Ólíkar blikur á lofti norðan og sunnan Alpafjalla

Í vor kom út efnahagsskýrsla Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD.  Almennt er árangur Íslendinga í efnahagsmálum frá Hruni þar talinn til hins bezta í heiminum um þessar mundir, sem sýnir dugnað þjóðarinnar framar öðru, en það eru þó  hættumerki við sjónarrönd, sem ríkisvald, fjármálakerfi og samningsaðilar atvinnulífsins þurfa að bregðast við  af eindrægni, eigi síðar en á fullveldisárinu, 2018.  Launadeila flugvirkja hjá Icelandair er reyndar til vitnis um, að einn neisti í púðurtunnuna getur sprengt lífskjarabót undanfarinna ára út í hafsauga.  

Það yrði hræðilegt, ef ógæfu þjóðarinnar yrði allt að vopni á aldarafmælisári fullveldisins.  Þótt brokkgeng hafi verið, hefur þjóðin einmitt sýnt á einni öld, að hún verðskuldar fullveldi, hún þrífst miklu betur með fullveldi en án þess og hún hefur burði til að axla fullveldið.  

Andrés Magnússon gerði téða OECD - skýrslu að umfjöllunarefni í Viðskiptablaðinu 29. júní 2017 undir fyrirsögninni:

"Öflugur hagvöxtur, en blikur á lofti":

Hættumerkin eru greinilegust á vinnumarkaðinum.  Sem stendur glitrar hann þó sem gull af eiri varðandi kaupmátt og atvinnutækifæri í samanburði við vinnumarkað annars staðar, en glæsileg staðan er sennilega ósjálfbær.  Ástæða þess er sú, að launakostnaður fyrirtækja hefur yfirleitt hækkað meira en nemur framleiðniaukningu þeirra.  Þá er gengið á varaforða eða safnað skuldum. Ef vísitala þessara stærða er sett á 100 árið 1995, þá eru raunlaun 2017 170 og VLF/vinnustund = 158 og VLF/launþega = 153.  M.ö.o. hefur raunlaunakostnaður aukizt yfir 11 % meira en verðmætasköpun á launþega.  Þetta er aðvörun um það, að nú sé ekki borð fyrir báru og svigrúm til launahækkana að jafnaði lítið sem ekkert. Þetta á við um flugvirkja sem aðra, nema þeir hafi verið hlunnfarnir um lífskjarabætur miðað við ofangreint.  Það er mjög ólíklegt, og þess vegna er ábyrgðarhlutur þeirra, sem neita að aðlaga sig raunverulegum aðstæðum á markaði, mikill.  Þeir saga í sundur greinina, sem þeir sjálfir sitja á.  

Ríkisstjórnin þarf augljóslega að koma með útspil til að eyða téðri ósjálfbærni, því að hún verður ella senn fóður fyrir verðbólgu, sem er versti óvinur launþega og atvinnurekenda.  Þar má tína til lækkun tryggingagjalds og lækkun tekjuskatts á launþega og fyrirtæki.  

Stýrivextir Seðlabankans eru samt enn óþarflega háir að mati margra utan Peningastefnunefndar bankans, sem sá ekki ástæðu til að lækka vaxtabyrði fyrirtækja og einstaklinga á vaxtaákvörðunardegi 13. desember 2017.    Raunvextir hans eru um 2,6 %, sem skapa almennt raunvaxtastig í landinu um 5 %.  Þetta sligar atvinnulífið og dregur úr langtíma fjárfestingum þess og eykur að óþörfu greiðslubyrði ungs fólks, sem lagt hefur í mestu fjárfestingu ævinnar, kaup á fyrsta húsnæðinu. 

Tregða Seðlabankans til vaxtalækkana er misráðin.  Hann horfir um of á atvinnustigið og sér þá, að framleiðsluþættirnir eru fullnýttir, en hann horfir framhjá þeirri staðreynd, að í landinu eru yfir 6000 erlendir starfsmenn, 1/3 á vegum starfsmannaleiga og 2/3 ráðnir beint að utan af fyrirtækjunum.  Þar að auki eru 30 þúsund útlendingar búsettir í landinu.  Þetta erlenda fólk heldur uppi hagkerfi Íslands.  Gríðarlegur skortur væri á vinnuafli, ef þess nyti ekki við.  Hér er ekki einvörðungu um að ræða íbúa á EES-svæðinu, heldur líka t.d. Georgíumenn, sem eru kristnir og duglegir Kákasusmenn, komnir til að vinna, en ekki til að valda vandræðum, segja þeir sjálfir.  Þessa ótta við ofhitnun hagkerfisins gætir einnig hjá OECD, en kælingaráhrif ISK eru vanmetin:

"OECD segir þó, að þrátt fyrir, að horfur séu góðar, sé töluverð hætta á ofhitnun.  Bent er á, að kjarasamningar hafi verið gerðir af nokkru örlæti undanfarin ár, en þrátt fyrir það vilji ýmis verkalýðsfélög sækja enn frekari kjarabætur.  Stofnunin telur mikilvægt að auka aðhald í opinberum fjármálum og að peningastefnan þurfi að miðast við, að bregðast megi við auknum verðbólguvæntingum."

Skyldi nýja ríkisstjórnin vera sammála því að auka við rekstrarafgang ríkissjóðs ?  Eru auknar verðbólguvæntingar ?  Þess sér ekki stað í s.k. verðbólguálagi til langs tíma.  OECD hefur hér fengið gleraugu Seðlabankans lánuð.  

Í Businessweek 23. október 2017 var vikið að efnahagsástandinu á Ítalíu í greininni,

"La dolce procrastinazione".

Sem dæmi um slæmt ástand innviða er nefnt, að vatnsskortur hafi leitt til hættu á daglegri 8 klst vatnsskömmtun í Róm, af því að hið sögufræga vatnsveitukerfi borgarinnar leki 40 % af aðveitunni.  Þá safnist rusl upp í görðum og gras sé óslegið, á meðan borgaryfirvöld berjist við spillingarhneyksli hjá þjónustustofnunum borgarinnar.

Í október 2017 upplýsti stærsti vogunarsjóður heims, "Ray Dalio´s Bridgewater Associates", að hann hefði veðjað miaUSD 1,1 um, að hlutabréf nokkurra stærstu fyrirtækja Ítalíu mundu lækka, þ.á.m. tveggja stærstu bankanna og Enel Spa, hinnar ítölsku Landsvirkjunar.

Ítalir láta sér fátt um finnast og halda áfram að "sparka dósinni á undan sér", eins og þeirra hefur löngum verið háttur.  Á 11 ára aldri læra ítalskir skólanemendur söguna af Quintus Fabius Maximus Verrucosus, rómverska hershöfðingjanum, sem yfirbugaði með hægðinni Hannibal, hershöfðingja Karþagómanna, með því að forðast bardaga.  Hann hlaut viðurnefnið "Cunctator"-"frestarinn", og það er nú sem fyrr höfuðeinkenni ítalskra stjórnmálamanna, en ekki eftirbreytnivert.  

Tökum dæmi af flóttamönnum, sem koma sjóleiðina til Ítalíu.  Opinberlega skal taka fingrafar af öllum flóttamönnum, þegar þeir koma til Evrópu, og setja í sameiginlegan gagnagrunn ESB.  Í raun hafa Ítalir oft hunzað þessa reglu, og flóttamenn hafa haldið óskráðir til annarra landa frá Ítalíu.  Þetta er slæmt, því að landvistaróskir skal fjalla um í fyrsta komulandi umsækjanda á faraldsfæti.  Þegar slíkur flækingur birtist, t.d. á Íslandi eða í Svíþjóð, er það kerfislega eins og hann hafi borizt beint frá Mogadishu til Keflavíkurflugvallar eða Málmeyjar.  Sómalinn verður íslenzkt eða sænskt vandamál.  Ítölum hefur þannig tekizt að "sparka dósinni" norður eftir Evrópu. 

Þetta sýnir það, sem Færeyingar hafa lengi vitað, að það er ekki í lagi fyrir norðrið að deila landamærum sínum með suðrinu.  Rökrétt svar Íslands við þessu ástandi er að taka upp eigin landamæragæzlu.

Að smygla Ítalíu inn á evru-svæðið hefur verið nefnt "stærstu viðskipti sögunnar" ("the greatest trade ever"-af The Economist).  Uppgjörið fór aldrei fram, heldur lenti Ítalía í tvöfaldri kreppu í fjármálakreppunni 2007-2009, þegar iðnaðarframleiðslan dróst saman um fjórðung.  Atvinnuleysið náði 12,8 % í ársbyrjun 2014.  Ríkisskuldir Ítalíu náðu árið 2017 yfir miaEUR 2000 eða 132 % af VLF, samanborið við 96 % í Frakklandi og 62 % á Íslandi.  Viðmið Maastricht-samnings til upptöku evru er 60 %.  

Auðvitað liggur félagsleg eymd að baki þessum ítölsku tölum.  Fjöldi Ítala, sem býr við raunverulega fátækt (ekki aðeins tiltölulega fátækt), næstum þrefaldaðist á síðustu 10 árum; 4,7 M Ítala eða 7,9 % mannfjöldans, eiga ekki fyrir daglegu lífsframfæri sínu, þ.e. þeir eru vannærðir og hýrast í hreysum (Laugardalur ?!).  

Fjöldaatvinnuleysi æskulýðsins upp á 35,4 % hefur eyðilagt starfsmöguleika heillar kynslóðar Ítala og möguleika hennar til eðlilegrar fjölskyldumyndunar.  Aðeins 52,1 % ítalskra kvenna á aldrinum 20-64 ára voru í launaðri vinnu í ársbyrjun 2017.  Þetta er minnsta atvinnuþátttaka kvenna í Evrópu utan Grikklands.  

Að norrænu mati jafngilda þessar tölur dauðadómi yfir ítalska samfélaginu.  Þetta ömurlega ástand er aðallega vegna þess, að Ítölum var smyglað inn á evrusvæðið.  Samfylkingin ætlaði að smygla Íslendingum inn í þetta sama mynthelsi, þegar hún var hér í ríkisstjórn 2007-2013.  Sjálfstæðisflokkurinn kom í veg fyrir það 2007-2008 og Alþingi með skilmálum sínum, þegar Össur Skarphéðinsson var hér utanríkisráðherra á vegum Samfylkingarinnar 2009-2013.

Nú hafa þau þröngsýnu og óþjóðhollu öfl, sem reru að því öllum árum að koma Íslandi í banvænan náðarfaðm ESB, verið hreinsuð út úr Stjórnarráði Íslands.  Það gerðist á Fullveldisdaginn, 1. desember 2017, þegar "Fullveldisríkisstjórnin" tók hér við völdum. Verður að vona, að hún standi undir nafni, en á það mun t.d. reyna við úrlausn hennar á úrskurði EFTA-dómstólsins um, að Alþingi hafi ekki haft heimild árið 2009 til að kveða á um undantekningar við innleiðingu matvælalöggjafar ESB.  Skýrara dæmi um fullveldisafsal verður varla fengið.  Slíkt brýtur í bága við Stjórnarskrá landsins og krefst viðbragða að hálfu stjórnvalda.  Verður Íslandi vært innan EES ? 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband