Sjávarútvegur og nýja ríkisstjórnin

Sú var tíðin, að landsstjórnin varð að miða helztu efnahagsráðstafanir sínar við það, að sjávarútvegurinn skrimti.  Sú tíð er sem betur fer liðin, og nú er rekstur sjávarútvegsins sem heildar sjálfbær, þótt einstök fyrirtæki hjari varla og sumir útgerðarmenn lepji dauðann úr skel.

Sáttmáli ríkisstjórnarinnar ber keim af þessu sjálfstæði sjávarútvegsins, því að þar eru engin stórtíðindi, hvað þá bjargráð.  Það er samt ekki þannig, að stefna ríkisstjórnarinnar hafi engin áhrif á afkomu sjávarútvegsins. Öðru nær. Eitt mesta hagsmunamál hans er að efla Hafrannsóknarstofnun, því að veiðiráðgjöfin, sem afkoman hvílir á að miklu leyti, er reist á vísindalegri þekkingaröflun hennar.  Ef þar eru brotalamir eða meinbugir, þá er afkoma landsins alls í vondum málum.  Það er samt ekki minnst á þessa lykilstofnun í sjávarútvegskaflanum, og það er miður, því að þessi rannsóknarstofnun er undirfjármögnuð.  Það þarf að eyrnamerkja hluta af auðlindargjaldi sjávarútvegsins fjárfestingum og nýsköpun Hafrannsóknarstofnunar, t.d. 25 %/ár. Það er varla hægt að verja þessu fé með eðlilegri hætti.  Væri það gert, gæti stofnunin þegar í stað lokið verkhönnun nýs rannsóknarskips í stað Bjarna Sæmundssonar og Ríkiskaup síðan boðið smíðina út.  Nú eru hagstæðir tímar til að kaupa skip.  Á örfáum árum mundi fjórðungur þessa auðlindargjalds á ári greiða nýtt rannsóknarskip upp.  Eðlilegt er, að annar fjórðungur renni til fjárfestinga og þróunar hjá Landhelgisgæzlu Íslands. 

Í sáttmálanum stendur:

"Tryggja þarf samkeppnishæfni sjávarútvegs á alþjóðlegum mörkuðum, og að hann geti áfram staðið að nýsköpun og vöruþróun til að auka virði afurðanna":

Hvernig á ríkisstjórn að standa að þessu ? Hún þarf þá einna helzt með álögum sínum á greinina að gæta að því, að sjávarútvegur annarra landa, þ.á.m. Noregs, sem íslenzkur sjávarútvegur á í samkeppni við á erlendum mörkuðum, er stórlega niðurgreiddur úr ríkissjóðum viðkomandi landa. Hvorki norskur sjávarútvegur né sjávarútvegur í strandríkjum meginlandsins greiðir auðlindagjald.  Færeyingar og Grænlendingar eru hins vegar varlega að feta sig inn á þá braut. Í ljósi þessa og tilvitnaðra orða stjórnarsáttmálans hér að ofan er rökrétt afstaða stjórnvalda við núverandi aðstæður á Íslandi að stíga varlega til jarðar varðandi gjaldtöku af sjávarútvegi umfram skattlagningu, sem önnur fyrirtæki í landinu sæta.  Núverandi auðlindargjald er illa hannað og tekur of lítið tillit til afkomu greinarinnar.  Það skaðar beinlínis samkeppnihæfni greinarinnar, bæði við önnur fyrirtæki og fjármagnseigendur hér innanlands og á alþjóðlegum fiskmörkuðum.  

Blekbóndi hefur ritað nokkuð um þetta hér á vefsetrinu, t.d. í https://bjarnijonsson.blog.is/blog/bjarnijonsson/entry/2206667

, þar sem verð viðkomandi óslægðs fiskjar upp úr sjó er lagt til grundvallar.  Gjaldinu er skipt í tvennt, grunngjald, sem má líta á sem greiðslu fyrir aðgang að takmarkaðri náttúruauðlind, veiðileyfisgjald, eins og nefnt er í sáttmálanum, og veiðigjald, og saman mynda þessir 2 þættir auðlindargjaldið. 

Í sáttmálanum segir, að við álagningu auðlindargjalds skuli taka tillit til afkomu fyrirtækjanna í greininni.  Það er t.d. hægt að gera með því að líta til framlegðar fyrirtækjanna og leyfa þeim að draga frá skattstofni tekjuskatts helming greidds auðlindargjalds síðasta árs, hafi framlegð þá verið á bilinu 15 %- 20 %, og að draga frá allt auðlindargjaldið, ef framlegðin á skattlagningarárinu var undir 15 %.  

Sjávarútvegurinn hefur náð svo góðum árangri við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, að hann virðist vera eina greinin, sem á raunhæfa möguleika á að standast skuldbindingar ríkisstjórnarinnar í París í desember 2015 um minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda um 40 % árið 2030 m.v. árið 1990, og þarf hann þess vegna ekki að kaupa sér losunarheimildir.  Þetta hefur greinin gert upp á eigin spýtur með því að fjárfesta í nýjum, afkastameiri og sparneytnari búnaði. Veiðiskipum hefur fækkað og nýtnin, mæld í olíutonnum/aflatonn upp úr sjó, hefur tekið stórstígum framförum. 

Það, sem í stjórnarsáttmálanum stendur um þetta efni, horfir til enn lengri framtíðar en 2030, þ.e. til fullrar kolefnisjöfnunar greinarinnar.  Nýja ríkisstjórnin hefur sett sér það dýra og erfiða markmið, að Ísland verði að fullu kolefnisjafnað eigi síðar en árið 2040, þótt hún muni áreiðanlega ekki lifa svo lengi. Engin áfangaskipting né greining er til, sem stutt gæti þetta metnaðarfulla markmið.  Á meðan svo er, eru þetta bara draumórar skrifaranna. Í sáttmálanum segir:

"Einnig þarf að stuðla að kolefnisjöfnun greinarinnar, t.d. með auknum rannsóknum á endurnýjanlegri orku fyrir flotann".

Endurnýjanleg orka fyrir flotann getur falið í sér framleiðslu á metanóli eða öðru kolefniseldsneyti.  Það getur falið í sér framleiðslu á vetni til að knýja rafala og rafhreyfil um borð eða að brenna vetni í sprengihreyfli.  Endurnýjanleg orka fyrir flotann getur líka falið í sér að geyma raforku í rafgeymum fyrir rafhreyfla um borð.  Að 5 árum liðnum verða sennilega komnir á markaðinn rafgeymar, sem duga munu dagróðrarbátum.  Affarasælast er, að stjórnvöld setji upp hvata fyrir einkaframtakið til orkuskipta, en láti allar þvingunaraðgerðir lönd og leið.

Það er einkennilegt í þessu sambandi að leggja upp með þróun á tækni, sem fyrir utan metanól o.þ.h. er svo dýr, að hún er ekki á okkar færi, en sleppa algerlega að minnast á það, sem hendi er næst, en það er rafvæðing hafnanna með háspenntu dreifikerfi, sem þjónað getur allri þörf á landtengingu og þar með hleðslu á framtíðar rafgeymum um borð.  Hér þarf Orkusjóður að koma að fjármögnun, og það er eðlilegt, að hann fái markað fé af arðgreiðslum orkufyrirtækjanna, t.d. 25 %/ár, á meðan orkuskiptin standa yfir.  Án slíkrar stuðningsfjármögnunar og fjárhagslegra hvata er tómt mál að tala um algera kolefnisjöfnun Íslands fyrir árið 2040.

Það er drepið á fiskeldið í sjávarútvegskafla stjórnarsáttmálans:

"Eftir því sem fiskeldinu vex fiskur um hrygg, þarf að ræða framtíðar fyrirkomulag gjaldtöku vegna leyfisveitinga".

Það er ekki eftir neinu að bíða með þetta, enda nauðsynlegt fyrir fiskeldisfyrirtækin að fá greinargóðar upplýsingar um, hvað stjórnvöld ætlast fyrir í þessum efnum áður en þau ráðast í stórfelldar fjárfestingar.  Aðferðarfræðin, sem þróuð verður fyrir leyfis- og auðlindargjaldtöku af sjávarútveginum, þarf að vera svo almenn og einföld, að henni verði unnt að beita einnig á fiskeldisfyrirtækin.  Þannig er hugmyndafræðin, sem blekbóndi setti fram hér að ofan fyrir útreikninga aðgangsgjalds og veiðileyfagjalds yfirfæranleg á starfsleyfis- og rekstrarleyfisgjald.  

Eitt mesta gagn, sem stjórnvöld geta unnið öllum útflutningsgreinunum, er að tryggja þeim gjaldfrjálsan og hindrunarlausan aðgang að mörkuðum þeirra.  Alþjóðleg viðskiptamál eru nú mjög í deiglunni.  Verndarhyggju gætir nú í höfuðvígi auðvaldsins, Bandaríkjunum.  Þau eru okkur þó mikilvægur markaður fyrir fiskafurðir, svo að utanríkisráðuneytið hefur verk að vinna við gerð tvíhliða viðskiptasamnings við BNA, Breta o.fl.

 Vegna Brexit verður Íslendingum nauðsynlegt að ná fríverzlunarsamningi við Breta.  Í Fiskifréttum 30. nóvember 2017 birti Guðsteinn Bjarnason frétt undir fyrirsögninni:

"Vonir um greiðari aðgang en EES veitir".

Hún hófst þannig:

"Íslenzk stjórnvöld gera sér vonir um, að við brotthvarf Breta úr ESB verði markaðsaðgangur Íslendinga að Bretlandi enn betri en samningurinn um EES tryggir okkur.

"Jafnvel þótt EES-samningurinn feli í sér góð viðskiptakjör fyrir útflutning til Bretlands og að stærstur hluti íslenzks útflutnings til Bretlands njóti annaðhvort tollfrelsis eða tollaívilnana, þá tryggir EES-samningurinn ekki fullt tollfrelsi í viðskiptum með sjávarafurðir", segir í nýrri skýrslu utanríkisráðuneytisins um hagsmuni Íslands vegna Brexit.  

"Á viðskiptasviðinu er því ljóst, að með úrsögn Breta úr ESB skapast nýtt tækifæri til að tryggja betri viðskiptakjör fyrir okkar helztu afurðir inn til Bretlands og ESB með lægri tollum.""

Þarna virðist hugmyndin sú, að íslenzkar afurðir verði fluttar frá Bretlandi til ESB-landa, t.d. Frakklands, á kjörum samkvæmt væntanlegum fríverzlunarsamningi Bretlands og ESB, sem verði hagstæðari en núverandi EES-kjör Íslands inn á Innri markað ESB.  Það er engu að síður feiknalega mikilvægt fyrir Ísland að halda nokkurn veginn óbreyttu vöru- og þjónustuaðgengi að Innri markaðinum, fari svo, að EES-samninginum verði sagt upp, sem getur orðið raunin í ljósi æ nánari samruna ESB-landanna, sem er kominn langt út fyrir þau mörk, sem gert var ráð fyrir, þegar Alþingi samþykkti EES-samninginn, sem gekk í gildi 1994.  

Utanríkisráðuneytið virðist vera rígbundið við núverandi EES-samning Íslands og ESB.  Ef vel á að vera, verða menn þar á bæ hins vegar að semja áætlun um, hvað gera skal í aðdraganda uppsagnar þessa samnings og í kjölfar uppsagnar.  Nú eru ýmis teikn á lofti um, að á þessu kjörtímabili gæti þurft að grípa til slíkrar áætlunar.  

Í tilvitnaðri skýrslu utanríkisráðuneytisins stendur:

""Slíkur samningur [við Breta] gæti jafnvel skapað tækifæri fyrir enn greiðari aðgang en nú er [að brezka markaðinum], ef tollar féllu einnig niður af afurðum, sem nú bera toll inn til ESB." [Af þessu sést, að Innri markaðurinn er ekki tollfrjáls - innsk. BJo.]  

Tollar eru almennt hærri á mikið unnum sjávarafurðum en þeim, sem minna eru unnar.  Greiðari markaðsaðgangur ætti því ekki sízt við um ýmsar framleiðsluvörur úr fiskafurðum; einkum þær, sem njóta ríkrar tollverndar við innflutning til ESB í dag.  Þar á meðal má nefna makríl, síld, lax og túnfisk, ásamt karfa, steinbít og skarkola.

Með niðurfellingu tolla af unnum afurðum gætu skapazt tækifæri til meiri vinnslu afurðanna hér á landi og útflutnings þeirra til Bretlands sem fullunninnar vöru.""

Þetta síðast nefnda hefur geisilega þýðingu fyrir verðmætasköpun á Íslandi, og þannig gæti endurskoðun eða uppsögn EES-samningsins leitt til betri viðskiptakjara en nú tíðkast fyrir fullunnar matvörur frá Íslandi.  

Í þessu samhengi er vert að benda á, að magnhlutdeild fersks þorsks af þorskútflutningi hefur þrefaldazt frá síðustu aldamótum og nemur þriðjungi í ár, en verðmætin nema hins vegar tæplega 40 %.  Í Fiskifréttum var 23. nóvember 2017 vitnað í erindi Jóns Þrándar Stefánssonar, yfirmanns greininga hjá Markó Partner, á Sjávaútvegsráðstefnu í Reykjavík í nóvember 2017 um þetta efni:

"Jón Þrándur vék einnig að því, að mikil fjárfesting hefði orðið í nýrri tækniþróun hjá landvinnslunni og fyrirtækin væru farin að bjóða upp á vörur, sem ekki hefðu verið til áður.  "Það er farið að skera flökin með öðrum hætti og hnakka, og það er ýmiss konar vöruþróun að eiga sér stað, sem er bein afleiðing af tækniþróuninni.  Þetta hefur áhrif út á markaðina", segir Jón Þrándur.  

Hann benti á, að árið 2000 var um 70 % af öllum ferskum þorski flutt út til Bretlands.  Árið 2005 er þetta komið niður í 60 %, og 2010 er það komið niður í 44 %.  Á þessu ári stefnir í, að hlutfall ferskra þorskafurða inn á Bretlandsmarkað verði innan við 15 % af heildinni."

Það ætti að vera grundvöllur til sóknar á Bretlandsmarkað í krafti hagstæðs fríverzlunarsamnings á milli Íslands og Bretlands.  Verði svipaður samningur gerður á milli Bretlands og ESB, sem gefi betri kjör en Ísland hefur nú við ESB, kann að verða hagstætt að fljúga og sigla hluta af ESB-útflutninginum til Bretlands og áframsenda hann þaðan, e.t.v. með járnbrautarlest.   

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Tryggvi L. Skjaldarson

Sæll Bjarni. 

Hver er þín skoðun á að allur fiskur fari uppboðsmarkað hér á landi?

Tryggvi L. Skjaldarson, 27.12.2017 kl. 09:40

2 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Hafró hefur nákvæmlega ekki nokkurn skapaðan hlut að gera við nýtt skip. Ekki nokkurn! Skipin eru bundin við bryggju meira en helming ársins! Stofnuninni nægir eitt skip, til allra sinna starfa, sem halda mætti þá úti stærri hluta ársins.

 Þær tekjur,sem þjóðfélagið hefur orðið af, á undanförnum áratugum, sökum hörmulegrar frammistöðu stofnunarinnar, verður einungis mælt í milljarðatugum. Að auka enn við vitleysuna, með nýju skipi, er glapræði hið mesta. 

 Góðar stundir, með áramótakveðjumað sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 27.12.2017 kl. 10:22

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Tryggvi, og gleðileg jól;

Mér er illa við stjórnvaldsþvinganir á athafnalífið, nema nauðsyn beri til, til að rétta hlut frjálsrar samkeppni.  Ef skylda á útgerðir til að setja allan sinn fisk á uppboðsmarkað, þá tapast dýrmætur vinnslutími.  Nú er allt kapp lagt á að koma fiski sem ferskustum til neytenda.  Í síðustu kjarasamningum við sjómenn náðist samkomulag um ákveðna viðmiðun við verð á frjálsum markaði.  

Hérlendis háttar öðru vísi til en í Noregi.  Þar setja stjórnvöld skilvegg upp á milli útgerða og vinnslu, svo að allur fiskur fer þar á markað.  Íslenzkur sjávarútvegur fær mun hærra verð, um 30 % hærra, en norskur sjávarútvegur á erlendum mörkuðum.  Hérlendis þakka menn það órofinni virðiskeðju, sem talinn er styrkur íslenzks sjávarútvegs, og það hefur ekki verið hrakið, svo að ég viti til.  

Bjarni Jónsson, 27.12.2017 kl. 10:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband