Orkumál í uppnámi vegna ESB

Valdahlutföllin innan Evrópusambandsins (ESB) hafa þegar breytzt vegna ákvörðunar Breta um að yfirgefa sambandið.  Hlutur efasemdarmanna um æ nánari samruna ríkjanna á leið til sambandsríkis Evrópu í stað ríkjasambands hefur rýrnað við að missa rödd Bretlands úr hópnum, og sameiningarsinnar færa sig að sama skapi upp á skaptið. Nú á að láta kné fylgja kviði á sviði orkuflutninga á milli ríkja.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að flaggskip ESB er Innri markaður þess með frelsunum fjórum.  Árið 2009 var gefinn út bálkur tilskipana á orkusviði, t.d. 2009/72/ESB á sviði raforkuflutninga, sem miðaði að "fimmta frelsinu" á Innri markaðinum.  Flutningar á raforku og eldsneytisgasi skyldu verða frjálsir og hindrunarlausir á milli ríkjanna, og raforkuflutningana skyldi tvöfalda upp í 20 % af orkunotkun ESB-ríkjanna árið 2030. 

Ætlunin með þessu var að nýta tiltæka orku með hagkvæmasta hætti innan EES.  Til þess verður stofnaður orkumarkaður í hverju landi undir eftirliti útibús frá "Orkusamstarfsstofnun" ESB í hverju landi. Öll tiltæk orka á að fara á þennan markað, og nýir langtímasamningar um orkuviðskipti verða óheimilir innan ESB.  Hugmyndin var sú, að hægt verði að bjóða í orku, hvar sem er, hvaðan sem er, og flytja hana hindrunarlaust til bjóðandans með útjöfnuðum flutningskostnaði. 

Augljóslega mun þessi markaðsvæðing jafna út verðmun á raforku innan EES.  Þá hlýtur raforkuverðið óhjákvæmilega að hækka í Noregi og á Íslandi, þar sem íbúarnir hafa búið við u.þ.b. helmingi ódýrara rafmagn en íbúar ESB-ríkjunum. Þá mun hlutur endurnýjanlegrar orku af heildarorkunotkun í ESB vaxa við aukna raforkuflutninga á milli landa, og að sama skapi minnka í Noregi og á Íslandi, ef sæstrengir verða lagðir frá Íslandi til útlanda.   Til þess eru refirnir skornir í Berlaymont. 

Árið 2011 var stofnuð áðurgreind "Orkusamstarfsstofnun" ESB, ACER (Agency for the Cooperation of Energy Regulators) með aðsetri í Slóveníu.  ACER er samstarfsvettvangur orkustofnana ríkjanna með einum fulltrúa frá hverju EES-ríki, en aðeins ESB-ríkin eiga þar atkvæðisrétt.  Ákvarðanir eru bindandi og endanlegar, teknar með atkvæðagreiðslu, þar sem hreinn meirihluti atkvæða ræður.  ACER felur ESA-Eftirlitsstofnun EFTA með framkvæmd EES-samningsins-að framfylgja ákvörðunum sínum í EFTA-löndunum þremur innan EES, Noregi, Íslandi og Liechtenstein.  

Orkustofnun (OS) fer með stjórnsýslu orkumála á Íslandi undir yfirstjórn Auðlinda- og nýsköpunarráðuneytisins, A&N.  Eftir innleiðingu tilskipunar 2009/72/ESB á Íslandi verður OS þó aðeins svipur hjá sjón, því að útibú frá ACER verður stofnað á Íslandi, "Orkustjórnsýslustofnun"-OSS, sem felld verður undir hatt OS sem sjálfstæð stjórnsýslueining, og mun OSS taka við orkustjórnsýsluhlutverki OS að miklu leyti og á að verða óháð ráðuneyti orkumála, öðrum innlendum stofnunum og fyrirtækjum, en samt fara inn á íslenzku fjárlögin.  OSS mun hafa eftirlit með raforkumörkuðum á Íslandi og eiga samstarf við systurstofnanir sínar í EES.  OSS lýtur ekki boðvaldi neinna íslenzkra yfirvalda, heldur verður eins og ríki í ríkinu með eigin framkvæmdastjóra, skipuðum til 6 ára í senn, sem tekur við skipunum frá ESA.     

Ákvarðanir á vegum ACER munu ganga til ESA, sem sendir þær til OSS til framkvæmdar.  OSS útbýr tæknilega og viðskiptalega tengiskilmála fyrir flutningsmannvirki orku, en OS verður áfram leyfisveitandi. Önnur starfsemi OS en starfsemi OSS verður áfram undir yfirstjórn ráðuneytisins, A&N. Þetta er anzi ruglingslegt fyrirkomulag, sem býður upp á harkalega árekstra innanlands. 

Þetta er óviðunandi fyrirkomulag raforkumála fyrir Íslendinga.  Þeir missa með því lýðræðisleg stjórnunartök á ráðstöfun raforkunnar í hendur fjölþjóðlegrar stofnunar, ACER, þar sem þeir eru án atkvæðisréttar.  Það er hættulegur misskilningur, að áhættulítið sé fyrir Alþingi að samþykkja tillögu samstarfsnefndar ESB og EFTA frá 5. maí 2017 um að fella Þriðja orkulagabálk ESB inn í EES-samninginn.  Innan vébanda ACER er hvenær sem er hægt að ákveða að bjóða út sæstreng frá Íslandi ásamt lögn hans til meginlandsins með viðkomu á Bretlandi.  Það yrði í verkahring OSS að semja tæknilega og viðskiptalega tengiskilmála fyrir tengingar sæstrengja við stofnrafkerfi Íslands.  Hlutverk OS yrði eftir sem áður að gefa út starfræksluleyfi, en það er formsatriði, því að ekki verður séð, hvernig OS gæti hafnað starfræksluleyfi sæstrengs, sem uppfyllir alla setta skilmála.  Gildir þá einu, þótt innan OS og ráðuneytisins væri vilji til að vernda íslenzkar fjölskyldur og fyrirtæki gegn beinni samkeppni erlendis frá um raforkuna.  

Eins og í pottinn er búið, verður að draga stórlega í efa, að innan ACER sé hægt að taka ákvörðun, sem sé lagalega bindandi fyrir Ísland.  Ríkisstjórn Íslands hyggst þó leggja frumvarp fyrir Alþingi, jafnvel vorið 2018, um að fara að tillögu samstarfsnefndar ESB og EFTA og samþykkja Þriðja orkulagabálk ESB sem hluta af EES-samninginum.  Ef Alþingi samþykkir þetta, er í leikmannsaugum augljóslega verið að fórna fullveldi landsins á mikilvægu sviði án nokkurs ávinnings fyrir landið.  Þvert á móti gæti þessi innleiðing valdið hér stórtjóni, hækkað raforkuverð gríðarlega til allra notenda án langtímasamnings og stórskaðað samkeppnishæfni nánast allra fyrirtækja í landinu.  Afleiðing af slíku er stórfelld lífskjararýrnun landsmanna.  Er meirihluti fyrir slíku á Alþingi ?  Fróðlegt væri að sjá almenna skoðanakönnun hérlendis um fylgi við þessa ráðstöfun, sem að mestu hefur legið í þagnargildi hingað til.  Í Noregi eru 18 % aðspurðra fylgjandi þessu ráðslagi, 38 % óákveðnir og 44 % andvígir.  Umræða mun á næstunni fækka hinum óákveðnu, því að Stórþingið mun taka málið til afgreiðslu í marz 2018.  Verður spennandi að sjá, hvort Stórþingsmenn munu ganga á hólm við kjósendur sína og lúta vilja ríkisstjórnar og stórs hluta embættismannaveldisins. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Snorri Hansson

Þegar ég byrjaði að lesa þessa grein átti ég ekki von á þessum ósköpum. Að Íslendingar komi jafnvel til með að samþykkja algjör yfirráð ESB á ráðstöfunarrétti á Íslenskri orkuframleiðslu og þá væntanlega í framhaldi við það nýtingu orkukosta.!!?  Umræðan verður að fara í gang !!  

Snorri Hansson, 10.1.2018 kl. 16:59

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Umræðan er lengra komin í Noregi, enda er styttra í, að Stórþingið fjalli um málið en Alþingi.  Mikill meirihluti Norðmanna virðist vera andvígur því að ráðstafa "erfðasilfrinu" til ESB, og það gefur von um, að Stórþingsmenn muni fresta afgreiðslu eða hafna því að gera "orkusambandið" að hluta EES-samningsins.  Þá munu koma hik á Alþingismenn.  Þeir munu verða undir smásjánni, ef/þegar þetta mál kemur til afgreiðslu þingsins.  Það mun vera ráðgert í vor. Með ACER getur hæstbjóðandi í Evrópu læst klónum í umhverfisvæna raforku, hvar sem til hennar næst, ef tenging er fyrir hendi, og það verður ekki á valdi íslenzkra yfirvalda að stöðva tengingu íslenzka stofnkerfisins við aflsæstreng, ef ACER ákveður, að hann skuli verða lagður.  

Bjarni Jónsson, 10.1.2018 kl. 18:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband