Er lengur þörf á EES ?

Spurning um það, hvort þörf sé lengur á Evrópska efnahagssvæðinu (EES) væri óþörf, ef ekki fylgdi böggull skammrifi með þessu viðhengi Evrópusambandsins (ESB).  Þessi böggull er ekkert léttmeti, sem almenningur og forráðamenn þjóðarinnar geta látið sér í léttu rúmi liggja, því að þar er að finna æ fleiri alvarlegar vísbendingar um, að aðildin að EES feli í sér fullveldisframsal til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) og EFTA-dómstólsins, sem sé langt umfram aðild að viðskiptasamningum eða öðrum alþjóðasamtökum, sem Ísland á aðild að.

Þegar Alþingi samþykkti EES-samninginn á sínum tíma, sýndist sitt hverjum um þetta, og það var lögfræðilegt ágreiningsefni, hvort Stjórnarskrá landsins væri brotin með þessu.  Nú hefur 23 ára vera Íslands á Evrópska efnahagssvæðinu og nýjustu tíðindi af æ nánari samruna ESB-ríkjanna ("an ever closer union"), sem oftar en ekki virðist að hálfu ESB vera látinn falla undir EES-samninginn, hins vegar taka af öll tvímæli um það, að framkvæmd EES-samningsins sé á þann veg, að samþykkt hans hafi í raun falið í sér stjórnarskrárbrot að hálfu Alþingis og forseta lýðveldisins, sem samninginn undirritaði.

Dæmin, sem hér verða tekin, eru tvö. Er annað nýlegt og hitt væntanlegt:  

Fyrra dæmið nær aftur til 2009, þegar Alþingi samþykkti að fella matvælastefnu ESB í íslenzk lög með þeirri undantekningu, að ekki yrð leyfður innflutningur á hráu og ófrystu kjöti, hráum eggjum og ógerilsneyddri mjólk.  Var þetta ekki gert af meintri meinfýsi þeirra, sem sagðir eru vilja vernda íslenzkan landbúnað gegn óheftri samkeppni niðurgreiddra landbúnaðarafurða frá ESB, heldur af illri nauðsyn fjarlægrar eyþjóðar að verjast heilsufarsfári fjölónæmra sýkla, sem landlægir eru í ESB-löndunum, og að verja innlenda búfjárstofna gegn bráðdrepandi sýkla- og veirusýkingum.  Íslenzkir búfjárstofnar eru varnarlausir gegn erlendu fári, sem herjar á búfjárstofna erlendis og þeir hafa mótefni gegn.  Þetta var ekki ímyndun þingmanna, heldur sjálfsögð varúðarráðstöfun, ráðlögð af fjölda hámenntaðra og reyndra vísindamanna á sviðum sýkla- og veirufræða.

Íslenzkir matvælainnflytjendur kærðu þetta innflutningsbann fyrir ESA, sem úrskurðaði, að það bryti í bága við EES-samninginn og þar með skuldbindingar, sem Alþingi samþykkti með inngöngu Íslands í EES árið 1994.  Ágreiningurinn fór fyrir EFTA-dómstólinn, sem staðfesti úrskurð ESA í nóvember 2017. 

Hvað sem öðru líður, er ljóst af þessum málalyktum, að samþykkt Alþingis, gerð í góðri trú um réttarstöðu landsins og til að vernda mikilvæga hagsmuni landsmanna, verður samt að láta í minni pokann fyrir vilja og úrskurði yfirþjóðlegrar stofnunar.  Þar með er orðið eins ljóst og verða má, að stórfellt framsal fullveldis hefur átt sér stað til ESB, sem öllu ræður innan EES.  Við þetta verður ekki unað, þótt "Fullveldisríkisstjórnin" hafi ákveðið að kyssa á vöndinn og taka þegjandi og hljóðalaust, því sem að höndum ber.  

Rétt hefði í þessari stöðu verið að fara fram á samningaviðræður við ESB um þessi mál og fresta þar með gildistöku úrskurðarins um hríð til að vinna tíma til stefnumörkunar innanlands.  Hvernig sem þær samningaviðræður hefðu farið, er hitt ljóst, að nú blása vindar gagnkvæmra viðskiptasamninga á milli ríkja, svo að tímabært er að leggja EES niður.  Ástæðan er auðvitað úrsögn Bretlands úr ESB, sem taka mun gildi í marz 2019.  Bretar stefna á viðskiptasamning við ESB og aðrar þjóðir, þ.á.m. við Íslendinga og Norðmenn, og líklegt má telja, að EES ríkjunum þremur, utan ESB, muni standa svipaður viðskiptasamningur til boða við ESB og Bretlandi.  Þar með verður hægt að leggja viðrinið EES fyrir róða, öllum til léttis.

ESB áformar að koma á 5. frelsinu á Innri markaði EES.  Það fjallar um frjálst flæði hvers konar orku á milli EES-landanna, t.d. eldsneytisgass, olíu og raforku.  Norðmenn hafa af þessu miklar áhyggjur, af því að ESB hefur falið nýrri stofnun, "ACER-Agency for the Cooperation of Energy Regulators", mikil völd.  E.t.v. má kalla þessa stofnun "Orkusamvinnustofnun EES".  Hún á að hafa síðasta orðið í hverju landi um öll orkutengd málefni, sem henni þóknast að skilgreina sem "EES-málefni" og ESA verður úrskurðaraðilinn.  Takmarkið með þessu er, að öll orka flæði frjálst og hindrunarlaust yfir landamæri þangað, sem hæstbjóðanda þóknast, að hún verði send innan EES.

Margir Norðmenn hafa af þessu gríðarlegar áhyggjur, enda óttast þeir að missa tökin á raforkumálum sínum vegna mikillar sjálfbærrar fallvatnsorku þar í landi, sem tiltölulega ódýrt er að breyta í raforku.  Óttast Norðmenn tæmingu miðlunarlóna og a.m.k. 30 % hækkun rafmagnsreiknings heimila og fyrirtækja af þessum völdum.  

Það verður að segja hverja sögu, eins og hún er, en hérlendis fljóta yfirvöldin að feigðarósi, hafa annaðhvort ekki af málinu frétt eða sjá ekki hættuna, sem hérlendis stafar af þessu samrunaferli ESB.  ACER gegnir nefnilega því hlutverki að auka orkuflutninga á milli landa.  Raforkuflutningar á milli landa nema nú 10 % og stefnt er á tvöföldun þessa hlutfalls 2030.  Á Íslandi er mesta raforkuvinnsla á mann í heiminum, og talsvert óvirkjað enn.  Fólki hjá ACER er kunnugt um þetta og um áhuga Landsvirkjunar o.fl. á lagningu sæstrengs frá Íslandi til Skotlands.  Það er vel hægt að hugsa sér þá stöðu, að á vegum ACER verði fé látið af hendi rakna til að koma sæstrengsverkefninu á koppinn.  Útibú ACER á Íslandi hefði völd (samkvæmt ákvörðun ESB) til að skikka Landsnet til að tengja sæstrenginn við stofnkerfi sitt, og síðan mundi útibúið setja hér á laggirnar tilboðsmarkað fyrir raforku - bingo.  Mörg hundruð, jafnvel 1000 MW (megawött) mundu streyma úr landi, orkuverðið innanlands snarhækka og Íslendingar "sitja með skeggið í póstkassanum", eins og Norðmenn orða það, þegar einhver fær ekki rönd við reist og/eða er tekinn í bólinu.  

Það er full ástæða til að vara alvarlega við því, sem hér er að eiga sér stað með æ nánari samruna á EES-svæðinu.  Þessi þróun hentar engan veginn Íslendingum og Norðmönnum, sem geta hæglega misst "erfðasilfur" sitt í hendur hrægamma með andvaraleysi.

Gleðilegt aldarafmælisár fullveldis !

 

 

  

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

 Þakka þér fyrir þetta Bjarni Jónsson sem og margt annað og ég vænti þér gæfuríks árs.

Burtu með haftabandalagið EES sem verður ekki eins á morgun og það var í gær og burtu með  schengen  fíflaganginn sem aldrei átti að innleiða hér, enda einkum hugsaður fyrir landamæri innan Evrópu á meginlandinu en ekki eyjar.

Andvaraleysi er innbyggt í formann flokks allra stétta og grænir kommúnistar vilja vera í sambandi við sína líka en framsóknar menn eru alltaf á reki.

Hrólfur Þ Hraundal, 1.1.2018 kl. 11:36

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Gleðilegt nýár, Hrólfur Hraundal;

EES er þegar orðið allt annað fyrirbrigði í raun en það var fyrir 23 árum.  Þjóðin hefur aldrei fengið að tjá sig beint í atkvæðagreiðslu um þetta stórmál.  Hvort sem stjórnvöld reyna að ná fram endurskoðun á aðildarsamninginum, eins og Cameron reyndi fyrir Bretlands hönd að ESB, eða ekki, fer að verða tímabært að halda hér þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildina.  Sú er krafan nú í Noregi.  Ef Norðmenn fara út, verður EES sjálfdautt. 

Bjarni Jónsson, 1.1.2018 kl. 14:25

3 Smámynd: Halldór Jónsson

Kollege Bjarni

Við erum ekki varnarlausir Íslendingar hvað sem þessi dómsúrskurður segir. Svo segir Jón Bjarnason þingmaður fyrrverandi:

""Við höfum lög frá 2009 sem við settum við innleiðingu matvælalöggjafar ESB og sem kveða á um að viðhalda banni á innflutningi á hráum kjötvörum, mjólk og eggjum voru samþykkt mótatkvæðalaust. Þau lög standa þar til og ef Alþingi hugsanlega breytir þeim. Til þess að svo verði þarf sterkari og víðtækari röksemdir en dóm EFTA-dómstólsins varðandi viðskipti með almennar framleiðslu- og iðnaðarvörur. Íslenskum stjórnvöldum ber því að standa fast í þessu máli, ákveðið og pólitískt og mega alls ekki gefa neinar væntingar um að því verði breytt."

13.grein EES-samningsins heimilar okkur beinlínis til að grípa til aðgerða "til verndar heilsu manna og dýra." Slíkt er um að ræða í þessu tilviki."

Gefumst ekki upp fyrir samviskulausu braskaraveldinu kollege Bjarni.

Halldór Jónsson, 1.1.2018 kl. 19:25

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Gleðilegt nýár, kollega Halldór, og takk fyrir þetta innlegg.  

Ég er sammála afstöðu Jóns Bjarnasonar í þessu máli um, að ríkisstjórninni beri að standa í lappirnar í þessu máli, en ef einhver getur bent mér á, að ESB hafi ekki haft allt sitt fram í slíkum málum, væri það vel þegið.  Þetta á bæði við um Noreg og Ísland.  Ég sá nýlega frétt um það, að ríkisstjórnin hyggist orðalaust hlíta þessum EFTA-dómi, og það er ekki stórmannlegt að fresta ekki uppgjöfinni, þar til reynt hefur verið að semja við ESB um þetta mál í ljósi mikilvægis þess hérlendis.  Síðan á hiklaust að leggja niðurstöðuna í þjóðaratkvæði, því að það hljóta óhjákvæmilega senn að verða vatnaskil í afstöðunni til EES.  Við getum ekki lengur látið ESB leiða okkur til "æ nánari samruna" á Innri markaðinum.  Það hefur runnið upp fyrir Bretum, í Noregi er meirihluti gegn veru Noregs í EES samkvæmt skoðanakönnunum.  Ef/þegar Norðmenn hafna EES, lognast það samstundis útaf. 

Bjarni Jónsson, 2.1.2018 kl. 11:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband