Norskir rafbílaeigendur fá að kenna á því

Norska ríkið hefur með alls konar gylliboðum lokkað bifreiðakaupendur til að velja sér rafknúna bifreið.  Þetta ásamt tiltölulega lágu rafmagnsverði í Noregi og þar af leiðandi lægri rekstrarkostnaði rafmagnsbíla en jarðefnaeldsneytisknúinna bíla, ásamt ýmsum fríðindum, hefur leitt til mikillar forystu Norðmanna við innleiðingu orkuskiptanna. Hlutfallslega eru hreinrafbílar og tengiltvinnbílar samtals um 7 sinnum fleiri í Noregi en á Íslandi.  

Í Noregi er "augnabliksmarkaður" á raforku.  Framboð, eftirspurn og kerfisálag ræður verðinu.  Í júní 2018 rauk verðið skyndilega upp að deginum, og er það óvenjulegt um hásumarið í Noregi, en stafar vafalaust af miklum útflutningi raforku um sæstrengi til útlanda og hugsanlega þurrkatíð.  Norskum rafbílaeigendum brá í brún, þegar verð frá hleðslustöð nam sem svarar til 16,2 ISK/km (1,2 NOK/km), á meðan verð frá eldsneytisdælu nam 12,2 ISK/km (0,9 NOK/km).  Þarna er raforkukostnaðurinn skyndilega orðinn 33 % hærri en eldsneytiskostnaðurinn og meira en þrefalt hærri en á Íslandi.    

Á Íslandi er þokkalegur stöðuleiki í raforkuverði, en eldsneytisverðið sveiflast með markaðsverði hráolíu.  Um þessar mundir nemur orkukostnaður rafbíls um 5 ISK/km og eldsneytisbíls um 20 ISK/km.  Orkukostnaður rafbíls er 25 % af orkukostnaði jarðefnaeldsneytisbíls. Þetta myndar sterkan hvata til orkuskipta í umferðinni hérlendis, þótt innkaupsverð rafbíla sé enn þá hærra en hinna vegna lítils fjölda. Rafbílar eru einfaldari að gerð, og viðhaldskostnaður þeirra þar af leiðandi lægri. Rafgeymakostnaðurinn vegur þarna á móti, en hann hefur hins vegar lækkað um 80 % á kWh á einum áratugi.  

Það var aflgjaldið í raforkuverðinu við rafgeymahleðslustöð, sem sums staðar í Noregi hafði hækkað um 60 % og hleypt raforkukostnaðinum 33 % upp fyrir eldsneytiskostnaðinn, þ.e. úr 2,5 NOK/mín upp í 4,0 NOK/min.

Hér sjáum við angann af því, hvað verðsveiflur á orku geta haft mikil áhrif á orkuskiptin.  Grundvöllur skjótra orkuskipta er lækkun orkukostnaðar notenda, auk þjóðhagslegs gildis gjaldeyrissparnaðarins, sem af þeim hlýzt.  Fyrirsjáanleiki um þróun innlends orkuverðs er lykilatriði í þessu sambandi, svo að litlir og stórir fjárfestar meti fjárhagsáhættuna litla af því að stíga þau skref til orkuskipta, sem eru nauðsynleg til að ná mjög metnaðarfullum  markmiðum stjórnvalda. Ef stjórnvöld stíga vanhugsuð skref í orkumálum, sem leiða til jafnvægisleysis þar og jafnvel meðalverðshækkana, þá tefja þau þar með orkuskiptin.  

Nú vinnur Landsnet að undirbúningi einhvers konar uppboðsmarkaðar fyrir raforku á Íslandi.  Hvaða vandamál á hann að leysa ?  Ef hann bætir ekki kjör almennings á Íslandi, er verr farið en heima setið.  Það er öruggt, að verðsveiflur á raforku munu aukast við innleiðingu uppboðsmarkaðar, en óvíst er um ársmeðalverðið.  Þessa tilraun ætti um sinn að takmarka við markað ótryggðrar raforku, því að ella getur tilraunin orðið of dýru verði keypt, jafnvel þótt markaður utan langtímasamninga hérlendis nemi aðeins um 20 % af heild.

Varnaðarorð Elíasar Elíassonar, sérfræðings í orkumálum, eiga vel við hér, en grein eftir hann birtist í Morgunblaðinu 26. júní 2018 undir fyrirsögninni:

"Lög og raforkumarkaður"

Hún hófst þannig:

"Fyrir frjálsan raforkumarkað er afar mikilvægt, að lagaramminn sé rétt hannaður eftir aðstæðum, einkum þar sem vatnsorka er ráðandi.  Nokkur dæmi eru um, að óheppilegur lagarammi valdi slæmum verðsveiflum á slíkum mörkuðum og jafnvel hruni.  Þetta er alþekkt."

Síðan snýr hann sér að líklegum afleiðingum þess að innleiða hérlendis Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB, þótt rafkerfið sé ótengt útlöndum:

"Skoðun mín er hins vegar sú, að hönnun þriðja orkupakka ESB, sem er rammi um markað fyrir raforku úr gasi og kolum, sé óheppileg fyrir okkar vatnsorkukerfi og veiti hvorki raforkumarkaði hér rétt aðhald né tryggi nauðsynlega hvata.  Þetta getur bæði valdið hærra orkuverði hér en ella og kallað á óhagkvæmar fjárfestingar og annan kostnað hjá notendum.  Ekki er tímabært að skoða málin eftir komu sæstrengs."

Það er áríðandi á þessum tímapunkti, að stjórnvöld og landsmenn allir átti sig á því, að Þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB, sem Sameiginlega EES-nefnd EFTA og ESB hefur samþykkt til innleiðingar í löggjöf EFTA-landanna, illu heilli, nema Sviss, er miðaður við raforkukerfi, sem í grundvallaratriðum er ólíkt íslenzka raforkukerfinu.  Framhjá þessari staðreynd hafa bæði iðnaðarráðuneytið og utanríkisráðuneytið horft, þegar þau í blekkingarskyni og/eða af vanþekkingu á því um hvað málið snýst, hafa haldið því fram, að áhrif innleiðingarinnar muni verða lítil fyrir Íslendinga, á meðan enginn er aflsæstrengurinn.  Þetta er afneitun á því, að búrókrötunum í Brüssel hefur eðlilega ekki dottið það í hug að líta til hagsmuna Íslands, þegar þeir smíðuðu téðan orkumarkaðslagabálk, og íslenzkum kunnáttumönnum á sviði "vatnafærni" var ekki veitt neitt tækifæri til að koma þar sjónarmiðum sínum að. (Vatnafærni er ekki kunnáttan um það, hvernig bezt er að fara yfir ár, heldur samsafn fræða, er lúta að rekstri vatnsorkuvera.)

Eitt hefur áhrif á annað.  Stórir lagabálkar frá ESB, sem innleiddir eru sem lög hér, hafa áhrif á öllum sviðum þjóðlífsins og á hag allra.  Þess vegna verður að vanda til verka.  Þar sem enginn kostur er á að sníða agnúana af og laga bálkana að íslenzkum aðstæðum, á Alþingi ekki að hika við að nota stjórnskipulegan rétt sinn og hafna gjörðum ESB, sem bersýnilega valda landsmönnum meira tjóni en gagni.

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Þetta er einmitt það sem andstæðingar orkupakka ESB vöruðu við.  Áhrifin komu bara fyrr fram en nokkur átti von á..

Jóhann Elíasson, 10.7.2018 kl. 12:24

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Áhrifin kunna að vera fyrr á ferðinni vegna 30 % minni úrkomu í vor í Noregi en í meðalári og vegna aukins álags á flutningskerfið sökum útflutnings um rafstrengi og fjölda rafbíla, sem bætast ofan á "venjulegt" álag.

Bjarni Jónsson, 10.7.2018 kl. 13:15

3 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Þetta rafbíladæmi verður aldrei fugl né fiskur á heimsmælikvarða.Börn sjá það en barnabarn mitt 14 ára spurði. Afi minnkar mengunin og borgar sig að vera með rafbíla í HongKong. Þeir voru með verkefni í skólanum þar sem kennarinn var umhverfissinni en strákarnir létu hann ekki í friði með þá stefnu. (Hann vissi að rafmagn var framleitt með kolum þar.)

Valdimar Samúelsson, 10.7.2018 kl. 15:15

4 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Takk kærlega fyrir þetta Bjarni.

1. Fólk sem á rafbíla mun innan fárra ára grátbiðja yfirvöld um að fá að henda rafbílum sínum fyrir ekki neitt. Endursöluverð þeirra verður ekkert og jafnvel minna en ekkert.

2. Eigendur rafbíla verða álitnir mestu umhverfissvín þegar vandræðagangur með rafgeyma þeirra koma þeim á sakaskrá.

3. Það styttist í að hægt verði að kynda íbúðarblokkir upp með þeirri heila-rænni suðu sem orðin er í heilabúum þeirra sem létu hér hafa sig að öpum, og svo með koks-kokkurum þeim sem kynda rafsuðubúið í höfðum stjórnmálamanna og þeirra sem sjá um raflostið, sem farið er að einkenna þá sem hafa umsjá með raforkumálum á æðstu stöðum heimskunnar, sem tröllríður nú þeim geira. Þetta fólk á allt að reka úr störfum því það er óhæft og í losti.

4. Sturlunaröld tröllríður nú raforkugeiranum. Hún er verri, upplýstari og fáránlegri en galdrabrennur voru á miðöldum.

Kveðjur - og áfram með smjörið Bjarni

Gunnar Rögnvaldsson, 10.7.2018 kl. 16:08

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hér að ofan rotta sig saman öfgahægrikarlarnir á Moggablogginu.

Þorsteinn Briem, 11.7.2018 kl. 00:15

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Noregur mun, fyrstur ríkja, banna sölu á bílum sem ganga fyrir bensíni og dísilolíu árið 2025.

Indland, Holland og Þýskaland hafa tilkynnt innleiðingu sams konar banns árið 2030.

Frakkland, Bretland, Taívan og fleiri ríki áforma að gera slíkt hið sama áratug síðar, 2040."

Þorsteinn Briem, 11.7.2018 kl. 00:16

7 Smámynd: Bjarni Jónsson

Það færi betur á því, Steini Briem, að þú aflegðir sleggjudóma þína um menn og málefni á vefsíðum annarra, en færir að leggja eitthvað frumlegt og uppbyggilegt til málanna í stað þess að japla stöðugt á kunnuglegum og misáhugaverðum upplýsingum frá öðrum, sönnum eða lognum.

Bjarni Jónsson, 11.7.2018 kl. 10:05

8 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Verður ekki að banna nautaræktun, kýrnar menga svo mikið, og svo þarf svo mikið af eldsneyti, vinnu og innviðum til að búa til allt fóðrið, fyrir kýrnar. Nú er reyndar farið að búa til allar dýraafurðir, frumurnar í ræktunarvökva. Ef þú borðar kjöt, þá ert þú ábirgur fyrir 2 til 2,5 sinnum meira af gróðurhúsa áhrifa gasi, en ef þú ert grænmetis æta.

Vandamáli við grænmetisát er, að kindin og kýrin, kunna að velja jurtirnar, en það kann maðurinn ekki nú, svo vitað sé.

Hér er ég að hugsa til Steina Briem.

Bjarni, þú ert með góða málefna stefnu.

´Sértu manna heilastur, og reyndar þið allir.

Egilsstaðir, 11.07.2018  Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 11.7.2018 kl. 16:49

9 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Það vekur alltaf grunsemdir þegar stjórnvöld taka til við að stýra neyslunni. Díselbílavæðingin á að vera víti til varnaðar.

Ragnhildur Kolka, 12.7.2018 kl. 08:28

10 Smámynd: Bjarni Jónsson

Það er rétt, Ragnhildur, og hefur aldrei gefizt vel.  Í forystugrein Morgunblaðsins í dag er gerð grein fyrir því, hvílíkur óskapnaður hið opinbera kerfi um þjónustu við aldraða er.  Kerfið snýst alltaf um sjálft sig, ef það er ekki hagnaðardrifið.  "Warum es einfach machen, wenn es kompliziert gibt."  Stjórnunin á málaflokkinum er sundurbútuð, til að sem flestar einskis nýtar silkihúfur komist á spenann.  Fyrir vikið eru öldrunarmálin í algerum ólestri, og 100 gamlingjar taka upp legupláss á yfirfullum Landsspítala, en ættu réttu lagi að vera annars staðar.  

Bjarni Jónsson, 12.7.2018 kl. 11:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband