Byggðamál

Í sáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur frá nóvember 2017 er kafli um byggðamál.  Hann hefst þannig:
"Mikil verðmæti felast í því, að landið allt sé í blómlegri byggð.  Landsmenn eiga að hafa jafnan aðgang að þjónustu, atvinnutækifærum og lífskjörum um allt land."

Ekki verður ráðið af framhaldinu, að höfundarnir geri sér grein fyrir, hvers konar stefnu þarf að viðhafa til að halda landinu "öllu" í byggð.  Í grundvallaratriðum þarf tvennt til, þ.e. í fyrsta lagi greiðfæra vegi, nægt þrífasa rafmagn og hraðvirkt samskiptakerfi og í öðru lagi að nýta náttúruauðlindir landsins til eflingar velferðarþjóðfélags um allt land. 

Þannig þarf nýtingarstefnu fyrir náttúruauðlindir landsins, sem styður við búsetu um landið allt.  Nýting náttúruauðlindanna verður þannig grundvöllur velmegunar og velferðarsamfélags um landið allt.  

Sjávarútvegurinn er klárlega landsbyggðar atvinnugrein, sem fullnægir þessum skilyrðum, af því að hann er í heildina rekinn með hagkvæmum hætti, og 78 % skatttekna af sjávarútveginum koma utan af landi.  Sömuleiðis hafa strandveiðar að sumarlagi þýðingu í þessu samhengi svo og byggðakvótinn, sem Byggðastofnun úthlutar, aðallega til s.k. brothættra byggða.  

Mestu máli skiptir þó fyrir hagvöxtinn, að sjávarútvegsfyrirtækjum vítt og breytt um landið hefur vaxið fiskur um hrygg með fiskveiðistjórnunarkerfi, sem fækkaði útgerðum og fiskiskipum og glæddi aflabrögð í kjölfar þess, að tekið var að fylgja vísindalegri veiðiráðgjöf.  

Ekki má hverfa frá þessu efni án þess að nefna fiskeldið, en það mun hafa byltingarkennd áhrif til hins betra á byggðir Vestfjarða og góð áhrif á Austfjörðum og vonandi í Eyjafirði með eldi þar í lokuðum kvíum, sem hafa verið þróaðar í Noregi.  Á Austfjörðum er hins vegar önnur öflug stoð undir atvinnulífi en sjávarútvegur og landbúnaður, sem ekki er að finna annars staðar utan Straumsvíkur og Grundartanga og senn á Bakka við Húsavík, en það er orkusækinn málmiðnaður.  

Það hefur frá upphafi umræðu um orkuvirkjanir og stóriðju í tengslum við þær sú ætlun stjórnvalda verið ljós, að þessi starfsemi mundi stuðla að innviðauppbyggingu, aukinni tækniþekkingu og byggðafestu í landinu.  Á undirbúningsárum ISAL, 1967-1970, ríkti hér atvinnuleysi í kjölfar síldarbrests, og framkvæmdirnar í Straumsvík og við Búrfell drógu úr bæði atvinnuleysi og landflótta.  Stækkun ISAL og upphaf Norðuráls, 1995-1998, komu einnig á heppilegum tíma m.v. atvinnuástand í landinu, og í kjölfarið kom uppgangsskeið. Fjarðaál og Fljótsdalsvirkjun voru klárlega traustar byggðafestuframkvæmdir, sem sneru neikvæðri byggðaþróun á Austfjörðum til hins betra. Gríðarleg gjaldeyrisöflun á sér nú stað í Austfirðingafjórðungi úr auðlindum lands og sjávar.  

Svo virðist sem núverandi stjórn og forstjóri Landsvirkjunar hafi gleymt þessu eðli iðnvæðingar Íslands eða fórnað því á altari misskilinnar gróðahyggju ríkisfyrirtækisins.  Landsvirkjun var aldrei hugsuð þannig, að selja ætti raforku frá virkjunum hennar á verði, sem sambærilegt væri við verð á Bretlandi, á meginlandi Evrópu eða í Bandaríkjunum, heldur á verði, sem gerði Ísland samkeppnishæft á sviði málmframleiðslu, myndi borga virkjanir og flutningslínur upp löngu áður en bókhaldslegum, hvað þá tæknilegum, afskriftatíma lyki og yrði þannig grundvöllur að lágu raforkuverði til almennings í samanburði við útlönd.  Langtíma raforkusamningar Landsvirkjunar hafa vissulega reynzt þjóðhagslega hagkvæmir og staðið undir einu lægsta raforkuverði til almennings á byggðu bóli.  

Landsvirkjun hefur síðan 2010 farið fram með nokkurri óbilgirni í samningaviðræðum um endurskoðun langtímasamninga um afhendingu raforku til orkusækinna málmframleiðslufyrirtækja og t.d. þvingað fram raforkuverð til ISAL í Straumsvík, sem sett hefur afkomu fyrirtækisins í uppnám, dregið úr fjárfestingaráhuga eiganda, og nú er svo komið, að hann reynir að selja fyrirtækið.  Á Grundartanga gekk töluvert á við endurnýjun raforkusamninga Norðuráls, og nú hafa ágreiningsmál járnblendiverksmiðjunnar og Landsvirkjunar verið lögð í gerðardóm. Hér er um geðþóttalega stefnubreytingu fyrirtækisins að ræða, sem var ekki mótuð af stjórnvöldum eða neitt rædd á Alþingi og hæpið, að njóti meirihlutastuðnings þar.  

Nú stefnir ESB á innleiðingu 5. frelsisins, sem er frjálst flæði orku á milli aðildarlanda EES.  Búizt er við hatrömmum deilum í Noregi um þetta, því að vegna loftlína til Svíþjóðar og sæstrengja til Danmerkur og Hollands og nýrra sæstrengja til Bretlands og Þýzkalands mun þetta fyrirkomulag rústa iðnaði Noregs, sem frá upphafi hefur verið staðsettur vítt og breitt  um byggðir Noregs og notið hagstæðra kjara við raforkukaup, m.a. í nafni byggðastefnu og almennrar atvinnuþróunar.  Hann mun eftir innleiðingu "orkusambands ESB" þurfa að keppa um raforkuna við þýzk stáliðjuver í hjarta Evrópu, svo að dæmi sé tekið. Horfa margir Norðmenn með örvæntingu á þá óheillaþróun, að stjórn orkumálanna færist í raun úr höndum lýðræðislega kjörinna fulltrúa þjóðarinnar til embættismanna á nýrri "Orkusamvinnustofnun ESB", sem staðsett er í Slóveníu, og Norðmenn verða algerlega áhrifalausir í (án atkvæðisréttar).  

Á Íslandi hefur Landsvirkjun barizt fyrir því, að sæstrengur yrði lagður á milli Íslands og Skotlands.  Er nú augljóst, til hvers refirnir voru skornir.  Nú verður hægt að færa enn gildari rök gegn slíkum aflsæstreng en gert hefur verið.  Hann mun ekki aðeins hækka almennt raforkuverð í landinu, heldur mundi hann rústa atvinnulífi í landinu, ef Ísland jafnframt innleiðir 3. tilskipanabálk ESB í orkumálum frá 13. júli 2009-EU/2009/72.  Gegn því ber að berjast með kjafti og klóm svo á Íslandi sem í Noregi.

Á Íslandi hafa uppkaup útlendinga á landi færzt í vöxt. Fræg varð tilraun Kínverja fyrir okkrum árum til að ná tangarhaldi á stærstu jörð á Íslandi, Grímsstöðum á Fjöllum.  Sem betur fór var þetta hindrað, því að lagaumgjörð fyrir slíka gerninga er ófullnægjandi fyrir hagsmuni landsins.  Á þetta benti Hlynur Jónsson Arndal, rekstrarhagfræðingur, í Morgunblaðsgrein 26. júli 2017,

"Eignarhald útlendinga á íslenskum jörðum":

"Enn bjóða óupplýstir fréttamenn upp á umræðu, þar sem sneitt er hjá þessum staðreyndum og útlendingum stillt upp sem venjulegu fólki, sem vill gjarnan eignast fallega jörð á Íslandi til að njóta sveitarsælunnar.  Nú síðast með viðtali Ríkisútvarpsins við Jim Ratcliffe, sem keypt hefur fjölda jarða hér á landi að sögn fjölmiðla, en þeir sleppa að geta þess, að það er gert í gegnum hlutafélag."

Það er grundvallarmunur á því, hvort viðskipti eru gerð á nafni persónu eða lögaðila, t.d. hlutafélags, og vegna frelsis innan EES til landakaupa, er nauðsynlegt að Alþingi verji sameiginlega hagsmuni landsmanna með því að takmarka landakaup við persónur.

"En skiptir þetta máli ?  Um leið og jörð er seld háu verði til erlends eða íslenzks hlutafélags, þá er væntanlega söluhagnaðurinn skattlagður á Íslandi ?  En það verður í hinzta sinn, vegna þess að öll framtíðarviðskipti með slíka jörð geta farið fram í lágskattalandi, t.d. Lúxemborg, heimalandi Junckers nokkurs, þar sem hlutafélagið, nú skráður eigandi jarðarinnar, mun geta gengið kaupum og sölum, annaðhvort beint eða höndlað er með félag, sem á annað félag, sem á félagið, sem á jörðina.  Ef skattur yrði greiddur af hækkun jarðarverðs í formi hærra hlutabréfaverðs slíks félags, færi skatturinn í ríkissjóð Lúxemborgar.  Náðuð þið þessu ?" 

Hvers vegna er ekki minnzt einu orði á þetta þarfa viðfangsefni löggjafans í stjórnarsáttmála um byggðamál ?  Er þegjandi samkomulag um að breiða yfir galla EES-samningsins ?

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband