Gagnrýni á aðferðafræði við embættisveitingu

Ráðningar í æðstu embætti ríkisins þurfa að vera hafnar yfir gagnrýni.  Landsmenn eiga heimtingu á því, að val í þessi embætti sé hlutlægt, en ekki persónulegt, og að aðferðafræði valsins sé til þess fallin að finna hæfasta einstaklinginn í embættið.  Því miður virðist pottur vera brotinn í þessum efnum hjá ríkinu við val á Vegamálastjóra, sem ráðinn var 2. júlí 2018.  Þar af leiðandi virðist vera allt of mikill losarabragur á þessum mikilvægu málum, sem brýnt er að bæta úr hið snarasta.  

Fyrsta sjáanlega misfellan í umræddu ráðningarferli kom í ljós við birtingu auglýsingar eftir nýjum Vegamálastjóra í apríl 2018.  Í stuttu máli var hún með öllu óviðeigandi, en hefði sómt sér ágætlega sem auglýsing eftir sveitarstjóra.  Sem dæmi þá var ekki krafizt háskólamenntunar af umsækjendum.  Samt eru 37 % starfsmanna Vegagerðarinnar eða 109 manns með háskólapróf. Þetta má ekki verða reglan hjá ríkinu.  

Að sleppa þessari sjálfsögðu kröfu í auglýsingu vekur tortryggni.  Fram hefur komið, að hæfnisnefnd ákvarðaði hæfnisþætti út frá aulýsingunni.  Dýralæknir hefði líklega fengið 0 % fyrir hæfnisþáttinn "háskólamenntun, sem nýtist í starfi", en verkfræðingur á sviði samgöngumannvirkja eða samgöngutækni hefði jafnvel fengið 100 % fyrir þennan þátt og þar með náð forskoti á dýralækninn, sem dygði til að fá hæstu einkunn í þessu hæfnismati.

Án þess að fara út í innbyrðis mat á umsækjendum þá er óskiljanlegt, að dýralækninum skyldi hlotnast hæsta einkunn í þessu mati.  Önnur menntun hans var markaðsfræði frá Chartered Institute of Marketing, sem ekki verður séð, að nýtist neitt í starfi Vegamálastjóra, og Rekstrar- og viðskiptafræði frá Endurmenntun HÍ, sem hefur lítið gildi fyrir þetta starf.  Umsækjandinn hefur 20 ára stjórnunarreynslu, en úr gjörólíku starfsumhverfi, sem á lítið skylt við stjórnun starfsemi á borð við Vegagerðina og vegur þar af leiðandi mun minna en t.d. verkefna- eða deildastjórnun úr starfsemi eða umhverfi Vegagerðarinnar.  

Í frétt af þessari ráðningu á bls. 2 í Morgunblaðinu þann 3. júlí 2018 stóð þetta:

""Við teljum, að það hefði þurft að horfa til fagþekkingar og reynslu í tengslum við verkefni Vegagerðarinnar við auglýsingu og ráðningu forstjórans", segir Páll Gíslason, formaður Verkfræðingafélags Íslands, í samtali við Morgunblaðið.

Stjórn félagsins hafði gert skriflega athugasemd við auglýsingu samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins eftir nýjum forstjóra Vegagerðarinnar í apríl sl. og lagði til, að staðan yrði auglýst upp á nýtt.  VFÍ vildi, að gerð yrði krafa um viðeigandi háskólamenntun umsækjenda.  Ekki var gerð krafa um sérstaka menntun.

"Ef ekki er gerð krafa um fagþekkingu í auglýstri stöðu sem þessari, þá byrjar ráðningin að lykta pólitískt, og margir hæfir einstaklingar halda sig þá til hlés", segir Páll."

Kvörtun VFÍ við ráðuneytið út af meingallaðri auglýsingu var fyllilega réttmæt.  Kvörtunin var hunzuð, sem gefur til kynna, að ekki var um slys að ræða, heldur var auglýsingin hönnuð með eitt í huga, sem síðar kom á daginn, þ.e. að matsnefndin reisti matsþætti sína og jafnvel innbyrðis vigtun þeirra á þessari auglýsingu. Með þessum ófaglegu vinnubrögðum hefur ráðuneytið gefið almenningi fullt tilefni til að halda, að um einbeittan brotavilja hafi verið að ræða gegn réttindum allra umsækjenda, nema eins.

Vinnubrögð af þessu tagi eru ólíðanleg hjá ríkisvaldi. Fyrir veigamikil embætti á vegum ríkisins hlýtur að vera til starfslýsing.  Auglýsinguna á að sníða eftir þessari starfslýsingu.  Starfslýsing Vegamálastjóra er ekki aðgengileg opinberlega, en af lýsingu á hlutverkum og gildum Vegagerðarinnar, eins og þau koma fram á heimasíðu hennar, má álykta um, hvað einkennir þessa starfslýsingu.

Á vefsetri Vegagerðarinnar getur t.d. að líta þetta:

Hlutverk: vegagerð, þjónusta og viðhald vega.

Að þróa og sjá um vegakerfið á sem hagkvæmastan hátt með þarfir samfélagsins, öryggi vegfarenda og umhverfissjónarmið að leiðarljósi.  

Samgönguráðherra hefur yfirstjórn vegamála.  Hann skipar Vegamálastjóra til að veita Vegagerðinni forstöðu og stjórna framkvæmdum á sviði vegamála.

GILDI: 

Fagmennska [undirstr. BJo].  Við búum yfir sérþekkingu og vinnum af fagmennsku.

Öryggi: Við höfum öryggi ávallt í fyrirrúmi.  

Framsýni: Við byggjum á reynslu og horfum til framtíðar.

Fréttablaðið birti 3 hæstu vægistuðlana af 9 í matskerfi hæfnisnefndarinnar í frétt á bls. 2 þann 4. júlí 2018.  Ráðherra hefur lofað að birta öll gögn þessarar ráðningar, og þá hlýtur einkunnagjöfin að verða birt.  Það er ómögulegt að átta sig á því af matsþáttum og vægi þeirra, að fremur sé verið að leita að Vegamálastjóra en t.d. sveitarstjóra, og má rekja það til gallaðrar auglýsingar. Fréttinni lauk þannig:

"Umsækjendur um starfið voru metnir út frá 9 hæfnisþáttum, sem sérstök hæfnisnefnd skilgreindi út frá þeim kröfum, sem fram komu í starfsauglýsingunni [1].  Mest vægi hafði stjórnunarreynsla eða 25 % [2], reynsla af rekstri og áætlanagerð vóg 20 % [3] og þekking á samgöngum eða atvinnulífi 15 % [4]." 

[1] Til að eitthvert vit sé í hæfnisþáttum og vægi þeirra, verða þeir að endurspegla áherzluatriði starfslýsingarinnar. Það er mjög lítil samsvörun á milli hlutverka- og gildislýsingar Vegagerðarinnar hér að ofan (rauðletraðar) og hæfnisþáttanna.  Það er svo lítill skyldleiki, að matið verður marklaust.

[2] Stjórnunarreynsla er af svo ólíkum toga, að í starfsmati verður að afmarka hana, svo að hún hafi skírskotun til stjórnunarverkefna Vegamálastjóra.

[3] Brýnt er við starfsmat að afmarka reynslu af rekstri og áætlanagerð við keimlíka starfsemi og leitað er að starfsmanni í.  Hér er það rekstur tæknidrifinnar starfsemi í almannaþágu og mótun áætlanagerðar hennar vegna.

[4] Í eina skiptið, sem minnzt er á kröfur um þekkingu á samgöngum, þá er sú krafa útþynnt með því að  bæta atvinnulífi við, sem gerir kröfuna marklausa. 

Það eru svo alvarlegir gallar á þessu ráðningarferli frá upphafi til enda, að því verður vart í einu orði lýst, nema sem hneyksli.  Ráðuneytin verða að endurskoða ferli sín á þessu sviði, hætta þessum lausatökum og koma þessum málum í fastar skorður.  Á endanum er það almenningur, sem líður fyrir fúsk á þessu sviði.  Þjóðin þarf á því að halda, að hæfasta fólkið, sem á sér gefur kost á hverjum tíma til mikilvægra embætta, fái brautargengi þangað og aðrir ekki.

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Getur ekki verið Bjarni, að hlutverk Vegamálastjóra sé svo lítilvægt, að dýralæknir dugi? Hvað gerir Vegamálastjóri og hvert er valdssvið hans?

 Opinberar ráðningar eru til skammar í mun fleiri tilfellum en þessu. Hið opinbera virðist hinsvegar ávallt geta hraunað áfram. Kerfið hefur hafið sjálfát innan frá, með dyggum stuðningi handónýtra embættismanna og kvenna, undir verndarvæng enn ónýtari stjórnmálamanna. Almenningi blæðir og er rukkaður um alla helvítis dellu sjálftökuliðsins, sem situr saman í hring og passar vel upp á hvert annað, sama hvað á dynur. Alger viðbjóður.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 7.7.2018 kl. 00:09

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Það er hvergi meiri þekking á samgöngumannvirkjum, hönnun þeirra og rekstri, saman komin en hjá Vegagerðinni.  Það er ekki fallið til þess að efla nauðsynlegan faglegan metnað innan stofnunarinnar að hunza fólk á þessu þekkingarsviði, sem gaf kost á sér til að leiða þessa stofnun.  Verknám hefur átt undir högg að sækja í landinu, og nú hefur Samgönguráðuneytið og Menntamálaráðherra sýnt raunverulegan hug sinn til mikilvægis verkþekkingar við að leiða stofnun, sem er mjög tæknilegs eðlis og á að finna beztu lausnirnar á þeim verkefnum, sem stjórnvöld fela henni hverju sinni.  Smjaðrið mátti minnka, en blautur hanzki í andlit starfsmanna þessarar mikilvægu stofnunar, sem ráðning dýralæknis í æðstu stjórnunarstöðuna hlýtur að vera, var alger óþarfi.  

Bjarni Jónsson, 7.7.2018 kl. 13:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband