Borgarlína stendst ekki samkeppni

Það er og verður á næstu 20 árum gríðarleg samkeppni um féð, sem Alþingi samþykkir að ráðstafa í samgöngumálin. Þá kemur ekki til mála að leggja úrelta hugmyndafræði í höfði fáeinna skipulagsmanna, stjórnmálamanna og áhugamanna um skipulagsmál (amatöra) til grundvallar, heldur verður að íhuga slysafækkun, tímasparnað og orkusparnað vegfarenda ásamt viðhaldssparnaði vega og tækja að ógleymdum sanngirnissjónarmiðum, þegar ákvörðun um fjárveitingu til samgönguverkefna er tekin. Annars er hætt við, að miklum verðmætum verði á glæ kastað.  

Viðfangsefnið á höfuðborgarsvæðinu er að endurbæta nokkur frumstæð gatnamót, sem setið hafa á hakanum, sumpart sakir áhugaleysis borgaryfirvalda og sumpart vegna verkefna, sem þingmenn hafa sett framar í forgangsröð Vegaáætlunar.  Þessi gatnamót eru allt of hættuleg og afkastalítil fyrir núverandi umferðarálag, hvað þá framtíðarálag, sem vex svipað og landsframleiðslan.  Fyrir vikið eru þau hættuleg, og  ótrúlegt slugs við úrbætur er dýrkeypt á formi harmleikja, árekstra án manntjóns og tíma- og eldsneytissóunar í umferðarbiðröðum, sem þar myndast. Skilvirkasta lausnin er sums staðar að grafa fyrir umferðarstokkum og annars staðar að reisa brýr og leggja vegslaufur og koma þannig upp mislægum gatnamótum af mismunandi gerðum eftir aðstæðum.  Mislæg gatnamót munu kosta miaISK 1,0-2,0 per stk.

Til eru þeir, sem líta hvorki á umferðina né þörf fólks fyrir húsnæði sem viðfangsefni tæknilegs og fjárhagslegs eðlis, heldur sem tækifæri til að breyta smekk og lífsvenjum fólks eftir eigin höfði.  Þeir líta talsvert til útlanda eftir lausnum, en átta sig ekki á því, að til að erlendar fyrirmyndir verði raungerðar með árangursríkum hætti hérlendis, verða forsendur að vera sambærilegar hér og þar.

Forræðishyggjusinnar, sem vilja móta lífshætti almennings að eigin smekk og skoðunum, sem mörgum þykja æði forneskjuleg og sérvizkuleg, vilja beina auknum ferðafjölda í strætisvagna með sérakreinum eða jafnvel í járnbrautarlestir. Þessi hugmyndafræði gengur ekki upp, og að reyna það verður dýrt spaug.  Veðurfar á Íslandi gerir þetta óaðlaðandi ferðamáta, og hann er óþægilegri, tímafrekari og jafnvel dýrari en að fara ferða sinna á fjölskyldubílnum.  Sé hann  rafknúinn, þá er hann ódýrari og mengunarminni (per mann) en strætisvagninn. 

Hann er ódýrari að því gefnu, að fjölskyldan telji sig hvort sem er þurfa á einkabíl að halda.  Fjölskyldubíllinn er oft samnýttur kvölds og morgna. Þá er íbúafjöldinn á svæði Borgarlínu alls ekki nægur fyrir arðsaman rekstur hennar, þótt annað væri sambærilegt við útlönd, og má þó einu gilda, hversu mjög borgar- og bæjaryfirvöld rembast sem rjúpan við staurinn við að þétta byggð meðfram henni, með ósanngjarnri og jafnvel óleyfilegri gjaldtöku af húsbyggjendum til að fjármagna gjörsamlega ótímabært verkefni. Sú gjaldtaka er fyrir neðan allar hellur og brottrekstrarsök fyrir þá borgar- og bæjarfulltrúa, sem hana hafa stutt.   

Af þessum sökum hefur hvorki gengið né rekið með að auka hlutdeild strætisvagna í ferðafjölda á höfuðborgarsvæðinu.  Hún er enn 4,0 % af heildar ferðafjölda þrátt fyrir fjáraustur í hítina.  Forsjárhyggjumenn byggja mikla loftkastala nú á undirbúningsstigum s.k. Borgarlínu og gefa sér, að hún dugi til þreföldunar hlutdeildar strætisvagnanna í ferðafjölda.  Þetta er algerlega borin von; það er ekkert, sem styður þessa draumsýn.  Þvert á móti er sama, hversu miklu fé er ausið í þennan félagslega ferðamáta, síðustu árin úr ríkissjóði tæplega 1,0 miaISK/ár, þá metur fólk þægindin og tíma sinn nægilega mikils virði, til að strætisvagnar gegna enn og munu gegna jaðarhlutverki í ferðum á landinu bláa (blauta, kalda og vindasama).

Það er alveg sama, hversu miklu fé verður ausið í Borgarlínu á næstu árum, umferðaröngþveitið á svæði hennar mun ekkert skána, ef engar framfarir verða á núverandi vegakerfi.  Af þessum sökum er verið að dúka hér fyrir peningalega hít og fjárfestingarhneyksli, fullkomna sóun almannafjár.  Þetta er þyngra en tárum taki, því að vegfarendur um allt land hrópa á umbætur á vegakerfinu, og peningarnir koma úr ríkissjóði, nema þar sem einkaframkvæmd verður samþykkt.  Það kemur af þessum sökum ekki til mála, að þingmenn setji Borgarlínu á 12 ára Vegaáætlun.

Í Bandaríkjunum hefur verið áætlað (The Economist 20.01.2018-Jam tomorrow), að umferðaröngþveiti kosti um 500 miaUSD/ár.  Fært yfir á íslenzkar aðstæður eru þetta um 50 miaISK/ár.  Það er hægt að leysa þetta vandamál til 20 ára með fjárfestingu upp á miaISK 20 í mislægum gatnamótum, vegstokkum og fjölgun akreina.  Þetta er svipuð upphæð og skipulagsyfirvöld á höfuðborgarsvæðinu hyggjast setja í fyrsta hluta Borgarlínunnar, og það verður þá að koma frá ríkissjóði, því að borgarsjóður hefur ekkert bolmagn, enda er hann á leiðinni í gjörgæzlu að öllu óbreyttu.

Fé er ekki til fyrir úrelt gæluverkefni á borð við Borgarlínu.  Næsta átak á höfuðborgarsvæðinu á eftir ofangreindri mannvirkjagerð verður að undirbúa göturnar með skynjara- og sendibúnaði til samskipta við sjálfakandi farartæki.  Með vel heppnaðri innleiðingu slíks búnaðar, sem þolir íslenzkar aðstæður, ætti slysatíðni að minnka, nýting gatna að batna og kostnaður vegna tafa að minnka, því að farþegar geta þá nýtt ferðatímann til einhvers nýtilegs.

Fyrrverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Jón Gunnarsson, Alþingismaður, skrifaði grein í Morgunblaðið, 25. janúar 2018, þar sem hann útlistaði fjármagnsþörf vegakerfisins á Vestfjörðum og á Vesturlandi.  Komst hann að þeirri niðurstöðu, að brýn fjárfestingarþörf á Vestfjörðum næmi miaISK 30 og á Vesturlandi miaISK 20, eða alls miaISK 50. Er þá Sundabraut ekki meðtalin.  Heildarfjárfestingarþörf vegakerfis landsins, að höfuðborgarsvæðinu meðtöldu (án Borgarlínu, en með Sundabraut), er þá ekki undir miaISK 250.  Þessar tölur sýna svart á hvítu, að það eru engir peningar til fyrir Borgarlínu.

Grein Jóns,

"Ákall um aðgerðir - Vesturland og Vestfirðir", 

hófst þannig:

"Það er þyngra en tárum taki að horfa upp á ástand þjóðvegakerfisins á Vesturlandi og á Vestfjörðum.  Á þessu svæði er ástandið sennilega hvað verst á landsvísu og brýnust þörf fyrir úrbætur til að fylgja eftir kröfum almennings og atvinnulífs."

Greininni lauk þannig:

"Það er engin þolinmæði hjá almenningi, hvorki á þessu svæði [Vestfjörðum og Vesturlandi] né annars staðar, til að bíða í áratugi eftir þessum framkvæmdum.  Lélegar samgöngur hafa enda mjög hamlandi áhrif á alla uppbyggingu atvinnulífs á svæðinu." 

 Ráðhús Reykjavíkur


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Það er sérviska að skrifa "sérvizka", enda er það nú yfirleitt þannig að sérvitrir menn telja sjálfa sig ekki sérvitra eða "amatöra" og vita allt best sjálfir, ekki einungis í Reykjavík, heldur á öllu höfuðborgarsvæðinu.

Þorsteinn Briem, 4.2.2018 kl. 15:33

2 Smámynd: Jónatan Karlsson

Auðvitað eru brýr og mislæg gatnamót nauðsynleg í vaxandi umferð, en ekki síður þó lítilsháttar framlag frá yfirvöldum t.d. í formi eins lögregluþjóns í umferðargæslu á annatíma á stór ljósastýrð gatnamót, þar sem allt er stíflað í hnút og aðalega vegna þess að bílar troða sér ítrekað inn á gatnamótin á gulu og jafnvel rauðu til að sleppa yfir, en valda með þeirri hegðun að gatnamótin ná ekki að tæmast fyrir bílana sem fá grænt ljós og komast hvergi vegna fyrrnefndra bjána.

Það er reyndar alveg stórfurðulegt að borgarfulltrúar okkar hafi ekki tekið eftir lögregluþjónum við umferðarstjórn á öllum kynnisferðum sínum erlendis.

Jónatan Karlsson, 4.2.2018 kl. 16:35

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Varðandi sérvizku: ég tel nú, að orðið íhaldssemi lýsi betur viljanum til að halda í alla bókstafi íslenzka stafrófsins en sérvizka.  Það var aftur á móti af hreinni fordild, að ákveðið var á sínum tíma að kasta z á dyr, eða kannast menn við eitthvert annað ríki í Evrópu, þar sem slíkt hefur verið gert á s.l. 100 árum ?  

Muni ég rétt voru "rökin" þau að einfalda stafsetningarkennsluna.  Reglur um z eru þó með auðlærðari stafsetningarreglum, því að þær eru rökréttar, en ritarinn þarf að leita rótarinnar.

Það er alveg rétt, Jónatan, að ástandinu á fjölförnum gatnamótum á annatímum má lýsa sem öngþveiti, og þess vegna mundi umferðin fljóta þar betur, ef lögreglan væri tiltæk til að grípa inn í.

Bjarni Jónsson, 4.2.2018 kl. 17:30

4 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Sérvizku ritarinn hefur sennilega sloppið við að læra auðlærðu regluna um Z,ég man vel eftir karpinu um hvort Íslendingar ættu að sleppa henni.Nei Bjarni ekkert ríki í Evrópu hefði kastað sérkennum fagurrar tungu.

Helga Kristjánsdóttir, 5.2.2018 kl. 03:37

5 Smámynd: Bjarni Jónsson

Ég dvaldi erlendis, þegar sá furðugjörningur fór fram, að fjarlægja staf úr íslenzka stafrófinu, sem þar hefur verið frá öndverðu.  Það var fyrrverandi Þjóðviljaritstjóri, Magnús Torfi Ólafsson, menntamálaráðherra, sem stóð fyrir þessum einstæða og vanhugsaða gjörningi.  Fyrir vikið verða sumar orðmyndanir á íslenzku afstyrmislegar, t.d.: það hefur rætzt úr honum, er nú skrifað: það hefur ræst úr honum, sem gæti tengzt niðurgangi.  

Bjarni Jónsson, 5.2.2018 kl. 09:45

6 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Ég fæ ekki séð hvernig ríkissjóður ætti að koma að þessu gæluverkefni Dags og co. og fjármagna svo kallaða "Borgarlínu", mér sýnist ríkissjóður eiga fullt í fangi með það sem fram undan er í ríkisframkvæmdum, Reykjavíkurborg hefur alla vega ekki efni á að koma að þessu verkefni. Byggja á nýjan Landsspítala, efla getu þjóðarspítala til að sinna hlutverki sínu, sinna vegamálum úti á landi ekki síður en á höfuðborgarsvæðinu, efla löggæslu og dómsvald svo allt fari ekki úr skorðum í þjóðfélaginu, sinna fræðslumálum betur en gert er, mæta gæluverkefnum ráðherra og annarra stjórnarliða svo eitthvað sé nefnt.

Menn eru að gæla við að "Borgarlínan" muni kosta einhverstaðar á bilinu 50 til 80milljarða, ef ég man rétt, en ef varlega er farið má margfalda þá tölu um alla vega með tölunni tveir eða þrír. Ég hins vegar vil halda því fram að sú upphæð sem út úr þeirri reiknikúnst kæmi sé verulega vanmetin, ég gæti vel ímyndað mér tölu í kring um 500milljarða og gef mér það að áætlanir sérfræðinga hafa aldrei verið í takt við raunveruleikann, má þar nefna Vaðlaheiðagöng sem dæmi.

Tómas Ibsen Halldórsson, 5.2.2018 kl. 15:58

7 Smámynd: Bjarni Jónsson

Það eru einfaldlega engir peningar til í þetta "gæluverkefni", Tómas Ibsen.  Gárungar hafa haldið því fram, að þar sem mikil óvissa ríki um áætlanagerð hins opinbera, megi margfalda kostnaðaráætlun með pí, og þá erum við nálægt miaISK 200.  Síðan kemur rekstrarkostnaðurinn.  Þeir, sem eru sömu skoðunar og borgarstjóri, að mislæg gatnamót færi bara umferðarteppu yfir á önnur gatnamót, styðja auðvitað Borgarlínu.  Þetta er hins vegar ein stækasta útgáfa nauðhyggju, sem ég hef orðið vitni að.

Bjarni Jónsson, 7.2.2018 kl. 13:25

8 Smámynd: Baldinn

Ef áætlannir sýna að íbúa fjölgun á höfuðborgarsvæðinu verði um 80.000 manns á næstu 20-25 árum að þá verðum við að mínu áliti að fara að hugsa um í hverkonar biorg við viljum búa.  Ef við gefum okkur að tveir séu um bíl að þá er þetta 40.000 bílar í viðbót í umferðina og svo 40.000 bílastæði til að geyma bílana.  Borg sem verður þá að stórum hluta umferða mannvirki og bílasrtæði er varla það sem neinn vill Þetta sem þú kallar " gæluverkefni " er eitthvað sem hlýtur að koma spurningin er bara hvenær. Nú skrifa ég þetta án þess að vera búin að setja mig vel inn í + og - í krónum talið en vildi koma þessum punktum inn í umræðuna.

Hér talar Tómas um að þetta sé gæluverkefni Dags og co.  Þeir sem hafa viljann til að heyra og vita þá að þetta er verkefni allra sveitafélaganna á Höfuðborgarsvæðinu og og líka allra flokka sem þar stjórna.  Er þetta þá gæluverkefni Gunnars Einarssonar í Garðabæ eða Ármanns í Kópavogi.

Er ekki líka nauðhyggja að neyða alla í einkabílinn og varla er það þjóðhagslega jákvætt.

Baldinn, 7.2.2018 kl. 15:03

9 Smámynd: Bjarni Jónsson

Stór hluti væntanlegrar fjölgunar eru gamalmenni, og þau eru lítið á ferðinni í umferðinni á mestu annatímum.  Hins vegar hef ég ekki mælt gegn því að taka frá land fyrir umferðarmænu af þessu tagi, þótt slíkt kosti auðvitað fé einnig.  Ég tel hins vegar aðrar lausnir miklu nærtækari á næstu 10-20 árum og hafna algerlega kenningu hins læknisfræðimenntaða borgarstjóra, að "lækning" einnar umferðarstíflu leiði bara til annarrar stíflu, og þess vegna sé bezt að gera ekki neitt.  Það kalla ég nauðhyggju.  Ég býð ekki í það, ef þessi er afstaða hans til sjúklings með 4 æðastíflur í röð.  Eini munurinn er sá, að læknirinn fjarlægir allar í einu, en verkfræðingurinn verður oftast að láta sér lynda að fjarlægja eina í einu.  

Bjarni Jónsson, 7.2.2018 kl. 18:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband