Gagnrýni prófessors Peters Örebech

Sérfræðingur í Evrópurétti við háskólann í Tromsö í Noregi, UIT, Peter Örebech, prófessor, sýndi fram á í gagnrýni á greinargerð Birgis Tjörva Péturssonar, lögmanns, BTP, sem pöntuð var af iðnaðarráðherra, Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð,  til að sýna fram á meinleysi Þriðja orkumarkaðslagabálksins, að þar er flagð undir fögru skinni, þ.e.a.s., þegar Þriðji orkupakkinn er skoðaður í ljósi lagatúlkunar ESB-dómstólsins, þá er hann stórhættulegur umráðarétti okkar yfir orkulindum landsins.

Hér er einnig við hæfi að minna á minnisblað, sem téður ráðherra fékk annan lögmann, fyrrverandi framkvæmdastjóra hjá ESA (Eftirlitsstofnun EFTA), Ólaf Jóhannes Einarsson, ÓJE, til að skrifa.  Þetta minnisblað ÓJE á það sammerkt með greinargerð BTP, að þar er engin viðleitni höfð í frammi til að túlka virkni Þriðja orkupakkans í samhengi við aðra löggjöf ESB, eða með hliðsjón af dómum ESB-dómstólsins.  Hér er átt við öll lög og reglugerðir, sem eiga við Innri markað EES, því að þau verða virk fyrir allan orkugeirann við samþykkt Þriðja orkupakkans.  Þetta setur t.d. framtíð Landsvirkjunar í algera tvísýnu, því að ESA mun varla samþykkja, að 80 % markaðshlutdeild á raforkumarkaði sé samræmanleg samkeppnisreglum á Innri markaðinum.  Hvort landið er tengt umheiminum um aflsæstreng skiptir engu máli í þessu samhengi samkvæmt prófessor Örebech.

Hér verða nú tilgreind orð Elíasar B. Elíassonar, verkfræðings, er hann viðhafði eftir lestur pistilsins, Eignarhald á orkulindunum, og skýrslu prófessors Örebech, sem er á norsku undir hlekk hér á síðunni, en þýðing á íslenzku stendur nú yfir:

"Þessi minnisblöð [BTP, ÓJE] forðast þannig alla umfjöllun um þau atriði í öðrum reglum en orkupakkanum, sem auka á hættuna, sé hann innleiddur.  Það er heldur ekki minnzt á landsreglarann, sem virkar sem eins konar trójuhestur og skal gæta þess, að við notum ekki auðlindina okkur sjálfum til hagsbóta, heldur öllum notendum innan ESB [EES] jafnt.  Landsreglarinn setur reglugerðir um markað og flutningskerfið, sem eiga að vera samhljóma þeim reglugerðum, sem gilda innan ESB.  Ef ekki er farið að þeim reglugerðum, getur framkvæmdastjórnin kært til ESA, eftir að ACER hefur sent henni upplýsingar um málið.  Valdheimildir landsreglarans taka gildi strax. Mér virðast þessar innlendu greinargerðir ráðuneytanna vera þess eðlis, að verið sé að tala niður til fólks á lagamáli og halda því að þjóðinni, að þetta stórmál, orkupakkinn, sé smámál, af því að við séum nú þegar komin langleiðina með að afsala okkur auðlindinni."

Undir hvert orð skal hér taka og ítreka, að með samþykkt Þriðja orkupakkans munu allar varnir landsins bresta á þessu sviði.  Það er jafnframt ljóst, að málflutningi á ráðstefnu HR, síðsumars 2018, þar sem m.a. töluðu hr. Pototschnig, forstjóri ACER, og Kristín Haraldsdóttir, lektor við Lagadeild HR, um meinleysi ACER, verður að taka með þeim fyrirvara, að þar var aðeins hálf sagan sögð.

Í II. kafla skýrslu sinnar um 11., 12. og 13. undirkafla EES-samningsins skrifaði Peter Örebech m.a. í lauslegri þýðingu:

"Höfundurinn [BTP] fullyrðir í fyrsta lagi, að úr því að Ísland er ótengt erlendum rafkerfum í raun, þá séu orkumál Ísland heldur ekki háð neinum mikilvægustu EES-reglunum.  Samkvæmt þessari framsetningu ættu reglur um orkuviðskipti að vera háðar raunverulegum aðstæðum, s.s. hvort "de facto" liggi aflstrengir frá Íslandi. Þessu er ekki hægt að halda fram.  Reglur EES-samningsins eru ekki aðeins í gildi fyrir núverandi aðstæður, heldur einnig framtíðar aðstæður.

Það, sem leysir reglurnar úr læðingi, er aðild Íslands að "þriðja orkupakkanum", ekki hvort frá Íslandi liggi aflstrengir til útlanda eða ekki. Reglurnar spanna þá stöðu, að Ísland neiti t.d. einkafyrirtæki á sviði aflsæstrengja um að leggja slíka.  Ef hagsmunir ólíkra landa rekast á, þá tekur ACER ákvörðun um, hvort millilandastreng skuli leggja, ESB-gerð nr 713/2009, grein 8.1:

"Í sambandi við innviði, sem þvera landamæri, tekur ACER aðeins ákvörðun um þau stýringarlegu viðfangsefni, sem heyra undir valdsvið landsreglaranna, þ.m.t. kjör og skilyrði fyrir aðgangi og rekstraröryggi, a) þegar landsreglararnir hafa ekki getað náð samkomulagi innan 6 mánaða frá því því málið var lagt fyrir seinni landsreglarann."

Fyrirkomulagið með ACER verður fest í sessi, þegar "orkuáætlun 2019-2021", "Projects of Common Interest" (PCI), verður samþykkt.  

"Árið 2013 myndaði TEN-E [Trans-European Energy Network] reglugerðin nýjan ramma fyrir þróun orkuinnviða-PCI-, þar sem ACER var falið það hlutverk að velja PCI [Projects of Common Interest-sameiginleg hagsmunaverkefni ESB] og að aðstoða landsreglarana við að afgreiða fjárfestingarumsóknir frá frumkvöðlum PCI-verkefna- að meðtalinni kostnaðarþátttöku."

Hér er í raun og veru talað um að gefa hefðbundið "tveggja stoða kerfi" EES upp á bátinn og taka upp "einnar stoðar kerfi", sem er megineinkenni ESB-aðildar.  

Við sjáum sem sagt, að reglunum í "Þriðja orkupakkanum" verður beitt á það tilvik, að t.d. finnski rafrisinn Fortun áformi í samstarfi við HS Orku að leggja rörlagnir eða strengi frá Íslandi til t.d. Skotlands.  Þessu yrði síðan hafnað af íslenzka ríkinu.  Ef þessi ágreiningur yrði ekki leystur af Landsreglaranum - handlangara ESB á Íslandi, sem á að framfylgja ESB-réttarreglum á Íslandi og sem er utan seilingar (óháður) íslenzkra yfirvalda, mun koma til kasta ACER eða jafnvel framkvæmdastjórnar ESB að úrskurða samkvæmt ESB-gerð nr 713/2009, sjá grein 4 d), sbr undirgrein 8.1 a) og formálann, hluta 10."

Hér verður forsendu EES-samstarfsins, "tveggja stoða kerfinu", sem gerir ráð fyrir gagnkvæmu kerfi EFTA-megin, algerlega kastað fyrir róða og stofnun, sem starfar einvörðungu á ábyrgð Framkvæmdastjórnarinnar, þ.e. ACER, falið úrkurðarvald um ráðstöfun íslenzkra orkulinda.  Þetta er auðvitað gjörsamlega ótækt fyrir sjálfstætt ríki, þar sem almennur vilji er til að halda sig utan ESB, enda stríðir þetta valdframsal gegn Stjórnarskrá landsins.  Hin aumkvunarverða staða væri þá uppi, að Ísland væri þá undir ofurvald ESB selt án þess að vera þar formlegur aðili. Lagasetning Alþingis um, að þingið skuli hafa síðasta orðið varðandi sæstrengslögn, breytir engu um þessa niðurstöðu, því að með samþykkt Þriðja orkupakkans er verið að færa allan raforkugeira landsins undir Evrópurétt, sem er æðri landsrétti samkvæmt EES-samninginum.   

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband