Viðskipti með jarðir á Íslandi

Landbúnaður á Íslandi á undir högg að sækja, sumpart vegna þess að hann er nú kominn í beina samkeppni við annars konar landbúnað en hér er stundaður, þ.e. niðurgreiddan verksmiðjulandbúnað ESB, sem notar alls konar hjálparmeðul, sem hér eru bönnuð af heilsufarsástæðum eða ekki þörf fyrir. Heilnæmið er þess vegna ósambærilegt, nema bornar séu saman vörur með vottun um lífræna ræktun.  

Íslenzkir bændur hafa aukið framleiðni fyrirtækja sinna, búanna, gríðarlega undanfarin 30 ár, en búin eru samt enn rekin sem fjölskyldufyrirtæki.  Frá sjónarhorni byggðastefnu með eðlilegu og fjölbreyttu mannlífi í hinum dreifðu byggðum landsins er það æskilegasta rekstrarformið.  Vegna stærðarmunar er framleiðni íslenzkra búa yfirleitt minni en framleiðslufyrirtækja landbúnaðarafurða í ESB, en gæðamunur framleiðslunnar er yfirleitt mikill, íslenzkum landbúnaði í vil.  Það er verkefni næstu ára að fá þetta formlega vottað, svo að þessi kostur, sem verður sífellt mikilvægari í augum almennings um allan heim, endurvarpist í verð á útflutningsvöru.

  Loftslagsþróunin gæti og lagzt á sveif með íslenzkum bændum, eins og komið hefur á daginn í sumar með brýnni þörf norrænna bænda fyrir hey, og á Íslandi eru umframhey af góðum gæðum.

Bændum hérlendis hefur fækkað stöðugt á sama tíma og framleiðsluaukning hefur orðið í landbúnaðinum í heild.  Þetta er auðvitað lykillinn að nauðsynlegri framleiðniaukningu.  Bændur hafa við þessar aðstæður fengið fremur lágt verð fyrir jarðir sínar í samanburði við íbúðaverð í þéttbýli, og jarðir hafa jafnvel lagzt í eyði, þegar gamlir bændur bregða búi. Bændur hafa þess vegna gripið fegins hendi tilboð frá fjársterkum aðilum, innlendum og frá jafnsettum erlendum ríkisborgurum samkvæmt EES-samninginum. Stjórnarskráin tryggir bændum (jarðeigendum) rétt til að selja eign sína löglegum bjóðendum.  

Hin hliðin á þessum peningi er, að margar jarðir eru að safnast á fáar hendur, sem ekki vinna þar handtak, hvorki beint né óbeint. Nýju eigendurnir eru þó a.m.k. sumir fúsir til að leigja jarðirnar undir búskap og hafa víst boðið sanngjörn kjör leigutökum.  Við þær aðstæður eru uppfyllt skilyrði um áframhaldandi eðlilegt og fjölbreytt líf í sveit, og eignarhaldið skiptir þá ekki höfuðmáli.  Ef nýir eigendur ekki ætla að stunda atvinnustarfsemi á jörðinni, mætti gera það að skilyrði fyrir kaupum, að þeir leigðu hana til búskapar eða landbóta af einhverju tagi.  

Það virðist sammerkt flestum jörðunum, sem keyptar hafa verið án fyrirætlunar um búskap þar, að það eru hlunnindajarðir, oftast með laxveiðiréttindi.  Veiðiréttarhafar telja veiðihlunnindi til mikilvægra hagsmuna sinna, og þess vegna missir bændastéttin spón úr aski sínum, þegar aðrir kaupa jarðir með veiðihlunnindum.  Það mætti reisa skorður við þessu með því að setja nokkur skilyrði um rekstur eignanna, sem þó mismuna ekki eftir þjóðerni:  

  1. Félag má þá aðeins eiga jörð, eina eða fleiri, ef handhafar meirihlutaeignar í félaginu hafa fasta búsetu á jörð, og/eða þeir reka atvinnustarfsemi á a.m.k. einni jörð árið um kring. Eigendaskrá félagsins skal vera opinber og spanna skýlaust alla eigendur.  Félagið skal hafa heimilisfesti á Íslandi og vera þar skattskylt. Undanþágu frá þessu ákvæði um fasta búsetu og/eða atvinnustarfsemi eiganda á jörð er unnt að veita, ef félagið leigir jarðirnar til ábúðar og hefðbundinna nytja, landgræðslu eða annarrar sprotastarfsemi, innan tveggja ára frá kaupum eða brottflutningi síðasta ábúanda, ella skal viðkomandi sveitarfélag öðlast kauprétt samkvæmt verðmætamati í fasteignaskrá.  
  2. Einstaklingi skal vera heimilt að eiga ótakmarkaðan fjölda jarða, ef hann hefur fasta búsetu á einni þeirri og/eða nytjar jarðirnar til hefðbundins búskapar, landgræðslu, þ.m.t. skógræktar, hrossaræktar e.þ.l.  
 
Aðalinntakið í ofangreindum kvöðum er gegnsæi eignarhalds, skattlagning hérlendis og nýting lands með hefðbundnum hætti eða til landgræðslu.  Þótt megináhugi fjárfesta kunni að beinast að lax- og silungsveiðihlunnindum, verða þeir annaðhvort að stunda atvinnustarfsemi á jörðunum eða að veita öðrum umboð til þess.  Það má sem sagt ekki kaupa jörð til að leggja hana í eyði.
Þann 17. júlí 2018 skrifaði Agnes Bragadóttir Baksviðsgrein í Morgunblaðið, sem hún nefndi:
"Geta falið eignarhaldið ef þeir vilja":
 
"Erlendir auðkýfingar hafa síðustu ár keypt fjölda jarða.  Erfitt er að henda reiður á því, hversu stór hluti íslenzkra jarða er kominn í eigu útlendinga, því að eignarhald erlendra aðila er í ákveðnum tilvikum í gegnum íslenzk fyrirtæki.  Það á t.d. við um eignarhaldið á Hótel Kötlu.  Útlendingar, sem kaupa jarðir í gegnum íslenzk fyrirtæki, geta því falið eignarhald sitt, ef þeim sýnist svo."
Það ætti að vera krafa löggjafans, að eignarhald jarðnæðis á Íslandi sé gegnsætt, þannig að rekja megi eignarhaldið á einfaldan hátt til einstaklinga og að það sé til á reglulega uppfærðri skrá.  
Síðan vitnaði Agnes í viðtal sitt við Stefán Má Stefánsson, lagaprófessor:
""Það er bara spurning um það, hversu langt menn vilja ganga, en fyrst af öllu verða menn að vita, hvar leyfileg mörk liggja.  Það eru möguleikar fyrir okkur að koma upp eins konar varnarmúrum.
Girðingarnar gagnvart þriðju ríkjum eru nokkuð klárar, því að það eru engar skuldbindingar gagnvart þeim.  T.d. gætu Þjóðverjar ekki keypt upp jarðir hér, bara í krafti fjármagns.  [Englendingurinn Ratcliff hefur keypt jarðir í Vopnafirði, bara í krafti fjármagns.  Hvers vegna geta Þjóðverjar það ekki ? - innsk. BJo.]Það væri hægt að setja girðingar gagnvart því.  Öðru máli gegnir, ef fyrirtæki kemur hingað í þeim tilgangi að stofna til atvinnustarfsemi.  Þá væru jarðakaup félaga frá þriðju ríkjum heimil, og sama ætti við um útlendinga, sem kæmu hingað til þess að verða launþegar", sagði Stefán Már.
Ég tel tvímælalaust, að hægt sé að setja búsetuskilyrði í lög í tengslum við sölu á jörðum."
 
Það á ekki að vera keppikefli löggjafans að setja upp girðingar hér gegn erlendum fjárfestingum á þessu sviði né öðrum.  Hins vegar á að hindra jarðakaup, sem einvörðungu snúast um að nýta hlunnindi jarðarinnar.  Með í kaupunum verður að vera alhliða nýting jarðarinnar, svo að samræmi sé við almenna byggðastefnu landsmanna, landbúnaðarstefnu og stefnu um að hefta losun koltvíildis við uppblástur lands og bindingu kolefnis með skógrækt og annarri ræktun. 
 
Hjörleifur Guttormsson, náttúrufræðingur og fyrrverandi Alþingismaður og ráðherra, tengdi ógöngur landsölumála við EES-samninginn í Morgunblaðsgrein sinni 21. júlí 2018:
"Jarðakaup útlendinga eftir aldarfjórðung í EES".
 
Þar lýsir hann skelfilegum lausatökum stjórnmálamanna og embættismanna hérlendra við gerð þessa dæmalausa samnings.  Felst í efnistökum Hjörleifs staðfesting á því, sem haldið hefur verið fram á þessu vefsetri, að Íslendingar hafa einfaldlega færzt of mikið í fang með því að ætla að hafa í fullu tré við risaríkjasamband, sem hér seilist til áhrifa á öllum þremur sviðum ríkisvaldsins:
 
"Það ferli, sem hér er komið á fullt skrið víða um land, á rætur í EES-samningnum og háskalegum vettlingatökum íslenzkra stjórnvalda við gerð hans.  Í opnu bréfi til Steingríms Hermannssonar, forsætisráðherra, sem birtist í Tímanum 1. febrúar 1991, vakti ég athygli á, hvert stefndi, þvert á yfirlýsingar hans við upphaf málsins 1989.  
Í svargrein hans í sama blaði viku síðar vísaði Steingrímur í forkaupsrétt sveitarfélaga og bætti við:
"Allt slíkt er gert ráð fyrir að herða.  Eignarhald erlendra aðila á landi, sem ekki er nauðsynlegt vegna atvinnureksturs, verður ekki leyft."
 
Eftir stjórnarskiptin 1991 var fallið frá flestum fyrirvörum við samninginn af Íslands hálfu og vísað til væntanlegra ákvæða í fjárfestinga-, fasteigna-, jarða- og ábúðarlögum, sem sett voru síðar á árabilinu 1996-2004.  Þegar til kastanna kom, reyndust þau haldlítil eða haldlaus, enda þar að margra mati gengið lengra í að opna fyrir fjárfestingar útlendinga en EES-rétturinn krafðist."
 
 Það er ljóst af lýsingu Hjörleifs, að upphafleg fyrirætlun Steingríms Hermannssonar um að koma í veg fyrir uppkaup á jörðum einvörðungu vegna veiðihlunninda, sem síðan leiðir gjarna til, að jörðin fer í eyði, hefur farið gjörsamlega í handaskolum.  Það er ekki líklegt, þótt Hjörleifur virðist síðar í greininni binda nokkrar vonir við það, að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur takist betur upp við það að búa til kerfi, sem laðar að fjárfesta, sem hefja hér raunverulega atvinnustarfsemi eða leigja bændum jarðir sínar á sanngjörnu verði til hefðbundinnar starfsemi eða nýsköpunar, en láta ekki þar við sitja að kaupa jarðir af bændum eða öðrum til þess einvörðungu að nýta veiðihlunnindi.
 
Til að embættismenn hætti að fara eins og kettir í kringum heitan graut af ótta við athugasemdir ESA og kærur til EFTA-dómstólsins fyrir brot á jafnstöðu þjóðerna innan EES, er eina ráðið að segja EES-samninginum upp.  Það er löngu tímabært og mundi létta alls konar áþján af stjórnsýslu, ráðherrum, Alþingismönnum, dómurum og ekki sízt af atvinnulífinu.  Það er ljóst, að ella verða hér sífelldar uppákomur vegna augljósra stjórnlagabrota, sem þó er reynt að breiða yfir við innleiðingu nýrra Evrópugjörða.   
 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband