Sjálfstæð hugsun og EES

Ánægjuleg tíðindi bárust af Alþingi þriðjudaginn 6. febrúar 2018.  Þar var fjármála- og efnahagsráðherra í andsvörum um lög og/eða reglur um fjármálagerninga, en sem kunnugt er hafa bæði Alþingi og Stórþingið norska samþykkt að fella tilskipana- og lagabálka ESB (Evrópusambandsins) um sameiginlegt eftirlitskerfi með fjármálastofnunum inn í EES-samninginn. Sagði ráðherrann frá því, að langan tíma hefði tekið að mjaka ESB að viðunandi lausn þessara mála fyrir EFTA-ríkin, en það verður æ erfiðara og hefur t.d. ekki gengið varðandi orkumálin. Formaður Sjálfstæðisflokksins ræddi á almennari nótum um vaxandi ásælni ESB inn á svið, sem hingað til hafa verið alfarið á forræði lýðræðislega kjörinna fulltrúa hvers lands eða opinberra stofnana í hverju landi. 

Það var engu líkara en ráðherrann væri við þetta tækifæri með hugann við mál, sem er á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir vorþingið 2018 og fjallar einmitt um að fela nýlegri stofnun ESB, ACER (Agency for the Cooperation of Energy Regulators), sem hlotið hefur víðtækar valdheimildir frá æðstu stjórnstofnunum ESB á sviði orkumála, óskorað vald í hverju EES-landi á sviði orkuflutningsmála. Ekki nóg með það, heldur skal setja í hverju landi á laggirnar stofnun, óháða stjórnvöldum, en samt á fjárlögum hvers ríkis, sem stjórnar orkuflutningsmálum hvers lands og lýtur einvörðungu boðvaldi ACER.  Þeir lögfræðingar eru líklega vandfundnir, sem ekki sjá í þessu fyrirkomulagi felast meiri háttar og þar af leiðandi óviðunandi stjórnarskrárbrot. 

Við samþykki Alþingis á því að fella "Þriðja orkumarkaðslagabálk" ESB inn í EES-samninginn, verður sem sagt stofnað útibú frá ACER á Íslandi, sem verður algerlega utan seilingar rétt kjörinna yfirvalda á Íslandi, en mun engu að síður í krafti þessarar samþykktar Alþingis öðlast æðsta vald í málefnum raforkuflutninga á Íslandi.  Þar munu verða teknar ákvarðanir, sem áður voru á verksviði Orkustofnunar og á sviði Landsnets.  

Hér væri með þessu móti komin upp stjórnskipunarstaða á Íslandi (og í Noregi), sem er fordæmalaus, þ.e. yfirþjóðleg stofnun, ACER, skipar hér málum, sem varðar ekki aðeins stöðu ríkisins og málefni þess, heldur einnig beina hagsmuni fyrirtækja og einstaklinga og fyrirmæli frá yfirþjóðlegri stofnun, sem Ísland er ekki aðili að, til fyrirbrigðis, sem ekki lýtur innlendu stjórnvaldi.   Það sagði Bjarni Benediktsson í áður nefndum umræðum á Alþingi, að væri algerlega óásættanlegt fyrir Íslendinga.  

Þar með má ætla, að komin sé upp sú staða í ríkisstjórn, að stjórnarfrumvarp um valdatöku ACER á Íslandi á sviði raforkuflutninga innanlands og til og frá Íslandi um nýja sæstrengi, verði ekki lagt fram. Það er útilokað, að ráðherra orkumála leggi það fram í eigin nafni, enda skal efast um, að málið njóti meirihlutastuðnings á Alþingi, þótt ESB-sinnar séu vafalaust boðnir og búnir að greiða leið þessa víðtæka fullveldisframsals, sem mundi hafa djúptæk áhrif á hagsmuni allra landsmanna og til hins verra fyrir langflesta, eins og rakið hefur verið á þessu vefsetri.

Alþingi hefur í hendi sér að fresta afgreiðslu þessa frumvarps, komi það engu síður fram, og reyna ásamt Norðmönnum og Liechtensteinum að ná fram s.k. tveggja stoða lausn, sem tryggir hagsmuni EFTA-ríkjanna.  Þetta má þó kalla vonlausa leið, því að hún hefur verið reynd í a.m.k. 6 ár af mismunandi ríkisstjórnum í löndunum án árangurs. 

Það er einnig möguleiki hreinlega að fresta málinu um óákveðinn tíma.  Það mun þá koma til kasta ESA-Eftirlitsstofnunar EFTA, sem væntanlega kærir frestunina til EFTA-dómstólsins, sem líklega mun dæma, að frestunin sé brot á EES-samninginum. Þar við mun sitja.  Þessir aðilar geta ekki vísað EFTA-löndunum úr EES.  Hins vegar getur ESB sagt EES-samninginum upp, og það getur hvert EFTA-landanna þriggja, sem aðild á að EES, einnig.  Það væri svo sannarlega engin goðgá. Það er afar ólíklegt, að ráðherraráð ESB samþykki að segja EES-samninginum upp á þessum forsendum á meðan Bretar eru á leið út úr ESB og ótti steðjar að forystu ESB um, að flótti bresti í liðið.  

Í 200-mílum Morgunblaðsins birtist föstudaginn 9. febrúar 2018 fræðandi og vönduð grein eftir Hjört J. Guðmundsson undir fyrirsögninni:

Fullt tollfrelsi með sjávarafurðir.

Hún hófst þannig:

"Meðal þess, sem fríverzlunarsamningur Evrópusambandsins við Kanada, sem tók gildi í lok september á síðasta ári [2017], tekur til, eru viðskipti með sjávarafurðir.  Við gildistöku hans féllu niður tollar Evrópusambandsins af um 96 % allra tollskrárnúmera Evrópusambandsins á kanadískar sjávarafurðir, og á næstu 3-7 árum verður það, sem eftir stendur, einnig afnumið.  

Þannig er stefnt að því, að útflutningur á kanadískum sjávarafurðum til Evrópusambandsins verði 100 % tollfrjáls, þegar upp verður staðið samkvæmt því, sem fram kemur á vefsíðu ríkisstjórnar Kanada, þar sem fjallað er um tækifæri kanadískra útflutningsfyrirtækja, þegar kemur að útflutningi sjávarafurða til sambandsins."

Á sínum tíma, þegar færð voru rök fyrir nauðsyn inngöngu Íslands í EES, var tollfrjálst aðgengi íslenzka sjávarútvegsins að markaði ESB, höfuðröksemdin.  Hafi þetta einhvern tímann verið gild röksemd, er hún það ábyggilega ekki lengur, því að Íslandi mun vafalaust standa til boða fríverzlunarsamningur við Bretland og ESB af sama toga og Kanadasamningurinn, kjósi Íslendingar að segja skilið við EES.  

Hin frelsin 4 á Innri markaði EES eru Íslandi lítils virði, og sum þeirra hafa reynzt landsmönnum stórskaðleg eða munu reynast það í framtíðinni.  Hér er um að ræða frjálst flæði fjármagns, sem var undirrót bankahruns hér 2008, frjálst flæði þjónustu, sem valdið hefur árekstrum hér, t.d. í ferðageiranum, frjálst flæði fólks, sem með Schengen hefur opnað landamærin upp á gátt og valdið hættu, og frjálst flæði orku, t.d. raforku, sem ESB nú reynir með afarkostum að troða upp á EFTA-þjóðirnar.  

Ef Norðmenn og Íslendingar neita að bergja á þessum kaleik, þurfa þeir ekki að óttast afleiðingar, því að í versta tilviki endar málið með uppsögn EES-samningsins.  Þá munu taka við fríverzlunarsamningar, og staða þjóðanna verður ekki lakari eftir en áður.  Það er hægt að sýna fram á, að efnahagslega verður hún mun betri, a.m.k. ef í kjölfarið verður gengið rösklega til verks við grisjun laga- og reglugerðaskógarins frá ESB, sem er sniðinn við annars konar atvinnulíf og minna í sniðum en einkennandi er í ESB-ríkjunum.  

Undir lok greinar sinnar skrifaði Hjörtur:

"Þannig er ljóst, að þegar kemur að beinum tollum, hefur stjórnvöldum í Kanada tekizt að semja um betri aðgang að Innri markaði Evrópusambandsins fyrir kanadískar sjávarafurðir en Íslendingar og Norðmenn njóta í gegnum EES-samninginn, en aðgangurinn að markaði sambandsins fyrir sjávarfang hefur lengi verið talinn einn helzti kosturinn við aðild Íslands að samningnum.  Þannig er fríverzlunarsamningur Evrópusambandsins og Kanada líklegur til þess að leiða til aukinnar samkeppni við kanadísk útflutningsfyrirtæki. Jafnvel þó að íslenzkum stjórnvöldum tækist að tryggja sambærileg kjör fyrir íslenzk fyrirtæki."

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Eiríkur Bergmann Einarsson forstöðumaður Evrópufræðaseturs Háskólans á Bifröst:

"Til að mynda er Svíþjóð aðeins gert að innleiða hluta af heildar reglugerðaverki Evrópusambandsins.

Og ... okkur Íslendingum er nú þegar gert að innleiða ríflega 80% af öllum þeim lagareglum Evrópusambandsins sem Svíum er gert að innleiða."

Það er nú allt "fullveldið".

Og enginn stjórnmálaflokkur, sem á sæti á Alþingi, vill segja upp aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu.

Þorsteinn Briem, 15.2.2018 kl. 22:15

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

kosningastefnu Sjálfstæðisflokksins fyrir alþingiskosningarnar vorið 2013 stendur:

"Þjóðin tekur ákvörðun um aðildarviðræður við Evrópusambandið í þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu."

Í viðtali við Fréttablaðið 24. apríl 2013 sagði Bjarni Benediktsson formaður flokksins:

"Við höfum haft það sem hluta af okkar stefnu að opna fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu til að útkljá þetta mál og við munum standa við það."

Og daginn eftir á Stöð 2:

"Við viljum opna fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu og ég tel rétt að stefna að henni á fyrri hluta kjörtímabilsins."

Þorsteinn Briem, 15.2.2018 kl. 22:20

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

17.8.2015:

"Samkvæmt skoðanakönnun Gallup er helmingur landsmanna, 50,1%, andvígur aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Fylgjendur aðildar eru 34,2% en 15,6% segjast hvorki vera fylgjandi né andvígir inngöngu í sambandið."

Skoðanakannanir um aðild Íslands að Evrópusambandinu eru lítils virði þegar samningur um aðildina liggur ekki fyrir.

Tugþúsundir Íslendinga hafa ekki tekið afstöðu til aðildarinnar og aðrar tugþúsundir geta að sjálfsögðu skipt um skoðun í málinu.

Fólk tekur afstöðu til aðildarinnar fyrst og fremst út frá eigin hagsmunum, til að mynda afnámi verðtryggingar, mun lægri vöxtum og lækkuðu verði á mat- og drykkjarvörum með afnámi allra tolla á vörum frá Evrópusambandsríkjunum.

Og harla ólíklegt að meirihluti Íslendinga láti taka frá sér allar þessar kjarabætur.

Þorsteinn Briem, 15.2.2018 kl. 22:21

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ísland gæti fengið aðild að gengissamstarfi Evrópu, ERM II, þegar landið fengi aðild að Evrópusambandinu.

"The currency of Denmark, the krone (DKK), is pegged at approximately 7.46 kroner per euro through the ERM.

Although a September 2000 referendum rejected adopting the euro, the country in practice follows the policies set forth in the Economic and Monetary Union of the European Union and meets the economic convergence criteria needed to adopt the euro."

10.2.2015:

"Í Danmörku hafa lágir vextir á húsnæðislánum einnig styrkt efnahagslífið og komið því enn betur í gang.

Nú er hægt að fá lán til 30 ára með föstum 1,5 prósenta vöxtum en aldrei hefur verið boðið upp á lægri fasta vexti.

Þessi lán eru óverðtryggð."

Þorsteinn Briem, 15.2.2018 kl. 22:23

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

25.8.2015:


Þorsteinn Briem, 15.2.2018 kl. 22:24

6 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Ein almenn athugasemd Bjarni, það er allt of erfitt að lesa þennan texta hjá þér það er betra að hafa þetta í þrengra dálkaformi. Hvað um það. Pistillinn er mjög góður, þarfur og lýsir ágætlega þankagangi þeirra sem hugsa lengur en nef nær. Það er alveg ljóst í mínum huga og hefur verið lengi að þetta hjónaband muni deyja drottni sínum. Í bókstaflegri merkingu á ég við að EU mun deyja frá sínum söfnuði, innan frá. Það eitt, sem þú segir réttilega, að við munum ekki ráða því hvert og í hvað okkar orka fer, er auðvitað í raun þaulskipulagt að hálfu þeirra sem setja slíkt fram. Þeir sem munu halda því fram að þetta sé nauðsynlegt út frá einhverjum sjónarmiðum Íslendinga ná því ekki að kallast sauðir, gáfulega séð. Sjávarafurðirnar eru sér kapítuli, þar eigum við forskot inn á aðra markaði sem umrætt Kanada hefur ekki, og ekki einu sinni önnur lönd innan EES ef út í það er farið. Fyrst svo er, hví að hengja sig á aðra?

Sindri Karl Sigurðsson, 16.2.2018 kl. 01:54

7 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Bjarni og þakka góða og skelegga grein.

Það opinberast vel í athugasemdum, hér fyrir ofan, að læsi Íslendinga fer þverrandi. Steini kemur hér með alls 5 athugasemdir, þar sem hann fer um víðan völl en þó minnst varðandi efni pistilsins. Ekki að sjá að hann skilji um hvað pistillinn fjallar, þ.e. ef honum hefur þá tekist að lesa hann.

Kveðja

Gunnar Heiðarsson, 16.2.2018 kl. 08:51

8 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Gunnar Heiðarsson;

Ég er farinn að halda, að s.k. Steini Briem sé róbóti.  Þegar ég birti vefgrein um EES eða ESB, þá fer af stað upplýsingaflaumur, sem leggur undir sig stóran hluta vefsetursins í þágu ESB-trúboðs, sem á betur heima annars staðar. 

Bjarni Jónsson, 16.2.2018 kl. 11:17

9 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Þátt heiður skilinn Bjarni.

Mjög góð og skilmerkileg grein sem ég er alveg sammála. Hinar greinarnar hafa örugglega ýtt undir að Nafni þinn fór af stað með þetta málefni. 

Það virðast allir ´með athugasemdir vera sammála nema STEINI. Við kölluðum svona menn Grjóthaus.

Valdimar Samúelsson, 16.2.2018 kl. 21:13

10 Smámynd: Bjarni Jónsson

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur kynnzt EES-starfseminni af eigin raun innan úr stjórnsýslunni.  Þar hef ég grun um, að viðhorfin séu einsleit og gagnrýnislítil gagnvart minni vilja ESB en áður til að taka tillit til hagsmuna EFTA-ríkjanna.  Þá er gott fyrir ráðherra og þingmenn að sjá, að önnur rökstudd og gild viðhorf eru til, og mér segir svo hugur um, að þau njóti töluverðs hljómgrunns í þjóðfélaginu.  Í Noregi er vænn meirihluti fólks á móti því að fela ESB-stofnun ráðstöfunarrétt raforkunnar, og sé málið útskýrt, er ekki ástæða til að halda, að íslenzkum almenningi sé öðru vísi farið. Það þarf engum að koma á óvart, að ráðherrar og þingmenn velta nú augljóslega vandlega fyrir sér, hvaða afstöðu á að taka gagnvart samstarfi við ESB í EES, sem einkennist sífellt meir af einstefnu og hundsun á upphaflegri hugmynd um tveggja stoða lausn viðfangsefna, þ.e. samningum jafnrétthárra aðila, EFTA og ESB.  Eftir BREXIT hefur snarazt á merinni í þessum efnum.  

Bjarni Jónsson, 17.2.2018 kl. 10:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband