Friðunarárátta úr böndunum

Ef beita á náttúrufriðunarvaldinu til að stöðva virkjunaráform, sem hlotið hafa blessun Verkefnisstjórnar um Rammaáætlun um vernd og nýtingu orkulinda, hafa fengið samþykki Alþingis og Skipulagsstofnunar, sem skrifað hefur upp á með skilyrðum, þá jafngildir það því að slíta í sundur það friðarferli, sem stjórnvöld landsins hafa reynt að mynda um auðlindanýtingu á landi. 

Það er alveg dæmalaust, að umhverfis- og auðlindaráðherra skuli ljá máls á tillögu Náttúrustofnunar Íslands frá 25. júní 2018 um friðlýsingu á væntanlegu athafna- og nýtingarsvæði Hvalárvirkjunar í Ófeigsfirði.  Um er að ræða stækkun friðlandsins á Hornströndum til suðurs, um 1281 km2 svæði suður um Ófeigsfjarðarheiði.  

Það er ósvífni að hálfu ríkisstofnunar og ólýðræðislegt í hæsta máta af Náttúrustofnun að leggja það til, að ríkið grípi fram fyrir hendur heimamanna, Vestfirðinga og íbúa í Árneshreppi sérstaklega, sem unnið hafa í mörg ár samkvæmt lögskipuðum ferlum að undirbúningi 55 MW, 400 GWh/ár, vatnsaflsvirkjunar á Ströndum, með því að biðja ráðherra um að leggja nýja náttúruminjaskrá um téð svæði fyrir Alþingi í haust.  Þessa aðför að sjálfbæru mannlífi og atvinnulífi á Vestfjörðum á að kæfa í fæðingunni, og það mun Alþingi vonandi gera, því að til þess hefur ráðherra þessi ekki bein í nefinu. 

Hann skrifaði 13. júní 2018 í Fréttablaðið grein um áhugamál sitt:

"Stórfelld tækifæri við friðlýsingar"

"Síðastliðinn föstudag [08.06.2018] kynnti ég í ríkisstjórn áform um átak í friðlýsingum, en í stjórnarsáttmálanum er kveðið á um það.  Átakið felur í sér að friðlýsa svæði, sem njóta eiga verndar gegn orkunýtingu (verndarflokkur rammaáætlunar) sem og svæði á eldri náttúruverndaráætlunum, sem ályktað hefur verið um að friðlýsa, en hefur ekki verið lokið."

Friðlýsing svæða í nýtingarhluta Rammaáætlunar er þarna ekki á dagskrá ráðherrans, enda eru slík endemi ekki í sáttmála núverandi ríkisstjórnar, þótt þar kenni ýmissa grasa.  Ráðherrann er á pólitísku jarðsprengjusvæði með því að gefa undir fótinn með friðlýsingu á téðu landsvæði.  Hann ætti að forðast að fara fram með offorsi í hinar friðlýsingarnar án samstarfs við og samþykkis viðkomandi sveitarstjórna, bænda og annarra landeigenda.  Friðlýsingu má ekki troða upp á heimamenn af ríkisvaldinu.

Það mun fara eins lítið fyrir Hvaleyrarvirkjun í náttúrunni og hugsazt getur.  Hún verður neðanjarðar að öðru leyti en stíflunum.  Aflið frá henni verður flutt um jarðstreng.  Flúðarennsli verður áfram, þótt það minnki á meðan vatnssöfnun í miðlunarlón á sér stað.  Hönnun er sniðin við lágmarks breytingar á umhverfinu, þannig að útivistargildi svæðisins verður nánast í fullu gildi áfram, þótt verðmætasköpun aukist þar skyndilega úr engu og í meira en 2,4 miaISK/ár, sem gæti orðið andvirði raforkusölunnar frá virkjun m.v. núverandi markaðsverð.  Þessi starfsemi getur orðið fjárhagsleg kjölfesta sveitarfélagsins, sem hýsir mannvirkin, á formi fasteignagjalda og auðlindargjalds o.fl.

Þann 26. júní 2018 staðfesti Skipulagsstofnun loksins breytingu á Aðalskipulagi Árneshrepps vegna framkvæmdanna.  Skipulagsstofnun setti sem skilyrði, að vegagerð yrði í algjöru ágmarki og henni sleppt, þar sem hægt væri.  Þetta er þó ekki til þess fallið að bæta mikið aðgengi ferðamanna að svæðinu, svo að áfram munu þá þeir einir komast þar víða um, sem fráir eru á fæti.  

Þann 7. júní 2018 birtist ágæt grein í Morgunblaðinu eftir Kristin H. Gunnarsson, fyrrverandi Alþingismann, undir fyrirsögninni:

"Hvalá: stórstígar framfarir fyrir Vestfirðinga".

Hún hófst þannig:

"Hvalárvirkjun í Árneshreppi mun verða mikið framfaraskref fyrir Vestfirðinga.  Afhendingaröryggi raforku mun batna mikið, framboð af raforku mun opna möguleika á nýrri atvinnustarfsemi, og útblástursmengun mun minnka verulega.  Þessu verður hægt að ná fram með litlum tilkostnaði hins opinbera, þar sem einkaaðilar munu standa straum af framkvæmdum.  Hvalárvirkjun er 55 MW virkjun og hefur tvisvar verið samþykkt í nýtingarflokk og staðfest af Alþingi."

Þetta eru sterk rök fyrir nytsemi þessarar virkjunar.  Virkjunin er ekki "nice to have" fyrir Vestfirðinga, heldur bráðnauðsynleg til þess, að raforkukerfi Vestfjarða standi undir nafni, en sé ekki hortittur út úr hringtengingu landsins frá Hrútatungu í Hrútafirði.  Til að halda uppi rafspennu í víðfeðmu raforkukerfi, eins og á Vestfjöðum, þarf öflugar virkjanir, og núverandi virkjanir þar hrökkva engan veginn til.  Mikið spennufall jafngildir tiltölulega háum töpum og óstöðugri spennu.  Aðeins hækkun skammhlaupsafls í raforkukerfi Vestfjarða getur dregið þar úr orkutöpum og gefið stífari spennu.  Þetta er síðan skilyrði þess, að tæknilega verði unnt að færa þar loftlínur í jörðu; aðgerð, sem draga mun úr bilanatíðni kerfisins og bæta ásýndina.  Þessar umbætur eru útilokaðar án framkvæmda á borð við Hvalárvirkjun. Jarðstrengir framleiða síðan rýmdarafl, sem virkar enn til spennuhækkunar og aukinna spennugæða á Vestfjörðum, en aukning skammhlaupsafls með nýjum virkjunum á svæðinu verður að koma fyrst.

Kristinn nefnir framtíðar möguleika til enn meiri styrkingar kerfisins, sem aukin raforkunotkun á Vestfjörðum mun kalla á.  Þar er t.d. Austurgilsvirkjun í Skjaldfannardal, sem er í nýtingarflokki Rammaáætlunar 3.  Þannig eru 85 MW í nýtingarflokki og um 50 MW enn ekki þar.  Alls eru þetta 135 MW með áætlaða vinnslugetu 850 GWh/ár.

Kristinn benti ennfremur á mikilvægi öflugs vestfirsks raforkukerfis fyrir raforkuöryggi landsmanna.  Þar hefur hann mikið til síns máls, því að á Vestfjörðum þarf hvorki að búast við tjóni af völdum jarðskjálfta né eldgosa.  Ofangreint rafafl mundi duga fyrir algera lágmarksnotkun landsmanna í mikilli neyð, þar sem skömmtun yrði að viðhafa.  Vinnslugeta margra virkjana landsmanna getur skyndilega rýrnað verulega, t.d. í jarðskjálftum, þar sem gufuholur verða óvirkar, og/eða í eldgosum, þar sem aska og vikur leggst á miðlunarlón, stíflar vatnsinntakið eða skemmir hverflana.  Vesturlína getur flutt um 100 MW hvora leið.

Af öðru sauðahúsi er annar höfundur um sama efnivið, Tómas, nokkur, Guðbjartsson, "læknir og náttúruverndarsinni".  Hann hefur um hríð fundið hjá sér hvöt til að finna virkjunaráformum í Hvalá allt til foráttu og verið stóryrtur í garð virkjunaraðilans og eigenda hans.  Umfjöllun Tómasar hefur verið mjög einhliða og gildishlaðin, þótt siðferðislega virðist  hann ekki hafa úr háum söðli að detta, ef marka má fréttaskýringu Guðrúnar Erlingsdóttur í Morgunblaðinu 29. júní 2018,

"Háskólinn hefur beðist velvirðingar".

Þar gaf m.a. þetta á að líta:

"Í nóvember 2017 komst sænska siðanefndin að þeirri niðurstöðu, að Macchiarini og meðhöfundar hans [Tómas Guðbjartsson var þeirra á meðal-innsk. BJo] að vísindagreininni í The Lancet hefðu gerzt sekir um vísindalegt misferli." 

Það er mikill áfellisdómur yfir manni, óháð stétt, þegar slíkur aðili sem téð siðanefnd lýsir tilteknum starfsháttum hans sem "vísindalegu misferli".  Væntanlega má almenningur draga af því þá ályktun, að brestur sé í siðferðiskennd þeirra, sem slíkt drýgja.

Síðan segir í tilvitnaðri frétt Guðrúnar Erlingsdóttur:

"Í júní 2018 úrskurðar rektor Karólínsku stofnunarinnar með 38 blaðsíðna rökstuðningi, að Tómas Guðbjartsson ásamt 6 öðrum læknum sé ábyrgur fyrir vísindalegu misferli vegna greinaskrifa í The Lancet árið 2012, en áður en greinin birtist hafði New England Journal of Medicine hafnað greininni."

Þann 19. júní 2018 birtist ein af fjölmörgum greinum téðs Tómasar um fyrirhugaðar framkvæmdir Vesturverks á Ströndum.  Hún hófst þannig:

"Fyrirhuguð Hvalárvirkjun hefur mikið verið til umræðu undanfarið, enda vægast sagt umdeild framkvæmd.  Ástæðan er sú, að með virkjun er verið að fórna stórkostlegri íslenzkri náttúru í hendur HS Orku-jarðhitafyrirtækis í meirihlutaeign umdeildra kanadískra fjárfesta.  Auk þess er ávinningur virkjunar vægast sagt óljós fyrir Vestfirðinga og þá ekki sízt íbúa Árneshrepps."  

Það er með endemum, að maður, með slíka umsögn á bakinu og fram kemur í tilvitnunum frá Svíþjóð hér að ofan, skuli fara á flot í blaðagrein hérlendis með svo gildishlaðna frásögn og hér getur á að líta.  Þótt ekki séu allir sammála um, að rétt sé að fara í þessar framkvæmdir, er gert of mikið úr ágreininginum, þegar gætt er að afgreiðslum Alþingis á málinu og afstöðu sveitarstjórnarinnar fyrir og eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar.  Þá eru líklega langflestir Vestfirðingar fylgjandi því, að framkvæmda- og virkjanaleyfi verði veitt.  Það er hins vegar engu líkara en allir tilburðir Tómasar í þessu máli séu til þess ætlaðir að magna upp ágreining um mál, sem víðtæk sátt hefur þó náðst um.

Að halda því fram, að fyrir þeim fjölda fólks, sem fylgjandi eru þessum framkvæmdum, sem og yfirvöldum landsins, sé ávinningurinn óljós, er mjög afbrigðilegt, enda hefur ávinningurinn oft komið fram opinberlega, og er að nokkru saman tekinn í þessum pistli.  Í ljósi þess, að virkjun þessi verður algerlega afturkræf, er fjarstæðukennt að skrifa, að um fórn til kanadískra fjárfesta sé að ræða á íslenzkri náttúru.  Slík skrif Tómasar eru marklaus.

 

   

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þetta heitir að hjóla í manninn en ekki málið. Hvernig er hægt að rökstyðja það að aðild manns að skurðaðgerð í sænsku sjúkrahúsi skipti höfuðmáli í íslenskum virkjanamálum er mér óskiljanlegt. 

Síðan Hvalárvirkjun komst á dagskrá fyrir alvöru fyrir 20 árum var um helmingi minni virkjun að ræða en síðar varð með sínum fimm stíflum, sem eru allt að 33ja metra háar.

Þá var mönnum heldur ekki ljós hve margfalt fleiri tekjur fengjust af ósnortnum víðerndum en áður var ljóst, og heldur ekki að Hvalárvirkjun skapaði ekkert starf til frambúðar í Árneshreppi, en sem hluti af þjóðgarði á norðausturhluta Vestfjarða yrði um mörg störf að ræða og einmitt þau störf sem skipta sköpum, konur á barneignaaldri. 

Hinn tiltölulega litli Snæfellsjökulsþjóðgarður skapar 3,8 milljarða á ári, og af því verður helmingurinn eftir á svæðinu sjálfu. 

Hvalárvirkjun með sína línu í spennivirki í Kollafirði breytir engu um afhendingarvandræðin þaðan til Ísafjarðar. 

Ómar Ragnarsson, 15.7.2018 kl. 00:32

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Ómar;

Ályktun mín var þessi: sá, sem fundinn er sekur, af til þess bærum aðilum (rektor Karolinska o.fl.), um "vísindalegt misferli", er líklega haldinn dómgreindarbresti.  Slíks dómgreindarbrests getur þá hæglega orðið vart á fleiri sviðum, t.d. getur dómgreindarbrestur verið undirrót sleggjudóma sama manns um menn og málefni, í þessu tilviki þá, sem standa að undirbúningi Hvalárvirkjunar, Vesturverk/HS Orka, og áhrif virkjunarinnar á náttúruna og náttúruupplifun ferðalanga þar.  

Stærsti þjóðgarður á Íslandi, Vatnajökulsþjóðgarður, hefur verið baggi á ríkissjóði undanfarin ár, og þar hefur ríkt fjárhagsleg óreiða.  Hvernig má það vera, að Snæfellsjökulsþjóðgarður "skapi 3,8 milljarða á ári" ?  Hver eru útgjöld ríkisins til hans, og hverjar eru tekjur hans og gjöld" ?  

Það má ekki fara offari við stofnun þjóðgarða.

Bjarni Jónsson, 15.7.2018 kl. 15:03

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Tal um verðmætasköpun þjóðgarða eru ýkjur einar, nema farið verða að selja þar inn, en kæra landsmenn sig um það ?  Ég held ekki að svo stöddu.  Verðmætasköpun raforkuframleiðslu á Vestfjörðum er gríðarleg, því að hún gerir vaxtarbroddum atvinnulífsins þar, t.d. fiskeldinu, kleift að starfa af öryggi, þar sem afhendingaröryggi og spennugæði verða tryggð með hringtengingu frá Nauteyri norður til Ísafjarðar og vestur um til Vesturlínu/Mjólkár.  Þá verða orkuskipti möguleg á Vestfjörðum fyrir vikið.  Ég gæti trúað því, að hver kWh skapi tíföld verðmæti hið minnsta á við verðið frá virkjun, svo að verðmætasköpun Hvalárvirkjunar er a.m.k. 25 miaISK/ár.  Þjóðgarður á sama stað skapar ekkert annað en kostnað fyrir ríkissjóð. 

Bjarni Jónsson, 16.7.2018 kl. 17:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband