Lágt raforkuverð er undirstaða samkeppnishæfni atvinnulífsins

Valhallarfundurinn 30. ágúst 2018 kastaði ljósi á það, hversu varasamt er fyrir fullveldi landsins, Stjórnarskrána og raforkumarkaðinn á Íslandi, að Alþingi samþykki innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn og þar með inn í lagasafn Íslands.  Jafnframt er ljóst, að afleiðingar höfnunar eru mjög léttvægar í samanburði við áhættuna fyrir stjórnskipun landsins og samkeppnishæfni þess um fólk og fyrirtæki. Tal um, að EES-samningurinn og markaðsaðgengi Íslendinga að Innri markaðinum verði í uppnámi eftir höfnun, eru hugarórar einir og/eða hræðsluáróður.

Það má hiklaust líkja téðum orkulagabálki við Trójuhest ESB inn fyrir múra íslenzka stjórnkerfisins, því að embættið, sem komið verður á fót í kjölfarið, Landsreglarinn, verður einstætt í sögunni, hæstráðandi yfir mikilvægum þáttum þjóðlífsins, raforkuflutningi og raforkumarkaði, en algerlega óháð rétt kjörnum og rétt skipuðum yfirvöldum landsins samkvæmt Stjórnarskrá.  Með leikmannsaugum verður alls ekki séð, að embætti Landsreglara samræmist Stjórnarskrá Íslands.

Landsreglarinn fær ekki heimildir til að koma hér á uppboðsmarkaði raforku fyrr en samningar hafa verið gerðir við aflsæstrengsfjárfesta um lagningu slíks strengs frá Íslandi til Bretlands eða annars lands í Orkusambandi ESB. Hann mun þó áreiðanlega hvetja til þess frá fyrsta degi.  Landsreglarinn hefur sæstrengsumsókn í hendi sér, því að hann semur skilmálana fyrir strengnum, þótt Orkustofnun veiti leyfið.  ESA og EFTA-dómstóllinn eru svo úrskurðaraðilar um deilumál á milli leyfisumsækjanda og leyfisveitanda.  Einhverjir gæla við hugmyndina um, að Alþingi banni lagningu aflsæstrengs.  Þeir hinir sömu þurfa að sýna fram á, að eitthvert hald verði í slíkri lagasetningu.  Það er skoðun þessa pistilhöfundar eftir lauslega athugun, að svo verði  ekki, ef bannið stangast á við samþykkta Kerfisþróunaráætlun ESB/ACER og hlutverk Landsreglarans að vinna að framkvæmd hennar.

Deilur um þetta munu hafna hjá ESA/EFTA-dómstólinum til úrskurðar, sem leggja mun Evrópurétt til grundvallar úrskurðum sínum.  Enn fjarstæðukenndari eru hugmyndir um fyrirvara við samþykkt téðs orkulagabálks í þá veru, að endanlegt dómsvald um ágreining vegna þessa orkulagabálks verði í höndum íslenzkra dómstóla.   

 Að kröfu norska Verkamannaflokksins var það á meðal 8 krafna norska Stórþingsins til framkvæmdastjórnar ESB við samþykkt Stórþingsins á Þriðja orkumarkaðslagabálkinum, að allir aflsæstrengir frá Noregi yrðu í eigu Statnett, norska Landsnets, sem er í eigu norska ríkisins,en  aflsæstrengir til Íslands verða vafalítið alfarið í einkaeigu, hugsanlega styrktir af ESB. Þessi 8 norsku skilyrði voru ekki lögfest, og þau hafa ekkert gildi að Evrópurétti.  Framkvæmdastjórn ESB hefur það í hendi sér að sniðganga þessar kröfur Stórþingsins og mun að öllum líkindum gera það.  Annaðhvort beygja Norðmenn sig þá í duftið, eða þeir grípa til róttækra aðgerða varðandi EES-samninginn í heild, því að orkumarkaðslagabálkinum geta EFTA-ríkin ekki sagt upp einum og sér.  

Uppboðskerfi á raforku á mjög illa við íslenzkar orkulindir vegna þess, að við nýtingu þeirra þarf að beita auðlindastýringu, ef kostnaðurinn við nýtinguna á ekki að rjúka upp og þær að þverra, svo að þær gefi aðeins af sér skertar afurðir um tíma (tímabundin lág vatnsstaða í miðlunarlónum).  Á skammtímamarkaði geta jarðgufuvirkjanir ekki keppt við vatnsaflsvirkjanir.  Það er ekki hægt að sveifla raforkuvinnslu jarðgufuvirkjana mikið frá einni klst til annarrar, en það er hægt með vatnsaflsvirkjanir, og jarðgufuvirkjanir geta ekki keppt um orkuverð, þegar nóg vatn er í miðlunarlónum.  Til að koma í veg fyrir sóun orkulindanna og orkuskort er auðlindastýring nauðsynleg, þ.e.a.s. samstýra þarf hæð í miðlunarlónum, draga úr jarðgufuvinnslunni, þegar hratt hækkar í miðlunarlónum og auka jarðgufuvinnsluna, þegar hratt lækkar í miðlunarlónum.  Þetta er stýrð auðlindanýting í íslenzka raforkukerfinu í hnotskurn. Hún rúmast ekki innan markaðskerfis ESB og verður óleyfileg undir Landsreglara, þegar hann verður búinn að koma hér á frjálsri samkeppni um raforku að fyrirmynd Evrópusambandsins.

Uppboðsmarkaðurinn mun af þessum sökum leiða til hraðrar tæmingar lóna, og þau eru þá við lágmark e.t.v. í 3 mánuði ársins.  Orkustofnun ESB-ACER og fulltrúi hennar ("kongens befalingsmand") á Íslandi, Landsreglarinn, munu sjá aflsæstreng sem lausn á þessu vandamáli.  Þá geta Íslendingar flutt inn á veturna raforku, sem skortir upp á getu vatnsaflsvirkjananna.  Þetta mundi hækka raforkukostnað heimilanna um a.m.k. 50 % á ári, og "græna vottorðið" færi fyrir lítið.  

Hvað gerist í þessari stöðu, ef sæstrengurinn bilar ?  Viðgerðartími hans getur hæglega orðið 9 mánuðir.  Þann vetur verður neyðarástand á Íslandi vegna raforkuleysis sem leiða mun til skömmtunar og taps útflutningsverðmæta, sem gæti numið fjórðungi útflutningstekna í venjulegu árferði.  Að stefna landinu inn í þessa ófæru er fullkomið glapræði, þótt annað og sterkara orð ætti betur við þessa stöðu mála.   

 

 

  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband