Lognið á undan storminum

Ekkert ber á raunhæfum úrræðum ríkisstjórnar til að létta atvinnulífinu róðurinn.  Það glímir nú við slæm rekstrarskilyrði, einkum útflutningsatvinnuvegirnir, sem glíma við minni tekjur í krónum talið á meðan kostnaður hefur aukizt hóflaust.  

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, hefur undanfarið ár verið ötull við að skrifa blaðagreinar, þar sem hann hefur lýst hættulega mikilli rýrnun samkeppnishæfni íslenzkra fyrirtækja og jafnframt bent á úrræði, sem stjórnvöld þurfa og geta gripið til hið bráðasta.

Stýrivextir Seðlabankans eru  kapítuli út af fyrir sig, sem ríkisstjórnin ræður ekki við öðru vísi en að leggja lagabreytingu um Svörtuloftin fyrir Alþingi, sem gerir þeim skylt að líta meira til efnahagslegs stöðugleika en nú er í stað gallaðs mats á verðbólguvæntingum, sem hafa á undanförnum árum skotið hátt yfir markið.  Húsnæðisliður hefur auk þess allt of hátt vægi við verðbólguútreikninga, og þættir langt utan seilingarsviðs Seðlabankans hafa mun meiri áhrif á verðþróun húsnæðis en útlánsvextir.  

Þann 3. júlí 2018 birtist alvarleg frétt í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni:

"Fyrirtækin að fara úr landi":

""Stjórnvöld verða að bregðast við versnandi stöðu framleiðslufyrirtækja með skýrri atvinnustefnu.  Annars er hætta á, að fleiri framleiðslufyrirtæki og störf fari úr landi."  Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.  Það sé að koma á daginn, að íslenzkt hagkerfi standi ekki undir svo háum launum, nema framleiðni aukist."

Hvernig í ósköpunum má það vera, að ríkisstjórnin sitji við þessar aðstæður með hendur í skauti og aðhafist ekkert gegn aðsteðjandi vanda ?  Með því bregst ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur skyldum sínum.  Hún ætti nú þegar að hafa hleypt af stokkunum mótvægisaðgerðum, sem ýta undir framleiðnivöxt.  Þar er um að ræða fjárfestingarörvandi aðgerðir á borð við lækkun opinberra gjalda af fyrirtækjum, s.s. lækkun veiðigjalda, að létta kolefnisgjöldum af þeim, sem náð hafa loftslagsmarkmiðum 2030, lækkun tryggingagjalds og tekjuskatts fyrirtækja.

Hvað sagði Sigurður Hannesson meira ?:

"Það er hætt við, að iðnaður, sem fer úr landi, komi ekki aftur.  Framleiðslufyrirtæki hafa verið að hagræða og segja upp fólki í vetur.  Það segir sína sögu, þegar fyrirtæki vilja annaðhvort færa hluta starfseminnar utan eða telja sig ekki geta keppt við við erlenda keppinauta vegna þess, hversu hár innlendur kostnaður er orðinn.  Laun og vaxtakostnaður eru lægri erlendis sem og skattar og tryggingagjald.  Þessi skilyrði eru erfið fyrir ný fyrirtæki sem og þau eldri.  Hættan er sú, að ný fyrirtæki verði síður til." 

Í fréttinni kemur fram, að næst á eftir Svisslandi eru meðallaun í ISK í iðnaði og þjónustu hæst á Íslandi.  Meðallaun innan OECD eru 361,2 kISK/mán, og miðað við þau eru 5 hæstu launin innan OECD:  í Sviss 215 %, á Íslandi 205 %, í Noregi 172 %, í Lúxemborg 163 % og í Ástralíu 158 %. 

Ísland er áreiðanlega komið með hærri launakostnað en hagkerfið ræður við.  Eitt af mörgum úrræðum, sem grípa þyrfti til, til að verjast ofrisi og hrapi hagkerfisins, er lágt þak (undir verðbólgu) á allar launahækkanir í t.d. 3 ár.

Þann 13. júní 2018 birti Markaður Fréttablaðsins grein eftir Sigurð, sem bar fyrirsögnina:

"Heimatilbúinn vandi".

Hann lauk greininni þannig:

"Ein forsenda bættrar samkeppnishæfni er, að starfsumhverfi sé stöðugt, skilvirkt og hagkvæmt.  Aukinn og víðtækur stöðugleiki er ekki bara til hagsbóta fyrir fyrirtæki, heldur allt íslenzkt samfélag.  Undanfarin ár hafa ytri skilyrði verið hagfelld, en því má ekki treysta til framtíðar litið.  Háir skattar, há laun og háir vextir í alþjóðlegu samhengi vinna þó á móti, auk þess sem lengra er gengið í innleiðingu EES-reglugerða en þörf krefur.  Það jákvæða í stöðunni er þó það, að þetta er heimatilbúinn vandi, sem stjórnvöld hafa öll tækifæri til að vinna á og efla þar með samkeppnishæfni Íslands."

Vera landsins í EES eykur verulega á óstöðugleikann í starfsumhverfi atvinnulífsins, því að framkvæmdastjórn ESB ungar stöðugt út nýjum Evrópugjörðum, lagabálkum og reglugerðum.  Það er ekkert tillit tekið til smæðar íslenzka þjóðfélagsins við innleiðingu þessara gerða, og kostnaður fyrirtækja og stjórnsýslu hérlendis af þessu skriffinnskubákni er að öllum líkindum yfir 100 miaISK/ár, þegar tillit er tekið til hamlandi áhrifa báknsins á framleiðniaukningu landsins.  Of lítil framleiðniaukning almennt hérlendis er einmitt viðurkennt vandamál. 

Til að losna við þessa byrði þarf einfaldlega að segja upp EES-samninginum.  Þá tekur við eins árs umþóttunartími.  Hafi ekki náðst að gera fríverzlunarsamning á þeim tíma, tekur gamli verzlunarsamningurinn á milli Íslands og ESB gildi, og hann var alls ekki slæmur.  

Þorbjörn Guðjónsson, cand.oecon., varpaði ljósi á hrikalega stöðu útflutningsfyrirtækis á hugbúnaðarsviði með grein í Morgunblaðinu 3. júlí 2018,

"Við erum öll í ástandinu og það er gott".

Hann sýndi áhrif verðlagsbreytinga á rekstrarniðurstöðu dæmigerðs hugbúnaðarfyrirtækis í útflutningi.  Árið 2014 námu rekstrartekjur þess MISK 350, en höfðu árið 2017 lækkað niður í MISK 285,4.  Gengishækkun, 18,5 %, innlend verðbólga, 6,7 % og launahækkanir, 27 %, höfðu breytt 3,6 % hagnaði fyrir skatt í 36 % tap.  Þetta er hrikaleg staða.  

Það er með ólíkindum, að ríkisstjórnin verðist vera stungin líkþorni og ekki hafa döngun í sér til að gefa eitt eða neitt út á þetta.  Henni ber þó að viðhalda hér efnahagslegum stöðugleika og að gera sitt til, að landið sé samkeppnishæft um fólk og fyrirtæki.  Vonandi vænkast hagur Strympu fyrr en síðar.  

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Fyrir þá sem flytja út vörur og þjónustu hér á Íslandi er hátt gengi íslensku krónunnar stærsta vandamálið, því hátt verð fæst í erlendri mynt fyrir íslenskar vörur og þjónustu.

Við Íslendingar eigum langmest viðskipti við önnur Evrópuríki og því hagstæðast fyrir okkur að taka upp evru sem gjaldmiðil okkar, í stað íslenskrar krónu.

Vegna stóraukinnar ferðaþjónustu hér á Íslandi síðastliðin ár hefur verið hægt að stórhækka hér laun án aukinnar verðbólgu, þannig að innistæða var fyrir hækkuninni.

Stóraukin ferðaþjónusta hér olli hins vegar mikilli hækkun á gengi íslensku krónunnar.

Þorsteinn Briem, 16.7.2018 kl. 22:19

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

9.8.2012:

"Skattlagning á hagnað fyrirtækja er með minnsta móti á Íslandi af 34 OECD-ríkjum, þó ríkisstjórnin hafi hækkað hana úr 15% 2008 í 20% nú.

Það eru einungis fimm lönd sem hafa lægri skattlagningu fyrirtækja en Ísland árið 2011. Þau eru Slóvakía, Pólland, Ungverjaland og Tékkland með 19% og svo Írland með 13%.

Fjögur lönd eru með svipaða skattbyrði fyrirtækja og Ísland, þ.e. Grikkland, Chile, Slóvenía og Tyrkland. En Japan og Bandaríkin eru með helmingi meiri skattlagningu fyrirtækja en Ísland, eða 39-40%.

Frændþjóðir okkar á Norðurlöndum leggja allar meiri skatta á fyrirtæki en Ísland.
Samt gengur flest mjög vel í þeim löndum.

Ef við skoðum hverju tekjuskattur á fyrirtæki skilar í ríkissjóð, sem % af vergri landsframleiðslu, þá er Ísland í 4. neðsta sæti 2010.

Fyrir hrun var búið að færa atvinnurekendum, fjárfestum og bröskurum ótrúleg fríðindi í skattamálum á Íslandi. Betri en í sumum erlendum skattaparadísum. Hófleg hækkun skatta á þá eftir hrun hefur litlu breytt. Skilyrðin eru enn góð.

Það eru því staðlausir stafir hjá talsmönnum atvinnulífsins og hægri róttæklingum þegar þeir fullyrða að fyrirtæki séu sérstaklega skattpínd á Íslandi.

Íslensk fyrirtæki eru með einna minnstu skattlagninguna sem þekkist í hagsælli ríkjunum.

Spurningin er þá hvort atvinnurekendur telji að þeir eigi ekki að bera kostnað af hruninu?
Eiga þeir að vera stikkfrí eftir að hafa grætt óhóflega á árunum fyrir hrun og átt sjálfir stóran hluta í orsökum hrunsins?

Margir af forystumönnum atvinnulífsins þá og nú voru framarlega í útrás og braski bulláranna."

Skattpíning fyrirtækja á Íslandi? - Stefán Ólafsson prófessor við Háskóla Íslands

Þorsteinn Briem, 16.7.2018 kl. 22:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband