Ný ríkisstjórn: umhverfis- og auðlindamál

Orkumál landsins eru fléttuð inn í kafla sáttmála "Fullveldisríkisstjórnarinnar", sem ber heitið "Umhverfis og auðlindamál".  Þessi kafli hefst svona:

"Stofnaður verður þjóðgarður á miðhálendinu í samráði þverpólitískrar þingmannanefndar, umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, sveitarfélaga, náttúruverndar- og útivistarsamtaka og annarra hagsmunaaðila.  Skoðaðir verða möguleikar á þjóðgörðum á öðrum svæðum."

Að setja þetta sem markmið á kjörtímabilinu 2017-2021 orkar mjög tvímælis.  Þetta er stórmál, sem þarf lengri meðgöngutíma, enda hagsmunaaðilarnir mjög margir, t.d. sveitarfélög með skipulagsvald á hluta af miðhálendinu, virkjunarfyrirtæki, Landsnet, hagsmunaaðilar í ferðaþjónustu og útivistarsamtök.  Hætt er við, að afar torvelt, jafnvel ógjörningur, verði að nýta náttúruauðlindir í þjóðgarði með öðrum hætti en að upplifa þær með leyfi.  

Brýnt er fyrir ferðaþjónustufyrirtækin og flesta ferðalanga, að vegagerð verði komið í nútímalegt horf með upphækkuðum og klæddum vegi um Kaldadal, Kjalveg (allan) og Sprengisand.  Mun fást leyfi til þess í þjóðgarði ? Þetta er ekki einvörðungu hagsmunamál ferðaþjónustunnar, heldur allra vegfarenda og flutningafyrirtækja á milli landshluta.  Álag á hringveg 1 mundi minnka, umferðaröryggi aukast og leiðir styttast. Ekki sízt er slíkt hagsmunamál Norður- og Austurlands.    

Þjóðgarður er dýr í rekstri með fjölda starfsfólks.  Verður miðhálendisþjóðgarður byrði á ríkissjóði eða verður selt inn ?  Það verður alls ekki séð, að nauðsyn beri til að gera þetta að forgangsmáli nú, en öfgafullir umhverfisverndarsinnar bera þetta mjög fyrir brjósti nú um stundir.  Kannski verður með víðsýnni löggjöf hægt að finna á þessu sáttaflöt, sem flestir geta sætt sig við, en fyrst þarf að sýna fram á gagnsemi aðgerðarinnar. 

Vatnajökulsþjóðgarður mun nú þegar vera stærsti þjóðgarður í Evrópu.  Norðmenn og Svíar eiga víðfeðm óbyggð víðerni innan sinna landamæra.  Hvers vegna hafa þeir ekki stofnað þjóðarða þar, sem spanna mest allar óbyggðirnar ?

Næsta grein í þessum kafla stjórnarsáttmálans fjallar um orkumál.  Stefnumörkun þar er þó tiltölulega rýr í roðinu, en í grein síðar vísað til, að "langtímaorkustefna [verði] sett á kjörtímabilinu í samráði við alla þingflokka.  Í orkustefnu verði byggt á áætlaðri orkuþörf til langs tíma miðað við stefnu stjórnvalda, til að mynda [fyrir] orkuskipti, og hvernig megi tryggja raforkuframboð fyrir almenning og atvinnulíf.  Eigendastefna Landsvirkjunar mun taka mið af orkustefnunni."

Þetta er gott og blessað, og með síðustu málsgreininni er gælum Landsvirkjunar við sæstreng til Bretlands kastað á ruslahauga sögunnar, því að í ljós mun koma, að orkuskiptin og almenn aukning raforkuþarfar fólks og fyrirtækja þarfnast alls þess afls, sem leyfilegt verður að virkja samkvæmt Rammaáætlun.

Nú háttar hins vegar þannig til, að á döfinni er að innleiða þriðju tilskipun ESB í orkumálum á öllu EES-svæðinu.  Téð tilskipun færir forræði orkumála frá rétt kjörnum valdhöfum ríkjanna til orkumiðstöðvar ESB, ACER, sem getur ákveðið að styrkja einkafyrirtæki til að leggja sæstreng frá Íslandi til Bretlands og skikkað Landsnet til að tengja hann við stofnkerfi landsins.  Tilskipunin kveður á um stofnun raforkukauphallar í hverju landi, og með þessu móti verður hægt að bjóða í raforku frá Íslandi, hvaðan sem er innan EES.  Skylt verður að taka hæsta tilboði.  Ef Alþingi samþykkir þessa tilskipun sem lög, mun það framvísa fullveldi landsins yfir raforkumálum sínum til Brüssel og ACER.  Þar með verður tómt mál að tala um íslenzka orkustefnu, og eigendastefna Landsvirkjunar verður lítils virði.  Hvers vegna er ekki minnzt á þetta stórmál í stjórnarsáttmálanum ?  Vefst það fyrir stjórnarflokkunum að taka einarða afstöðu gegn innleiðingu þriðju orkutilskipunar ESB á Íslandi ?  

Með því, sem skrifað er um flutnings- og dreifikerfi raforku má líta svo á, að ríkisstjórnin skuldbindi sig til að standa við bakið á Landsneti við aukningu á flutningsgetu meginflutningskerfisins í þeim mæli, sem dugar til að leysa úr bráðum, staðbundnum orkuskorti á landinu og til að "tryggja afhendingaröryggi raforku um land allt".  

Þetta má túlka þannig, að ríkisstjórnin muni styðja, að reist verði 220 kV lína frá Blöndu austur um Skagafjörð og til Eyjafjarðar og þaðan um Kröflu til Fljótsdalsvirkjunar og austur að Hryggstekk í Skriðdal með 220 kV jarðstreng um "viðkvæmustu" svæðin í þeim mæli, sem tæknin leyfir.  

"Ekki verður ráðizt í línulagnir yfir hálendið", segir þar.  Ef hér er átt við loftlínu yfir Sprengisand, er þessi stefnumörkun í samræmi við það, sem blekbóndi hefur haldið fram á þessu vefsetri, þ.e. að skynsamlegt sé að leggja jafnstraumsjarðstreng frá virkjanasvæði Þjórsár/Tungnaár yfir Sprengisand til tengingar við meginflutningskerfi Norð-Austurlands.  Samkvæmt núverandi kostnaðaráætlunum Landsnets verður þetta aðeins lítils háttar dýrara en hinn valkosturinn, sem er að leggja 220 kV loftlínu frá t.d. Sigöldu um Suð-Austurland og að Hryggstekk í Skriðdal og loka 220 kV hringnum að vestan með 220 kV línu frá Brennimel við Grundartanga um Vatnshamra, Glerárskóga, Hrútatungu, Laxárvatn og til Blöndu.  Allir valkostir gera ráð fyrir 220 kV línu frá Fljótsdalsvirkjun að Kröflu og þaðan til Eyjafjarðar og annarri 220 kV línu frá Blöndu um Skagafjörð til Eyjafjarðar til að tryggja Mið-Norðurlandi næga raforku.  

Umhverfislega hefur DC-strengurinn kosti umfram loftlínuna, aflstýringarlega gefur hann möguleika á meiri stöðugleika raforkukerfisins við álagsbreytingar og bilanir en loftlínan, og í stöðugum rekstri gefur hann möguleika á að bezta aflflutningana m.t.t. lágmörkunar afltapa í stofnkerfinu. Að öllu virtu er DC-jarðstrengur yfir Sprengisand ákjósanlegri en langar 220 kV loftlínur, sumpart um áhrifasvæði eldgosa og um ferðaleiðir náttúruunnenda.      

Vestfirðir hafa setið á hakanum varðandi afhendingaröryggi raforku, svo að ekki er vanzalaust.   Hluti af lausninni á þessu viðfangsefni er, að Landsnet færi 66/33 kV flutningskerfi sitt á Vestfjörðum í jörðu, eins og tæknilega er fært. Þessi aðgerð styðst við stjórnarsáttmálann, og Landsnet ætti þess vegna að setja þessa aðgerð á framkvæmdaáætlun næstu ára hjá sér, enda skapa Dýrafjarðargöngin mikilvæga leið fyrir tengingu á milli suður- og norðurfjarðanna um jarðstreng.    

Þetta mun þó ekki duga, heldur er hringtenging raforkuflutningskerfis Vestfjarða nauðsynleg forsenda fyrir viðunandi afhendingaröryggi raforku þar.  Til að slík hringtenging komi að gagni, þegar truflun verður á Vesturlínu, sem er oft á ári, þarf að reisa nýja aðveitustöð í Ísafjarðardjúpi, t.d. á Nauteyri, og tengja virkjanir inn á hana, sem gera Vestfirðinga sjálfum sér nóga um raforku.  Frá Nauteyri þarf síðan tengingu norður til Ísafjarðar, m.a. um sæstreng, og inn á Vesturlínu eða alla leið að Mjólká.

Höskuldur Daði Magnússon skrifar baksviðsgrein í Morgunblaðið 2. desember 2017:

"Pólitískur ráðherra, ekki fagráðherra":

"Ráðherra [Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra] hefur þegar velt því upp, hvort skynsamlegt sé að reisa Hvalárvirkjun í Árneshreppi.  Nefndi hann í viðtali á Rás 2, að skynsamlegt væri að bera saman kosti þess að reisa umrædda virkjun og að stofna þjóðgarð.  Hann sagði jafnframt, að sú skýring, að virkjunin myndi auka raforkuöryggi á Vestfjörðum væri langsótt.  "Það, sem þarf að laga varðandi raforkumál á Vestfjörðum, er að tryggja betur afhendingaröryggi orku.  Þar myndi ég vilja sjá, að horft yrði til, hvaða möguleikar eru til staðar [d. til stede] til að setja raflínur í jörð á þessu svæði.""

Fyrrverandi framkvæmdastjóri Landverndar kemur greinilega með böggum hildar inn í ríkisstjórnina, og það á ekki að láta hann komast upp með það múður (bolaskít), sem hann ber hér á borð. Vestfirðingar hljóta að taka á honum, eins og þeirra hefur löngum verið von og vísa. Það er orðinn kækur hjá afturhaldssinnum, sem ekki bera skynbragð á mikilvægi nýrrar raforkuvinnslu fyrir vaxandi samfélag, að stilla stofnun þjóðgarðs á virkjanasvæði upp sem valkosti við virkjanir.  Verðmætasköpun í þjóðgarði er fátækleg í samanburði við verðmæti, sem sköpuð eru með starfsemi á borð við laxeldi, sem auðvitað þarf stöðugan aðgang að raforku á hagstæðu verði.  

Guðmundur Ingi, nýr umhverfis- og auðlindaráðherra, vill troða þjóðgarði upp á Vestfirðinga, en þeir hafa ekki beðið um hann, svo að hátt fari.  Hér kennir óþolandi forræðishyggju, yfirgangs og frekju gagnvart dreifbýlisfólki, sem nú sér mikil tækifæri í fiskeldi.  Er Lilja Rafney, Alþingismaður í NV, að biðja um þjóðgarð á Vestfjörðum í stað virkjunar ?  Ekki gerði hún það í kosningabaráttunni fyrir Alþingiskosningarnar 28. október 2017, svo að áberandi væri.

Sú staðreynd, að vatnsaflsvirkjanir á Vestfjörðum, t.d. Hvalárvirkjun, auka afhendingaröryggi raforku þar, er ekki langsótt, eins og ráðherrann heldur fram, heldur auðskilin þeim, sem ekki stinga hausnum í sandinn.  Þegar 132 kV línan Hrútatunga-Glerárskógar-Mjólká bilar, sem gerist oft í illviðrum, þá fá Vestfirðir enga raforku frá stofnkerfi Landsnets, heldur verður þá að keyra olíukyntar neyðarrafstöðvar, t.d. nýlega neyðarrafstöð Landsnets í Bolungarvík, og  hrekkur ekki til.  Það er auðvitað lágreist framtíðarsýn fyrir ört vaxandi atvinnulíf Vestfjarða að verða að reiða sig á olíukyntar neyðarrafstöðvar oft á ári, sem ekki anna álaginu.  

Þá er í sáttmálanum boðað, að sett verði lög um vindorkuver og að samdar verði leiðbeiningar um skipulag og leyfisveitingar fyrir sveitarfélög, þar sem áform eru uppi um uppsetningu vindorkuvera.  Hér þarf að taka tillit til séríslenzkra aðstæðna fyrir burðarþol og styrk vindmyllumannvirkja, þar sem vindhviður geta orðið sterkar.  Þá þarf að huga að fuglavernd, hávaða, landslagsáhrifum og tæknilegum og viðskiptalegum tengiskilmálum við raforkukerfið í þessu sambandi. Á íslenzkan mælikvarða geta  umhverfisáhrif af vindmyllugörðum verið veruleg, og vinnslukostnaður raforku og tengikostnaður við raforkuflutningskerfið sömuleiðis.  Hins vegar má oftast hafa af þeim full not, þegar vindur blæs, því að þá má spara vatn í miðlunarlónum vatnsaflsvirkjana.

Í þessum kafla er síðan grein um fráveitur:

"Gera þarf átak í fráveitumálum í samstarfi ríkis og sveitarfélaga, en veruleg þörf er á uppbyggingu í þessum málaflokki."  

Þetta er mjög tímabært.  Það er ekki fullnægjandi að grófsía og dæla svo soranum út fyrir stórstraumsfjöru.  Það þarf fínsíun niður í 5 míkron, t.d. til að fanga megnið af plastögnum  áður en þær fara í sjóinn.  Þá þarf að gera kröfu um þriggja þrepa hreinsun frá starfsemi, þar sem meðaltal skolps á einhverju 3 mánaða tímabili ársins, sem endurtekur sig á ársfresti, fer yfir s.k. 50 persónueiningar.

Lokagreinin í umhverfis- og auðlindakaflanum er merkileg fyrir ýmsar sakir:

"Dýralíf á Íslandi er hluti af íslenzkri náttúru, sem ber að vernda.  Náttúran er auk þess stærsta aðdráttarafl Íslands fyrir ferðamenn.  Endurskoða þarf löggjöf um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum."

Hér er boðuð aukin friðun villtra dýra á Íslandi, en þörf á því virðist vera sett í samband við vinsældir Íslands á meðal erlendra ferðamanna.  Þetta er ósiðlegt viðhorf.  Íslenzku fánuna ber ekki að vernda til að viðhalda straumi erlendra ferðamanna, heldur fyrir hana sjálfa og íbúa landsins af spendýrstegundinni "homo sapiens".  Þar að auki er þetta vandmeðfarið, eins og margt annað, sem snertir náttúruvernd, og nægir að nefna offjölgun álfta og gæsa í landinu, sem valdið hefur bændum búsifjum. Þá þykir staðbundin friðun refs orka tvímælis fyrir jafnvægi í náttúrunni. Friðun rjúpu kann að vera tímabær vegna gríðarlegs skotkrafts, sem fylgir nútímalegum vopnabúnaði.  Allt er bezt í hófi.  

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband