Sámur, fóstri, og raforkumál á Vestfjörðum

Í nóvember 2017 kom út geysimyndarlegt fríblað, 2. tölublað, 3. árgangs, í 44´000 eintökum, dreift um allt land, nema höfuðborgarsvæðið og Vesturland.  Blaðið er afar fróðlegt og hefur að geyma aðsendar greinar um fjölbreytileg málefni, s.s. orkumál og atvinnuuppbyggingu á Vestfjörðum,  aflaukningu í vatnsaflsvirkjunum, hækkun sjávaryfirborðs, nokkur þjóðareinkenni landsmanna, loftslagsmál, sorporkustöð á Vestfjörðum og fiskeldi. Hefur blaðið hlotið verðskuldaða athygli og að því gerður góður rómur.

Blekbóndi þessa vefseturs á þarna eina grein, sem hann nefnir "Fjötra eða framfarir" og finna má sem fylgiskjal með þessum pistli. Þar er sett upp sviðsmynd fyrir Vestfirði árið 2040, ef snurðulaus  uppbygging atvinnulífs fær að eiga sér stað þar, þ.e. raforkuskortur og samgönguskortur eða léleg gæði á rafmagni og vegasambandi og tregða við leyfisveitingar hamla ekki fullri nýtingu á fiskeldisburðarþoli Vestfjarða. 

Að teknu tilliti til títtræddra orkuskipta mun atvinnuuppbygging og íbúafjölgun á Vestfjörðum útheimta á tímabilinu 2016-2040 aflaukningu um 80 MW og orkuaukningu um 400 GWh/ár, ef sú sviðsmynd höfundar, sem þar er sett fram, gengur eftir.  

Það verður þess vegna nægur markaður fyrir Hvalárvirkjun, 55 MW, á Vestfjörðum og er þörf á  Austurgilsvirkjun, 35 MW, líka, svo að Vestfirðir verði sjálfum sér nægir með raforku.  Öðru vísi verður raforkuöryggi Vestfjarða ekki tryggt, því að bilanatíðni Vesturlínu er há, og varla þykir fjárhagslega hagkvæmara og umhverfisvænna að leggja aðra Vesturlínu til viðbótar þeirri, sem fyrir er.

Þegar nýjar virkjanir á Vestfjörðum eru vegnar og metnar, er nauðsynlegt að hafa í huga, að þar stafar þeim ekki sú hætta af náttúruvá, sem virkjunum og línum víða annars staðar á landinu er búin.  Elías Elíasson, verkfræðingur og fyrrverandi sérfræðingur í orkumálum hjá Landsvirkjun, skrifaði um aðsteðjandi hættu að raforkuafhendingu á landinu í Morgunblaðsgrein, 5. desember 2017,

"Rétt stefna í orkumálum":

"Í orkulögum eru ákvæði um það, hve vel skuli tryggja notendur raforku gegn truflunum í flutningskerfi.  [Þar eru lög núna brotin á Vestfirðingum - innsk. BJo.]  Hins vegar eru engin ákvæði um, hve vel skuli tryggja gegn því, að stærstu miðlunarlón tæmist.  Þar hefur Landsvirkjun sín viðmið, en hið opinbera ekki.  Ljóst er, að ef annaðhvort Hálslón eða Þórisvatn tæmist alveg, þá kemur upp neyðarástand.  Þetta getur gerzt, ef rennsli fallvatna verður miklu minna en það viðmið, sem Landsvirkjun notar í áætlanagerð sinni.  Þessu geta valdið atburðir, tengdir landinu sjálfu og gerð þess, sem ekki fara framhjá neinum, og má þar nefna:

  • Hamfaraflóð tengt eldgosi undir jökli ógna flutningsvirkjum og orkumannvirkjum.
  • Eldvirkni skemmir virkjun eða breytir farvegi vatnsfalla.
  • Öflugt eldgos, eitt eða fleiri í einu, veldur kólnun á lofthjúpi jarðar. Umskipti í veðurfari þarf hins vegar að staðfesta með mælingum í nokkurn tíma. 
  • Breytingar á streymi hlýsjávar kringum landið færa kalda sjóinn nær og kæla landið.  
  • Golfstraumurinn hægir á sér vegna aðstæðna í hafinu.  

Á Vestfjörðum stafar virkjunum og línum einna minnst ógn af náttúrunni af öllum stöðum á landinu.  Þannig þarf þar ekki að óttast tjón af völdum hamfaraflóða, öskufalls, hraunrennslis eða jarðskjálfta.  Af þessum sökum ætti í nafni þjóðaröryggis að leggja áherzlu á virkjanir á Vestfjörðum.  Samkvæmt áætlun frá 2016 nemur virkjanlegt, hagkvæmt vatnsafl á Vestfjörðum, að núverandi virkjunum meðtöldum, tæplega 200 MW, sem er um 8 % af núverandi virkjuðu afli til raforkuvinnslu á landinu.  Vestfirzkar virkjanir munu aldrei anna stóriðjuálagi, en þær mundu nýtast almenningi vel í neyð, og í venjulegum rekstri er nægur markaður fyrir þær á Vestfjörðum og um landið allt með flutningi um Vesturlínu inn á stofnkerfið.  

Í lok greinar sinnar skrifaði Elías:

"Hér er um að ræða áhættuþætti, sem að nokkru leyti eru sérstakir fyrir Ísland, en að nokkru sameiginlegir með Evrópu og Grænlandi.  Íslenzka orkukerfið er sérstaklega viðkvæmt vegna víðáttu jöklanna hér, og hve miklu munar á rennsli og þar með orkugetu, ef þeir fara að vaxa í stað þess að minnka.

Hér þarf því að fara fram viðamikil og heildstæð athugun og áhættumat til að ákveða, hvort við eigum að:

  • leggja áherzlu á að halda orkuverði lágu, eins og almenningi var á sínum tíma lofað.  [Til þess þarf að halda áfram að virkja fyrir stóriðju, sem þá kostar stækkun raforkukerfisins og greiðir í raun  orkuverð niður til almennings, eins og verið hefur.  Samkvæmt Rammaáætlun og áætlaðri orkuþörf orkuskipta og vaxandi þjóðar virðist orkulindir skorta fyrir þennan valkost - innsk. BJo.]
  • Hægja á uppbyggingu til að ná upp arðgreiðslum. [Þessum valkosti má líkja við að éta útsæðið, og hann samrýmist ekki núverandi stefnu stjórnvalda um að ljúka orkuskiptum fyrir árið 2040 - innsk. BJo.]
  • Taka frá það, sem eftir er af auðlindinni, til okkar eigin þarfa, eins og orkuskipta. [Þetta er nærtækasti kosturinn, eins og málin horfa nú við, og spannar m.a. aukningu á núverandi stóriðju í þeim mæli, sem rekstrarleyfi fást og orkusamningar takast um - innsk. BJo.]
  • Koma upp meiri stóriðju.  [Þetta verður ekki raunhæfur kostur að óbreyttu - innsk. BJo.]

Það er sameiginlegt þessum valkostum, að þeir útiloka afar umdeilt verkefni, sem er að virkja og leggja línur að endamannvirki sæstrengs, sem Landsvirkjun o.fl. hafa haft hugmyndir um að selja raforku inn á og kaupa raforku frá, þegar hér verður skortur.  Er þá ekki átt við tiltölulega viðráðanlegt verkefni tæknilega séð, sem er sæstrengur til Færeyja, heldur á milli Skotlands og Íslands, um 1200 km leið á allt að 1200 m dýpi.  Sá strengur mundi hafa jafna flutningsgetu í sitt hvora átt og mundi umturna núverandi raforkukerfi og verðmyndun raforku í landinu vegna stærðar sinnar, um 1200 MW, sem væri næstum 50 % viðbót við núverandi kerfi.  

Sláið á tengilinn hér að neðan til að lesa umrædda grein í Sámi, fóstra.

 

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Sæll.

Mér finnst undrum sæta að þetta blað hafi ekki ratað inn á heimili allra landsmanna. Við sem búum á s.k. landsbyggð höfum gagn og gaman af þessum lestri og sjáum margt fróðlegt en þeir sem virkilega þurfa á því að halda að lesa þessar greinar, til þurfta og gagns, eru án blaðsins. Las grein þína, eins og margar aðrar, og legg þær í brunninn til skoðunarmyndunar og sem gagn í rökleysisumræðuna sem því miður, virðist halda áfram að lifa og heyrast í nokkurskonar trúarbragðaheimi. Heimur sem flestir ættu betur að hafa fyrir sig, í ljósi reynslunnar.

Sindri Karl Sigurðsson, 7.12.2017 kl. 20:53

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Sindri Karl;

Já, það er synd, að Vestlendingar skyldu verða af blaðinu sem og íbúar höfuðborgarsvæðisins, en þar sem blaðið er fríblað, geri ég ráð fyrir, að fjárráð hafi ekki leyft stærra upplag og víðari dreifingu.  Ég held þó, að Alþingismönnum, fréttamiðlum o.fl. hafi verið tryggt eintak.  

Það er því miður rétt, að umræðan er oft á stigi trúardeilna, en þær eru þeim annmörkum háðar, að í þær fæst enginn botn.  Hann er ekki "suður í Borgarfirði"; hann er hvergi.  

Með góðri kveðju úr Garðabæ / 

Bjarni Jónsson, 7.12.2017 kl. 21:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband