Mikilsverðir orkuhagsmunir eru í húfi

Þann 28. marz 2018 birti Viðskiptablaðið fréttaskýringu um innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn með fyrirsögninni:

"Mikilsverðir orkuhagsmunir ekki í húfi". 

Þar er utanríkisráðuneyti Íslands borið fyrir furðutúlkunum á áhrifum af innleiðingu þessarar gjörðar ESB hérlendis og á áhrifum höfnunar Alþingis á gjörninginum í Noregi og á EES-samstarfið í heild sinni. 

Í stuttu máli er þarna um að ræða áróðursblöndu (hanastél) af léttvægi áhrifanna hér innanlands og hræðsluáróður um áhrifin á hag Noregs og á EES-samstarfið. Hér að neðan verður þessi þynnka metin og léttvæg fundin. Það er alveg dæmalaust, að utanríkisráðuneytið undir stjórn sjálfstæðismanns skuli hljóma eins og málpípa búrókratanna í Berlaymont í Brüssel. Þeir reyna markvisst að flækja EFTA-ríkin í net ESB á hverju sviðinu á fætur öðru, og eftir að Bretar urðu áhrifalausir innan ESB í kjölfar BREXIT, brestur búrókrata Berlaymont allt umburðarlyndi gagnvart sérstöðu EFTA-ríkjanna.  Þeir neita að semja um undanþágur við EFTA-ríkin um málefni, sem þeir eftir langa mæðu hafa náð samstöðu um innbyrðis á milli ESB-ríkjanna. Búrókratana virðist ekki skipta það neinu máli, að orkumálin eru utan við fjórfrelsi Innri markaðarins, sem EES-samningurinn var upphaflega gerður til að viðhalda.  Það er alls ekki í þágu íslenzkra hagsmuna að útvíkka EES-samninginn, svo að hann spanni orkumálin einnig.  Að dómi fjölmargra Norðmanna, þ.m.t. stór verkalýðsfélög og Alþýðusamband Noregs, LO, er þessi útvíkkun gildissviðsins heldur ekki í þágu norskrar alþýðu.  Höfundi er ekki kunnugt um, hver afstaða manna í Liechtenstein er, en innleiðing gjörðarinnar mun a.m.k. ekki hafa farið fram þar.  Það ber æ meir á því, að búrókratar Berlaymont komi fram við EFTA-ríkin sem hornrekur í ESB. Það er kominn tími til að spyrna við fótum.  

Boðskap utanríkisráðuneytisins dregur Snorri Páll Gunnarsson, blaðamaður, saman með eftirfarandi hætti:

"Þriðji orkupakki ESB mun hafa lítil áhrif hér á landi, samkvæmt utanríkisráðuneytinu [1].  Pakkinn felur ekki í sér framsal á yfirráðum yfir íslenzkum orkulindum og grunnvirkjum til stofnana ESB [2].  Hafni Alþingi pakkanum, gæti það haft ófyrirséðar afleiðingar fyrir EES-samstarfið."[3].

Hér verður þetta hrakið lið fyrir lið:

[1 & 2]:  Það er með endemum að halda því fram, að sá gjörningur að færa Orkustofnun Íslands (OS), eða þann hluta hennar, sem fæst við reglusetningu og eftirlit með raforkuflutningsfyrirtækinu Landsneti, undan íslenzku ráðuneyti og undir eina af stofnunum ESB, ACER-Orkustofnun ESB, með Eftirlitsstofnun EFTA-ESA sem ljósritandi millilið, sem enga raunverulega þýðingu hefur, muni "hafa lítil áhrif hér á landi", þótt hér sé um augljóst Stjórnarskrárbrot að ræða (gr.2). 

Í raun þýðir þetta, að raforkuflutningsmál Íslands eru færð frá því að vera á forræði íslenzka ríkisins í það að verða á forræði ESB.  Þetta er stórmál vegna þess, að með þessum gjörningi færist ráðstöfunarréttur raforkunnar frá Reykjavík til Ljubljana í Slóveníu, þar sem ACER hefur aðsetur.  Eignarhald virkjana og flutningsmannvirkja verður óbreytt, en ráðstöfunarréttur yfir raforkunni verður færður til raforkumarkaðar ESB. Til hvers heldur utanríkisráðuneytið, að til ACER hafi verið stofnað ?  Það var til að ryðja úr vegi hindrunum við snurðulausum flutningum á jarðgasi og raforku frá svæðum með gnótt orkulinda, t.d. endurnýjanlegra orkulinda til raforkuvinnslu, og til svæða innan ESB, þar sem skortur er á slíkum orkulindum. Þessar hindranir voru ekki tæknilegs eðlis, heldur stjórnmálalegs og efnahagslegs eðlis. Með stuðningi af stjórnarskrárígildi ESB, Lissabon-samninginum, hafa ESB-ríkin samþykkt að færa allt vald yfir innviðum orkuflutninga til ACER, sem þegar hefur sett sæstreng á milli Íslands og Bretlands, sem ACER kallar Ice Link, á forgangsverkefnaskrá sína með áætlaðri tímasetningu gangsetningar árið 2027.  

Ef Alþingi samþykkir inngöngu Íslands í Orkusamband ESB, þá mun ACER hrinda af stað þessu verkefni og skylda Landsnet til að taka þátt. Það verður gert með meirihlutaákvörðun í ACER, sem send verður ESA.  Þessi Eftirlitsstofnun EFTA er valdalaus á orkusviðinu og  hefur ekki annað val en að ljósrita fyrirmælin og senda þau til útibús ACER á Íslandi, sem er Orkustofnun, OS, eða sá hluti hennar, sem hefur eftirlit með Landsneti. Landsnet mun þá verða að styrkja raforkuflutningskerfið innanlands, til að unnt verði að tengja um 1200 MW sæstreng við það. Það verður mjög kostnaðarsamt, og sá kostnaður lendir alfarið á landsmönnum samkvæmt reglum ACER.  

Kostnaðarhlutdeild Landsnets í Ice Link verður ákvörðuð af ACER samkvæmt valdheimildum hennar.  Íslenzk yfirvöld verða ekki virt viðlits í öllu þessu ferli, enda verður Alþingi þá búið að samþykkja algert áhrifaleysi þeirra á raforkuflutningsmál landsins, og OS, eða sá hluti hennar, sem fæst við raforkuflutningsmál, verður þá ekki lengur undir boðvaldi ráðuneytis, heldur aðeins undir boðvaldi ACER. ESB kallar það, að OS verði óháð hagsmunaöflum. 

Þetta er í framkvæmd að ryðja hindrunum úr vegi til að útrýma flöskuhálsum í orkuflutningskerfi ESB/EES.  Ætla menn að stinga hendinni í gin ljónsins ?  Hvað í ósköpunum rekur menn til þess, þegar ávinningur Íslands er alls enginn, en áhættan svakaleg og um að ræða Stjórnarskrárbrot í þokkabót ?

Þegar tengingin (Ice Link) verður komin á, verður íslenzkur raforkumarkaður innlimaður í raforkumarkað ESB.  Það þýðir, að hver sem vill getur boðið í alla tiltæka raforku á Íslandi, og hún mun fara til hæstbjóðanda.  Þannig glatar Ísland smátt og smátt ráðstöfunarrétti yfir allri framleiðanlegri raforku á Íslandi, því að við þessar aðstæður verða hvorki gerðir nýir langtímasamningar um afhendingu raforku til atvinnustarfsemi hérlendis né er líklegt, að þeir gömlu verði framlengdir.  Rafmagnsverðið mun rjúka upp hérlendis, og samkeppnishæfni atvinnuveganna mun hríðversna með slæmum afleiðingum fyrir atvinnustig í landinu og lífskjör almennings.  Með atvinnuvegina í rúst munu Íslendingar síðan standa berskjaldaðir, ef/þegar raforkuverð í ESB lækkar með auknu framboði kolefnisfrírra orkugjafa.  Er þetta léttvægt mál ?  Nei, fullveldisafsal er það aldrei.

[3]: Það er einkennilegt, að ESB-sinnar skuli ekki treysta EES-samninginum, og að ESB haldi sig við ákvæði hans.  Það er óumdeilanlegt, að hvert EFTA-ríki í EES hefur neitunarvald gagnvart innleiðingu nýrra gjörða í EES-samninginn. Það er meginmunurinn á EFTA-ríkjunum og ESB-ríkjunum í EES-samstarfinu.  Þetta kemur fram í kafla 93 í samninginum og kafla 6 í samninginum um fastanefnd EFTA-ríkjanna.  

Alveg sérstaklega gildir þetta um málaflokka, sem standa utan við fjórfrelsið á Innri markaði EES, sem samningurinn var upphaflega gerður um. Hér hefur engin umræða farið fram um að útvíkka gildissvið hans.  Hvers konar meðvirkni og sofandaháttur er þetta eiginlega ?

ESB hefur upp á sitt eindæmi ákveðið, að Þriðji orkumarkaðslagabálkur þess frá 2009 skuli verða hluti af EES-samninginum, þótt hér sé í raun verið að innleiða 5. frelsið á Innri markaðinn.  Þessi merking ESB á þessum málaflokki er í samræmi við yfirlýsingu Framkvæmdastjórnarinnar um það, að Noregur skyldi verða hluti af sameiginlegum orkumarkaði ESB.  Ríkisstjórn Noregs er höll undir aðild Noregs að ESB, og hið sama er að segja um Landsstjórn og formann Verkamannaflokksins, stærsta stjórnarandstöðuflokksins á Stórþinginu, þótt flest verkalýðsfélög og Alþýðusamband Noregs, LO, hafi ályktað harðlega gegn stuðningi þingflokks Verkamannaflokksins við frumvarp ríkisstjórnarinnar.

Ef ESB gangsetur refsiaðgerðir gegn EFTA-ríkjunum á viðskiptasviðinu, brýtur ESB um leið EES-samninginn, og brotið verður kæranlegt til ESA og EFTA-dómstólsins.  Samkvæmt EES-samninginum má ESB í mesta lagi svara höfnun EFTA-ríkis með ógildingu þess hluta EES-samningsins, sem hafnaða innleiðingin átti að hafa áhrif á.  Í því tilviki, sem hér um ræðir, þ.e. orkumálaflokkinn, sbr kafla 102 um ógildingu í EES-samninginum.  Orka er í viðhengi 4 af 22 viðhengjum samningsins, og Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn færi þangað, ef samþykktur yrði.  Það er hins vegar ekki á færi ESB að ógilda neitt einhliða, heldur er ógilding umfjöllunarefni Sameiginlegu EES-nefndarinnar, þar sem EFTA-ríkin Ísland, Noregur og Liechtenstein eiga sæti ásamt ESB, og ákvörðun er aðeins tekin einróma.

Þó að þessi ákvörðun verði tekin, verður ekki séð, með hvaða hætti ógilding á ákvæðum Annars orkumarkaðslagabálksins, sem í þessu tilviki koma til álita, geti skaðað hagsmuni Íslands og Noregs. Noregur mun áfram selja ESB-ríkjum rafmagn úr norskri fossaorku og olíu og jarðgas úr efnahagslögsögu sinni, eins og ekkert hafi í skorizt, enda eru mikilvægir hagsmunir hins orkuhungraða ESB í húfi.  Fullyrðing um, að höfnun Íslands muni hafi ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir EES-samstarfið, er algerlega úr lausu lofti gripin.   

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Sammála þessu Bjarni.

Valdimar Samúelsson, 6.4.2018 kl. 09:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband