Efling vöruútflutnings er nauðsyn

Útflutningstekjur af sjávarafurðum verða u.þ.b. miaISK 34 lægri á árinu 2017 en 2016, en tekjuaukning af völdum verðhækkana á áli og framleiðsluaukningar á eldisfiski, aðallega eldislaxi, munu nokkurn veginn vega upp tekjutap þjóðarbúsins vegna sjávarútvegsins.  

Álverðið var lágt árin 2015-2016 vegna mikillar álframleiðslu Kínverja.  Þeir neyðast nú til að draga úr henni, m.a. vegna mikillar mengunar í Kína, t.d. frá kolakyntum raforkuverum, sem sjá álverum fyrir mikilli raforku.  Á sama tíma var afkoma íslenzka sjávarútvegsins góð.  Þetta sýnir í hnotskurn mikilvægi fjölbreytts vöruútflutnings.  

Allur útflutningur vöru og þjónustu hefur orðið fyrir ruðningsáhrifum frá ferðaþjónustunni, sem haldið hefur uppi svo miklum viðskiptaafgangi, að nægt hefur til að halda uppi sterku gengi íslenzku krónunnar, ISK. Gengisvísitalan var 18.11.2107 undir 160 og lækkandi og verður líklega að jafnaði undir þessu gildi árið 2017.  Líklega er jafnvægisgengi þjóðarbúsins 170-190, og undir gengisvísitölu 170 berjast mörg útflutningsfyrirtæki í bökkum. 

Við þessu kann framleiðniaukning að vera eina raunhæfa svarið, en grundvöllur hennar er oftast fjárfesting og aukin tæknivæðing, eins og vissulega hefur átt sér stað innan sjávarútvegsins á undanförnum árum, bæði hjá útgerðum og vinnslufyrirtækjum. 

Á meðal þeirra, sem verst standa, eru hin minni sjávarútvegsfyrirtæki.  Ríkisvaldið hefur nú aukið vanda þeirra um allan helming með því að þrjózkast við að endurskoða meingallaðar reiknireglur veiðileyfagjalda, sem mið taka af 2-3 ára gömlum afkomutölum sjávarútvegsins og láta samtímis afnám afsláttar á veiðileyfagjöld vegna skulda taka gildi. Hér heggur sá, er hlífa skyldi. 

Um glórulausa hækkun veiðigjalda á fiskveiðiárinu 2017/2018, á sama tíma og afkoma útgerðanna fer hratt versnandi, hefur Ásta Björk Sigurðardóttir, hagfræðingur hjá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, eftirfarandi orð í viðtali við Ásgeir Ingvarsson í Sjávarútvegi Morgunblaðsins, 9. nóvember 2017, undir fyrirsögninni:

Tekjur sjávarútvegsins hafa ekki verið lægri síðan 2008:

"Á þessu ári féllu niður afslættir, sem höfðu verið á veiðigjaldi og nú, þegar 2 mánuðir eru liðnir af nýju fiskveiðiári, má finna fjölda fyrirtækja, sem lenda í þreföldun og jafnvel fjórföldun á veiðigjaldi frá fyrra fiskveiðiári.   ... Sem dæmi um, hvað breytingin er mikil, þá var gjaldið fyrir hvert kg af óslægðum þorski tæpar 12 ISK á síðasta fiskveiðiári, en er komið upp í tæplega 23 ISK nú."

Ekki verður betur séð en fráfarandi sjávarútvegsráðherra reki meðvitaða eða ómeðvitaða skemmdarverkastarfsemi gagnvart atvinnugreininni með aðgerðarleysi sínu.  Um afleiðingar þessarar óstjórnar ríkisvaldsins sagði Ásta Björk m.a.:

"Eykur það [þetta] líkur á enn frekari samþjöppun í greininni og hefur líka veruleg áhrif á fjárfestingaráform.  Hætt er við, að endurnýjun skipa og tækja muni sitja á hakanum, og gæti það haft neikvæð áhrif á samkeppnishæfni íslenzks sjávarútvegs til lengri tíma litið."

Það er áhugavert í þessu sambandi að velta fyrir sér, hvernig "gott" veiðigjaldakerfi er úr garði gert.  Í lok viðtalsins drepur hagfræðingur SÍF á þetta og má spinna út frá því:

"Ólíkt fyrirtækjum í samkeppni innanlands geta sjávarútvegsfyrirtæki ekki skellt þessari aukaálagningu yfir á afurðaverð, enda tekur alþjóðleg samkeppni ekki mið af íslenzkum aðstæðum.  Þá er gjaldtaka hvergi jafnumfangsmikil og hér á landi.  

Það er eðlilegt að greiða sanngjarnt gjald fyrir nýtingu auðlindarinnar.  Óhófleg gjaldtaka mun hins vegar skekkja samkeppnisstöðu íslenzks sjávarútvegs.  Það bitnar síðan á afkomu greinarinnar og þar með fjárfestingum, svo að til lengri tíma litið verða þær tekjur, sem hún skapar þjóðarbúinu, minni en þær hefðu getað orðið.  Það væri sízt góð niðurstaða."

Hvaða skilyrði þarf "gott" veiðigjaldakerfi að uppfylla ?  Hér verður gerð tilraun til að svara því og síðan sett upp eitt dæmi af fjölmörgum möguleikum í þeim efnum og þá höfð hliðsjón af veiðigjaldakerfi, sem Grænlendingar áforma nú að setja upp hjá sér:

  1. Veiðigjaldakerfið þarf að vera sanngjarnt gagnvart atvinnugreininni.  Það felur í sér, að það má ekki mismuna henni gagnvart öðrum greinum, sem hún kann að eiga í samkeppni við innanlands um fólk og fjármagn.  Þetta þýðir, að stjórnvöld verða að manna sig upp í að skapa heildstætt kerfi fyrir greiðslu auðlindarentu til ríkis og sveitarfélaga fyrir afnotarétt allra náttúruauðlinda innan íslenzkrar efnahagslögsögu.  Nýting afnotaréttar íslenzkra lögaðila utan efnahagslögsögunnar ætti þess vegna að falla utan þessarar gjaldtöku.
  2. Kerfið þarf að vera einfalt í notkun og auðskiljanlegt. 
  3. Kerfið þarf að taka tillit til fiskverðs á markaði í ISK og jafnframt að taka mið af afkomu hvers útgerðarfyrirtækis.
  4. Veiðigjaldakerfið má ekki vera íþyngjandi fyrir þorra útgerðanna, eins og það greinilega er við ríkjandi aðstæður núna með gjaldtöku á síðasta fiskveiðiári 12 ISK/kg af óslægðum þorski, hvað þá 23 ISK/kg á núverandi fiskveiðiári, en þessi 2 fiskveiðiár verða með enn lakari framlegð útgerðanna en á síðustu árum, ef að líkum lætur. 

Hugmynd að gjaldtöku afnotaréttar innan lögsögunnar:

 

a) Grunngjald, GG, skal taka óháð öðru en viðkomandi meðalverði á löndunardegi, MV:  GG=0,5 % x MV.       Ef MV_<150 ISK/kg, þá er bara tekið grunngjald. Við 150 ISK/kg mundi það nema 0,75 ISK/kg.  Á Grænlandi er ætlunin að miða við 131 ISK/kg og fast gjald 0,82 ISK/kg.  Þessar greiðslur verða frádráttarbærar frá skatti á Grænlandi, en ekki er gerð tillaga hér um slíkt varðandi GG.   

b) Ef MV > 150 ISK/kg, þá verður veiðileyfagjaldið: VG=GG + MV x 5,0 % x MV/500.  Undanfarin 2 ár hefur verð fyrir óslægðan þorsk verið tæplega 250 ISK/kg.  Þetta meðalverð hefði þá gefið: VG=250x(0,5 %+2,5 %) = 250 x 3,0 % = 7,5 ISK/kg.  Á Grænlandi er ætlunin að miða við fast hlutfall, 5 % x MV, sem gæfi 12,5 ISK/kg, en þar verður allt veiðileyfagjaldið frádráttarbært frá hagnaði útgerðanna við skattlagningu þeirra. Þetta hlutfall, 5 %, mundi samkvæmt ofangreindri formúlu nást við MV=450 ISK/kg

c) Meint auðlindarenta við nýtingu náttúruauðlinda er grundvöllurinn að réttlætingu veiðileyfagjalda.  Hins vegar skiptast á skin og skúrir í þessum atvinnurekstri, eins og hjá fyrirtækjum í öðrum greinum.  Það er til mælikvarði á rekstrarlega velgengni, og er sá nefndur framlegð (e. contribution to fixed costs), þ.e. framlegð rekstrar til fasts kostnaðar fyrirtækis.  Í fjármagnsfrekri starfsemi, eins og útgerð, þarf þessi framlegð, FL, að vera yfir 20 % af sölutekjum (veltu), svo að réttmætt sé að ræða um auðlindarentu í starfseminni.  Þess vegna er sanngjörn mótvægisaðgerð, að ríkisvaldið leyfi útgerðarfélögunum að draga greidd veiðileyfagjöld, að undanskildu GG, frá hagnaði sínum á skattframtali, t.d. helminginn, ef 15 % < FL < 20 %, og andvirði allra veiðileyfagjaldanna, nema GG, ef FL_< 15 %. Grænlendingar ætla að hafa öll veiðileyfagjöldin frádráttarbær, óháð afkomu fyrirtækjanna.   

 Þetta fyrirkomulag, sem hér er sett fram í stað slæms, gildandi veiðigjaldakerfis hérlendis, uppfyllir skilyrði "góðs" veiðileyfagjaldkerfis mun betur en núverandi fyrirkomulag.  Það er almennt og kallar ekki á undanþágur eða sérmeðhöndlun ákveðinna greina.  Því mætti jafnvel beita óbreyttu á fiskeldi úti fyrir ströndum Íslands í opnum kvíum, en það er sanngjarnt, að gjaldið yrði lægra fyrir fiskeldi í lokuðum kvíum og ekkert gagnvart fiskeldi í landkerum.  Einkenni þessa kerfis er, að það deilir byrðum og ávinningi á milli opinberra sjóða og fyrirtækjanna, þ.e. það er lágt, þegar illa árar, og hátt, þegar vel gengur. Að þessu leyti svipar því til reiknireglu raforkuverðs til álvera í þeim tilvikum, sem það er tengt álverði. 

Sjávarútvegurinn gæti þurft að búa við gengisvísitölu u.þ.þ. 170 um hríð.  Hann getur ekki aukið frumframleiðslu sína hratt af náttúrulegum orsökum, og hann býr við sveiflukenndan uppsjávarafla.  Hann getur hins vegar aukið verðmæti framleiðslu sinnar áfram í takti við það, sem hann hefur gert á undanförnum árum, og hann getur aukið framleiðnina enn meir. Hann mun reyna þetta hvort tveggja til að komast af við ríkjandi efnahagsaðstæður.  

Til þess að hann geti þetta, þarf hann að hafa bolmagn til fjárfestinga og til að stunda rannsóknir og þróun.  Með háum veiðileyfagjöldum á tímum tiltölulega lágs fiskverðs og minnkandi framlegðar, veiðileyfagjöldum, sem nema 5 % - 10 % af verði óslægðs fiskjar úr sjó, fer ríkisvaldið fram með ómálefnalegri og óbilgjarnri skattheimtu, sem veikir sjávarbyggðirnar og veikir undirstöður grundvallaratvinnugreinar landsins til framtíðar.  Landsmönnum er enginn greiði gerður með slíkri framgöngu ríkisvaldsins, enda er hún óviturleg í hæsta máta. Gjaldtöku vegna auðlindarentu verður að endurskoða frá grunni til að tryggja hámarks verðmætasköpun og gjaldeyrisöflun. 

Ný tegund í lögsögu Íslands, makríll

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband