Köttur í kringum heitan graut

Grautargerð utanríkisráðuneytisins í ACER-málinu svo nefnda tekur á sig ýmsar myndir.  Ein þeirra birtist í Viðskiptablaðinu 28. marz 2018 og var andmælt á sama vettvangi af þessum höfundi 12. apríl 2018.

Þann sama dag birtist í Morgunblaðinu sviðsljósgrein Ómars Friðrikssonar:

"Efasemdir þrátt fyrir verulegar undanþágur".

Þessi fyrirsögn er mjög villandi um eðli og stöðu málsins, sem fjallar um inngöngu Íslands í Orkusamband ESB og þar með valdframsal frá íslenzka ríkinu til Orkustofnunar ESB, ACER, sem er undir stjórn framkvæmdastjórnar ESB.  Í fyrsta lagi eru ekki efasemdir um þessa ráðstöfun, heldur rökstudd vissa um, að þessi ráðstöfun væri þjóðhagslegt og stjórnlagalegt glapræði.

Að EFTA-ríkin eða Ísland sérstaklega hafi fengið "verulegar undanþágur" frá Þriðja orkumarkaðslagabálki ESB er einhver mesta oftúlkun og upphafning, sem lengi hefur sézt á prenti og minnir á "sáuð þið, hvernig ég tók hann" grobb.  Sannleikurinn er sá, að engin undanþága fékkst fyrir Ísland, sem nokkru máli skiptir, enda er það í anda núverandi starfshátta ESB, að útþynna ekki gerðir, sem aðildarlöndin hafa öll komið sér saman um eftir erfiða samningafundi. 

EFTA-löndin verða einfaldlega að taka við því, sem að þeim er rétt, einnig þótt slíkt feli í sér brot á grundvallarreglu EES-samningsins um tveggja stoða samkomulag jafnrétthárra aðila.  Innan EFTA er einfaldlega engin stofnun mótsvarandi ACER, og þess vegna er komið alvarlegt stjórnlagalegt ójafnvægi í framkvæmd samningsins.  Allt ber að sama brunni: EFTA-ríkin hafa ekki stjórnskipulega getu vegna smæðar sinnar til að standa að EES-samstarfinu án þess að ganga í berhögg við stjórnarskrár sínar.  Þetta á a.m.k. við Ísland og Noreg.

Það er stöðugt tönglast á því, að einhverju breyti varðandi yfirráð ACER, að engin tenging er á milli íslenzka raforkukerfisins og erlendra.  Þarna er horft algerlega framhjá þeirri skipulagsbreytingu, sem mun eiga sér stað í íslenzka orkugeiranum, ef/þegar lögfesting Þriðja orkumarkaðslagabálksins tekur gildi.

Hún er í stuttu máli sú, að stofnað verður útibú ACER á Íslandi, sem verður algerlega óháð íslenzkum stjórnvöldum og hagsmunaaðilum. (Norðmenn kalla þetta RME hjá sér, "Reguleringsmyndighet for energi".) Útibúið fær öll reglusetningar- og eftirlitsvöld yfir raforkuflutningsgeiranum (Landsneti), sem nú er að finna hjá Orkustofnun (OS) og ráðuneyti.  ACER skipar forstjóra þessarar stofnunar, en hún mun samt fara á íslenzku fjárlögin.  Þótt ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) sé á skipuritinu sett á milli útibúsins og ACER, breytir það stjórnlagalega engu í raun um það, að hér er stefnt á, að yfirþjóðleg stofnun (ACER) fari að stjórna á mikilvægu málefnasviði á Íslandi, framjá ríkisvaldinu.  Þetta er grafalvarlegt stjórnlagabrot.

Til að sýna fram á haldleysi kenningarinnar um sakleysi aðildar Íslands að Orkusambandi ESB nægir að rekja, hvernig ACER með þessum völdum sínum getur fengið sínu framgengt um Ice Link, þótt leyfisvaldið sé áfram í höndum OS (undir stjórn ráðuneytis).  Það er vegna þess, að í höndum útibús ACER verður að semja tæknilega og viðskiptalega tengiskilmála fyrir sæstrenginn.  Uppfylli væntanlegt sæstrengsfélag þessa skilmála í umsókn sinni til OS, getur OS ekki synjað honum um leyfið, nema vera gerð afturreka með synjunina með úrskurði ESA og dómi EFTA-dómstólsins.  Þannig er ekkert haldreipi í því, að Ísland er einangrað raforkukerfi núna. Sú skoðun gengur fótalaus og styðst ekki við staðreyndir máls. Hún er ímyndun eða óskhyggja reist á vanþekkingu um valdsvið ACER og útibú þess í hverju landi.  

Í téðri sviðsljósgrein stendur þetta m.a. og hlýtur að vera haft eftir Katli, skræk, af innantómum gorgeirnum að dæma:

""Að mati utanríkisráðuneytisins skiluðu tilraunir íslenzkra stjórnvalda til að ná fram viðunandi aðlögun góðum árangri, og voru Íslandi veittar mikilvægar undanþágur.  [Það er ótrúlegt að lesa þetta sjálfshól, því að mála sannast er, að engar undanþágur, sem máli skipta, fengust frá Þriðja orkumarkaðslagabálkinum, enda er barnaskapur að búast við slíku - innsk. BJo.]

Ísland fékk, í fyrsta lagi, undanþágu frá kröfum tilskipunar 2009/72/EB um sameiginlegar reglur um innri markað raforku varðandi eigendaaðskilnað vinnslu- og söluaðila annars vegar og flutningskerfa hins vegar.  Þetta telst umtalsverður ávinningur fyrir Ísland í ljósi eignarhalds Landsnets og vandkvæða á að breyta því fyrirkomulagi.""

Í raun var reglan um eigendaaðskilnað innleidd með Öðrum orkumarkaðslagabálki og raforkulögum árið 2003. Þar er lögbundin einokunarstaða Landsnets á flutningskerfinu, og hvaða annað eignarhald en ríkiseign tryggir þá jafna samkeppnisstöðu allra þeirra, sem vilja setja orku inn á flutningskerfið eða taka út af því orku ?  Núverandi eignarhald Landsnets með fulltrúa Landsvirkjunar, OR, RARIK og OV í stjórn fyrirtækisins er einfaldlega óviðunandi, ef tryggja á jafnstöðu allra markaðsaðila eftir föngum. Þetta hefur Ríkisendurskoðun margbent á, nú síðast með skýrslu frá febrúar 2018.

Það er þess vegna stórt skref aftur á bak og vekur furðu að ætla að festa núverandi óeðlilega ástand í sessi.  Vandræðagangurinn er með ólíkindum, að ríkið eigi erfitt með að breyta núverandi eigendafyrirkomulagi, þegar ríkið er að 93 % óbeinn eignaraðili að Landsneti og er þar þess vegna mestan part að semja við sjálft sig um skuldabréf til núverandi eigenda, svo að ríkið eignist fyrirtækið að fullu beint. 

Það er furðulegt að sækja um undanþágu fyrir þetta óeðlilega fyrirkomulag til ESA.  Í lagafrumvarpi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, sem nú liggur fyrir Alþingi, er breyting á raforkulögum þess efnis, að ekki er lengur stefnt að ríkiseign á Landsneti, heldur geti jafnvel nýir aðilar komið þar inn.  Þetta fellur afar illa að einokunarhlutverki Landsnets, og verður Alþingi fyrr en seinna að vinda ofan af þessari undarlegu hugmyndafræði, sem virðist vera ættuð utan úr geimnum, en finnst hvergi í samþykktum ríkisstjórnarflokkanna.

"Framkvæmdastjórn ESB hafnaði beiðni Íslands um að verða skilgreint lítið, einangrað raforkukerfi, þar sem raforkunotkun landsins er langt umfram viðmiðunarmörk tilskipunarinnar."

Af þessu má ráða, að tilraun íslenzkra embættismanna til að fá raunverulega undanþágu frá að lenda í klóm ACER hefur gjörsamlega mistekizt, og hún sýnir algeran skilningsskort á því, sem Orkusamband ESB snýst um.  Það snýst einmitt um öfluga samtengingu allra landa ESB/EES, nýjar samtengingar og eflingu þeirra, sem fyrir eru, til að bæta afhendingaröryggi raforku í ESB og flýta fyrir orkuskiptunum.  Hér á við "to be or not to be", þ.e. annaðhvort eru menn með eða á móti.

Á Íslandi hefði samtenging hins vegar þveröfug áhrif, því að samrekstur landskerfisins við 1200 MW sæstreng (50 % af uppsettu afli í virkjunum) yrði tæknilega erfiður, t.d. í bilanatilvikum), og útflutningur á "kolefnisfrírri" raforku og innflutningur á raforku úr jarðefnaeldsneytisorkuverum mundi tefja fyrir orkuskiptum hérlendis.  

"Íslandi verður þó heimilt að sækja um undanþágu frá ákvæðum um aðskilnað dreififyrirtækja (svo ?!), aðgengi þriðja aðila og markaðsopnun o.fl., ef sýnt er fram á erfiðleika í rekstri raforkukerfisins."

Þessi texti kemur ærið spánskt fyrir sjónir.  Hvaða aðskilnað dreififyrirtækja skyldi vera átt við ?  Er átt við bókhaldslegan aðskilnað dreifingar á vatni (heitu og köldu) og rafmagni ?  Sá aðskilnaður er ekki fyrir hendi hérlendis, en dreififyrirtækin starfa samkvæmt sérleyfi, sem Orkustofnun gefur út, og að flækja þessu inn í viðræður við ESB er alveg út í hött.  

Þarna er líka vísað til heimildar um að stöðva orkuviðskipti um samtengingar við útlönd, ef neyðarástand myndast í raforkukerfinu innanlands.  Þetta ákvæði fékk EFTA-fram sem heild í viðræðum við ESB, og það gildir ekki frekar fyrir Ísland en önnur lönd.  Að draga þetta fram hér, sýnir, að menn (væntanlega beggja vegna samningaborðsins) hugsa sér Ísland samtengt sameiginlegum raforkumarkaði ESB/EES í framtíðinni.  

Það virðist því miður ríkja þekkingarleysi eða a.m.k. gróft vanmat hérlendis á eðli ACER og til hvers innganga Íslands í Orkusamband ESB mundi leiða hér.  Fullyrðingar frá embættismönnum ráðuneyta o.fl. um lítil áhrif á rafmagnslegt eyland benda til alvarlegrar meinloku í þessum efnum, og að fólk hafi einfaldlega ekki ráðið við heimaverkefnin. 

 

 

     

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband