Lýðheilsa og heilsufar búfjárstofna í húfi

Slæmar fréttir bárust hingað til lands frá EFTA-dómstólinum 14. nóvember 2017.  Hann úrskurðaði, að bann íslenzkra stjórnvalda við innflutningi á hráu, ófrystu kjöti, ógerilsneyddri mjólk og eggjum og vörum úr þessum afurðum, svo og leyfiskvöð á innflutningi þessara vara, bæri að flokka með ólögmætum viðskiptahindrunum samkvæmt matvælalöggjöf ESB og ákvæðum EES-samningsins, sem Ísland er aðili að.

Við þennan dóm er margt að athuga, bæði lögfræðilega og heilsufarslega.  Margir kunnáttumenn hérlendis á sviðum lýðheilsu, meinafræði og sýklafræði manna og dýra gjalda svo mjög varhug við þessum dómi, að þeir fullyrða blákalt, að fullnusta dómsins mundi stefna heilsufari manna og dýra í hættu hérlendis. Við svo búið má ekki standa, og afgreiðsla þessa máls verður ákveðinn prófsteinn á nýja ríkisstjórn landsins. Það er algert ábyrgðarleysi af núverandi bráðabirgða stjórnvöldum að skella skollaeyrum við aðvörunarorðum fjölmargra sérfræðinga m.v. geigvænlegar afleiðingar þess, að allt fari hér á versta veg í þessum efnum.

Fráfarandi landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra er sem fyrr úti á þekju og skautar léttilega yfir slíkar hindranir og sannar með því, hversu sneydd hæfileikum hún er til að fara með þetta veigamikla embætti í Stjórnarráði Íslands.  Það er guðsþakkarvert, að hún skuli vera þaðan á förum, enda átti hún þangað aldrei erindi.  Helgi Bjarnason hefur t.d. eftirfarandi eftir téðri Þorgerði í frétt sinni í Morgunblaðinu, 15. nóvember 2017:

"Breyta þarf reglum um innflutning":

"Þorgerður Katrín segir, að íslenzk stjórnvöld þurfi að breyta þessum lögum, svo að Íslendingar standi við sínar alþjóðlegu skuldbindingar."

Þorgerður þessi leyfir sér að boða það að gösslast áfram gegn ráðleggingum okkar færustu vísindamanna, þótt afleiðingarnar geti orðið geigvænlegar fyrir bændastéttina, dýrastofnana, heilsufar og hag þjóðarinnar og ríkissjóðs.  Blekbóndi er gjörsamlega gáttaður á fljótfærni og hugsunarleysi þessa ráðherra, sem dæmir sjálfa sig úr leik í pólitíkinni með þessari einstæðu afstöðu.  Enn bætti Þorgerður þó um betur:

"Þorgerður Katrín lýsir þeirri skoðun sinni, að hræðsluáróður hafi verið notaður gegn innflutningi á fersku kjöti og telur, að meiri hætta stafi af ferðamönnum og innflutningi á fersku grænmeti."

Mann rekur í rogastanz við lestur texta, sem vitnar um jafnhelbert dómgreindarleysi og blinda trú á regluverk og eftirlitskerfi ESB og hér er á ferð.  Ráðherrann, fráfarandi, hraunar hér yfir faglega og rökstudda skoðun fjölda innlendra sérfræðinga og kallar "hræðsluáróður".  Slíkur stjórnmálamaður og stjórnmálaflokkur, sem að slíkum ráðherra stendur, er einskis trausts verður og hlýtur að lenda á ruslahaugum sögunnar eigi síðar en í næstu Alþingiskosningum, enda hvert ver eiginlega erindi Viðreisnar í stjórnmálin ?  Kerfisuppstokkun ?  Heyr á endemi !  

Ný ríkisstjórn í landinu verður að taka téðan dóm föstum tökum og semja vísindalega trausta greinargerð til ESA og ESB, þar sem rökstutt er, að íslenzk stjórnvöld sjái sér engan veginn fært að fullnusta þennan dóm EFTA-dómstólsins vegna mikillar áhættu fyrir hag landsins, sem slíkt hefði í för með sér.  Leita þarf lögfræðilegra leiða til að renna stoðum undir slíka afstöðu, ella verða Íslendingar að leita eftir breytingum á skuldbindingum sínum við EES í krafti fullveldisréttar síns.  Undanþágur í þessa veru verða líka að koma fram í væntanlegum fríverzlunarsamningi Íslands og Bretlands, sem taka þarf gildi í kjölfar harðsóttrar útgöngu Bretlands úr ESB.  Bretar hafa lýst því yfir, að í stað þess að dvelja í skjóli "Festung Europa", vilji þeir hafa forgöngu um víðtæka fríverzlun, og þeir eru líklegir til að skapa EFTA-þjóðunum aðgang að víðtæku fríverzlunarneti um heiminn.

Aðstoðarframkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands sagði í ofangreindri frétt:

""Þessi orrusta er töpuð, en kanna verður, hvort stríðið er tapað", segir Erna. Hún nefnir, að EFTA-dómstóllinn hafi ekki talið reglur Íslands falla undir þá grein EES-samningsins, sem heimilar ríkjunum að grípa til sérstakra ráðstafana til að vernda líf og heilsu manna og dýra.  Það verði athugað, hvort einhverjar leiðir séu til að virkja þetta ákvæði."

Spyrja má, hvort öryggishagsmunum Íslands hafi verið teflt nægilega skilmerkilega og ítarlega fram að Íslands hálfu gagnvart dómstólinum.  Málið er ekki viðskiptalegs eðlis, heldur varðar það þjóðaröryggi, ef með stjórnvaldsaðgerðum er verið að opna nýjum fjölónæmum sýklum og veirum greiða leið inn í landið og þar með tefla lýðheilsu hérlendis á tæpasta vað og setja heilsufar búfjár í uppnám.

Það er líklega ekkert sambærilegt tilvik í Evrópu við sjúkdómastöðuna á Íslandi, og þess vegna ekkert fordæmi í Evrópu til að líta til við dómsuppkvaðninguna, en ef þessari hlið málsins hefði verið teflt fram af fullri festu, hefði mátt benda dómstólnum á fordæmi annars staðar í heiminum, t.d. frá Nýja-Sjálandi.  Nú þarf að tefla fram ítarlegri röksemdafærslu okkar færustu vísindamanna á þessu sviði gegn þeim rökum, sem EFTA-dómstóllinn hefur lagt til grundvallar, og verður þá ekki öðru trúað en minni hagsmunir verði látnir víkja fyrir meiri.  Að öðrum kosti verður Ísland að grípa til einhliða ráðstafana að beztu manna yfirsýn til að varðveita þá heilsufarslegu stöðu, sem 1100 hundruð ára einangrun hefur fært íslenzkum búfjárstofnum.  

Hvað segir Margrét Guðnadóttir, prófessor emeritus í sýklafræði við Háskóla Íslands af þessu tilefni ?:

"Það er alvarlegt mál, ef hér koma upp nýir dýrasjúkdómar eða ólæknandi mannasjúkdómar.  Ég treysti ekki þeim mönnum, sem vilja flytja inn hrátt, ófrosið kjöt, til að verja okkur fyrir þeim.  Kannski af því, að ég er orðin svo gömul, að ég hef séð of margt."

Í Morgunblaðinu 16. nóvember 2017,

"Segja, að veikindaálagið muni aukast",

mátti greina miklar áhyggjur Vilhjálms Svanssonar, dýralæknis og veirufræðings á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði á Keldum, og Karls G. Kristinssonar, prófessors og yfirlæknis á sýkla- og veirufræðideild Landsspítalans:

""Þessi niðurstaða hefur þýðingu fyrir lýðheilsu og mögulega einnig dýraheilsu.  Það er alveg óumdeilt í fræðaheiminum, að smitsjúkdómastaða íslenzku búfjárkynjanna er einstök á heimsvísu.  Þess nýtur íslenzkur landbúnaður og almenningur hérlendis", segir Vilhjálmur."

Á að fórna "einstakri stöðu á heimsvísu" vegna þrýstings frá Samtökum verslunar og þjónustu og Félagi atvinnurekenda, sem kært hafa íslenzk yfirvöld fyrir ESA og krefjast þess að fá að flytja hömlulaust inn frá ESB og selja hér ferskt kjöt, ógerilsneydd egg og vörur úr þessum afurðum ? Það kemur ekki til mála. Það mun auðvitað sjást undir iljar þessara aðila, þegar fólk og fénaður tekur að veikjast hér af fjölónæmum sýklum, sem engar varnir eru gegn, og búfé að hrynja niður, eins og fordæmi eru um, af riðuveiki og mæðiveiki.  Þessir innflytjendur og seljendur verða þá fljótir að benda á eftirlitsaðilana sem sökudólga, en pottþétt heilbrigðiseftirlit með þessum innflutningi er óframkvæmanlegt. Sá beinharði kostnaður, sem af slíku mundi leiða fyrir skattborgarana, er margfaldur sá sparnaður, sem neytendur kynnu að njóta um hríð vegna lækkaðs matvöruverðs.  

""Sýklalyfjaónæmi er ein af helztu ógnunum við lýðheilsu í heiminum í dag.  Það skiptir því miklu máli fyrir okkur að reyna að viðhalda okkar góðu stöðu, eins lengi og hægt er", segir Karl."

Í þessu máli eru ekki öll kurl komin til grafar, og það hlýtur að verða eitt fyrsta meginverkefni nýs utanríkisráðherra, heilbrigðisráðherra og landbúnaðarráðherra að stilla upp varnarlínu fyrir Ísland gagnvart ESB í þessu máli og síðan að sækja þaðan fram til að hnekkja þessum dómi, hugsanlega með sérsamningi Íslands eða EFTA við ESB, því að með hann á bakinu er Íslandi ekki vært innan EES.  Það er utanríkispólitískt stórmál með miklum afleiðingum fyrir Ísland, eins og úrsögn Bretlands úr ESB er stórmál fyrir Breta, en reyndar líka fyrir mörg fyrirtæki í ESB-ríkjunum.   

 Berlaymont sekkur

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Spurning hvort rétt sé að fara í úttekt á því hvort EES samningurinn sé að skila okkur jafnmikið og hann kostar okkur eftir að Bretland gengur úr Evrópusambandinu. Það eru hugsanlega breyttar forsendur. Það er á fleiri sviðum en kemur að matvælum sem regluverk sambandsins er að þvælast fyrir. Eiga menn ekki alltaf að vera á tánum þegar kemur að hag þjóðarinnar?

Jósef Smári Ásmundsson, 21.11.2017 kl. 12:14

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Það er hátt í aldarfjórðungur síðan þessi samningur (EES) tók gildi, og margt hefur breytzt í tímans rás, svo að það verður áreiðanlega tímabært að endurskoða hann, þegar ljóst verður, hvernig Bretum reiðir af í BREXIT-viðræðunum.  Verðmætastur er okkur aðgangurinn að Innri markaði EES ríkjanna fyrir vörur okkar.  Við eigum nokkrar stórar fjárfestingar þessu aðgengi að þakka.  

Bjarni Jónsson, 21.11.2017 kl. 13:57

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Það þarf að gera upp allt þetta dæmi. EES var leiðin fyrir útrásarvitleysu (fremur en ævintýri) Landsbanka- og Kauphallarmanna. Reikna þarf út allan kostnaðinn af því! 

Þegar Ragnar Arnalds, fv. mennta- og fjármálaráðherra (Sjálfstæðið er sístæð auðlind, útg. fyrir 2000) og dr. Hannes Jónsson sendiherra (Sendiherra á sagnabekk, II: Heimsreisa við hagsmunagæslu, Rv.2001, bls. 365-371 (Evrópumarkaðsumræðan), sjá og greinaskrá hans um Evrópumarkaðs- og samrunamál, EFTA, EES og ESB, í sama riti, bls. 376-7), ég endurtek: þegar þessir tveir ágætu menn könnuðu þessi mál og hugsanlegan hag af EES-samningnum, að fenginni reynslu, hafði ekkert jákvætt í heildina komið út úr honum.

En brýn er úttekt á öllu þessu og þarf að fylgja eftir af fullri festu.

PS. Á eftir að lesa grein þína hér, Bjarni; vitja hennar seinna!

Jón Valur Jensson, 21.11.2017 kl. 19:19

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Það er hárrétt, Jón Valur, útþensla gamla bankakerfisins 2000-2008 hefði ekki getað orðið jafngegndarlaus og þjóðhættuleg og raun bar vitni án aðildar Íslands að Innri markaðinum, þar sem ríkja frelsin fjögur, þ.á.m. frjáls flutningur fjármagns.  Það má fullyrða, að bankakreppan 2007-2009 hefði ekki leitt til Hruns íslenzka fjármálamarkaðarins, ef Ísland hefði ekki verið á þessum Innri markaði.  Sú fullyrðing gefur til kynna, hversu varhugaverð þessi aðild er.

Ég er sammála þér um nauðsyn téðrar úttektar.  Ég tel, að hún eigi að fara fram á árunum 2018-2020 í tengslum við þróun WTO og BREXIT, að henni eigi að koma öll helztu hagsmunasamtök í íslenzku atvinnulífi, Alþingi eigi að álykta um málið og síðan verði þjóðaratkvæðagreiðsla um þetta, hugsanlega samhliða Alþingiskosningum árið 2021.  

Í fyrsta sinn er nú stjórnarkreppa í forysturíki ESB, Sambandslýðveldinu.  Það eru vaxandi flokkadrættir í Þýzkalandi, og Þjóðverjar eru farnir að fá martröð, sem heitir "Weimar-lýðveldið".  Ítalía gæti riðað til falls fjárhagslega áður en þessi áratugur er á enda, og hvað verður þá um evruna ?  ESB gæti tekið stakkaskiptum á næstu 4 árum.  Það er mikil gerjun um allan heim, ekki sízt í Evrópu, þar sem Putin mun nýta sér alla veikleika, sem hann eygir.  Samband Íslands við ESB hlýtur að taka breytingum á þessu fjagra ára tímabili.  

Bjarni Jónsson, 21.11.2017 kl. 20:52

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Athyglisverður ertu hér, Bjarni, eins og vanalega.

Góð þessi tillaga þín um almennilega, rækilega úttekt á málinu og að síðan verði farið í þjóðaratkvæðagreiðslu um útkomuna.

Jón Valur Jensson, 22.11.2017 kl. 05:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband