Afskipti norskra stjórnvalda af lýðræðislegu ferli á Íslandi

Um miðjan ágúst 2018 var í heimsókn á Íslandi utanríkisráðherra Noregs, Ine Marie Eriksen Söreide.  Hún gerði sig þá seka um alvarleg afskipti af innanríkismálum Íslands með því að reyna að hafa áhrif á niðurstöðu væntanlegrar umfjöllunar Alþingis um Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB.  Ine Marie Eriksen Söreide er félagi í Hægri flokkinum, sem nú situr við völd í Noregi ásamt Framfaraflokkinum.  Þetta er minnihlutastjórn, sem semur við meirihlutann frá einu máli til annars.  

Í vetur samdi norska ríkisstjórnin við Verkamannaflokkinn um framgang Þriðja orkumarkaðslagabálksins á Stórþinginu.  Bæði Hægri og Verkamannaflokkurinn eru hallir undir inngöngu Noregs í Evrópusambandið, ESB, og það er meginástæða þess, að þessir flokkar studdu innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins í lagasafn Noregs. 

Þótt Noregur flytji út mikið af eldsneyti og dálítið af raforku um sæstrengi til ESB-landa, þá hefur ekki verið sýnt fram á, að þessi viðskipti muni verða fyrir skakkaföllum eftir höfnun Alþingis á téðum bálki.  Ástæðan er sú, að ESB er í mikilli þörf fyrir þessi orkuviðskipti við Noreg.  Þess vegna verður örugglega fundin sérlausn fyrir orkuviðskipti á milli ESB og Noregs, ef Alþingi synjar orkubálkinum samþykkis.  

""Við erum öll sammála um mikilvægi innri markaðarins.  Það að hafa aðgengi að 500 milljón manna markaði með sameiginlegar reglur og staðla fyrir inn- og útflutning er gríðarlega mikilvægt til þess að skapa sanngjörn samkeppnisskilyrði.  Þetta skiptir bæði efnahagskerfi Íslendinga og Norðmanna máli",segir Ine Marie Eriksen Söreide, utanríkisráðherra Noregs, spurð um framtíðarhorfur samningsins um evrópska efnahagssvæðið í ljósi útgöngu Breta úr Evrópusambandinu."

Að hanga eins og hundur á roði á EES-samninginum þrátt fyrir breyttar aðstæður í Evrópu og í heiminum öllum er óheillavænleg blanda af hæfileikaskorti til að grípa ný tækifæri og þrælslund við Evrópusambandið.  Sannleikurinn er sá, að fyrir Íslendinga er EES-samningurinn allt of dýru verði keyptur bæði stjórnlagalega og fjárhagslega, eins og nýlegar innleiðingar Evrópugjörða eru til vitnis um.  Bandaríkjamenn hafa gagnrýnt viðskiptabandalög á borð við ESB, sem nota öryggiskröfur, eins og þær, sem liggja að baki CE-merkingunni, og stöðlun til að samræma eigin iðnaðarframleiðslu og torvelda aðgengi annarra að sínum markaði. 

Þetta er eitt af megingagnrýniefnum Bandaríkjamanna á ESB.  Miklu einfaldara, útlátaminna og síður fallið til óánægju og deilna er að gera tvíhliða viðskiptasamninga, eins og reyndar ESB hefur verið að gera í töluverðum mæli undanfarin ár, eins og samningar við Kanada og Japan gefa til kynna.  Fyrir Íslendinga er miklu eðlilegra að taka stefnuna á tvíhliða fríverzlunarsamninga við ESB, Bretland, BNA, Kanada, Japan o.fl. en að íþyngja atvinnulífinu og hinu opinbera með stöðugu flóði viðamikilla lagasetninga frá ESB, sem margar standast ekki kröfur Stjórnarskráar, sem heimilar ekki fullveldisframsal af því tagi, sem EES-samningurinn útheimtir.

""Við höfum öll hag af því að finna farsæla lausn á málinu [Brexit].  Það er hins vegar erfitt að vita með vissu, hvað gerist næst.  Bretar og Evrópusambandið verða að komast að samkomulagi fyrst, þannig að hægt verði að meta, hver næstu skref verða", segir Söreide.  Hún telur Íslendinga og Norðmenn hafa sameiginlega hagsmuni af því, að ekki skapist óvissa um innri markaðinn og að hann sundrist ekki."

Þetta er að miklu leyti rangt mat hjá Söreide.  Þegar ríkisstjórnirnar í Reykjavík og Ósló hafa ólíka afstöðu til ESB, þá sýnir reynslan, að engin almennileg samstaða næst innan EFTA-hópsins í Sameiginlegu EES-nefndinni.  Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, benti á þetta a.m.k. tvisvar í þingræðum á Alþingi veturinn 2018.

Fyrst eftir BREXIT vildu Norðmenn ekki sjá Breta inn í EFTA, þótt íslenzka utanríkisráðuneytið mælti með þeim kosti, enda hefði EFTA þá sterka stöðu í samningum við ESB og aðra.  Þegar ESB lét á sér skilja, að æskilegt væri, að Bretland gengi í EFTA og gerðist aðili að EES-samninginum, þá sneru Norðmenn við blaðinu.  Bretar hafa að vísu engan áhuga á EES, þótt þeir kunni aftur að ganga í EFTA, en kúvending Norðmanna sýnir, að núverandi stjórnvöld í Ósló leggja mikla áherzlu á að þóknast ESB.  Það hefur skemmt fyrir samningum EFTA og ESB og gert Íslendingum erfitt um vik við að standa á rétti sínum um tveggja stoða lausn við innleiðingu Evrópugjörða í EES-samninginn.  Með bæði samstarfsríki Íslands í EFTA innan EES höll undir gagnrýnislausa aðlögun að ESB með samræmdri innleiðingu sem flestra Evrópugjörða á EES-svæðinu, á smáríki norður í Atlantshafi ekki lengur erindi í þessa vegferð forkólfanna í Brüssel, Berlín og París til æ nánari sameiningar.

""Það er grundvallaratriði, að vestrænar þjóðir standi saman í fordæmingu brota gegn þjóðarrétti af hálfu Rússa.  Slíkt hefur í för með sér fórnarkostnað fyrir öll ríki, sem við verðum að vera reiðubúin til þess að taka á okkur", segir Söreide um áhrif viðskiptabanns Rússa."

Þetta er rétt, svo langt sem það nær.  Það er ekki sama, hvernig að viðskiptabanni er staðið.  Norðmenn seldu Rússum m.a. hátæknivörur, sem gátu farið til hernaðarlegra nota.  Það gerðu Þjóðverjar og Bandaríkjamenn einnig, en Þjóðverjar sáu til þess, að þjóðhagslega mikilvægur iðnaður þeirra á borð við bílaiðnaðinn gæti óáreittur haldið áfram að senda járnbrautarfarma af bifreiðum til Rússlands.

Íslendingar stunduðu engin viðskipti við Rússa með vörur, sem gátu gengið til hernaðarlegra nota.  Þess vegna var ekki rökréttara, að Íslendingar tækju þátt í viðskiptabanni á Rússa en t.d. Færeyingar.  Það sárgrætilega er, að vegna refsiaðgerða Rússa gegn ríkjunum, sem settu á þau viðskiptabann, hefur ekkert vestrænt ríki tapað hlutfallslega meiri fjármunum á þessu valvísa viðskiptabanni á Rússa en Íslendingar, og nú hefur ríkisstjórn Íslands ekki bein í nefinu til að draga Ísland út úr því.  Í hverfulum heimi ríður á að reka sjálfstæða utanríkisstefnu.  Það má mótmæla endurinnlimun Krímskaga í Rússland, krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu þar undir alþjóðlegu eftirliti um stöðu Krím og mótmæla afskiptum Rússa af Austur-Úkraínu um leið og Ísland væri dregið út úr þessu kjánalega viðskiptabanni á Rússa.

Þá er komið að meginerindi norska utanríkisráðherrans til Íslands að þessu sinni.  Það var að hræða Alþingismenn til þess að samþykkja innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB inn í EES-samninginn og íslenzka löggjöf.  Falsrök norska ráðherrans voru, að téð löggjöf skipti Íslendinga litlu, en Norðmenn miklu máli.  Litlir hagsmunir væru í húfi fyrir Íslendinga, en miklir fyrir Norðmenn.  Í fjölda pistla á þessu vefsetri og öðrum og í blaðagreinum hefur verið sýnt fram á, að fyrri fullyrðingin er kolröng, og sú síðari stenzt ekki athugun, enda hafa systursamtök Heimssýnar í Noregi, "Nei til EU", sent frá sér harða gagnrýni á hræðsluáróður ráðherrans, eins og lesa má í skjali samtakanna í viðhengi með þessum pistli.

""Ég ræddi þetta [téðan orkubálk] á fundi mínum með Guðlaugi og á fundi með þingmönnum.  Það er mikilvægt fyrir mig að koma því á framfæri, að norska Stórþingið hefur samþykkt þessa tilskipun.  Fyrir okkur er mikilvægt, að tilskipunin sé tekin upp í EES-samninginn þar sem við nú þegar erum hluti af evrópskum orkumarkaði. Það er ákveðin hætta fyrir okkur, ef hún myndi ekki öðlast gildi", staðhæfir hún."

Hér sjáum við glitta í topp ísjaka áróðurs norskra ESB-sinna gagnvart íslenzkum stjórnvöldum og Alþingi.  Málið er alls ekki mikilvægt fyrir norsku þjóðina, sem að stórum meirihluta er algerlega mótfallin inngöngu Noregs í Orkusamband ESB, né fyrir hagsmuni hennar, en það er mikilvægt fyrir ESB-sinnaða stjórnmálamenn Noregs að þóknast ESB með skilyrðislausri undirgefni.  Orkuviðskipti ESB-landanna við Noreg eru ESB svo mikilvæg, að engum dettur í hug, að vottur af samstöðu finnist á þeim bænum fyrir því að gera Norðmönnum erfitt fyrir að stunda þessi viðskipti hér eftir sem hingað til.  Ef Norðmenn kæra sig um, geta þeir einfaldlega innleitt reglur Evrópusambandsins hjá sér, þótt Íslendingar geri það ekki.  Hættan, sem Söreide talaði um, er ekki viðskiptalegs eðlis, heldur pólitísks eðlis innanlands í Noregi.  

"Að sögn ráðherrans var umræðan í Noregi nokkuð erfið.  "Það voru margar mýtur um málið.  Margir héldu því fram, að með því að samþykkja þriðja orkupakkann myndum við missa yfirráð yfir orkuauðlindum og orkustefnu landsins; þetta var auðvitað ekki rétt.  Noregur myndi aldrei afsala sér þessum rétti.""

Þarna skeiðar ráðherrann léttilega framhjá sannleikanum.  Landsreglarinn (n. "Reguleringsmyndighet for energi-RME") er ekki goðsögn, heldur staðreynd, sem menn geta séð að störfum nú þegar í ESB-löndunum, og undirbúningur er þegar hafinn í Noregi að stofnun þessa embættis, sem tekur við eftirlitshlutverki ráðuneytis og NVE (í Noregi) og Orkustofnunar hérlendis með orkumarkaðinum og yfirstjórn á Statnett í Noregi og Landsneti á Íslandi.

  Landsreglarinn á að koma á raunverulegum samkeppnismarkaði með raforku (og eldsneytisgas, þar sem það er í almennri daglegri notkun) í aðildarlöndum Orkusambandsins og framfylgja samkeppnislögum ESB og lögum gegn brenglun markaðar með ríkisstuðningi við einstök fyrirtæki.  

Á Íslandi mun þetta nánast örugglega leiða til aðgerða til að minnka misvægi á markaðinum með því að draga úr drottnunarvaldi Landsvirkjunar, sem er að fullu ríkisfyrirtæki og með yfir 80 % af raforkumarkaðinum á sinni könnu. Landsreglarinn mun færa fyrir því rök, að ekki sé hægt að innleiða hér frjálsan samkeppnismarkað með raforku með svo rosalegt misvægi á markaðinum sem hér er.  Hann mun vísa í lagareglur ESB og segja nauðsynlegt að skipta Landsvirkjun upp og einkavæða hana.  Sú einkavæðing mun fara fram á evrópskum markaði, þannig að innan tíðar gætu E.ON o.fl. þekkt evrópsk raforkufyrirtæki  farið að selja okkur raforku.  Það er þetta, sem norskir andstæðingar innleiðingar Þriðja orkumarkaðslagabálksins óttast m.a., þegar þeir ræða um hættuna á að "missa yfirráð yfir orkulindum". 

Hérlendis verða menn að gera sér grein fyrir því, að stjórnvöld hafa engin tök á að stöðva Landsreglarann, ef Alþingi glepst á að samþykkja þennan orkubálk, því að hann mun starfa óháður þeim eftir ESB-lögum, og ágreiningsmál verða útkljáð fyrir EFTA-dómstólinum, sem á við dómaframkvæmd að gæta samræmis við ESB-dómstólinn.  

Í þjóðsögum var sagt frá tröllskessum, sem af fullkominni léttúð köstuðu á milli sín fjöregginu hlæjandi og flissandi.  Öllum ætti að vera ljóst, að nú er verið að kasta á milli sín fjöreggi landsmanna.  Það mun koma í ljós, hvort Alþingismenn missa fjöreggið úr höndum sér eða hvort þeir stöðva leikinn áður en slys verður. 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband