Stórkarlaleg hugmyndafræði borgaryfirvalda

Einkennandi fyrir stjórnsýslu núverandi borgaryfirvalda er aðgerðarleysi, eins og rakið verður hér á eftir.  Það er engu líkara en stórkarlalegir loftkastalar eigi að bera í bætifláka fyrir doða stjórnkerfisins.  Algert áhugaleysi um hag atvinnulífsins og þjónustu við borgarbúa, hvað þá aðra landsmenn, skín út úr stefnumörkun og aðgerðarleysi borgarstjórnarmeirihlutans. Einkenni hans er doði, en nú þarfnast höfuðborgin einmitt dugandi karla og kvenna í meirihluta borgarstjórnar. Kjósendum í borginni er nú boðið upp á kosti, sem vert er að reyna.

 Doðinn og loftkastalarnir eru skýr merki um, að fulltrúar meirihlutans eru ekki í pólitík til að þjónusta einn eða neinn, nema þá að þjóna lund sinni með því að troða meingallaðri, vanhugsaðri, rándýrri og afar óhagkvæmri hugmyndafræði sinni upp á höfuðborgarbúa og þar með landsmenn alla. Borgarstjórinn er utan gátta um rekstur borgarinnar, sem safnar miaISK 8 skuldum á ári og kann engin skil á slysum í rekstrinum, t.d. saurgerlum við baðströnd borgarinnar og skolpúrgangi í grennd, enda er hann ekki til viðtals fyrir sauðsvartan almúgann.  Hjá Reykjavík mun ekkert breytast til batnaðar fyrr en í borgarstjórastól sezt skeleggur maður með báða fætur á jörðunni og lætur verkin tala.  Hann verður að snúa hnignun fjármála og framkvæmda við.  Eyþór Arnalds sýndi og sannaði í Árborg, að hann kann þetta.  

Fyrsta dæmið um bjálfalega stjórnarhætti núverandi borgarstjórnarmeirihluta, sem hér verður tekið, er fyrirhuguð lokun Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýrinni, eigi síðar en 2024.  Þessi stefna var tekin án nokkurrar tilraunar til að leggja raunhæft mat á afleiðingarnar.  Enginn flugvöllur kemur í staðinn, enda næmi slík fjárfesting miaISK 100-200.  Lokun flugvallarins þýðir gríðarlega afturför varðandi eftirfarandi þætti:

  • Flugkennsla í landinu missir langmikilvægustu aðstöðu sína.  Starfsemin á Keflavíkurflugvelli og flugkennsla fara mjög illa saman. Flugkennslan í landinu er í uppnámi, á meðan hótun stjórnmálamanna um lokun Vatnsmýrarvallar vofir yfir.  
  • Flugfélögin, sem nota Keflavíkurflugvöll, missa mjög hentugan varafluvöll, sem þýðir minna öryggi, meiri eldsneytiskostnað og minni lestunargetu fólks og varnings um borð.  Þetta mun gera flug til landsins og frá því dýrara.  Ekki er víst, að stærsta atvinnugrein landsins, ferðaþjónustan, megi við því.  Nú þegar eru teikn á lofti um, að aukning erlendra ferðamanna minnki einn mánuð eftir annan og gæti hæglega stefnt á samdrátt í fjölda á þessu ári m.v. 2017.  Kemur hann á versta tíma fyrir greinina að miklu fjárfestingarskeiði afstöðnu.  Ef samkeppnisstaða Íslands versnar m.v. önnur lönd nyrzt á norðurhveli, þá getur slíkt leitt yfir landið efnahagskreppu.  
  • Sjúkraflugið verður aðeins svipur hjá sjón.  Forsenda þess, að landsbyggðarfólk geti reitt sig á neyðarþjónustu Landsspítalans er öflugt og öruggt sjúkraflug, sem aðeins er mögulegt með góðan flugvöll nærri honum, eins og nú háttar til.  Að stefna sjúkrafluginu, nema þyrlunum, til Keflavíkur er svívirðileg framkoma við þá, sem í nauðum lenda fjarri höfuðstaðnum.  

 

 Samgöngumál  höfuðborgarinnar, bæði við hana og innan hennar, eru í algerum ólestri, og fær borgarstjórnarmeirihlutinn falleinkunn fyrir málsmeðferð sína á þeim málaflokki. Hann hefur unnið gegn hagsmunum allra, sem þurfa að komast leiðar sinnar á höfuðborgarsvæðinu, með því að hlutast til um, að Vegagerðin haldi að sér höndum með umbætur á stofnæðum Reykjavíkur, en leggi þess í stað tæplega 1,0 miaISK/ár í Strætó. Þá innspýtingu taldi vinstri meirihlutinn 2011 duga til að auka hlutdeild Strætó í umferðinni, en hún stendur samt nánast í stað við 4 %.  Þessum ríkisfjármunum er þess vegna mjög illa varið miðað við það, sem verið gæti.  Þá hefur núverandi meirihluti Dags, borgarstjóra, unnið skemmdarverk á undirbúningi Sundabrautar með því að girða fyrir ódýrari leiðina með lóðaúthlutun.  Engu er líkara en Dagur og hinn pólitíski kommissar skipulagsmálanna, svo nefndur Holu-Hjálmar, sem er enginn andans maður, eins og Bólu-Hjálmar var, stundi skæruhernað gagnvart íbúunum í nafni sérvitringslegrar hugmyndafræði. Það er pólitískt stórslys, að sérvitringar og faglegir viðvaningar skuli hafa vélað svo lengi um borgarskipulagið, sem raun ber vitni um. 

Sem lausn á umferðarvandanum berjast þeir fyrir miaISK 100 fjárfestingu í s.k. Borgarlínu, sem er sérrein fyrir liðvagna, eftir að sporvagn var lagður á hilluna.  Er nú hótað að setja veikburða borgarsjóð á hausinn með stórfelldum lántökum í þetta vonlausa verkefni, því að ríkið hefur að öllum líkindum önnur áform í Samgönguáætlun sinni 2019-2021, sem bíður birtingar.

Vandamál Borgarlínu er hár stofnkostnaður og rekstrarkostnaður miðað við íbúafjöldann á "upptökusvæði" vagnanna.  Úr þessu reyna Dagur og Holu-Hjálmar að bæta með þéttingu byggðar.  Þessi stefna hefur þegar valdið ómældu tjóni.  Þessi byggingarmáti er tafsamur og dýr.  Árið 2017 voru aðeins 322 íbúðir byggðar í Reykjavík, sem er aðeins rúmlega 15 % af þörfinni.  Þetta kemur mjög harðlega niður á kaupendum fyrstu íbúðar sinnar, því að lítið framboð m.v. eftirspurn spennir verðið upp.  Um þetta húsnæðishallæri af mannavöldum skrifar Baldur Arnarson baksviðsfrétt í Morgunblaðið 24. apríl 2018,

Nýju íbúðirnar of dýrar:

"Fátt bendir til, að skorti á smærri og ódýrari íbúðum miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu verði eytt á næstu misserum.  Nýjar íbúðir, sem eru að koma á markað, eru enda of dýrar.

Síðan vitnar hann í tvo sérfróða um húsnæðismarkað:

"Tilefnið er, að fyrstu íbúðirnar í nýju hverfi í Vatnsmýri fóru í sölu.  Haft var eftir Brynjari Harðarsyni, framkvæmdastjóra Vals, í fréttum Stöðvar 2 sl. laugardag, að íbúðirnar hentuðu fyrstu kaupendum.  Verð íbúðanna er 39,8 til 72,9 milljónir.  Meðalstærð þeirra er 71 m2, og meðalverð á m2 er um 666 þúsund krónur."  

Hér er yfirleitt um of stórar íbúðir fyrir fyrstu kaupendur að ræða.  Engum þarf að koma á óvart, að íbúðir í Vatnsmýri séu dýrar.  Við því var varað í upphafi umræðu um byggingarland þar, því að mjög djúpt er niður á fast undirlag. Að skáka í því skjólinu, að Reykjavíkurflugvelli verði brátt lokað, og að Neyðarbrautinni hafi verið lokað, eru of veik rök fyrir því að setja strax niður íbúðabyggð í Vatnsmýrinni.  Þetta er rétt eitt glóruleysið, og þessar íbúðir geta hrapað í verði, ef nýr meirihluti festir flugvöllinn í sessi og jafnvel opnar Neyðarbrautina.  

Síðan kemur afsprengi sérlundaðrar skipulagsstefnu, sem rýrir óhjákvæmilega gildi nýrra íbúða:

"Allur gangur er á því, hvort bílastæði fylgja nýjum íbúðum á þéttingarreitum í borginni.  T.d. er hægt að kaupa bílastæði í kjallara með ódýrustu íbúðunum á Frakkastíg."

Það er ein af frumskyldum bæjarstjórna að skipuleggja nægt framboð íbúða af réttum stærðum m.v. þarfir hvers tíma.  Reykjavíkurborg hefur gersamlega brugðizt þessu hlutverki, haft allt of lítið framboð ódýrra lóða, sem skipulagðar eru fyrir litlar íbúðir.  Skilningur á þörfum íbúanna heldur ekki máli og er brottrekstrarsök úr borgarstjórn.  Þegar borgaryfirvöld mæta íbúum Furugerðis, sem kvarta undan allt of mikilli þéttingu og of fáum bílastæðum, með því, að þeir geti notað reiðhjól, af því að nú sé búið að gera góða aðstöðu fyrir reiðhjól við Grensásveg, er ljóst, að ósvífni "rauðu khmeranna" eru engin takmörk sett og að nú er mælirinn fullur. 

"Lýðfræðileg þróun síðustu áratuga hefur aukið eftirspurn eftir smærri íbúðum.  Á sama tímabili hefur verið byggt hlutfallslega meira af stærri íbúðum, sem eru 110 m2 eða stærri.  Það eru ekki íbúðir, sem ætla má, að fyrstu kaupendur séu alla jafna að horfa til.

Elvar Orri segir þessa þróun hafa skapað skort á smærri eignum, 30-60 m2, sem eru á viðráðanlegu verði fyrir fyrstu kaupendur.

Þá á ég við smærri íbúðir, sem kosta undir 30 milljónum króna.  Ég held, að fyrstu kaupendur séu ekki endilega að horfa til íbúða, sem eru 60 m2 eða stærri.  Það væru eflaust margir tilbúnir að fara úr foreldrahúsum og í íbúðir, sem eru minni en 60 m2, segir Elvar Orri og bendir á, að mikil eftirspurn eftir litlum íbúðum í skammtímaleigu til ferðamanna hafi dregið úr framboði smærri og ódýrari íbúða."

Fílabeinsturninn:

Vinstri menn hafa mikla tilhneigingu til að þenja út stjórnkerfi sín, einnig borgarinnar, og fjölga silkihúfum.  Þeir hafa hins vegar enga þekkingu á því úr fyrirtækjarekstri, hvernig skipuleggja þarf starfsemi, svo að hún virki.  Fjölgun embættismanna hefur fylgt lögmáli Parkinsons um, að ein staða kalli á aðra, og þjónustan hefur hríðversnað.  Stjórnsýslan er orðin svo flókin, að enginn virðist botna í henni.  Þetta spillta, gagnslitla og dýra kerfi þarf að skera upp, hrista upp í því og búa til einfaldar boðleiðir, þar sem íbúunum, sem þjónustunnar eiga að njóta, er ljóst, hver ber ábyrgð á hverju, og hvert þeir eiga að snúa sér með erindi sín.

  Yfirmennirnir virðast núna ekki vera í neinu sambandi við íbúana.  Ef óskað er viðtals við æðsta strump, er vísað á undirtyllu.  Þessi "elítuuppbygging" að hætti "Brüsselvaldsins" á auðvitað engan veginn við í okkar litla samfélagi, þar sem ekki er pláss fyrir aðgerðarlausa kónga, sem er sama um lýðinn, heldur verða allir að vera virkir.  

Það, sem sparast þá við þessa uppstokkun, á að veita til að bæta grunnþjónustuna við íbúana, t.d. yngstu íbúana, hverra foreldrar eru á skeiði mestu fjárþarfar lífs síns og þurfa þess vegna bæði á tekjum að halda, enda er slíkt í anda jafnréttis.  Að bjóða yngstu íbúunum gott atlæti er grundvallarmál.  

Eldri borgarar:

Um allt land fer eldri borgurum hlutfallslega mest fjölgandi allra aldurshópa.  Það á í sérstökum mæli við í Reykjavík, þar sem frá dögum R-listans hefur verið rekin beinlínis fjandsamleg stefna í garð ungs fólks, sem er að stofna heimili.  Þetta er fádæma skammsýni fyrir hönd borgarinnar, og vonandi munu nýir valdhafar í borginni snúa þessari öfugþróun við.  

Eyþór Arnalds, borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins, ritaði þann 24. apríl 2018 grein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni:

"Okkar lausnir í Reykjavík".

Einn kaflinn hét: "Bætum kjör eldri borgara" og var merkileg tillaga að stefnumörkun fyrir borgina og önnur sveitarfélög:

"Borgin hefur hækkað gjöld á íbúana á síðustu 8 árum.  Á sama tíma hafa eldri borgarar orðið fyrir skerðingum.  Við viljum koma til móts við eldri borgara og veita 100 % afslátt fyrir þá, sem eru orðnir 70 ára.  Þetta er réttlætismál, þar sem hér er verið að draga úr tekjuskerðingum.  En þetta er jafnframt skynsamlegt, þar sem það er mun hagstæðara, að þeir, sem geta og vilja búa heima, eigi þess kost.  Það er dýrt og óskynsamlegt að stofnanavæða heilu hópana.  Og það er engin lausn í húsnæðismálum að skattleggja eldri borgara út úr húsum sínum."

Vinstri menn hafa brugðizt öndverðir við þessum sjálfsögðu þjóðfélagsumbótum Eyþórs Arnalds og beitt fyrir sig hefðbundnum músarholusjónarmiðum úr öfundargenunum um, að hér sé verið að umbuna þeim ríku.  Þannig bregðast þeir alltaf við tillögum um skattalækkanir og kasta þar með á glæ fjölmörgum kostum skattalækkana, sem allt þjóðfélagið nýtur, jafnvel stundum á formi tekjuhækkana opinberra sjóða, og það er einmitt útgjaldalækkun opinberra sjóða, sem Eyþór hefur í huga hér, svo að allir græði. 

Það er rík ástæða til að hvetja alla, sem annt er um góða þjónustu í nærsamfélaginu og ráðdeild við stjórnun fjármála þar, til að kjósa D-listann, ekki sízt í Reykjavík.  Höldum okkur hægra megin. 

Listakjör

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Enn einn öfgahægrikarlinn sem ekki hefur kosningarétt í Reykjavík.

Þorsteinn Briem, 4.5.2018 kl. 11:14

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Steini Briem, 13.3.2017:

Þúsundir manna hér á Íslandi, bæði Íslendingar og útlendingar, misstu vinnuna vegna Hrunsins hér haustið 2008.


Þúsundir útlendinga höfðu þá verið að byggja íbúðir hér á höfuðborgarsvæðinu og þeir fluttu úr landi ásamt þúsundum íslenskra iðnaðarmanna.

Þúsundir manna hér á Íslandi misstu einnig íbúðir sínar og urðu gjaldþrota.

Íbúðir voru því tiltölulega ódýrar hérlendis mörgum árum eftir Hrunið og því ekki mikill vandi fyrir ungt fólk að kaupa íbúðirnar ef það hafði til þess fjárráð, sem það hafði yfirleitt ekki.

Og þúsundir manna fluttu úr landi vegna lágra launa hérlendis.

Til að hægt sé að reisa hér ný íbúðarhús þarf að flytja inn vinnuaflið og það þarf einnig að búa einhvers staðar.

Og nú starfa hér aftur þúsundir útlendinga við að reisa íbúðar- og atvinnuhúsnæði, þar á meðal hótel og gistiheimili, svo og við ferðaþjónustuna, þannig að hægt verður að aflétta hér nær öllum gjaldeyrishöftum á morgun.

En að sjálfsögðu geta þessar þúsundir útlendinga ekki flutt inn í húsnæði sem ekki er búið að byggja vegna Hrunsins hér á Íslandi haustið 2008.

Atvinnuleysi hér á Íslandi er nú nær ekkert vegna ferðaþjónustunnar, sem Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafa hatast við.

Og nú hefur loks nýlega verið hægt að stórhækka hér laun vegna ferðaþjónustunnar sem hefur mokað erlendum gjaldeyri inn í landið, þannig að gjaldeyrisforðinn er nú jafnvirði átta hundruð milljarða króna.

Nokkur ár tekur að hanna og reisa íbúðarhúsnæði, enginn skortur er á lóðum fyrir íbúðarhúsnæði hér í Reykjavík í mörgum hverfum borgarinnar og hér býr einungis rúmlega helmingur þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu.

En sumir hafa greinilega fengið á heilann Hlíðarendasvæðið, sem er í einkaeigu, og tapað öllum málaferlum vegna þessa svæðis.

Þorsteinn Briem, 4.5.2018 kl. 11:23

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri 19.1.2018:

"Aldrei hefur verið úthlutað lóðum fyrir eins margar íbúðir í Reykjavík og á síðasta ári.

Alls var úthlutað lóðum fyrir 1.711 íbúðir, sem hittir svo skemmtilega á að er sama tala og heildarfjöldi íbúða á Seltjarnarnesi í árslok 2016.

Aðalfréttin er þó að af þessum 1.711 íbúðum munu 1.422 verða reistar af félögum sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni.

Þetta eru stúdentar, félög aldraðra, verkalýðsfélög, búseturéttarfélög og margir fleiri.

Samstarf við félög sem ekki eru að byggja í hagnaðarskyni er einmitt lykilatriði í að gera húsnæðismarkaðinn heilbrigðari og er hryggjarstykkið í húsnæðisáætlun borgarinnar.

Hér er svo listi yfir úthlutanirnar."

Þorsteinn Briem, 4.5.2018 kl. 11:26

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

13.10.2017:

Bygg­ing­asvæði á fram­kvæmda­stigi í Reykjavík - Fjöldi íbúða:

Efsta­leiti 360
Hlíðar­endi 780
Smiðju­holt 203
Bryggju­hverfi II 280
Granda­veg­ur 142
Hljómalind­ar­reit­ur 35
Hverf­is­gata 92-96 60
Hafn­ar­torg - Aust­ur­höfn 178
Brynjureit­ur 77
Frakka­stígs­reit­ur 68
Tryggvagata 13 40
Mána­tún 44
Borg­ar­tún 28 21
Ný­lend­ur­reit­ur 20
Suður-Mjódd 130
Reyn­is­vatns­ás 50
Höfðatorg I 94
Mörk­in 74
Baróns­reit­ur-Hverf­is­gata 85-93 70
Soga­veg­ur 73-77 45
Sig­túns­reit­ur 108
Keilu­grandi 1 78
Skóg­ar­veg­ur 20
Úlfarsár­dal­ur - nú­ver­andi hverfi 100
Lauga­veg­ur 59 11
Hverf­is­gata 61 12

Sam­tals: 3.100 íbúðir. 

Samþykkt deili­skipu­lag í Reykjavík - Fjöldi íbúða:

Kirkju­sand­ur 300
Vest­ur­bugt 176
Spöng­in - Móa­veg­ur 156
Baróns­reit­ur-Skúla­gata 105
Vís­indag­arðar 210
Hraun­bær 103-105 60
Sæ­túns­reit­ur 100
Höfðatorg II 126
Voga­byggð II 776
Naut­hóls­veg­ur 440
Borg­ar­tún 34-36 86
Sléttu­veg­ur 307
KHÍ-lóð 160
Sól­tún 2-4 30
Elliðabraut 200
Stein­dórs­reit­ur 70
Vig­dís­ar­lund­ur 20
Voga­byggð I 330
Úlfarsár­dal­ur - nú­ver­andi hverfi 290
Úlfarsár­dal­ur - Leirtjörn 360

Sam­tals: 4.302 íbúðir.

Að auki eru 3.045 íbúðir í skipu­lags­ferli. Stærstu svæðin eru þar þriðji áfangi Bryggju­hverf­is (800 íbúðir), Skeif­an (750 íbúðir), fyrsti áfangi Gufu­ness (450 íbúðir) og Heklureit­ur (400 íbúðir). 

Þá eru tæp­lega 9 þúsund íbúðir fyr­ir­hugaðar á svo­kölluðum þró­un­ar­svæðum. Þar mun­ar mestu um 4.500 íbúðir í Elliðaár­vogi og þúsund í Skerja­byggð. Þá er gert ráð fyr­ir 800 íbúðum í þriðja og fjórða áfanga Voga­byggðar. Í þróun eru einnig 500 íbúðir við Kringl­una og áþekkur fjöldi bæði á Keld­um og í Gufu­nesi.

Hér má finna 40 síðna bæk­ling þar sem farið er ofan í bygg­ingaráform og fram­kvæmd­ir á hverj­um reit fyr­ir sig."

Og hér má sjá á gagn­virku korti hvar bygg­inga­svæðin eru

Þorsteinn Briem, 4.5.2018 kl. 11:29

5 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Það gengur á með hríðarbyljum í höfuðborginni í dag.  En þeir eru dagsins - en ekki gamlar hryðjur eins og flestar hér að ofan...

Kolbrún Hilmars, 4.5.2018 kl. 15:44

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæl, Kolbrún;

Bullustampurinn Steini Briem reynir hér að ofan að bera í bætifláka fyrir gjörsamlega ótæka stjórnarhætti Samfylkingarinnar í Reykjavík.  Verst er þar ástandið í skipulags- og íbúðamálum, og lýsa má húsnæðisvandanum þar sem neyðarástandi, enda hefur hlutfallslega minnst verið byggt þar í áravís allra sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og þótt víðar væri leitað.  Í fyrra voru t.d. aðeins tilbúnar þar innan við 330 íbúðir, en uppsöfnuð þörf er þar um 9000 íbúðir.  Í ofanálag svarar íbúðagerðin ekki brýnustu þörfinni, sem er fyrir íbúðir minni en 60 m2.  Íbúðaverð hefur hækkað upp úr öllu valdi, þegar einingarverð nær 666 kkr/m2.  Hið pólitíska forystuleysi borgarinnar á sök á þessu með framköllun lóðaskorts, uppboði á lóðum og ofuráherzlu á þéttingu byggðar.  Hrakfallasaga Samfylkingar við stjórnvölinn í Reykjavík er með þeim hætti, að flest málasvið borgarinnar eru í skötulíki, skipulagsmál, samgöngumál, skólamál, frárennslismál ogsíðast en ekki sízt fjármálin, sem stefna í öngþveiti og valdatöku tilsjónarmanns ríkisins með 8 milljarða króna skuldaaukningu A-hluta borgarsjóðs á ári. 

Bjarni Jónsson, 5.5.2018 kl. 10:44

7 Smámynd: Halldór Jónsson

Ekki bregst fyrirbrigðið Steini Briem

Halldór Jónsson, 5.5.2018 kl. 10:45

8 Smámynd: Halldór Jónsson

Hvernig flokkar maður svona? Víðsýnisvinstrimaður? Blindubullari?

Halldór Jónsson, 5.5.2018 kl. 10:47

9 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, kollega Halldór;

Af aðdáun nefnds fyrirbrigðis og lotningu fyrir öllu, sem kennt er við "búrókratí", ásamt takmarkaðri getu til úrvinnslu gagna, gæti þar farið búrókrati og krataörverpi í sama búknum.

Bjarni Jónsson, 5.5.2018 kl. 17:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband