EFTA-ríkin og miðstýring orkumála ESB

Í Noregi hafa miklar umræður og rannsóknir farið fram um afleiðingar þess fyrir Noreg að gangast undir vald stjórnsýslustofnunar Evrópusambandsins, ESB, á sviði orkumála, í fyrstu atrennu á grundvelli 1000 bls. laga- og reglugerðabálks ESB, 2009/72/EU. Mörgum þykir stjórnarskrárbrot blasa við og haldnar eru blysfarir til að mótmæla valdaafsali þjóðríkisins til yfirþjóðlegrar stofnunar á sviði orkumála.

Hérlendis er allt á rólegu nótunum enn þá, en íslenzkum almenningi kann þó að ofbjóða einnig.      Nú þegar eru í smíðum hjá ESB nokkur þúsund bls. viðbætur við téðan orkulagabálk, sem færa enn meiri völd til orkustjórnsýslustofnunarinnar, ACER (Agency for the Cooperation of Energy Regulators), sem staðsett er í Ljubljana í Slóveníu.  Rannsóknarskýrsla norska De-facto félagsins, "EUs energiunion og norsk tilknytning til ACER ?", er afar fróðleg, og þar sem hagsmunum Íslands og Noregs gagnvart ACER svipar mjög saman, verður birt hér að neðan samantekt á skýrslunni, sem er þýðing á 2. kafla hennar. 

Með innleiðingu Alþingis á Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB í EES-samninginn öðlast ACER völd til að láta leggja til Íslands aflsæstreng þaðan, sem hentugast þykir, og tengja hann við stofnkerfi í báða enda án þess að spyrja kóng eða prest hérlendis.  Eftir það verður staða Norðurlandanna tveggja gagnvart ACER og sameiginlegum raforkumarkaði ESB alveg sambærileg:

Í skýrslunni eru færð eftirfarandi rök fyrir því, að  Noregur á að nota neitunarmöguleika sinn gagnvart innlimun í Orkusamband ESB og tengingu við ACER:

  • Noregur verður með í orkusambandi, sem tekur stöðugum breytingum, og þar sem teknar eru ákvarðanir um stöðugt víðara svið orkumálanna hjá yfirþjóðlegri stofnun ESB, ACER.  Noregur missir innlenda stjórn á þessu mikilvæga stjórnunarsviði.
  • Takmark ESB er, að orka streymi frjálst yfir landamæri og að flutningsgetan verði næg, svo að verðmunur milli ólíkra svæða og landa verði minni en 2,0 EUR/MWh (=0,25 ISK/kWh), í fyrstu atrennu innan skilgreindra svæða.
  • Aukin flutningsgeta og viðskipti með rafmagn mun hækka rafmagnsverð í Noregi.  Það kemur niður á bæði almennum notendum, iðnaði og starfsemi í einka- og opinbera geiranum.
  • Skilmálarnir um viðskipti með rafmagn um sæstrengina verða ákvarðaðir af ESB. Það getur hæglega þýtt sveiflukenndari vatnshæð í miðlunarlónum en hingað til hefur þekkzt. Stórþingið á í marz 2018 að ákveða, hvort tvær ESB-tilskipanir skuli verða teknar í norsk lög og reglugerðir - orð fyrir orð, þ.e. tilskipanirnar um viðskipti með rafmagn þvert á landamæri og um að færa völd frá Noregi til stjórnvaldsstofnunarinnar ACER.
  • Á Noreg kann að verða lögð kvöð af ESB/ACER um að leggja fleiri sæstrengi, ef raforkuverð í Noregi verður áfram meira en 0,25 ISK/kWh lægra en annars staðar á ESB-raforkumarkaðinum.  Ef flutningsgeta sæstrengja í rekstri og í undirbúningi er ekki næg til að jafna út verðmun á milli Noregs og annarra, er mögulegt að þvinga Noreg til að nota tekjurnar frá sæstrengjum í rekstri til að fjármagna nýja sæstrengi.  
  • Núverandi umframorka í norska raforkukerfinu mun hverfa, og þar með verður grundvöllur hagstæðs raforkuverðs fyrir orkusækinn iðnað rýrður verulega. Fleiri langtímasamningar um raforkuafhendingu verða varla gerðir.  Þetta getur sett þúsundir starfa á landsbyggðinni í Noregi í uppnám.  
  • Til að gjörnýta tekjumöguleika sæstrengjanna (t.d. með því að selja að deginum og kaupa að nóttunni) munu eigendur vatnsaflsvirkjana hafa hvata til að auka aflsveiflur virkjananna.  Það þýðir tíðar breytingar á rennsli ánna og hæð miðlunarlónanna, og slíkt hefur miklar neikvæðar afleiðingar fyrir umhverfið, náttúru- og útivistarhagsmunina.
  • Við yfirlestur þessarar skýrslu kom í ljós, að það er mikil andstaða í Noregi við frekari samþættingu í Orkusamband ESB og við tengingu Noregs við ACER í stórum hluta verkalýðshreyfingarinnar.  Náttúru- og útivistarsamtök óttast afleiðingar aukinna aflsveiflna fyrir vatnskerfin.  Það kann þannig að vera meirihluti á norska Stórþinginu gegn því að færa völd yfir orkumálunum til yfirþjóðlegrar stofnunar, ACER.
  • Það sem sameinar andstæðinga valdaframsals úr landinu til ACER, er óskin um, að völdin yfir orkumálum landsins skuli áfram vera í höndum norskra yfirvalda.  Fólk óskar ekki eftir stjórnarfyrirkomulagi, sem flytur völd frá norskum orkumálayfirvöldum til yfirþjóðlegra ESB-stofnana.
  • Varðandi ákvarðanir Stórþingsins veturinn 2018 er spurningin um innlenda stjórnun orkumálanna sett á oddinn í sambandi við hugsanlega samþykkt á tengingu Noregs við ACER.  Andófsfólk slíkrar samþykktar krefst þess, að við nýtum undanþáguákvæði EES-samningsins til að neita norskri ACER-tengingu.  
  • Andófsmenn eru þeirrar skoðunar, að hugsanleg ACER-tenging útheimti 3/4 meirihluta í Stórþinginu samkvæmt grein nr 115 í Stjórnarskránni um fullveldisframsal.  

Norska verkalýðshreyfingin er með þessum hætti á 32  blaðsíðum búin að kryfja viðfangsefnið Orkusamband ESB og tenging Noregs við ACER.  Niðurstaðan er einhlít.  Norska Stórþingið á að hafna þessum gjörningi frá ESB. Ef norski Verkamannaflokkurinn leggst gegn frumvarpi ríkisstjórnarinnar, er úti um það. 

Þá vaknar spurningin hér á Íslandi, hvers vegna íslenzka verkalýðshreyfingin sofi Þyrnirósarsvefni, þegar tenging Íslands við ACER er annars vegar.  Útilokað er, að um sofandahátt eða þekkingarleysi sé að ræða.  Öllu líklegra er, að valdamikil öfl innan verkalýðshreyfingarinnar líti ACER-tengingu Íslands með velþóknun, enda sé hún aðeins enn einn áfanginn í aðlögun Íslands að ESB og muni flýta fyrir væntanlegri aðild. Í raun má halda því fram, að verið sé að innlima EFTA-ríkin bakdyramegin inn í ESB með því að færa ESB-stofnun sömu völd þar og hún hefur í ESB-ríkjunum.  Sjá má nú skriftina á veggnum.   

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Nefndarálit meirihluta utanríkismálanefndar Alþingis um aðild Íslands að Evrópusambandinu:

"Nefndin skoðaði ítarlega þau álitaefni er lúta að vatns- og orkuauðlindum, enda er þar um að ræða grundvallarþætti í auðlindanýtingu á Íslandi.

Meirihlutinn leggur áherslu á að við þessa ítarlegu skoðun kom ekkert fram sem gefur ástæðu til að ætla að aðild að Evrópusambandinu hefði áhrif á íslenska hagsmuni á þessum sviðum og bendir í því sambandi einnig á að fyrirkomulag eignarhalds náttúruauðlinda er ekki viðfangsefni Evrópusambandsins, heldur alfarið á hendi aðildarríkjanna, þar sem innri markaðslöggjöfin tekur ekki á eignarhaldi.

Því er ekki um að ræða yfirþjóðlega eign á auðlindum aðildarríkjanna.
"

Þorsteinn Briem, 20.2.2018 kl. 11:49

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Steini ESB-karlinn kemur hér með enn eina ESB-undirgefna athugasemd sína, en sér ekki einu sinni, að hún er þegar úrelt!

Heilar þakkir áttu skildar, Bjarni, fyrir opinberandi skrif þín um  þessi mál, sem eru komin í versta farveg forræðishyggju og yfirgangs hjá Evrópusambandinu. Nú reynir á mennina, alþingismenn og ráðherra hér á Íslandi, að þeir sýni sömu árvekni og þú og standi staðfastir gegn þessum yfirgengilegu tillögum, eins og norska Stórþingið er líklegt til að gera.

Jón Valur Jensson, 20.2.2018 kl. 12:21

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Jón Valur;

Þakka þér fyrir örvandi innlegg.  Þú ert einn þeirra, sem kveikja strax á því, að ESB læðist hér að EFTA-ríkjunum og ætlar að innlima þau um bakdyrnar með "salami" aðferðinni, þ.e. á einu málefnasviði eftir annað, eins og reyndar fjármála-og efnahagsráðherra benti á í frægri ræðu á Alþingi 06.02.2018.  Hafi utanríkismáladeild Alþingis haft aðgang að Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB, þegar aðlögunarviðræður vinstri stjórnarinnar við ESB stóðu yfir 2009-2013, þá vitnar það bara um glámskyggni þáverandi meirihluta að álykta, að ekkert þar hafi áhrif á íslenzka hagsmuni.  Það eimir reyndar enn eftir af þessu í íslenzka embættismannakerfinu, eins og hinu norska, er mér tjáð.  Eignarhald á orkulindunum er ekki til umræðu hér, eins og Steini Briem virðist misskilja, heldur verður ráðstöfun afurðanna, rafmagnsins, sett í hendur ESB-markaðar, sem lýtur alfarið lögum og reglum ESB og ACER.  Niðurstaðan fyrir íslenzku þjóðina verður ekki geðslegri en við að færa ESB orkulindirnar á silfurfati.  Þessu hefur verið líkt við að opna landhelgina fyrir ESB og færa því Landhelgisgæzluna í þokkabót.  

Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því, að núverandi þrír stjórnarflokkar, með sína sögu, standi að því, að Alþingi fremji annað eins glapræði á aldarafmælisári fullveldis Íslands og að leiða þessi ósköp (ACER-málið) í lög á Íslandi.   

Bjarni Jónsson, 20.2.2018 kl. 18:45

4 Smámynd: Halldór Jónsson

"Öllu líklegra er, að valdamikil öfl innan verkalýðshreyfingarinnar líti ACER-tengingu Íslands með velþóknun, enda sé hún aðeins enn einn áfanginn í aðlögun Íslands að ESB og muni flýta fyrir væntanlegri aðild. Í raun má halda því fram, að verið sé að innlima EFTA-ríkin bakdyramegin inn í ESB með því að færa ESB-stofnun sömu völd þar og hún hefur í ESB-ríkjunum.  Sjá má nú skriftina á veggnum."

Ég efast um að þeir eða þingmenn margir hafi yfirleitt lesið þetta í fyrsta lagi.

Í öðrulagi efast ég umaðþeir skilji um hvaðþetta snýst eða langi til að kynna sér þetta. Jón Þór og aðrir Píratar hafa miklu meiri áhuga á bílakostnaði Ásmundar til dæmis og finnast svona mál bara leiðinleg.

Eða ekki?

   

Halldór Jónsson, 20.2.2018 kl. 23:08

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Já, Halldór, það er alger hneisa, að þingmenn velti sé upp úr algerum smámálum eins og ca. tveimur og hálfri milljón króna á einu ári á sama tíma og þeir vanrækja með öllu að vera vökulir og virkir í því að koma í veg fyrir þetta ófyrirleitna ACER-mál, sem gerir vald og ráðstöfun á íslenzkri raforku að hreinu leikfangi fyrir Brussel-valdið og valdstofnun þess í Ljubljana í Slóvakíu, en ýmsum ESB-löndum til gróða og framdráttar.

Þakka þér góð orð, Bjarni,  og vitaskuld er það rétt, að þetta snýst ekki um eign orkulindanna og raforkufyrirtækja okkar, þ.m.t. LV, heldur um sjálfan ráðstöfunarréttinn yfir  framleiddri raforku hér. Sá ráðstöfunarréttur er harla mikilvægur, eins og sjá má af hliðstæðu dæmi frá Sovétríkjunum gömlu, þar sem látið var heita, að þjóðin ætti framleiðslutækin, verksmiðjur og orkuver sem annað, þar væri eignarrétturinn, hjá þjóðinni, en í reynd voru það flokksgæðingar sem höfðu sem forstjórar og topphúfur umráða- og ráðstöfunarréttinn yfir viðkomandi fyrirtækjum og gátu þar hlaðið undir eigið veldi og auð, rétt eins og óligarkarnir gerðu síðar.

Ég tók einmitt eftir því við lestur Lissabonsáttmálans á sínum tíma, að þar er verið að áskilja Evrópusambandinu íhlutunarrétt um þessa grundvallandi-mikilvægu RÁÐSTÖFUN OG DREIFINGU orku, sem framleidd er í löndunum, og það sýnist mér fyllilega geta náð til heitavatnsorku að auki (til raforkuframleiðslu). En komist ESB-handbendi með puttana í Landsvirkjun og ráðuneytin hér, væri einbúið, að þeir gætu látið virkja Torfajökulssvæðið til dæmis, sem er geysileg auðlind, og sent út orkuna!

Vale, frater in bello pro patria!

Jón Valur Jensson, 21.2.2018 kl. 00:21

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sælir hér að ofan, kollega Halldór og bróðir í stríðinu fyrir föðurlandið (í stærðfræðideild lærðum við latínu í einn vetur og lásum þar m.a. frásögn Júlíusar Caesars af Gallastríðum).

Ég get upplýst kollega Halldór um, að veigamiklir þingflokkar hafa fengið upplýsingar um þetta alvarlega mál beint í æð og að þetta vefsetur á sér lesendur innan þingflokka sem annars staðar.  Til sannindamerkis um, að þingmenn eru farnir að velta þessu fyrir sér eru greinaskrif þingmanna og t.d. ræða fjármála- og efnahagsráðherra á Alþingi 6. febrúar 2018, sem vakti athygli innanlands og utan, t.d. í Noregi.  

Fyrir þá og aðra, þ.á.m. verkalýðsforystuna, á eftir að bera ýmislegt á borð.  Þar má nefna heimsókn Kathrine Kleveland, formanns norsku andófssamtakanna "Nei til EU".  Hún mun halda erindi á fundi Heimssýnar 1. marz 2018, og þessa dagana á hún samtal við blaðamann annars dagblaðsins, sem hér hefur útbreiðslu um allt land.  Mun viðtalið væntanlega birtast, er nær dregur mánaðamótum.  Þar mun hún væntanlega segja frá öflugri baráttu grasrótarinnar í norsku verkalýðshreyfingunni gegn því, að ESB læsi klónum í norskt gas og rafmagn.  Um baráttu vinnandi fólks um allan Noreg gegn afhendingu ráðstöfunarréttar "erfðasilfursins" til ACER ráðlegg ég ykkur að fræðast á www.neitileu.no .

Þú hittir naglann á höfuðið hér sem oft áður, Jón Valur.  Það var með Lissabonsáttmálanum, sem grundvöllurinn var lagður að Orkusambandi ESB.  Þaðan koma heimildirnar gagnvart ríkjum ESB, en þær eiga að vera merkingarlausar í EFTA-löndunum.  Með ágengari stefnu í Brüssel við brotthvarf brezkra áhrifa er EES-samningurinn að breytast í farveg fyrir innlimun EFTA (utan Sviss) í ESB sneið fyrir sneið.   

Bjarni Jónsson, 21.2.2018 kl. 10:39

7 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

  Takk Bjarni ég fylgist vel með skrifum þínum um þessi mál og er afar ánægð að "strákarnir"( Halldór og Jón Valur)eru með,etta.Þar sem ég er ástríðufull sjálfstæðissinni verð ég framhleypin og reyni að dreifa vitneskju um þessi mál. Mb. Kv.

Helga Kristjánsdóttir, 21.2.2018 kl. 16:15

8 Smámynd: Bjarni Jónsson

Endilega, Helga, að dreifa boðskapnum sem víðast.  Rómverjar höfðu á orði: "Gutta cavat Lapidem", eða dropinn holar steininn.  Það verður að vera viðkvæðið hér, en þungi þessarar málafylgju mun aukast á næstu vikum, þegar fleiri leggjast á árarnar.  Góð, en stutt heimsókn er í vændum, þar sem er Kathrine Kleveland, formaður norsku andófssamtakanna, "Nei við ESB".  Samtökin beita sér af alefli gegn samþykki Stórþingsins á þessum lymskulega lagabálki ESB, sem hér er til umræðu.  Í viðtali við hana í öðru prentaða dagblaðinu hérlendis með landsútbreiðslu munum við fræðast frá fyrstu hendi um baráttu samtakanna og norskrar alþýðu gegn afhendingu "erfðasilfursins" úr landi. Þú getur líka fræðzt um þetta á vefsetri samtakanna, en tengill þangað er hér á síðunni.   

Bjarni Jónsson, 21.2.2018 kl. 20:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband