Mikilvæg fundarsókn á Ísafirði

Sunnudaginn 24. september 2017 var haldinn fjölsóttur fundur á Ísafirði um lífshagsmuni Vestfirðinga.  Athygli vakti, að 4 ráðherrar sóttu fundinn.  Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra var þar, en hún hefur reynzt hagsmunum Vestfirðinga hinn versti dragbítur, kallað stöðu fiskeldismála á Vestfjörðum ítrekað "villta vestrið" og reynt að troða upp á þá steinbarni sínu, sem er uppboð á starfsleyfum laxeldis, þótt í samráðsnefnd ráðuneytisins með hagsmunaaðilum hafi verið sætzt á árlega greiðslu auðlindargjalds 6 árum frá fyrstu slátrun. Það er ofsköttun dauðans á eina atvinnugrein að beita báðum aðferðunum við að hafa fé af henni.   

Þá mætti eðlilega á fundinn þingmaður kjósenda í Norð-Vestur kjördæmi, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamaála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.  Vestfirðir eru að miklu leyti óplægður akur fyrir ferðaþjónustu, þótt þeir hafi upp á fjölmargt að bjóða í þeim efnum, bæði öðrum landsmönnum og útlendingum.  Þá stendur fyrir dyrum að umbylta raforkumálum Vestfirðinga, reisa hryggjarstykkið í framtíðar orkuöflun landshlutans, Hvalárvirkjun, sem tengja á aðveitustöð á Nauteyri í Ísafjarðardjúpi, en hún verður miðpunkturinn í hringtengingu Vestfjarða með 132 kV og 66 kV loftlínum, sæstrengjum og jarðstrengjum norðvestur til Ísafjarðarkaupstaðar og suðvestur til Mjólkárvirkjunar.  Þessar framkvæmdir ásamt styrkingu flutningskerfis og dreifikerfis Vestfjarða, Mjólkárveitu, munu færa raforkumál Vestfirðinga inn í nútímann, og er löngu kominn tími til. 

Þetta er í raun skilyrði fyrir uppbyggingu öflugs atvinnulífs og lífsnauðsynlegri fjölgun íbúa á Vestfjörðum.  Þó að virkjunaraðilinn sé ekki ríkisfyrirtæki, sem betur fer, og Landsnet ekki heldur, nema óbeint að hluta sem dótturfyrirtæki Landsvirkjunar o.fl., þá er stuðningur "Iðnaðarráðuneytisins" þó afar mikilvægur fyrir framgang þessa þjóðþrifamáls, þrífösunar sveitanna og orkuskiptanna.

Sjálfstæðisflokkurinn stendur nú frammi fyrir gullnu tækifæri í Norðurlandskjördæmi vestra að sameina öll borgaraleg öfl í kjördæminu vegna sundrungarinnar í Framsóknarflokkinum.  Sjálfstæðisflokkurinn er með háspil á hendi sem eini bakhjarl "litla atvinnurekandans", framkvæmdamannsins og frumkvöðulsins, hvort sem hann stundar landbúnað, sækir sjóinn, þjónustar ferðamenn eða stundar verktakastarfsemi fyrir Vegagerðina, Orkubúið eða Arnarlax, svo að eitthvað sé nefnt.  Sjálfstæðisflokkurinn styður framfarasókn Vestfirðinga í atvinnumálum, orkumálum og samgöngumálum afdráttarlaust.  

 Á téðan fund voru einnig mættir tveir aðrir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins, báðir úr Kraganum.  Annar var samgöngu- og sveitarstjórnaráðherrann, Jón Gunnarsson,  og fór vel á því, af því að samgöngumál Vestfjarða hafa dregizt langt aftur úr öðrum héruðum og eru óviðunandi.  Heiðarvegirnir vestan Þorskafjarðar eru stórhættulegir, og malarslóðarnir þola ekki þungaumferð, sem fer þó vaxandi.  Það ríður á fyrir íbúana á Vestfjörðum og athafnalífið þar að fá almennilegan upphleyptan og klæddan veg á láglendi frá Þorskafirði til Patreksfjarðar og sömuleiðis varanlega tengingu frá Patreksfirði og alla leið norður í Ísafjarðardjúp. Áfangi í hinu síðar nefnda er þegar hafinn með Dýrafjarðargöngum.  Þau verða líka notuð fyrir jarðstrengi í stað loftlínu yfir illviðrasama heiði fyrir 60 kV tengingu til Önundarfjarðar. Dýrafjarðargöng munu bæta samgöngur og raforkukerfi Vestfjarða og verða atvinnulífi og mannlífi öllu lyftistöng. Samgönguráðherra hefur stutt þessa framkvæmd með ráðum og dáð.  

Síðastan en ekki síztan skal nefna forsætisráðherrann, Bjarna Benediktsson, sem 4. ráðherrann á téðum fundi.  Mæting hans á fundinn geta Vestfirðingar túlkað sem siðferðilegan og stjórnmálalegan stuðning Sjálfstæðisflokksins við þann réttmæta baráttuhug, sem nú hefur orðið til á meðal Vestfirðinga fyrir framgangi lífshagsmunamála þeirra, sem helzt hafa verið í sviðsljósinu að undanförnu á sviði orkumála, samgöngumála og atvinnumála.  Af öllum sólarmerkjum að dæma, málflutningi og sterkri viðveru ráðherra flokksins, mun Sjálfstæðisflokkurinn á komandi kjörtímabili beita öllu afli sínu, hvort sem hann verður í stjórn eða stjórnarandstöðu, til að jafna aðstöðu Vestfirðinga á við aðra landsmenn á öllum þessum sviðum.

Vestfirðingar skyldu nú í aðdraganda kosninganna 28. október 2017 gjalda alveg sérstaklega varhug við smjaðri þingmanna á borð við Lilju Rafneyju Magnúsdóttur.  Hún ber kápuna á báðum öxlum og er vís til að svíkja málstað Vestfirðinga á þingi, þegar kemur að atvinnumálum og orkumálum.  Hér skal tilfæra, hvers vegna:

  1. Eitt aðalslagorða Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs er "látum náttúruna njóta vafans".  Þetta sama skín í gegn um skýrslu Hafrannsóknarstofnunar sumarið 2017, þar sem lagt var til að veita ekki starfsleyfi til laxeldis í Ísafjarðardjúpi og í Jökulfjörðum að svo stöddu.  Ef málið kemur til kasta Alþingis, er þetta alveg nóg, til að vinstri grænir muni greiða atkvæði gegn starfsleyfisveitingu fyrir laxeldi í Ísafjarðardjúpi og í Jökulfjörðum.  
  2. Laxeldi á Vestfjörðum eflist nú fyrir tilstyrk beinna erlendra fjárfestinga, nánar tiltekið stórra norskra laxeldisfyrirtækja.  Eignarhald útlendinga á íslenzkum fyrirtækjum hefur alla tíð verið eitur í beinum vinstri grænna og forvera þeirra í Alþýðubandalaginu.  Þetta er viðbótar ástæða fyrir vinstri græna til að greiða á Alþingi atkvæði gegn veitingu starfsleyfa fyrir laxeldi í Ísafjarðardjúpi.  
  3. Vinstri hreyfingin grænt framboð er afturhaldsflokkur í atvinnumálum, sem hengir sig í forneskjulega fordóma og furðulegar kennisetningar, sem oftar en ekki stríða algerlega gegn hagsmunum almennings.  Þess vegna er þingmönnum flokksins engan veginn treystandi.
  4. Það er mikill andróður núna rekinn í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum gegn hagsmunum Vestfirðinga á raforkusviðinu.  Læknirinn, Tómas Guðbjartsson, hefur þar farið mikinn gegn Hvalárvirkjun, sem þó er nauðsynleg, til að Vestfirðingar verði sjálfum sér nógir með rafmagn, en öðru vísi verður afhendingaröryggi raforku ekki tryggt á Vestfjörðum með góðu móti, því að Vesturlínan er vangæf, einkum á vetrum.  Tómas hefur haldið því fram, að Vestfirðingar hafi ekkert með virkjun af þessari stærð að gera.  Það er kolrangt. Ef laxeldið fær að dafna á Vestfjörðum, eins og náttúrulegar og markaðslegar forsendur leyfa, gæti mannfjöldaaukning þar árið 2040 numið 5 k (k=þúsund).  Þessi viðbótar mannfjöldi þarf 20 MW afl; viðbótar aflþörf fiskeldis o.fl. verður þá 30 MW, repjuvinnsla fyrir fiskeldið gæti þurft 6 MW og orkuskipti við hafnir og í landumferð þarf 24 MW árið 2040.  Alls er þetta 80 MW aflþörf til viðbótar við núverandi 42 MW aflþörf, og á Vestfjörðum er aðeins 19 MW uppsett afl í sjálfbærum virkjunum. Það er þess vegna ekki vanþörf á 50 MW Hvalárvirkjun fyrir Vestfirði. Það er líklegt, að afturhaldsflokkurinn Vinstri hreyfingin grænt framboð, með litlu borgarstúlkuna með eldspýturnar í broddi fylkingar, leggist gegn Hvalárvirkjun með vísun til sams konar mannvistarfjandsamlegu klisju og Tómas Guðbjartsson um, "að náttúran verði að njóta vafans", en fólkið geti setið í myrkri og kulda, þegar verst gegnir, eða brennt olíu í 16 MW neyðarrafstöðvum á Vestfjörðum.  
  5. Um sorgarsögu undirbúnings vegagerðar vestan Þorskafjarðar skal ekki fjölyrða hér, en minna á, að það eru einmitt umhverfisverndarleg rök (verndun birkikvæmis), sem teflt er fram nú og tafið hefur Vegagerðina.  Af þessu sést, að Vestfirðingar væru að kaupa köttinn í sekknum, ef þeir kjósa vinstri græna, og vinstri grænir eiga ekkert traust skilið á Vestfjörðum. Lífshættir og athafnalíf á Vestfjörðum falla engan veginn að VG-101. Svipuðu máli gegnir um pírata í Norðurlandskjördæmi vestra.  Píratar eru pólitísk viðrini, ákvarðanafælnir með afbrigðum, enda að mestu samsafn firrtra borgarbarna með frítt niðurhal og nýja stjórnarskrá efst á stefnuskránni, sem enga samleið eiga með landsbyggðinni. Þeir hafa engan áhuga á atvinnumálum, en þeim mun meiri á borgaralaunum fyrir það eitt að vera til. Atkvæði greitt þeim, er atkvæði á glæ kastað.   

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband