ESA og raforkuverðið

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sér hið fyrirheitna land Íslendinga innan "Festung Europa", þ.e. í náðarfaðmi embættis- og stjórnmálamanna Evrópusambandsins, ESB, sem er risi á brauðfótum, þar sem hagsmunir 0,35 M manna þjóðar á eyju langt norður í Atlantshafi yrðu ekki hátt skrifaðir.  Það er rislág framtíðarsýn að deila fullveldi smáþjóðar með hátt í 30 öðrum þjóðum og um hálfum milljarði manna.  Hins vegar er sjálfsagt að rækta heilbrigð tengsl við hinar Evrópuþjóðirnar.  

Þorgerður kynnti áherzlur flokks síns fyrir þingveturinn 2018-2019, sem er mjög eðlilegt af henni.  Hún virðist hins vegar hafa verið undarlega valvís í þeirri kynningu, því að ekki verður séð af meðfylgjandi veffrétt Morgunblaðsins, að hún minnist þar á eitt örlagaríkasta málið, sem kynnt hefur verið til sögunnar í vetur, þ.e. Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB. 

Það er líklega út af því, að henni finnst sjálfsagt, að Alþingi kokgleypi gagnrýnislaust alla Evrópugerninga, sem þangað berast.  Það sé nánast guðlast að athuga með gagnrýnum hætti, hvernig gerningurinn fellur að Stjórnarskrá lýðveldisins, eða hvernig hann fellur að auðlindastjórnun, sem samstaða hefur verið um að viðhafa í landinu og sem nauðsynleg er til að nýta orkulindirnar með hagkvæmasta hætti fyrir alla raforkunotendur í landinu.  Það blasir samt við og stendur upp úr tali sérfræðinga á sviði Evrópuréttar og stjórnlaga, að í heildina séð er EES-samningurinn með öllum sínum viðaukum og viðbótum kominn út yfir þau mörk, sem Stjórnarskráin leyfir.  

Viðreisn svipar að þessu leyti til trúflokks.  Spurningar um sannleiksgildi kenninganna eru óviðeigandi og allt, sem kemur frá fulltrúum almættisins í Brüssel, er óskeikult.  Hugarfar af þessu tagi er lágkúrulegt, gamaldags og með öllu óviðeigandi í stjórnmálum nútímans, enda fjarar nú mjög undan stjórnmálaflokkum í Evrópu, sem fórna vilja fullveldi þjóða sinna á altari ríkjasambands, hvað þá sambandsríkis Evrópu. Eru örlög krataflokkanna til vitnis um það. 

Eftir Þorgerði Katrínu var þessi speki höfð um orkumálin á blaðamannafundi Viðreisnar 08.09.2018:

"Við höfum m.a. fengið hærra orkuverð í gegnum EES-samstarfið, og því eru álfyrirtækin og aðrir að greiða hærra verð en áður ... ."

Hvað hefur formaður Viðreisnar fyrir sér um þetta ?  Ekkert handfast.  Þetta er tóm ímyndun.  ESA hefur samþykkt alla raforkusamninga, sem þessi Eftirlitsstofnun EFTA hefur rýnt, án athugasemda um orkuverðið sjálft, enda ekki hlutverk hennar að taka afstöðu með öðrum samningsaðilanum og á móti hinum.  ESA hefur í þessu viðfangi aðeins eitt hlutverk.  Að gæta þess, að orkusamningarnir feli ekki í sér ríkisstuðning, sem styrki samkeppnisstöðu viðsemjandans á kostnað annarra í sömu grein, t.d. innan áliðnaðarins, sem ekki verða aðnjótandi ríkisstuðnings.  ESA hefur aldrei komizt að slíkri niðurstöðu um orkusamninga á Íslandi. 

Það er viðurkennd staðreynd, að raforkuverð á Íslandi er einn af þáttunum, sem draga erlendar fjárfestingar hingað, og þótt flestu sé hægt að trúa upp á ESA, hefur hún aldrei dirfzt að setja sand í tannhjól samninga á milli íslenzkra orkuseljenda og orkukræfs iðnaðar.  

Það er dauðans vitleysa, að ESA (eða tilvera ESA) hafi hækkað verð í langtímasamningum um raforku á Íslandi, enda mætti líta á slíkt sem tilraun til að fæla fjárfesta frá Íslandi, en íslenzk stjórnvöld hafa í áraraðir reynt að laða erlenda fjárfesta til landsins, enda eru erlendar fjárfestingar hvarvetna í þróuðum ríkjum taldar eftirsóknarverðar, hagvaxtarskapandi og færandi með sér nýjustu þekkingu, t.d. á sviði framleiðsluiðnaðar.  Alveg ný og öflug umhverfis- og öryggisstjórnun hefur t.d. borizt um samfélagið frá álverunum.  

Þetta er hálmstrá Þorgerðar Katrínar til að bera í bætifláka fyrir samning, sem setur Íslendinga í þá aumkvunarverðu stöðu að vera undir þrýstingi að innleiða Evrópugerninga í lagasafn sitt, sem þeir ekkert hafa komið nálægt að semja og eru sniðnir við allt aðrar aðstæður en hér ríkja, og síðast en ekki sízt eru í trássi við Stjórnarskrá landsins að mati glöggra lagasérfræðinga.  Þetta hálmstrá hjálpar ekki slæmum málstað, sem er innlimun Íslands í Evrópusambandið sneið eftir sneið.  Þetta heitir að höggva úr launsátri eða að læðast aftan að saklausu fólki. Af hverju ekki að segja sannleikann umbúðalaust: EES-aðildin jafngildir aðlögunarferli að sjálfu Evrópusambandinu ?  Enginn ber brigður á mikilvægi tollabandalags við ESB, en má kannski halda því og sníða af alvarlega galla EES-samningsins með tvíhliða fríverzlunarsamningi ? 

 


mbl.is Væri „gríðarlegt tjón“ að ganga úr EES
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Það vekur furðu að nefnd Þorgerður  Katrín hafi talið sig sjálfstæðismanneskju. Nú einn helsti boðberi fullveldisafsalssamninga og útvistunar sjálfsákvörðunarréttar Íslands og þjóðarinnar sem þar býr. Ekki að undra að sumir finni henni ónefni í kúlulíki til uppnefningar.

 Þakka enn og aftur drifkraft þinn og árvökli með hagsmunum Íslaands.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 15.9.2018 kl. 22:36

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins, 13.09.2018, eru innherjaupplýsingar, sem téð Þorgerður kann að hafa búið yfir sem ráðherra í aðdraganda Hrunsins, gerðar að umfjöllunarefni af hinum glögga og fróða höfundi, Óðni, sem er fastur penni á blaðinu.  Óðinn varpar fram krefjandi spurningum í þessu viðtali, sem vel eru einnar rannsóknar virði og þau Geir Haarde eða Þorgerður geta svarað:

"Átti Þorgerður Katrín fund með Geir Haarde rétt fyrir símtal hans við Davíð ?  Lagði hún á þeim fundi áherzlu á, að Kaupþingi yrði veitt lán ?  Óskaði Þorgerður eftir því við forsætisráðherra, að hann þrýsti á Seðlabankann að veita lánið ?"

Þar sem Þorgerður Katrín situr nú á Alþingi, er formaður stjórnmálaflokks og sækist eftir að verða aftur ráðherra, verður að gera þá kröfu til hennar áður en lengra er haldið, að hún geri rækilega grein fyrir sinni hlið á þessu máli og færi sönnur á, að hún gerðist ekki sek um alvarlega tilraun til að bjarga hag sínum og fjölskyldu sinnar umfram hag alþýðu manna, þegar hún sat í ríkisstjórn Geirs Hilmars Haarde.

Bjarni Jónsson, 16.9.2018 kl. 11:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband