Næst er það orkusamband

Með vísun til stjórnarskráar sinnar, Lissabon-sáttmálans, sækir Evrópusambandið-ESB nú fram til aukinnar miðstjórnar aðildarríkjanna og EFTA-ríkjanna í EES á hverju sviðinu á fætur öðru.  Nú hefur verið samþykkt á samstarfsvettvangi ESB og EFTA, að orkumál verði næsta viðfangsefni æ nánari samruna (an ever closer union). Þetta mun koma hart niður á hagsmunum Íslendinga og Norðmanna, sem hafa mjög svipaðra hagsmuna að gæta innbyrðis, en eru í ósambærilegri stöðu við ESB-ríkin í orkumálum. 

Þetta stafar af því, að Norðurlöndin tvö framleiða nánast alla sína raforku úr endurnýjanlegum orkulindum, og þar er enginn hörgull á raforku á hagstæðu verði fyrir notendur, nema staðbundið á Íslandi vegna flutningsannmarka, sem er sjálfskaparvíti. ESB-löndin flytja inn gríðarmikið af orku, rafmagni, gasi og olíu, aðeins 13 % orkunotkunarinnar er sjálfbær og raforkan er þar dýr.  

Í Noregi eru um 20 TWh/ár af raforku til reiðu á markaði umfram innlenda raforkuþörf eða 15 % af vinnslugetu vatnsaflsvirkjana þar í landi.  Þetta er aðeins meira en nemur allri raforkuvinnslu Íslands og er óeðlilega mikið, en stafar af lokun verksmiðja, betri nýtni í notendabúnaði og í virkjunum við uppfærslu þeirra ásamt fjölda nýrra smávirkjana.  Á Íslandi er yfirleitt sáralítil umframorka, þótt forstjóri Landsvirkjunar tilfæri hana sem rök fyrir aflsæstreng til útlanda, og ótryggða orkan er seld tiltölulega háu verði, sem gefur til kynna lítið framboð. 

Hins vegar getur snögglega orðið breyting á þessu, og það er orkustjórnsýslustofnun ESB, ACER, sjálfsagt kunnugt um.  Yfirlýsingar frá framkvæmdastjórn ESB sýna áhuga hennar á að samþætta Noreg í raforkunet ESB, og þá er ekki ósennilegt, að hún renni hýru auga til Íslands, þar sem raforkunotkun á mann er mest í heiminum. Tækin til þess eru að yfirtaka ráðstöfunarrétt raforkunnar með því að flytja æðsta vald raforkuflutningsmála í ríkjunum til ACER, leggja sæstrengi, stofna raforkumarkað og samtengja í hvoru landi og samtengja þá við raforkumarkaði ESB.  BINGO. Raforkan mun stíga í verði í Noregi og á Íslandi og fara til hæstbjóðanda.  Á skrifborði búrókrata kann þetta að líta vel út, en það eru fórnarlömb í þessum viðskiptum: almenningur á Íslandi og í Noregi.  

Í árbók 2018 norsku andófssamtakanna "Nei við ESB" er mikinn fróðleik að finna um ESB, þ.á.m. um "Orkusamband ESB".  Arne Byrkjeflot, stjórnmálaráðgjafi "Nei við ESB" á þar greinina "Energiunionen neste", og er hér að neðan einn kafli þaðan:

"ESB krefst ekki eignarréttarins, það krefst ráðstöfunarréttarins":

"Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB gefur tilefni til að ræða um varanlega auðlind okkar, fossaaflið, í víðu samhengi.  Í þetta skiptið snýst málið ekki um eignarhaldið, heldur um það, hver á að stjórna og setja reglur um nýtingu rafmagnsins.  Það snýst um völd yfir innviðum.  ESB hefur auk þess kynnt áætlun sína um þróun orkusambands síns. Stefnan er sú, að öll tiltæk raforka skuli streyma frjálst yfir landamæri, þannig að þeir, sem mest eru reiðubúnir að borga, fái orkuna.  Þeir geta þá pantað orkuna, hvaðan sem er, frá Nordland (fylki í Noregi) eða frá Bretagne skaga Frakklands.  Þeir fá raforkuna á sama verði og þeir, sem búa við fossinn eða við virkjunina.  Rafmagn er eina varan, sem seld er samkvæmt frímerkisreglunni.

Grunnhugmyndin er sú, að þannig fáist rétt verðlagning á rafmagnið og að það verði þá notað á hagkvæmasta hátt.  [Þetta minnir á málflutning Viðreisnar varðandi verðlagningu á aflahlutdeildum sjávarútvegsins - innsk. BJo.]  Ef Norðmenn hefðu haft þessa stefnu í árdaga orkunýtingar, þá hefðu starfsleyfislögin aldrei verið samþykkt.  [Þessi lög skilyrtu starfsleyfi virkjana við orkunýtingu í héraði eða í dreifðum byggðum Noregs, og voru í staðinn gerðir langtíma orkusamningar á hagstæðu verði fyrir iðjufyrirtækin, sem tryggði alþjóðlega samkeppnishæfni þeirra - innsk. BJo.]"

Á Íslandi verður uppi sama staða og í Noregi eftir lagningu fyrsta aflsæstrengsins til Íslands.  Ef Alþingi samþykkir innleiðingu "Þriðja orkumarkaðslagabálks" ESB í íslenzkt lagasafn, þá missa lýðræðislega kjörin yfirvöld á Íslandi völd á því til ACER (Stjórnsýslustofnun ESB um orkumál), hvort og hvenær slíkur aflsæstrengur verður lagður, og hvar hann verður tekinn í land og tengdur við íslenzka stofnkerfið, og hvernig rekstri hans verður háttað.  Orkustofnun verður samkvæmt téðum lagabálki að töluverðu leyti (varðandi raforkumál) breytt í stofnun undir stjórn útibús ACER á Íslandi, og útibúið verður utan seilingar lýðræðislegra stjórnvalda og hagsmunaaðila á markaði.  Landsnet verður líka sett undir útibú ACER á Íslandi.

Aðild Íslands og Noregs að Orkusambandi ESB þjónar ekki hagsmunum Íslands og Noregs, nema síður sé.  Á þessum tveimur Norðurlöndum hefur áratugum saman öll raforka verið unnin á endurnýjanlegan og mengunarlítinn hátt.  Í ESB er þetta hlutfall um þessar mundir um 26 %, og þar er mikill þrýstingur á að hækka þetta hlutfall.  Það er ennfremur engin þörf á raforkuinnflutningi til þessara Norðurlanda, eins og til ESB, sem vanhagar bæði um eldsneyti og raforku.  

Með nýjum sæstrengjum frá Noregi til Bretlands og Þýzkalands og sæstreng frá Íslandi til Bretlands mun flutningsgeta sæstrengja til útlanda nema um helmingi af vinnslugetu virkjana í hvoru landi.  Það er ACER og útibú þess í Noregi og á Íslandi, sem ráða mun rekstri þessara sæstrengja, þ.e. afli á hverjum tíma og í hvora átt það er sent.  Orkuflutningurinn verður tiltölulega mikill vegna mikillar spurnar eftir grænni orku, og þetta mun leiða til mikillar verðhækkunar á raforku í báðum löndum.  Vegna mikils flutningskostnaðar, sem getur lent með ósanngjörnum hætti á Statnett í Noregi og Landsneti á Íslandi, gætu Íslendingar og Norðmenn lent í þeirri ókræsilegu stöðu að búa við hæsta raforkuverð í Evrópu og nota raforku að stórum hluta úr kolakyntum og kjarnorkuknúnum orkuverum, sem orka er flutt inn frá á nóttunni.  

Hér er um að ræða dæmigert sjálfskaparvíti, sem komið getur upp hjá smáþjóðum, sem ekki gá að sér í samskiptum við öflugt ríkjasamband, sem þróast í átt til sambandsríkis.  Það er engu líkara en nauðhyggja ráði för.  Þessi nauðhyggja snýst um, að Ísland og Noregur verði að vera aðilar að EES, annars sé voðinn vís.  Þetta er sams konar nauðhyggja og beitt var í hræðsluáróðri gegn Bretum 2016 í aðdraganda BREXIT-þjóðaratkvæðagreiðslunnar.  Þá var því spáð, að efnahagur Bretlands færi í kalda kol við útgöngu.  Það rættist auðvitað ekki.  Þvert á móti jókst hagvöxtur Bretlands og var meiri en hagvöxtur ESB.  

Enn eru menn við sama heygarðshornið.  Hvers vegna í ósköpunum ætti efnahagur Bretlands, Noregs og Íslands að versna við að losna úr viðjum ESB ?  Fríverzlunarsamningar munu tryggja snurðulaus viðskipti, og löndin losna við kostnað reglugerðafargans búrókrataveldisins í Brüssel auk mikilla beinna útgjalda til ESB á hverju ári.  Það mun renna upp fyrir fleiri þjóðum, að hag þeirra verður betur borgið utan en innan við múra ESB (Festung Europa).  Sýnt hefur verið fram á, að talsverð líkindi eru á, að árið 2027 verði lönd sambandsríkisins ESB 13 talsins og aðildarlönd tollabandalagsins EFTA verði 14 talsins.   

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Lissabon-sáttmálinn (Treaty of Lisbon):

 

 

 

    • "Withdrawal from the Union: the Treaty of Lisbon explicitly recognises for the first time the possibility for a Member State to withdraw from the Union."

     

    "Does the Treaty of Lisbon create a European army?

    No.
    Military capabilities remain in national hands. The Treaty foresees that Member States can make available civilian and military resources to the Union for the implementation of its Common Security and Defence operations.

    However, any Member State has the right to oppose such operations and all contributions to them will be always on a voluntary basis.

    A group of Member States who are willing and have the necessary capability will be able to undertake disarmament operations, humanitarian and rescue tasks, military advice and peace-keeping tasks. No Member State can be forced to participate in such operations."

    "Does the Treaty of Lisbon create a European "Super-State"?

    No.
    The Treaty of Lisbon is an international treaty agreed and ratified by sovereign Member States that agree to share some of their sovereignty in supranational cooperation.

    The Treaty of Lisbon acknowledges that the Union reflects the will of the Member States and their citizens, and that its powers stem from these States."

    "Do national parliaments have a greater say in European affairs?

    Yes. National parliaments are for the first time fully recognised as part of the democratic fabric of the European Union. Special arrangements are made to help national parliaments to become more closely involved in the work of the Union."

    "Does the Treaty of Lisbon increase the number of decisions taken in "Brussels"?

    No.
    The Treaty creates a basis for a more decentralized and transparent approach to implementing EU policies to help ensure that decisions are taken as close as possible to the citizen."

    "The Treaty entered into force on 1 December 2009."

    Lissabon-sáttmálinn - Treaty of Lisbon

    Þorsteinn Briem, 8.2.2018 kl. 14:49

    2 Smámynd: Þorsteinn Briem

    Nefndarálit meirihluta utanríkismálanefndar Alþingis um aðild Íslands að Evrópusambandinu:

    "Nefndin skoðaði ítarlega þau álitaefni er lúta að vatns- og orkuauðlindum, enda er þar um að ræða grundvallarþætti í auðlindanýtingu á Íslandi.

    Meirihlutinn leggur áherslu á að við þessa ítarlegu skoðun kom ekkert fram sem gefur ástæðu til að ætla að aðild að Evrópusambandinu hefði áhrif á íslenska hagsmuni á þessum sviðum og bendir í því sambandi einnig á að fyrirkomulag eignarhalds náttúruauðlinda er ekki viðfangsefni Evrópusambandsins, heldur alfarið á hendi aðildarríkjanna, þar sem innri markaðslöggjöfin tekur ekki á eignarhaldi.

    Því er ekki um að ræða yfirþjóðlega eign á auðlindum aðildarríkjanna.
    "

    Þorsteinn Briem, 8.2.2018 kl. 14:52

    3 Smámynd: Þorsteinn Briem

    Útlendingar, til að mynda Kínverjar, geta nú þegar átt helminginn af öllum aflakvóta íslenskra fiskiskipa en útlendingar hafa mjög lítið fjárfest í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum.

    23.11.2010:


    "Friðrik J. Arngrímsson, [nú fyrrverandi] framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) segir að lögin hafi alltaf verið skýr varðandi erlent eignarhald í sjávarútvegi.

    "Erlendir aðilar mega eiga allt að 49,99% óbeint, þó ekki ráðandi hlut, og svona hafa lögin verið lengi," segir Friðrik."

    "Nefnd um erlenda fjárfestingu hefur að undanförnu fjallað um málefni sjávarútvegsfyrirtækisins Storms Seafood sem er að hluta til í eigu kínversks fyrirtækis, Nautilius Fisheries.

    Eignarhlutur Kínverjanna er
    um 44%, beint og óbeint.

    Og niðurstaða nefndarinnar er að það sé löglegt."

    Þorsteinn Briem, 8.2.2018 kl. 14:57

    4 Smámynd: Þorsteinn Briem

    "Aðilar, sem njóta réttar hér á landi samkvæmt reglum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES) eða stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) um frjálsa för fólks, staðfesturétt, þjónustustarfsemi eða fjármagnsflutninga, geta öðlast heimild yfir fasteign hér á landi án leyfis dómsmálaráðherra, enda þótt þeir uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 1. gr. laga um eignarrétt og afnotarétt fasteigna."

    Reglugerð um rétt útlendinga, sem falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu, til að öðlast eignarrétt eða afnotarétt yfir fasteignum, nr. 702/2002

    Á Evrópska efnahagssvæðinu eru Evrópusambandsríkin, Ísland, Noregur og Liechtenstein og í EFTA eru Ísland, Noregur, Sviss og Liechtenstein.

    "Fasteign merkir í lögum þessum afmarkaðan hluta lands ásamt lífrænum og ólífrænum hlutum þess, réttindum sem því fylgja og þeim mannvirkjum sem varanlega er við landið skeytt."

    Jarðalög nr. 81/2004

    Þorsteinn Briem, 8.2.2018 kl. 14:58

    5 Smámynd: Kolbrún Hilmars

    Ísland er ekki aðili að Lissabon samningnum (Treaty of Lisbon).

    Kolbrún Hilmars, 8.2.2018 kl. 16:58

    6 Smámynd: Bjarni Jónsson

    Það er nú ekki öll sagan sögð með ofangreindum spurningum og svörum um Lissabon-sáttmálann.  Með honum eru ESB t.d. færðar umtalsverðar valdheimildir á orkusviðinu, og ágreiningur við Rússa, ótti við orkuskort og mikil notkun ósjálfbærrar orku í ESB hefur lyft orkumálunum hátt á verkefnaskrá ESB.

    Tilvitnanir um eignarhald á auðlindum og eignarrétt hér að ofan missa alveg marks, því að það er ráðstöfunarréttur raforkunnar, sem hér er til umfjöllunar.  Hann verður tekinn úr höndum lýðræðislega kjörinna stjórnvalda í hverju landi og færður stjórnvaldsstofnun ESB, ACER í Ljubljana, sem verður með útibú í hverju landi, sem verður óháð stjórnvöldum landsins og tekur aðeins við skipunum frá ACER.  Í EFTA-löndunum er ESA látin vera milliliður, svo að fullveldisframsalið sé ekki grímulaust. 

    Bjarni Jónsson, 8.2.2018 kl. 18:55

    Bæta við athugasemd

    Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

    Innskráning

    Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

    Hafðu samband