Laxeldi í lokuðum kvíum

Til að festa núverandi góðu lífskjör í sessi hérlendis verður að auka útflutningsverðmætin um að jafnaði 50 miaISK/ár að núvirði næstu 2 áratugina, ef tekið er mið af mannfjöldaspá og breytingu á lýðfræðilegri samsetningu þjóðarinnar (vaxandi hlutfallslegur fjöldi aldraðra af heild eykur samfélagslegan kostnað).  

Ísland hefur að ýmsu leyti sterka stöðu til að verða vaxandi matvælaframleiðsluland.  Hlýnandi loft og sjór gefur meiri vaxtarhraða bæði jurta og dýra.  Fyrir matvæli er vaxandi, vel borgandi markaður, og Íslendingar geta við markaðssetningu sína teflt fram miklum hreinleika lofts og vatns og nægu af hreinu vatni og umfangi samkvæmt vísindalegri ráðgjöf, m.ö.o. sjálfbærri matvælaframleiðslu.    

Laxeldi hefur á þessum áratugi gengið í endurnýjun lífdaganna við Ísland með tilstyrk Norðmanna, sem ásamt Kínverjum eru umsvifamestir á þessu sviði í heiminum.  Þeir eru líka í fremstu röð, hvað öryggi og tækni við sjókvíaeldi á laxi varðar.  

Nú býðst hérlandsmönnum að kynnast nýrri tækni á sviði laxeldis í lokuðum sjókvíum, sem Norðmenn hafa verið með í þróun síðan 2007.  Á vegum fyrirtækisins AkvaFuture AS hófst árið 2014 eldi á laxi í lokuðum sjókvíum á viðskiptalegum grunni.  Stefnir fyrirtækið á slátrun 2,0 kt á árinu 2017 og 6,0 kt árið 2019.  Þetta er nýmæli, því að áður voru uppi efasemdir um, að hægt væri að ala lax upp í sláturþyngd í lokuðum sjókvíum.

Norðmenn sjá þann meginkost við lokaðar sjókvíar, að í þeim veldur laxalús ekki teljanlegu tjóni, en hún er mikill skaðvaldur í opnum kvíum úti fyrir Noregsströnd, og geta orðið 20 % afföll þar í kvíum af hennar völdum, þegar verst gegnir, samkvæmt Rögnvaldi Guðmundssyni, framkvæmdastjóra AkvaFuture AS í viðtali við Fiskifréttir, 9. nóvember 2017, undir fyrirsögninni:

"Vilja ala lax í stórum stíl í Eyjafirði".

Í umræðunni hérlendis hefur laxeldi í opnum sjókvíum verið gagnrýnt harkalega, einkum af veiðiréttarhöfum villtra laxastofna, og þeir hafa m.a. bent á þessa úrbótaleið, sem Rögnvaldur Guðmundsson hefur nú þróað, enda kveðst hann ekki vita til, að nokkur lax hafi sloppið úr lokuðum sjókvíum á 10 ára tilraunaskeiði.  

"Miklir möguleikar eru á að nýta eldistæknina víðar en í Noregi, að sögn Rögnvaldar. Innanverður Eyjafjörður sé í því ljósi talin ákjósanleg staðsetning fyrir lokaðar eldiskvíar, því að þar er bæði skjólgott og hafstraumar miklir og stöðugir."

Það er gleðiefni, að frumkvöðull laxeldis í lokuðum sjókvíum í Noregi skuli nú hafa sótt um starfsleyfi fyrir slíkum rekstri í Eyjafirði, sem er einmitt einn þeirra fjarða, sem íslenzk lög leyfa sjókvíaeldi í.  Áætlun Rögnvaldar kveður á um að hefja sjókvíaeldi þar vorið 2019, og fyrsta framleiðslan þaðan berist á markað á fyrsta ársfjórðingi 2021. 

Þar sem úrgangur frá kvíunum, sem til botns fellur, verður aðeins um 30 % af því, sem gildir um opnar sjókvíar, má telja fullvíst, að burðarþolsmat fyrir lokaðar kvíar hljóði upp á meira en 20 kt í Eyjafirði áður en lýkur, en það er lífmassinn, sem sótt er um leyfi fyrir.  Þar sem bein störf eru um 7 á kt, verður þarna um 140 bein störf að ræða við framleiðslu, slátrun og pökkun.  Óbein störf í Eyjafirði gætu orðið 160 vegna þessarar starfsemi og annars staðar 140, samkvæmt norskri reynslu, svo að alls gæti þessi starfsemi skapað 440 ný störf.  Þetta myndi styrkja Eyjafjörð mikið sem atvinnusvæði.  

Verðmætasköpun hvers beins starfs í laxeldi er í Noregi talin jafngilda MISK 37, svo að verðmætasköpun téðra 20 kt í Eyjafirði mun nema 5,2 miaISK/ár, eða um 0,2 % af VLF.  Útflutningsverðmætin gætu numið 16 miaISK/ár.  Þetta er aðeins tæplega þriðjungur af nauðsynlegri árlegri aukningu útflutningsverðmæta, sem sýnir í hnotskurn, að landsmenn munu eiga fullt í fangi með að ná fram nauðsynlegri aukningu útflutningsverðmæta á næstu áratugum til að viðhalda hér óskertum lífskjörum og efnahagsstöðugleika.

Staðsetning þessa brautryðjandi laxeldis í Eyjafirði er ágæt.  Hann er tiltölulega fjölmennt atvinnusvæði, og þar vantar ný atvinnutækifæri í náinni framtíð.  Þá mun geta tekizt áhugavert samstarf laxeldis og fræðasamfélagsins á Akureyri, sem er umtalsvert.  Um þennan þátt sagði Rögnvaldur í téðu viðtali:

"Það er mat fyrirtækisins [AkvaFuture AS], að laxeldi í lokuðum eldiskvíum falli vel að áætlunum sveitarfélaganna á Eyjafjarðarsvæðinu.  Staðsetningin sé [er] því ákjósanleg, þar sem fyrir er öflugt háskólasamfélag og þjónustustig iðnfyrirtækja er hátt.  Ljóst er, að AkvaFuture mun nýta sér sjávartengt háskólasamfélag á Akureyri í sínu þróunarstarfi og nýsköpun."

Það er ekki ólíklegt, að laxeldi geti vaxið um a.m.k. 85 kt/ár frá því, sem nú er.  Það jafngildir aukningu  útflutningstekna um a.m.k. 70 miaISK/ár, sem dreift á 10 ár gefur 7 miaISK/ár eða 14 % af þeirri meðaltals árlegu aukningu, sem nauðsynleg er.  Fleira verður þess vegna að koma til skjalanna. Laxeldið verður samt mikilvægur þáttur í vextinum framundan.    

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband