Efling Alþingis

Fyrsti kafli Stjórnarsáttmálans á eftir Inngangi heitir "Efling Alþingis".  Þar er þó ekki snert við málaflokki, hvar niðurlæging Alþingis er mest, heldur látið svo heita, að eflingu Alþingis megi helzt verða það til framdráttar, að fá að skipa í margvíslegar þverpólitískar nefndir.  Er óhætt að fullyrða, að þarna er heldur betur sleginn falskur tónn í upphafi téðs sáttmála:

"Á fyrri hluta kjörtímabilsins verða settir á fót þverpólitískir hópar í samráði við viðkomandi fagráðherra, m.a. um stofnun miðhálendisþjóðgarðs, nýsköpunarstefnu, þróun mælikvarða um hagsæld og lífsgæði, orkustefnu, stjórnarskrá, framkvæmd og endurskoðun útlendingalaga og framtíðarnefnd um áskoranir og tækifæri vegna tæknibreytinga."

Það er skrýtið að setja þetta í stjórnarsáttmála, því að í þessari romsu um fyrirhugaðar nefndarskipanir ráðherranna felst engin stefnumörkun.  Það getur varla orðið til eflingar Alþingis, að þingmenn fái að sitja í nefndum eða að koma að skipan slíkra. 

Það gæti t.d. orðið til eflingar Alþingis að fara að ráði Vigdísar Hauksdóttur, fyrrverandi Alþingismanns, að efla lagaskrifstofu Alþingis, sem rýna mundi lagafrumvörp m.t.t. þess, hvort þau kunni að stangast á við stjórnlög eða önnur lög og hvort afnema megi að skaðlausu eldri lög samhliða gildistöku nýrra.

Þá hefur það vafalaust á sínum tíma verið hugsað til eflingar Alþingis, að þingmenn skyldu rýna val dómsmálaráðherra á dómurum, t.d. við Landsrétt, sem mest er í umræðunni nú, og samþykkja val ráðherrans eða að breyta því.  Með því liggur í augum uppi, að þingið, yfirboðari ráðherrans, tekur af honum ábyrgðina, sem hann annars ber samkvæmt Stjórnarskrá.  Í þessu sambandi er þá ekki lengur aðalatriði, hvernig ráðherra komst að niðurstöðu sinni.  Að matsnefndin skyldi ekki veita ráðherranum neitt svigrúm um val, er áfellisdómur yfir ábyrgðarlausri matsnefnd, en ráðherrann sinnti rýniskyldu sinni innan þess þrönga tímafrests, sem henni var settur í lögum.  

Á meðal Alþingismanna má virkja betur sérfræðiþekkingu á ýmsum sviðum með því að efla aðstoð við þá á Alþingi í stað þess að kaupa að rándýra sérfræðiþjónustu. Þetta væri til þess fallið að spara fé og að efla sjálfstæði þingsins.  

Þó yrði eflingu og virðingu Alþingis það mest til framdráttar, ef ákveðið yrði, að nóg væri komið af því að gegna "stimpilhlutverki" á Íslandi fyrir tilskipanir frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, ESB, og fyrir lög frá þingi ESB, s.k. Evrópuþingi, sem er rangnefni.  Á 24 ára skeiði aðildar Íslands að EES-Evrópska efnahagssvæðinu, hefa að jafnaði á hverju ári verið tekin 460 lög í íslenzka lagasafnið og reglugerðir í opinbera reglugerðasafnið hérlendis.  Þetta eru að öllum líkindum meiri afköst en afköst þings og embættismanna í málum af innlendum uppruna.  Þetta flóð frá búrókrötum í Brüssel hefur tekið út yfir allan þjófabálk og gert íslenzka embættismenn að þjónum ESB og svipt íslenzka þingmenn raunverulegu löggjafarvaldi í miklum mæli. 

Hafa ber í huga, að flestar gerðir ESB, sem teknar eru inn í EES-samninginn, hafa kostnað í för með sér fyrir hið opinbera, fyrir atvinnulífið og þar með að lokum fyrir þjóðina alla.  Hversu mikill þessi "skriffinnsku- og eftirlitskostnaður" í raun er, er afar mikilvægt að leggja mat á.  Við þetta þarf að bæta beinum útlögðum kostnaði vegna aðildarinnar að EES-samninginum, og taka þar með ferðir og uppihald vegna s.k. samráðsfunda EFTA og ESB, sem ekki verður séð, að neinu handföstu hafi skilað, ásamt þýðingarkostnaði á 11´000 "gjörðum" á 24 árum.

Þennan kostnað þarf að bera saman við ávinninginn, sem er t.d. fólginn í meintum mismuni á viðskiptakjörum Íslands, Noregs og Liechtenstein við ESB annars vegar og hins vegar kjörum í viðskiptasamningi Svisslands og ESB eða bera saman við nýgerðan viðskiptasamning Kanada við ESB. 

Blekbóndi ætlar hér að gerast svo djarfur að varpa fram þeirri tilgátu, að EES-samningurinn sé fjárhagslega óhagstæðari, svo að hafið sé yfir allan vafa. Með uppsögn EES-samningsins og gerð tvíhliða viðskiptasamnings, sem samningur Kanada og ESB gæti verið fyrirmyndin að, losna þjóðþing Noregs og Íslands við gagnrýni um, að þau brjóti stjórnarskrár landanna með því að taka viðurhlutamiklar gerðir ESB upp í lagasöfn sín.  

Þar er nú að komast í eldlínuna "Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB".  Óhætt er að segja, að hann feli í sér stórfellt fullveldisframsal fyrir bæði Ísland og Noreg, því að með samþykkt hans færa þjóðþingin miðlægri orkustjórnsýslustofnun ESB, sem nefnist því sakleysislega nafni "Agency for the Cooperation of Energy Regulators-ACER" völd yfir raforkuflutningsmálum ríkjanna, þ.e. yfir meginhluta Orkustofnunar og alfarið yfir Landsneti hérlendis.  Út frá hagsmunamati fyrir Ísland og Noreg er þetta allt of langt gengið.  "Þriðji orkumarkaðslagabálkur" ESB er í viðamiklum og áferðarfallegum umbúðum og þjónar sjálfsagt hagsmunum meginlandsríkja Evrópu, en aðstæður í orkumálum Noregs og Íslands eru gjörólíkar aðstæðum á meginlandinu, og hagsmunir þessara tveggja Norðurlands samræmast ekki orkuhagsmunum meginlandsins.  Vonandi átta nægilega margir Alþingismenn sig á því í tæka tíð.    

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband