrir að ætla að moka flórinn og sýna gott fordæmi, hefur nákvæmlega ekki nokkurn skapaðan hlut til brunns að bera í leiðsagnarskyni fyrir annað fólk, hvað þá til að veita forystu í neinu, sem máli skiptir, svo að ekki sé nú talað um að halda á fjósrekunni sjálft.  Upphlaup, lýðskrum og loddaraháttur er allt og sumt, sem "andlegir burðir" þeirra hafa upp á að bjóða. Allt er það einskis nýtt.

Ætli ríkisstjórnarslit hafi nokkru sinni orðið með óvandaðri hætti en fimmtudagskvöldið 14. september 2017 ?  Fundur virðist hafa verið boðaður í stjórn BF í skyndingu að kvöldi fimmtudagsins, og þar höfðu augljóslega verið lögð á ráðin um að rjúfa náin pólitísk tengsl á milli formannanna, Óttars Proppé og Benedikts Jóhannessonar.  Undir miðnætti var svo samþykkt að viðhafri netkönnun á meðal flokksmanna að slíta stjórnarsamstarfi án nokkurs pólitísks rökstuðnings eða tilraunar til að leita upplýsinga beint frá forsætisráðherra áður en viðurhlutamikil ákvörðun fyrir þjóðina alla er tekin um að slíta stjórnarsamstarfi.  Þvílíkt sandkassalið ! Þvert á móti er þjóðinni sýndur þumallinn niður, hagsmunir hennar einskis metnir, en ákvörðun tekin í tilfinningavímu að næturlagi.  Þessi framkoma gagnvart samstarfsflokkunum og sér í lagi gagnvart forsætisráðherra landsins er í senn fordæmalaus og forkastanleg.  Þessari flokksnefnu verður vonandi útrýmt sem illgresi í Alþingisgarðinum í komandi Alþingiskosningum.    

Staðreyndir ásteytingarsteinsins eru þær, að forsætisráðherra kom hvergi nálægt málsmeðferð dómsmálaráðuneytisins á þessum viðbjóðslegu málum um uppreista æru, sem auðvitað getur aldrei orðið uppreist í raun eftir viðurstyggilegan glæp.  Það hefur ekki nokkra minnstu pólitíska þýðingu í þessu samhengi, hvað faðir forsætisráðherrans skrifaði undir.  Það viðbjóðsmál hlaut nákvæmlega sömu málsmeðferð og önnur mál af sama toga hjá dómsmálaráðuneytinu.  

Það er ekki annað en sjúkleg samsæriskenning, að gerð hafi verið tilraun til sérmeðhöndlunar á viðbjóðsmálinu, þar sem faðir forsætisráðherra ritaði undir meðmælabréf sem atvinnurekandi.  Forsætisráðherra hefur lýst því yfir, að sjálfur mundi hann aldrei semja og/eða undirrita slíkt bréf. Þannig er flestum farið.  Að reynt hafi verið með nokkrum hætti að hylma yfir þetta mál, á sér enga stoð í raunveruleikanum, en gaggandi hænsni geta þó komizt að þeirri niðurstöðu í skjóli myrkurs og upplýsingaleysis.  

Dómsmálaráðherra veitti forsætisráðherra upplýsingar um téð bréf föður forsætisráðherra strax og hún var upplýst um málið í júlí 2017 í dómsmálaráðuneytinu.  Upplýsingar um uppreista æru hafa alla tíð verið meðhöndlaðar sem trúnaðarupplýsingar í dómsmálaráðuneytinu, og þess vegna fékk forsætisráðherra þessar fregnir sem trúnaðarupplýsingar frá dómsmálaráðherra.  Dómsmálaráðherra og forsætisráðherra landsins verða að geta skipzt á trúnaðarupplýsingum og geta treyst því, að sá trúnaður haldi.  Annars væri landið óstjórnhæft.  Forsætisráðherra var bundinn þessum trúnaði, þar til "Úrskurðarnefnd um upplýsingamál" úrskurðaði á þann veg, að um þau skyldi almennt ekki ríkja leynd, en þó skyldi gæta laga og reglna um persónuvernd.   Leyndarhyggjan var ekki ráðherrans, heldur lagatúlkun og löng hefð innan dómsmálaráðuneytisins. 

Forsætisráðherra greip fyrsta tækifæri, sem honum gafst eftir téðan úrskurð, mánudaginn 11. september 2017, til að upplýsa hina flokksformennina í ríkisstjórninni um þetta mál, en þeir virðast ekki hafa gefið því nokkurn gaum né hirt um að upplýsa samflokksmenn sína um það. Stafar fýlan í flokkum þeirra e.t.v. af þessari bitru staðreynd ?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Já þvílikt sandkassalið vonandi tekst Íslendingum að hrekja þau úr áhrifastöðum í komandi kosningum.Gott að lesa gegnheilar færslur þínar..

Helga Kristjánsdóttir, 19.9.2017 kl. 13:03

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæl, Helga;

Það er nauðsynlegt að tala og skrifa tæpitungulaust, þegar annar eins dauðans þvættingur og ómerkilegheit eru borin á borð, eins og í þessu stjórnarslitamáli.  Þetta mál er forsmekkurinn að vitleysunni og ringulreiðinni, sem okkar bíður allra, ef smáflokkager sezt í ráðherrastólana eftir komandi kosningar 28. október 2017.

Bjarni Jónsson, 19.9.2017 kl. 13:52

3 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Einmitt,þeir skulu ekki hafa það á tilfinnigunni að við þorum ekki að neyta aflsmunar í ræðu og riti,þegar fósturjörðin er í veði.

Helga Kristjánsdóttir, 19.9.2017 kl. 21:13

4 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Aýnist á skoðanakönnunum að þeir hafi skotið baðar lappir undan sér í einu skoti. Það má líta jákvæðum augum á það. :)

Jón Steinar Ragnarsson, 20.9.2017 kl. 02:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband