Leikur vafi á um túlkun samþykkta tveggja stjórnarflokka ?

Sézt hafa fullyrðingar hérlendis um það, að Íslendingar verði vegna aðildar sinnar að Evrópska efnahagssvæðinu, EES, að ganga í Orkusamband ESB, þrátt fyrir samþykkt flokksþings Framsóknarflokksins 11.03.2018 og samþykktir Landsfundar Sjálfstæðisflokksins 18.03.2018 um hið gagnstæða.  Spyrja má, hver munurinn er þá á fullri aðild að ESB og þeirri aukaaðild, sem aðild að EES jafngildir, ef þjóðþing EFTA-landanna hafa ekki í krafti fullveldis síns heimild til að hafna nýjum tilskipunum ESB. Auðvitað er sá grundvallarmunur á, að aðildarlönd ESB taka þátt í mótun allra reglugerða, tilskipana og laga ESB og hafa sinn atkvæðisrétt, en EFTA-löndin þrjú eru í þeirri þrælslegu stöðu að þurfa að taka við því, sem að þeim er rétt; þó með neitunarvaldi í örlagamálum á Alþingi.

  Þetta á líka við um bann Alþingis við innflutningi á hráu kjöti.  Það er fáheyrður málflutningur að halda því fram, að lög um þetta efni frá 2009 séu að alþjóðarétti dæmd ómerk af EFTA-dómstólinum.  Hann hefur í þessu máli ekki dómsvald á Íslandi, enda aðeins ráðgefandi, og gjörðir hans eru ekki aðfararhæfar hérlendis í þessu máli.  Af hverju stafar þessi dæmalausa þörf ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur til að kyssa á vönd Evrópusambandsins ?

Nú verður fjallað um bréf norska olíu- og orkumálaráðherrans, Terje Söviknes, til Orku- og umhverfisnefndar Stórþingsins, þar sem því er haldið fram, með vísun til upplýsinga úr íslenzka utanríkisráðuneytinu, að eftirfarandi samþykkt atvinnuveganefndar Landsfundar Sjálfstæðisflokksins eigi ekki við um innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn:

" Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenzkum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins."

Þýðing á seinni hluta svarbréfs norska ráðherrans við spurningu þingnefndar um það, hvort niðurstaða Landsfundar Sjálfstæðisflokksins muni hafa áhrif á fyrirætlun ríkisstjórnarinnar um að taka frumvarp sitt um innleiðinguna til afgreiðslu í Stórþinginu 22. marz 2018, fer hér á eftir, og bréfið í heild er í viðhengi á þessari síðu:

"Að öðru leyti geri ég ráð fyrir, að ástæða spurningarinnar séu frásagnir í norskum fjölmiðlum um, að einn af stjórnarflokkunum á Íslandi, Sjálfstæðisflokkurinn, muni hafa gert samþykkt á Landsfundi sínum um helgina  gegn ACER. Sendiráð okkar í Reykjavík hafði þess vegna samband við utanríkisráðuneyti Íslands til að átta sig á, til hvers fjölmiðlar væru að vísa.  Utanríkisráðherrann er sjálfstæðismaður.  Íslenzka ráðuneytið veitti sendiráðinu þær upplýsingar, að Sjálfstæðisflokkurinn hafi samþykkt yfirlýsingu um, að fram fari mat á því, hvernig EES-samningurinn hafi virkað á Íslandi.  Þar er líka sagt, að flokkurinn sé mjög gagnrýninn á upptöku nýrrar löggjafar í EES-samninginn, sem falli utan við tveggja stoða fyrirkomulagið.  

Undirnefnd um atvinnuvegamál lýsti því yfir á Landsfundinum, að Sjálfstæðisflokkinum beri að snúast öndverður gegn framsali valds yfir íslenzkum orkumarkaði til ESB-stofnana. Þessi yfirlýsing þýðir ekki, að Sjálfstæðisflokkurinn snúist öndverður gegn innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins."  

 

Lokamálsgreinin, sem er undirstrikuð af höfundi þessarar vefgreinar, BJo, þarfnast skýringa að hálfu utanríkisráðuneytis Íslands.  Er þessi ónákvæma frásögn af ályktunum á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins 16.-18. marz 2018 frá ráðuneytinu komin, og hefur það klykkt út með vægast sagt villandi túlkun, raunar algerlega öfugsnúinni túlkun, á merkingu ályktunar atvinnuveganefndar og á vilja Landsfundar Sjálfstæðisflokksins.  Það er grafalvarlegt mál, og ekki er síður alvarlegt að gera tilraun til að blekkja norska sendiherran, norsku ríkisstjórnina, Stórþingið og norsku þjóðina, ef þessi túlkun er frá utanríkisráðuneyti Íslands komin.

Þetta mál er þegar á því stigi í Noregi, að stjórnarandstaðan ávítar norska ráðherrann í dag, 20.03.2018, fyrir villandi upplýsingagjöf til þingsins á grundvelli réttrar þýðingar á ályktun atvinnuveganefndar Landsfundar Sjálfstæðisflokksins og vegna þess, að ráðherrann sleppti að geta um stórmerka yfirlýsingu af flokksþingi Framsóknarflokksins 11. marz 2018, sem er svona:

"Framsókn stendur vörð um fullveldi Íslands í orkumálum og hafnar því, að orkulöggjöf Evrópusambandsins verði tekin inn í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið." 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Athyglisvert.  Hvað veldur því að stjórnmálaflokkarnir séu eins og kettir í kringum heitan graut og þori ekki að lýsa yfir afstöðu sem er "annað-hvort-eða"?  Sveitarstjórnarkosningarnar í vor?

Kolbrún Hilmars, 20.3.2018 kl. 17:44

2 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Bjarni vel athugar hjá þér að sjá þetta en þarna hefir einhvað brenglast í túlkun en vonum ég segi vonum að þeir geri enga vitleysu aftur og segi sig alfarið frá EES en mig minnir að það sé eins árs uppsagnafrestur og ráðherrar ráða. 

Valdimar Samúelsson, 20.3.2018 kl. 18:21

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæl, Kolbrún Hilmars;

Framar öðru held ég það sé óttinn við að styggja stuðningsmenn.  Hvað heldur þú, að forysta stjórnmálaflokkanna, sem þegar hafa ályktað gegn inngöngu Íslands i Orkusamband ESB samkvæmt orðanna hljóðan skilningi líklega yfir 90 % fulltrúa á æðstu samkundum flokkanna, styggi stóran hluta af stuðningsmönnum sínum, ef í ljós kemur, að hún ætlar ekki að taka mark á þessum samþykktum eða túlka þær út og suður ?  Ég gæti trúað, að yfir 80 % flokksfélaga verði ævareiðir og yfir 60 % annarra stuðningsmanna verði forystunni reiðir og hugsi henni þegjandi þörfina, ef hún ekki lætur verkin tala og leggur þetta s.k. ACER-mál á hilluna, hvað sem Norðmenn kunna að gera í Stórþinginu á fimmtudaginn.  Alþingi hefur fullan rétt á að beita neitunarvaldi gegn þessari breytingu á EES-samninginum.  Með höfnun Alþingis losna Norðmenn úr snörunni.  Fylgjandi ACER eru 9 % þjóðarinnar og andvígir 52 %.  Hinir eru óákveðnir.  Ætli hlutföllin séu ekki svipuð á Íslandi ?

Bjarni Jónsson, 20.3.2018 kl. 18:53

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Valdimar; 

Ég vil bindandi  þjóðaratkvæðagreiðslu um, hvort segja á EES-samninginum upp eða ekki.  Vegna þess að við höfnuðum að gerast aðilar að sameiginlegu fiskveiðistefnunni, njótum við ekki beztu kjara fyrir sjávarafurðir.  Fríverzlunarsamningar gera betur.  Beinn og óbeinn kostnaður er yfir 80 miaISK/ár af verunni í EES.  Það er einsdæmi að vera skyldaður til að taka upp löggjöf annarra til að mega verzla við þá hindrunarlítið.

Bjarni Jónsson, 20.3.2018 kl. 20:04

5 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Bjarni alveg sammála þjóðaratkvæðagreiðslu og ætti að fara strax af stað með það en ég held samt með lögum megi ráðherra skrifa undir afsögn og leggja inn sem verður svo gild eftir ár. Kannski hef ég túlkað samningin rangt. 

Það væri líklega best að ráðherra geri þetta því það tekur ár að koma þjóðaratkvæðagreiðslu í gang og svo þessi forseti okkar er ekki venjulegur.

Valdimar Samúelsson, 20.3.2018 kl. 20:52

6 Smámynd: Jón Valur Jensson

   Frábær grein hjá þér, Bjarni, ein enn og í styttra lagi þessi.  Þarna virðist Guðlaugur Þór Þórðarson vera að svíkja lit gagnvart landsfundi Sjálfstæðisflokksins --- blekið varla þornað á samþykktinni ! --- og er sá maður þar ekki í fyrsta sinn til óþurftar á pólitíska sviðinu og gagnvar því sem kalla má grundvallarréttindi. En fall hans á þessu siðferðissviði verður kannski fararheill fyrir flokkinn og Íslendinga.

Merkilegt, að ráðherrann vogaði sér að blekkja Norðmenn líka með því að þegja um andstöðu Framsóknarflokksins við ACER-málið, og er sá flokkur þó í ríkisstjórn! Eðlilegt að það er uppþot út af þessu í Noregi og ráðherra þar gagnrýndur vegna þessarar fölsunar Guðlaugs Þórs!

Merkilega gott þetta: "Fylgjandi ACER eru 9% norsku þjóðarinnar og andvígir 52%.  Hinir eru óákveðnir."

Og afar merkilegt er síðasta innlegg þitt hér á undan, Bjarni, með t.d. þessu kjarnaatriði: "Beinn og óbeinn kostnaður [Íslands] er yfir 80 miaISK/ár af verunni í EES." ---Þetta er nánast jafnhátt lygavaxta-upphæðinni sem Bretar og Hollendingar og Evrópusambandið ætluðu okkur að greiða vegna sinnar ólögvörðu og ólögmætu Icesave-kröfu á hendur ríkissjóði okkar! Fari það í fúlan pytt þetta Ranglætis-Evrópusamband! Og ég tek undir kröfu þína um þjóðaratkvæðagreiðslu um að hafna EES-samningnum.

Jón Valur Jensson, 21.3.2018 kl. 05:32

7 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Bjarni og kæra þökk fyrir að standa á verði fyrir okkur landsmenn.

Við fyrsta yfirlestur minn á samþykktum landsfundar Sjálfstæðisflokksins, tók ég eftir að í ályktuninni um utanríkismál var rætt um skoðun EES samningsins, aftur í tímann og einnig að lýst var þar yfir áhyggjum um sjálfvirkni í innleiðingum reglna ESB, jafnvel regna sem brytu í bága við tveggja stoða samþykki EES samningsins. Út frá þessu ritaði ég smá pistil, einkum með hliðsjón af því að í sömu ályktun var skýrt tekinn af allur vafi um að flokkurinn vill áframhald EES samnings og að ekkert væri rætt um orkusamband ESB eða afurð þess, ACER.

Fljótt var mér bent á að í ályktun flokksins um atvinnumál, kemur fram að flokkurinn hafni framsali orkuauðlynda til ESB og undirstofnana þess. Reyndar bara ein lítil setning, en þokkalega skýr og vart hægt að misskilja hana. Þessi setning hafði farið framhjá mér við yfirlestur ályktanna landsfundarins.

Vissulega róaðist ég nokkuð við að sjá þessa litlu setningu, þar sem nú voru tveir af þremur stjórnarflokkunum komnir með afdráttarlausa stefnu í þessu mikla máli og ljóst að nokkuð víst væri að það næði meirihluta á þingi, jafnvel þó einhverjir villikettir VG verði tilbúnir að fórna sjálfstæði þjóðarinnar.

En samþykktir aðalfunda stjórnmálaflokka minna ansi oft á kosningaloforð, þær eru meira notuð til skrauts en gerða.

Á þessum landsfundi voru drög að ályktun vegna byggingar landssjúkrahúss. Þessi drög voru vægast sagt umdeild og var því gerð veruleg breyting á þeim og sú breyting samþykkt. Þegar síðan ráðherra mætir í viðtal, nánast á sömu klukkustund og landsþingi var slitið og túlkar þessa grein ánákvæmlega sama hátt og fyrstu drög hljóðuðu, fór vissulega um mann hrollur.

Því kemur ekkert á óvart að nú, nokkrum dögum frá landsfundi, skuli vera komin ný túlkun á framsali orkumála okkar yfir til ESB.

Ég óttast að þegar þetta mál kemur til kasta Alþingis, muni margir þingmenn lítt hugsa til samþykkta sinna stjórnmálaflokka og falla í sömu gildru og í öðru stóru máli, fyrir nær réttum sex árum síðan, taki "ískalda afstöðu" til málsins.

Kveðja

Gunnar Heiðarsson, 21.3.2018 kl. 10:34

8 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það eru víst liðin rétt um sjö ár frá síðari kosningunni um isecave, ekki sex eins og ég nefni í fyrri athugasemd. Tíminn líður hratt. 

Rétt um sjö ár frá því sumir þingmenn tóku svo ískalda afstöðu til málsins að heili þeirra nánast fraus.

Gunnar Heiðarsson, 21.3.2018 kl. 10:39

9 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þakka þér innlegg þitt hér að ofan, Jón Valur;

Það þarf að óska birtingar á samskiptum ráðuneytisins við norska sendiráðið þann 19.03.2018, og það mál er farið af stað.  Það er með ólíkindum, ef utanríkisráðuneyti Íslands dirfist, daginn eftir Landsfund, að veita norska sendiráðinu þær upplýsingar, að ályktun atvinnuveganefndar Landsfundar: "Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenzkum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins", eigi bara ekki við væntanlegt frumvarp ríkisstjórnarinnar um innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn.  Sjálfstæðismenn, margir hverjir, munu ekki láta bjóða sér slíkar "trakteringar".  Orð skulu standa.  Það verða pólitískar jarðhræringar hér, ef ráðherrar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks munu ganga á bak þeirra orða, sem þeir voru með í að samþykkja á Landsfundi og Flokksþingi, og mun ég ekki ætla þeim það að óreyndu. 

Ég hef ekki ástæðu til að halda, að skoðanakönnun hérlendis til framsals ráðstöfunarréttar raforkunnar til ACER muni leiða til annars en a.m.k. fimmfaldrar andstöðu m.v. fylgjendur, eins og í Noregi. 

Ég dró ekki þessar tölur upp úr eigin hatti, heldur eru þær úr rannsókn Viðskiptaráðs Íslands 2015 og uppfærðar af mér til 2018.  Mest munar um reglugerðafarganið, sem virkar hamlandi á framleiðniaukningu í landinu og heldur þar með niðri lífskjörum.  Ef ég tek kostnað þjóðfélagsins vegna raforkuverðshækkana, sem vænta má vegna ACER, fer kostnaðurinn yfir 100 miaISK/ár. 

Nú segi ég eftir Landsfund: "Gerum lífið betra utan EES".

Bjarni Jónsson, 21.3.2018 kl. 11:56

10 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Gunnar Heiðarsson;

Það er rétt, að utanríkismálanefnd sló úr og í, en það, sem upp úr stendur hjá henni varðandi EES er, að reynsla landsmanna af aldarfjórðungsaðild þar verði metin.  Ef sú skýrsla verður vísindalega unninn, verður unnt á hlutlægan hátt að taka afstöðu til þess, hvað á að gera við þessa EES-aðild Íslands.  Hún veldur stöðugum og djúpstæðum deilum í þjóðfélaginu vegna þess, að tilskipanir ESB, sem öðlast lagagildi hér við innleiðingu í EES-samninginn, eiga margar hverjar alls ekki við aðstæður hér, og allar eru þær sniðnar við miklu stærri samfélög en okkar.  Við höfum hreint og beint ekki bolmagn til að innleiða allt þetta flóð frá Brüssel með okkar litla stjórnkerfi.  Þar að auki er enginn áhugi hjá ESB eftir BREXIT fyrir því að virða tveggja stoða samráðsfarveg EES-samningsins.  M.ö.o., ESB er farið að meðhöndla EFTA-ríkin 3 eins og ESB-ríki.

Þessi þróun mála er farin að gera EES-vistina óbærilega.  Nú þarf fríverzlunarsamninga og verulega grisjun í laga- og reglugerðabákninu, landsmönnum öllum til hagsbóta.  Það er orðin tóm vitleysa að hanga á þessari biðstofu Evrópusambandsins.  

Bjarni Jónsson, 21.3.2018 kl. 13:19

11 Smámynd: Jón Valur Jensson

 Góð og gagnleg er þessi umræða ykkar Gunnars hér, Bjarni. Ágætt, að strax er farið af stað með að kanna samskipti ráðuneytisins við norska sendiráðið 19. marz. Annaðhvort hefur ráðherrann brotið þarna af sér eða einhverjir embættismenn hans, og það myndi þá sýna, hve héraðsríkir þeir eru orðnir þar, ef þeir gera slíkt að ráðherra forspurðum, en þá er það um leið alvarleg brottvikningarsök úr starfi. Bregðist ráðherrann ekki þannig við, er hann sjálfur að axla ábyrgðina á þessari móðgun við Norðmenn.

Okkur er það mætavel kunnugt, að Össur Skarphéðinsson mokaði ESB-sinnum inn í ráðuneytið, meðan hann réð þar húsum, og það án auglýsingar um hálaunuð störfin! En einmitt þeim mönnum á Sjálfstæðisflokks-ráðherra að moka þaðan burt í snatri. Það gengur ekki, að ESB-þægðarmenni fari með mesta áhrifavald í utanríkisráðuneyti sjálfstæðrar þjóðar!

En þetta ACER-mál er svo stóralvarlegt, að áður en EES-málin almennt verði tekin til þjóðaratkvæðagreiðslu (og það þó naumast unnt fyrr en að lokinni heildarathugun þess máls aftur í tímann, eins og þú hefur tæpt hér á), þá BLASIR VIÐ, að ACER-málið þurfi sem slíkt að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu, ef ESB-viðhlæjendur ætla að voga sér að keyra það stórskaðlega mál í gegnum Alþingi, þvert gegn þjóðarhagsmunum! 

Þá blasir við sama staðan og í Icesave-málinu tvívegis, að fara þurfi af stað með undirskriftasöfnun með áskorun á forseta Íslands, að hann neiti að skrifa undir slíka ACER-löggjöf hér! Það kemur þá til kasta grasrótarinnar, eins og í Icesave-málinu, og virkra baráttumanna, ritfærra og hæfra til að kynna málið í fjölmiðlum, þ.m.t. í netmiðlum, og ert þú ekki, Bjarni, með í samtökum undir nafninu Frjálst land, sem vilja beita sér í þessu máli, með Sigurbirni Svavarssyni viðskiptafræðingi, Friðrik Daníelssyni verkfræðingi og Pétri Valdimarssyni, fv. formanni Þjóðarflokksins og stjórnarmanns í Samstöðu þjóðar?

Það þarf ekki að eyða löngum tíma í að brýna okkur Gunnar Heiðarsson, þann góða mann, til dáða í þessu máli, hann var mikill samherji okkar Lofts Þorsteinssonar verkfræðings í Icesave-málinu, en nú nýtur Lofts ekki lengur við, sá frábæri maður hefur nú lotið í lægra haldi fyrir sínum banvæna sjúkdómi, og blessuð sé minning hans ævinlega. (Sjá um hann H É R -- https://thjodarheidur.blog.is/blog/thjodarheidur/entry/2212516/) 

En þeim mun meiri ástæða er fyrir okkur, sem eftir lifum, til að berjast einnig í þessu þjóðfrelsismáli okkar Íslendinga: að hafa full yfirráð yfir auðlindum okkar, andspænis gráðugu og valdfreku Evrópusambandinu, sem skeytir lítt um fornan rétt þjóða til að ráða sér sjálfar og mörgum málum sínum.

Jón Valur Jensson, 22.3.2018 kl. 03:55

12 Smámynd: Bjarni Jónsson

Það var athyglisverð umræða á Alþingi áðan, Jón Valur, sem gefur góða von um, að yfirráðum ACER hér verði hafnað.  Þá munu lýðræðis- og sjálfstæðissinnar um allt land fagna, og mikill meirihluti Norðmanna mun samfagna okkur. Þá hafa orðið vatnaskil, og munu eftir það öll vötn falla til Dýrafjarðar.  

Bjarni Jónsson, 22.3.2018 kl. 14:31

13 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þessi tíðindi gleðja mig, Bjarni, og ég vona það bezta í framhaldinu. smile

Jón Valur Jensson, 22.3.2018 kl. 14:51

14 Smámynd: Gunnar Sigfússon

Jæja, Bjarni Ben virðist vera búinn að fatta þetta https://www.mbl.is/frettir/innlent/2018/03/22/orkumal_islands_ekki_mal_esb/

Annars rakst ég á skemmtilega heimild þegar ég var að skoða þessi mál betur en það var samningsafstaða Íslands í samningaviðræðum við ESB

(þ.e. þerra sem vildu auka samstarf við ESB með viðaukum við EES og/eða taka þetta alla leið með umsókn í ESB) 

https://www.stjornarradid.is/media/utanrikisraduneyti-media/media/ESB/samningskaflar/15/15.-kafli-samningsafstada.PDF

Í henni kemur fram skýr afstaða að eignarhald og nýting á orkuauðlindum eigi ekki heima í EES-samningnum og eigi alls ekki að vera til umræðu nema ef komi til aðildaviðræðna. Ef til aðildaviðræða kæmi væri þetta markmiðið (síðasta greinin í plagginu):

"Í  því  skyni  að  tryggja  hagsmuni  Íslands,  að  því  er  varðar  eignarhald  á  og  nýtingu orkuauðlinda,  óskar  Ísland  eftir  því  að  fjallað  verði  um  þetta  atriði  í  aðildarferlinu  og  að tryggt verði að  eignarhald Íslands á orkuauðlindum sínum og rétturinn til þess  að stjórna þeim verði ekki skertur á nokkurn hátt."

Þannig að mér er spurn hverjir vilja breyta þessu og af hverju ef það er ekki nauðsyn? það er alveg klárt að allar tilskipanir utan fjórfrelsis (og orkumál liggja utan þess) þarf ekki að innleiða í íslensk lög nema ef því er bætt sérstaklega í EES-samninginn.

Gunnar Sigfússon, 22.3.2018 kl. 15:13

15 Smámynd: Bjarni Jónsson

Einmitt, Gunnar Sigfússon, okkur ber engin skylda til að innleiða reglur í EES-samninginn, sem falla utan fjórfrelsis Innri markaðarins.  Þetta var líka hluti af málflutningi BB á Alþingi áðan, og að stjórnskipunarlögum Íslands er Alþingi í fullum rétti að hafna frumvarpi um slíkt.  Það voru mistök hjá EFTA-ríkjunum að samþykkja kröfu ESB um innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins í Sameiginlegu EES-nefndinni 5. mai 2017.  

Bjarni Jónsson, 22.3.2018 kl. 15:23

16 Smámynd: Jón Valur Jensson

Já, flott þetta innlegg frá Gunnari Sigfússyni, mjög þarflegt innlegg í umræðuna.

Jón Valur Jensson, 23.3.2018 kl. 07:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband