Nútímalegur viðskiptasamningur við ESB í stað EES-helsis

Á fyrri hluta 8. áratugar 20. aldarinnar gerðu Norðmenn og Íslendingar viðskiptasamning við ESB.  Sá samningur tæki sjálfkrafa gildi við útgöngu úr EES-samstarfinu, ef ekki hefur innan árs frá uppsögn EES-samningsins tekizt að gera fríverzlunarsamning við ESB, t.d. í líkingu við samning ESB við Kanada og Japan.

Á tveimur sviðum var EES-samningurinn ívið hagstæðari Íslandi og Noregi en gamli viðskiptasamningurinn var.  Í fyrsta lagi voru tollar á unnum fiskafurðum ívið lægri samkvæmt EES-samninginum, og í öðru lagi getur ESB ekki gripið til aðgerða gegn meintum undirboðum íslenzks iðnaðar í EES, eins og viðskiptasamningurinn leyfði. Þetta eru þó harla léttvægir kostir.  

 Rannsóknarstjóri við Sjávarútvegsháskóla Noregs, Peter Örebech, reiknaði út í skýrslu um norska valkostaverkefnið (við EES) haustið 2011, að hækkun tollheimtu af unnum fiskafurðum við að hverfa aftur til gamla viðskiptasamningsins gæti að hámarki orðið 1,8 % af útflutningsandvirði þessara afurða.  Örebech komst ennfremur að þeirri niðurstöðu, að þetta hefði engin áhrif á markaðshlutdeild Noregs í ESB á þessu sviði, svo að tekjulækkun sjávarútvegsins yrði engin. Hið sama mun gilda fyrir Ísland. 

Á Íslandi tíðkast enginn opinber stuðningur við útflutningsiðnað, sem ekki er leyfilegur samkvæmt ESA og Evrópurétti, nema þá á sviði raforkumála, þar sem ESA hefur fett fingur út í það, að raforkuvinnslufyrirtækin hafi frían aðgang að orkulindunum.  Þetta er að vísu ekki alls kostar rétt, en má engu að síður bæta úr með auðlindagjaldi eða fasteignagjaldi af vatnsréttindum og gufuréttindum, eins og Hæstiréttur hefur dæmt Fljótsdalshreppi í vil gegn Landsvirkjun, sem er líka sjálfsagt mál til að jafna aðstöðumun atvinnugreina innanlands, sem nýta náttúruauðlindir. Allar eiga þær að greiða sams konar auðlindagjald, þegar auðlindarenta finnst í bókhaldi þeirra. 

Fyrir matvælaiðnaðinn var EES-samningurinn að vissu leyti um tíma betri en viðskiptasamningurinn var.  Annars vegar átti EES-samningurinn að vernda afurðastöðvar landbúnaðarins gegn því að verða undir í samkeppni við innflutning frá ESB, og hins vegar fól hann í sér vissar tollalækkanir fyrir fiskiðnaðinn, sem flutti út vörur til ESB.  

Þessi sviðsmynd er breytt.  Í nokkrum samningalotum við ESB er búið að auka viðskiptafrelsi með landbúnaðarvörur.  Í raun hefur átt sér stað mikil aukning innflutnings landbúnaðarvara frá ESB, en útflutningur slíkra vara hefur að mestu staðið í stað. Í þessu sambandi verður að nefna innflutning á hráu kjöti, mjólkurvörum og eggjum, en ESB hefur sýnt ósveigjanleika og óbilgirni gagnvart röksemdum íslenzkra stjórnvalda um nauðsyn þess að beita sérstökum varúðarráðstöfunum til verndar íslenzkum dýrastofnum og mönnum gagnvart sýkingum frá bakteríum, sem ekki hafa náð fótfestu hérlendis.  Það er gjörsamlega ólíðandi átroðsla að hálfu ESB að hunza ráðleggingar færustu sérfræðinga hér á sviði þessara sýkinga, og myndar sterk rök fyrir uppsögn mjög íþyngjandi samnings E.

Fyrir þjónustustarfsemi hérlendis er erfitt að sýna fram á, að hún hafi unnið stærri markað en hún hefur tapað með EES-samninginum.  Dæmi hafa komið upp um ólöglega og ósiðlega starfsemi hérlendis við útleigu á vinnuafli, sem er nánast meðhöndlað eins og þrælar, í skjóli fjórfrelsisins á Innri markaðinum um frjálsa för fólks.  Mikill innflutningur verkafólks hefur klárlega dregið úr launaskriði hér, en sterkur grunur leikur á um undirboð og reyndar ófá dæmi um þau, sem gera löghlýðnum íslenzkum atvinnurekendum lífið erfitt.  

Uppsögn EES-samningsins og útganga úr Schengen-fyrirbærinu mundi gera slíkri og annarri alþjóðlegri glæpastarfsemi erfiðara um vik, en vinnuveitendur gætu eftir sem áður leitað eftir erlendum vinnukrafti, ef þörf reynist á á toppi hagsveiflunnar.  Við 3 % árlegan hagvöxt eða minni er aðeins þörf fyrir slíkt í undantekningartilvikum.

Þegar öllu er á botninn hvolft, er ekkert viðskiptalegt hagræði af EES-samninginum í samanburði við fríverzlunarsamning.  EES-samningurinn opnar fámennt velferðarsamfélag fyrir straumi efnahagsflóttamanna og glæpagengja.  Hann er mjög íþyngjandi byrði á fyrirtækjum og stjórnkerfi landsins vegna reglugerðafargans, sem hamlar nauðsynlegri framleiðniaukningu á öllum sviðum.  Það er grundvallar misskilningur, að smáþjóð geti með góðum árangri tekið þátt í því risavaxna búrókratíska kerfi, sem ESB er.  Reynslan sýnir það einfaldlega, að gerðir ESB eru hér innleiddar á færibandi gagnrýnislaust, þótt þær eigi hingað ekkert erindi í sinni hráu mynd.  

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Enginn stjórnmálaflokkur sem á sæti á Alþingi vill segja upp aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu.

Og Mörlenska þjóð"fylkingin" hefur nær ekkert fylgi.

Þorsteinn Briem, 25.7.2018 kl. 13:25

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

17.8.2015:

"Samkvæmt skoðanakönnun Gallup er helmingur landsmanna, 50,1%, andvígur aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Fylgjendur aðildar eru 34,2% en 15,6% segjast hvorki vera fylgjandi né andvígir inngöngu í sambandið."

Skoðanakannanir um aðild Íslands að Evrópusambandinu eru lítils virði þegar samningur um aðildina liggur ekki fyrir.

Tugþúsundir Íslendinga hafa ekki tekið afstöðu til aðildarinnar og aðrar tugþúsundir geta að sjálfsögðu skipt um skoðun í málinu.

Fólk tekur afstöðu til aðildarinnar fyrst og fremst út frá eigin hagsmunum, til að mynda afnámi verðtryggingar, mun lægri vöxtum og lækkuðu verði á mat- og drykkjarvörum með afnámi allra tolla á vörum frá Evrópusambandsríkjunum.

Og harla ólíklegt að meirihluti Íslendinga láti taka frá sér allar þessar kjarabætur.

Þorsteinn Briem, 25.7.2018 kl. 13:31

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þetta vilja Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn:

22.8.2009:

"Fyrri myndin segir okkur að innlend heimili skuldi að meðaltali ríflega tvö- til þrefalt meira en önnur (vestræn) heimili sem hlutfall af ráðstöfunartekjum eða sem svarar um fjórföldum ráðstöfunartekjum.

Seinni myndin segir okkur að greiðslubyrði innlendra heimila sé um það bil tvöfalt meiri en hjá öðrum (vestrænum) þjóðum eða að um 30-35% af ráðstöfunartekjum fer í að þjónusta þær skuldir sem hvíla á heimilum landsins að meðaltali.

Sé tekið tillit til að vextir eru hærri hér en víðast hvar annars staðar verður myndin enn svartari (gefið að lánstími sé álíkur).

Lítill hluti greiðslnanna fer þá í að borga niður höfuðstól lánsins en yfirgnæfandi hlutfall af heildargreiðslubyrðinni fer í vaxtagreiðslur.

Eignamyndun er því mun seinna á ferðinni."

Skuldir heimilanna

Þorsteinn Briem, 25.7.2018 kl. 13:34

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ísland gæti fengið aðild að gengissamstarfi Evrópu, ERM II, þegar landið fengi aðild að Evrópusambandinu.

"The currency of Denmark, the krone (DKK), is pegged at approximately 7.46 kroner per euro through the ERM.

Although a September 2000 referendum rejected adopting the euro, the country in practice follows the policies set forth in the Economic and Monetary Union of the European Union and meets the economic convergence criteria needed to adopt the euro."

10.2.2015:

"Í Danmörku hafa lágir vextir á húsnæðislánum einnig styrkt efnahagslífið og komið því enn betur í gang.

Nú er hægt að fá lán til 30 ára með föstum 1,5 prósenta vöxtum en aldrei hefur verið boðið upp á lægri fasta vexti.

Þessi lán eru óverðtryggð."

Verðhjöðnun í Danmörku

Þorsteinn Briem, 25.7.2018 kl. 13:35

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

25.8.2015:


Þorsteinn Briem, 25.7.2018 kl. 13:38

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Steini Briem: þú ert algerlega fastur í fortíðinni og þar með í úreltum upplýsingum, en úr því að þú vilt halda þig í fortíðinni, ættir þú að kynna þér rækilega, það sem formaður Miðflokksins heldur núna fram sem sagt, að Ísland hefði orðið gjaldþrota 2008, ef landið hefði þá verið aðili að Evrópusambandinu.  Sú þrá þín, að Ísland gangi í ESB, verður aldrei uppfyllt.  Þú verður endalaust, hring eftir hring, á þinni eyðimerkurgöngu.  

Bjarni Jónsson, 25.7.2018 kl. 20:47

7 Smámynd: Jóhann Elíasson

Ég er algjörlega sammála þér þarna Bjarni.  Það er mikið hagsmunamál fyrir Ísland að EES samningnum verði sagt upp sem ALLRA fyrst.  Og dæmi um það hversu menn geta verið fastir í fortíðinni er grein eftir Jón Frímann Jónsson, á blaðsíðu 22 í fréttablaðinu í dag.  Þessi grein ber titilinn:  "LOGIÐ TIL UM ORKUMÁLAPAKKA EVRÓPUSAMBANDSINS Á ÍSLANDI".  Það er langt síðan ég hef lesið annað eins bull og vona að það sé langt í það að ég lesi svona bull aftur.  En þarna sá ég að hann er enn við sama heygarðshornið, enda kannski ekki við öðru að búast úr þeirri átt.

Jóhann Elíasson, 26.7.2018 kl. 12:36

8 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Jóhann; Með EES-samninginum höfum við, 350 k hræður, færzt alltof mikið í fang og ráðum ekkert við að gæta hagsmuna okkar gagnvart 500 M ríkjasambandi.  Nú vill svo til, að Bandaríkjaforseti hefur lýst þetta ríkjasamband versta óvin BNA.  Tollabandalög með alls konar viðskiptahindranir út á við eru líklega liðin tíð.  Framtíðin verður fólgin í fríverzlunarsamningum.  

Ég renndi yfir téða grein í Fbl. í dag, en græddi ekkert á því og kann engin deili á höfundinum.  Honum er greinilega illa við Heimssýn.  Heimssýn hefur tekið einarða afstöðu gegn samþykkt Íslands á Þriðja orkumarkaðslagabálkinum, en ekki gegn EES.  Það hefur hins vegar Frjálst land gert o.fl.

Bjarni Jónsson, 26.7.2018 kl. 18:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband