Tveir turnar ?

Sú einkennilega þróun virðist um þessar mundir eiga sér stað á meðal íslenzkra kjósenda að fylkja sér aðallega um 2 stjórnmálaflokka, þegar þeir eru spurðir um afstöðu sína til stjórnmálaflokkanna nú í aðdraganda Alþingiskosninga 28. október 2017.  Þetta er athyglisvert, af því að íslenzka kjördæma- og kosningafyrirkomulagið býður ekki sérstaklega upp á slíkt, eins og t.d. einmenningskjördæmin á Bretlandi gera.  

Systurflokkur íslenzka Sjálfstæðisflokksins á Bretlandi er Íhaldsflokkurinn, þótt þessir 2 stjórnmálaflokkar séu upp runnir úr ólíkum jarðvegi.  Gagnvart Evrópusambandinu, ESB, var tiltölulega meiri stuðningur við veru Bretlands í ESB í röðum Íhaldsmanna, þegar Bretland gekk í ESB undir leiðsögn Edwards Heath, forsætisráðherra og leiðtoga Íhaldsflokksins, en nokkru sinni var við aðildarumsókn Íslands innan Sjálfstæðisflokksins.  Með tímanum fjaraði undan stuðningi Breta við ESB, þegar ESB breyttist úr viðskiptabandalagi í eins konar stórríki, og Íhaldsflokkurinn varð að meirihluta andsnúinn aðild Bretlands að ESB.   

Theresa May, sem tók við af David Cameron eftir BREXIT-þjóðaratkvæðagreiðsluna í júní 2016, var þó enn fylgjandi veru Bretlands í ESB, þegar BREXIT-þjóðaratkvæðagreiðslan fór fram.  Stefna hennar núna er óljós, en helzt virðist hún hallast að "harðri" útgöngu, enda eru skilmálar ESB gagnvart Bretum óaðgengilegir, sbr gríðarlegar fjárkröfur ESB á hendur Bretum vegna útgöngunnar, sem ESB krefst samkomulags um áður en setzt verður niður við að ræða önnur mál, t.d. viðskiptatengslin.  Væri skynsamlegt af utanríkisráðuneytinu íslenzka að leita hófanna við Breta um fríverzlunarsamning á milli landanna, svo að ekki komi upp óvissutími í viðskiptum landanna í marz 2019, þegar Bretar ganga úr ESB.

Verkamannaflokkurinn brezki gæti komizt til valda eftir næstu þingkosningar, eins og málin horfa núna, því að Theresa May virðist vera jafnvel misheppnaðri leiðtogi en Jeremy Corbyn.  Corbyn hefur lofað mörgum miklu úr veikum ríkissjóði Bretlands, m.a. að greiða skólagjöldin fyrir stúdentana, og hann hefur með loforðaflaumi öðlast stuðning meirihluta ungs fólks undir þrítugu á Bretlandi.  Ef Corbyn kemst til valda á Bretlandi, mun sterlingspundið líklega falla enn meira, verðbólga mun vaxa og Englandsbanki mun hækka vexti ofan í skattahækkanir, sem geta keyrt brezka hagkerfið í stöðnun og atvinnuleysi. Það er nefnilega enginn frír hádegisverður í boði, þegar allt kemur til alls.  Staðan á Íslandi verður keimlík, ef/þegar Vinstri hreyfingin grænt framboð kemst til valda út á kosningaloforð, sem ekki er unnt að efna án stórtjóns fyrir hagkerfið.  Þar á bæ skortir sárlega þekkingu og skilning á efnahagslífinu og lögmálum þess, en þar eru gasprarar, loddarar og lýðskrumarar í hverju rúmi.  Við höfum bara enga þörf fyrir slíkt fólk til að stjórna málefnum ríkisins fyrir okkar hönd.

Verkamannaflokkurinn hefur söðlað um í afstöðunni til ESB og er nú fylgjandi "mjúkri" útgöngu. Undir forystu Jeremys Corbyn hefur flokkurinn færzt mjög til vinstri, svo að segja má, að á íslenzkan mælikvarða standi Vinstri hreyfingin grænt framboð-VG nær Verkamannflokkinum brezka en Samfylkingin, sem Össur Skarphéðinsson þó taldi á velmektardögum sínum vera bræðraflokk Verkamannaflokksins. 

Þó hefur Corbyn lýst því yfir, að flokkurinn sé eindregið fylgjandi aðild Bretlands að NATO, en VG er andvígt aðild Íslands að NATO.  Það yrði saga til næsta bæjar, ef á Íslandi kæmist til valda í forsætisráðuneytinu eða í utanríkisráðuneytinu flokkur, sem vill, að Ísland verði dregið út úr varnarsamstarfi vestrænna ríkja. Viljum við leyfa melódrama innanlands um utanríkisstefnu Íslands ? 

Á vestrænan mælikvarða er VG mjög vinstri sinnaður og þar af leiðandi andmarkaðslega sinnaður stjórnmálaflokkur.  Þingmönnum VG er þjóðnýting atvinnuveganna hugleikin, t.d. hefur Kolbeinn Óttarsson Proppé lýst áformum flokksins með útgerðirnar í þessa veru, þótt í hinni opinberu og loðnu stefnuskrá flokksins sé erfitt að finna þjóðnýtingu stað. 

VG stendur yzt á vinstri væng stjórnmálanna allra flokka Evrópu með 20 % fylgi eða þar yfir (í skoðanakönnunum).  Ef litið er til stjórnmálaflokka Evrópu með 10 % fylgi og meir, er það aðeins arftaki SED-Sozialistische Einheitspartei Deutschlands, die Linke eða Vinstri sinnarnir í Þýzkalandi, sem jafnast á við vinstri mennsku vinstri grænna á Íslandi.  Die Linke eru ekki taldir stjórntækir í Sambandlýðveldinu, en hér sigla þeir undir fölsku flaggi græningja í skjóli orðagjálfurs um jöfnuð.  "Aukinn jöfnuður" var einmitt helzta slagorð Hugos Chavez í Venezúela um síðustu aldamót, þegar hann barðist þar til valda, og flokki hans og arftakans, Nicolas Maduro, hefur tekizt með eignaupptökum, hásköttun og útþenslu ríkisbáknsins undir kjörörðinu, "Aukinn jöfnuður", að leggja efnahag olíuríkisins Venezúela í rúst.

Nokkrar lummur úr stefnuskrá VG (sleppt er hér umfjöllun um þá stefnu VG að veita 500 hælisleitendum á ári alþjóðlega vernd hér og þá holskeflu hælisleitenda, sem slíkt hefði í för með sér): 

Vinstri grænir "berjast gegn alþjóðlegum fríverzlunarsamningum".  Þetta felur í sér forneskjulega einangrunarhyggju og þýðir t.d., að vinstri grænir eru á móti fríverzlunarsamningi Íslands og Kína, sem gerður var undir verkstjórn Össurar Skarphéðinssonar á dögum vinstri stjórnarinnar 2009-2013, sem Katrín Jakobsdóttir, núverandi formaður VG, og Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi formaður VG, sátu bæði í allan tímann.  Samþykktu þau ekki samninginn á Alþingi ?

VG ber kápuna á báðum öxlum í afstöðunni til ESB, eins og sannaðist á dögum téðrar vinstri stjórnar, og það er ekki ljóst, hvort ofangreind andstaða við fríverzlunarsamninga þýðir andstöðu við aðild Íslands að EES og þar með að Innri markaði ESB.  Þessi andstaða VG við fríverzlunarsamninga er dálítið "trumpísk", því að núverandi forseti BNA boðaði í kosningabaráttu sinni að draga BNA út úr fríverzlunarsamningi við Kyrrahafslöndin og Mexíkó/Kanada.  Fríverzlunarsamningur BNA og ESB komst aldrei á koppinn. Langflestir hagfræðingar hérlendis eru þeirrar hyggju, að fríverzlun sé Íslendingum til hagsbóta, þannig að þessi grautur VG er illilega viðbrunninn.  

 Vinstri grænir vilja "réttlátt skattkerfi".  Hver vill það ekki ?  Þeir, sem beita svona óljósu orðalagi í stefnuskrá, vilja ekki kannast við raunverulega fyrirætlun sína fyrir kjósendum.  Það má gjarna leita út fyrir landsteinana að því, hvað sósíalistum finnst "réttlát skattheimta".  Í Frakklandi reyndu 2 sósíalistískir forsetar 5. lýðveldisins að setja á 75 % tekjuskatt sem efsta þrep.  Báðir urðu að hörfa úr þessu vígi sínu eftir skamma hríð, því að samfélagstjón af þessari eignaupptöku sósíalista varð margfalt á við ávinning ríkissjóðs, sem fór þverrandi með tímanum.  Á Íslandi yrði tímabundinn tekjuauki ríkissjóðs aðeins um 5 miaISK/ár, sem nemur innan við 10 % af áformuðum útgjaldaauka VG.  

Hverjir mundu lenda í þessu skattþrepi vinstri grænna ? 

Ungt fólk, sem stritar myrkranna á milli til að fjármagna fyrstu íbúð sína og allt annað, sem ung fjölskylda þarf.

Hámenntaðir sérfræðingar með háa námsskuld á bakinu, oft tiltölulega nýkomnir heim úr námi og miðla af ómetanlegri þekkingu sinni, sem gefur góða ávöxtun,  og þeir spara þjóðfélaginu í mörgum tilvikum stórfé vegna kostnaðar af sérfræðiþekkingu, sem annars þyrfti að kaupa erlendis frá.

Sjómenn á góðum aflaskipum, sem eru eftirsóttir dugnaðarforkar af útgerðunum.

Ef VG stendur við að halda sig við 25 MISK/ár, nær flokkurinn aðeins í um 950 manns.  Hver trúir því, að þeir leggi upp í svo lélegan leiðangur, þegar til stykkisins kemur ?  Það verður leitað víðar. 

Þessi blauti skattheimtudraumur vinstri grænna er í senn óréttlátur og siðlaus, og hver hefur eiginlega þörf fyrir öfugsnúið réttlæti af þessu tagi ? 

Vinstri grænir eru opnir fyrir "uppboðum á aflaheimildum".  Í stefnuskrá þeirra er vísað til Færeyja í þessum efnum, en þar voru uppboðin misheppnuð og aflaheimildir lentu að miklu leyti hjá erlendum útgerðum gegnum leppa.  Hvernig á að koma í veg fyrir hrun einstakra byggða, þegar aflahlutdeild hverfur af skipum, sem leggja upp í byggðalaginu ?  Þetta daður vinstri grænna við stórkapítalið er stórmerkilegt.  Einokun á öllum sviðum virðist vera lífsmottó sósíalistanna.

Það er foráttuvitlaust af einum stjórnmálaflokki að setja í stefnuskrá sína, að "framlög til heilbrigðisþjónustu verði 11 % af VLF/ár".  Þarna kemur berlega fram lýðskrumstilhneiging vinstri grænna.  Hvers eiga allir hinir útgjaldaliðir ríkisins að gjalda, eða skattborgararnir, úr því að tengja á útgjöld til heilbrigðismála við þetta háa hlutfall af tiltölulega mikilli verðmætasköpun í landinu ? 

Það mun óhjákvæmilega koma að þessu háa hlutfalli á Íslandi vegna öldrunar þjóðarinnar, en við erum sem betur fer ekki komin á þennan stað enn, enda íslenzka þjóðin ein sú yngsta í Evrópu, þótt nú sigi hratt á ógæfuhliðina vegna mjög lítillar viðkomu (um 1,4 barn/konu, lægra hlutfall en í Svíþjóð !).

Hér hefur aðeins verið drepið á fáein atriði í stefnuskrá vinstri sinnaðasta stjórnmálaflokks Evrópu af sinni hlutfallslegu stærð.  Allt er það ófélegt og lítt dulbúnar hótanir í garð borgarastéttarinnar, dugandi einstaklinga og atvinnurekstrar, ekki sízt lítilla og meðalstórra fyrirtækja, sem þó veita flestum launþegum vinnu og eru í raun undirstaða borgaralegs samfélags.  Þess vegna er sósíalistunum alveg sérlega uppsigað við þau, og þeir munu beita ríkisvaldinu, læsi þeir klónum í það eftir kosningar, með harðsvíruðum hætti gegn litla atvinnurekandanum.  Landsmenn verða að gera sér grein fyrir, að kross á vitlausum stað á kjördag getur þýtt, að í 4 ár verði þeir tilraunadýr í þjóðfélagstilraunum marxista.  Það verður ógæfulegt, ef undirmálslið kemst til valda hér vegna andvaraleysis, eins og gerzt hefur í Reykjavík.  

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband