Ábyrgðarlaus útgjaldaloforð

Vindmylluriddara-gengið, VG, hefur sefjað sig upp í það, að ástand "auðvaldsþjóðfélagsins" sé með þeim hætti, að nú sé kominn tími til að ganga í skrokk á fyrirtækjum landsins, sparendum og fasteignaeigendum, og illa skilgreindum hópi "hátekjufólks", sem e.t.v. skipa þó 3 efstu tekjutíundirnar að mati VG, þ.e. þá, sem eru með meira en um 7 MISK/ár eða 0,58 MISK/mán í laun. Hvaða skattbyrði gæti þetta þýtt fyrir síðast nefnda hópinn ?  

Lausleg athugun bendir til, að verði hæstu 3 tekjutíundirnar látnar bera 3/4 af áformum vindmylluriddaragengisins um útgjaldahækkanir umfram fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, þ.e. 3/4*67=50 miaISK/ár, þá mun tekjuskattheimtan af þessu fólki hækka um fjórðung.  T.d. í efstu tekjutíundinni, þar sem meðallaun árið 2016 voru MISK 18,4, var meðalskattheimtan 2016 rúmlega 40 %, en mun losa 50 % eftir líklegar skattahækkanir vindmylluriddaragengisins.  Að sjálfsögðu þarf þá jaðarskattheimtan að hækka úr 46 % og hátt yfir 50 % með öllum þeim stórskaðlegu þjóðfélagsáhrifum, sem slík eignaupptaka hefur í för með sér. 

Þetta er gjörsamlega fáheyrð skattahækkun og óréttlát með afbrigðum, því að í efstu 3 tekjutíundunum er fólkið, sem fórnað hefur mörgum árum ævi sinnar í launalausan undirbúning ævistarfs, sem hefur hingað til verið á mörkunum, að skilaði þessu fólki, sem stundum er nefnt menntafólk, meðalævitekjum á hverjum tíma í landinu. 

Katrín Jakobsdóttir, sem ekkert tækifæri lætur annars ónotað til að smjaðra fyrir menntun, ætlar með öðrum orðum að girða fyrir það, að menntafólk njóti þeirrar lágmarkssanngirni að hálfu ríkisvaldsins að eiga möguleika á að njóta sambærilegra ráðstöfunartekna yfir ævina og meðaltekjumaður í samfélaginu.  Þetta er fáheyrð frekja og yfirgangur að hálfu stjórnmálamanna, sem eru viti sínu fjær í ímynduðu þjóðfélagi íslenzkra sósíalista.

Þjóðfélagið, sem sossarnir hafa sefjað sig upp í að ímynda sér, að þeir lifi í, til að réttlæta dauðahald sitt í sósíalismann, er ekki til, og þess vegna eiga úrræði þeirra engan veginn við í raunveruleikanum, heldur eru beinlínis hættuleg fyrir velferð þjóðarinnar.  Katrínu Jakobsdóttur má líkja við hálfblindan og heyrnarlausan skipstjóra, sem stýrir eftir kolröngu sjókorti.  Slík sjóferð mun enda voveiflega.   

Sannleikurinn er sá, að horfurnar eru miklu svartari en þetta fyrir skattgreiðendur.  Loforðaglamur skyni skroppinna stjórnmálamanna, sem skeyta engu um staðreyndir, en lifa í tilbúinni veröld, kostar í framkvæmd nálægt 200 miaISK/ár, en ekki 67 miaISK/ár, eins og VG lagði til við gerð fjármálaáætlunar vorið 2017 á Alþingi.  Hvað hefur Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA, um þetta að segja ?  Hún skrifaði "Endahnútinn" í Viðskiptablaðið, 5. október 2017, og verður nú vitnað í hana:

"Háværar kröfur eru hjá flestum flokkum, að auka þurfi ríkisútgjöld og draga úr þeim mikla ójöfnuði, sem hér ríkir.  Það sé því nauðsynlegt að skattleggja fyrirtækin og þá ríkari í samfélaginu.  Það virðist minna til vinsælda fallið að benda á tölulegar staðreyndir.  Hér er tekjujöfnuður einn sá mesti á meðal þróaðra ríkja.  Þá er skattheimta og útgjöld hins opinbera í hlutfalli við landsframleiðslu nær hvergi hærri en hér á landi.  Fyrir síðustu kosningar gengu flest loforð út á að hækka það hlutfall"

Við þær aðstæður, sem Ásdís Kristjánsdóttir lýsir hér, er óðs manns æði að auka skattheimtuna enn meir á Íslandi, og það er alveg öruggt mál, að verði opinberi geirinn stækkaður umfram þau 45 %, sem hann er í núna, mun það fljótlega grafa undan samkeppnishæfni landsins um fólk, þjónustu og vörur, og geta valdið harðri lendingu hagkerfisins með miklu atvinnuleysi, sem samdrætti hagkerfisins fylgir. Það er ekkert borð fyrir báru núna hjá litlum fyrirtækjum, einkum í útflutningsgeirum atvinnulífsins.  Til að létta atvinnurekstrinum róðurinn er nauðsynlegt að létta opinberum álögum af fyrirtækjunum til að stuðla áfram að starfsemi þeirra og atvinnusköpun, en ekki að þyngja álögurnar, eins og veruleikafirrtir vindmylluriddarar boða nú.   

Tugmilljarða ISK/ár skattahækkanir í kjölfar kosninga væru algert óráð og raunar skemmdarverk á hagkerfinu, sem greiða ekki fyrir kjarasamningum, en munu leiða  til snöggrar minnkunar á atvinnuframboði og eftirspurn í hagkerfi, þar sem hagvöxtur fer nú þegar minnkandi.  Það verður hins vegar engu tauti við sossana komið.  Þeir lifa í gerviveröld sjálfsblekkingar og hafa algerar ranghugmyndir um íslenzka samfélagið, sem styðjast ekki við neinar tölfræðilegar staðreyndir, hvorki um nettó tekjudreifingu né eignadreifingu. Sossarnir eru eins og illa lesnir nemendur í skóla, sem reyna að bjarga sér á hundavaði með fullyrðingum, sem eru algerlega úr lausu lofti gripnar.  Þetta fólk hefur aldrei getað né viljað temja sér vönduð vinnubrögð. 

 Sossarnir eru í krossferð gegn "kapítalinu" sökum eigin sálarháska vegna gjaldþrots sósíalismans hvarvetna í heiminum og munu skola barninu út með baðvatninu, nái þeir tökum á balanum hér á landi í kjölfar kosninganna 28.10.2017.  

Ný kynslóð í landinu hefur látið glepjazt af fagurgala um allt fyrir alla ókeypis og virðist vilja fara út í þá þjóðfélagstilraun, sem óhjákvæmilega fylgir valdatöku sossanna, og brotlending efnahagslífsins með kjarahruni almennings verður óhjákvæmileg afleiðing svo gáleysislegrar og óþarfrar tilraunar.  Í kjölfarið verður þó sá draugagangur vonandi kveðinn niður hér um langa hríð, en dýrkeypt verður það, eins og oft vill verða, þegar kveða þarf niður óværu.

Aftur að "Endahnúti" Ásdísar Kristjánsdóttur:   

"Tölur sýna, að sé leiðrétt fyrir aldurssamsetningu þjóða, eru útgjöld til heilbrigðismála einna hæst hér á landi.  Aldurssamsetningin mun hins vegar breytast og útgjöldin með, en slík framkvæmd nú [hækkun opinberra útgjalda hérlendis til heilbrigðismála upp í 11 % af VLF] auk afnáms greiðsluþátttöku myndi kosta ríkissjóð hátt í 100 milljarða kr á ári." [Undirstrikun BJo.]

Þessi ósköp eru einmitt á stefnuskrá Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, en hún hefur þó aðeins lagt til hækkun á árlegum útgjöldum ríkissjóðs um miaISK 67 að meðaltali (miaISK 53 til 75) á næstu 5 árum.  Þetta sýnir svart á hvítu, að það vantar samræmi á milli "útgjaldaloforða" vinstri grænna haustið 2017 og tillagna þeirra um auknar ríkistekjur við gerð fjármálaáætlunar á Alþingi vorið 2017. Vinstri grænir eru svo ábyrgðarlausir í tali um fjármál og efnahagsmál, að furðu sætir, nema skýringin sé sú, að þeir ráði engan veginn við þetta viðfangsefni.  Blekbóndi hallast að því, enda virðist hugsunargangur þeirra oft á tíðum vera af öðrum heimi. 

Formaðurinn, Katrín Jakobsdóttir, fer á fundum undan í flæmingi og þykist ætla að "hliðra" skattbyrðunum, þannig að þær lendi ekki á "almenningi".  Hún virðist ætla að láta efstu tekjutíundirnar þrjár borga brúsann. Hvers konar óráðshjal er þetta eiginlega ?  Þarna sitja t.d. á fleti fyrir fyrrverandi námsmenn, sem hafa lokið námi, oft erlendis, stórskuldugir, og munu rétt verða með miðlungs ráðstöfunartekjur yfir ævina vegna fremur stutts starfsferils og langs launalauss náms.  Nú á sem sagt að gefa langskólanámi þumalinn niður og höggva enn í þennan knérunn, svo að líkja má þá við eignaupptöku.  Hvaða afleiðingar halda menn, að önnur eins endemis ósanngirni og dónaskapur hafi fyrir þjóðfélagið ?  Landflótti er líklegur, spekileki, sem þó bar að forðast í lengstu lög. Vinstri grænir eru veruleikafirrtur sértrúarhópur, stórskaðlegur sjálfum sér og öðrum í raunheimum.  

Áfram með hina glöggu og skýru Ásdísi:

"Heitið var að hækka lágmarksgreiðslur almannatrygginga í 300´000 kr, tvöfalda barnabætur, lengja fæðingarorlofið, hækka hámarksgreiðslur fæðingarorlofs, byggja þúsundir leiguíbúða með ríkisstuðningi og auka stuðning við fyrstu kaup fasteigna.  Í heild myndi sá loforðaflaumur kosta aðra 100 milljarða kr." [Undirstrikun BJo.]

Hér stöndum við frammi fyrir kosningaloforðum vinstri grænna upp á 200 miaISK/ár.  Þetta er um 25 % aukning ríkisútgjalda.  Hér er verið að lofa því að eyða miklu meiru af annarra manna aflafé en flest fólk sættir sig við, og stöðugleiki hagkerfisins leyfir, í þeirri von, að peningaflóðið greiði þeim leiðina til valda.  Þetta er siðlaust og glórulaust framferði, sem ber að berjast hatrammlega gegn á öllum vígstöðvum.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband