Gróft vanmat á afleiðingum innleiðingar

Manni rennur til rifja kæruleysislegt tal sumra þingmanna um alvarlegar afleiðingar þess fyrir orkulindastjórnun á Íslandi og þar með á samkeppnishæfni landsins og hag landsmanna að innleiða Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB í 4. viðauka EES-samningsins um orkumál.

Þeir þingmenn eru til, sem telja sér og öðrum trú um, að innleiðing 3. orkupakkans muni nánast engu breyta hér á landi, nema raforkukerfi landsins verði tengt við raforkukerfi lands í Orkusambandi ESB.  Þetta er  málflutningur, sem norski lagaprófessorinn, Peter Örebech, hefur hrakið rækilega í rýniskýrslu, sem hann samdi um greinargerð Birgis Tjörva Péturssonar, lögmanns, og er sem viðhengi á íslenzku með þessum pistli.

Prófessorinn bendir á, að allar reglur Innri markaðar EES taki gildi um allan íslenzka orkugeirann strax eftir samþykkt pakkans, sem þýðir, að allt í raforkugeiranum íslenzka, nema einokunarstarfsemin, verður falt gegn "réttu" gjaldi.  Þetta á við um rafmagnið sjálft og um fyrirtækin á þessum markaði, sem eiga nýtingarrétt, t.d. vatnsréttindi, í  orkulindunum. Uppskipting Landsvirkjunar með sína 80 % markaðshlutdeild verður óhjákvæmileg, sem og sala hluta úr henni á Innri markaði EES, þar sem mismunun á grundvelli þjóðernis er harðbönnuð.  Hér er um grundvallarmál fyrir Íslendinga að ræða, alveg eins og um sjávarauðlindina. Að bregða sér í líki tröllskessa, sem kasta á milli sín fjöreggi þjóðarinnar, hlæjandi og flissandi, er ekki þingmönnum sæmandi.

Prófessor Peter Örebech sýnir líka með skýru dæmi að aflokinni lagalegri útleiðslu á hrollvekjandi niðurstöðu, að íslenzk stjórnvöld munu ekki eiga síðasta orðið um það, hvort umsókn sæstrengsfjárfestis um tengingu við íslenzka raforkukerfið verður samþykkt eða hafnað.  Eftir fullveldisframsalið, sem í samþykkt Þriðja orkulagabálks ESB, hefur hugsanlegt bann Alþingis við sæstreng lítil áhrif og engin lagalega bindandi áhrif á niðurstöðuna, því að ákvörðunin mun verða í höndum Landsreglarans, ACER (Orkustofnunar ESB) og framkvæmdastjórnar ESB.  

Þessar eru meginniðurstöður sérfræðingsins í Evrópurétti, prófessors Peters Örebech.  Þær eru reistar á beztu lagalegu röksemdafærslu, sem færð hefur verið fram um afleiðingar téðrar innleiðingar til þessa.  Prófessorinn rekur dómafordæmi Evrópudómstólsins máli sínu til stuðnings.  Lagatúlkun Evrópudómstólsins er á öndverðum meiði við lagatúlkun þeirra tveggja lögfræðinga, sem iðnaðarráðherra hefur fengið til að skrifa greinargerðir um málið.  Meginboðskapur þeirra greinargerða um meinleysi innleiðingar Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn, sem Ísland er aðili að, fellur dauður niður, að því er bezt verður séð.  Þegar Alþingismenn gera upp við samvizku sína, hvaða afstöðu þeir taka til þessa máls, verða þeir að velja á milli álitsgerða hins norska sérfræðings í Evrópurétti og lögrfæðinganna, sem iðnaðarráðuneytið hefur teflt fram.

 

Þann 5. október 2018 rituðu Stefán Arnórsson, prófessor í jarðefnafræði, og Tómas Guðbjartsson, læknir og náttúruverndarsinni, grein í Fréttablaðið undir heitinu:

Hvalárvirkjun og HS-Orka.

Pistilhöfundur er ósammála þessum höfundum um afstöðuna til Hvalárvirkjunar og HS-Orku, en hann deilir þeirri skoðun með þeim, að íslenzk yfirvöld og Alþingi eiga að hafa óskoraða lögsögu um nýtingu orkulindanna.  Það þýðir, að alls ekki má fella orkugeirann undir Evrópurétt, eins og ótvírætt verður gert með samþykkt Þriðja orkumarkaðslagabálksins.  Það þýðir, að ESA mun gera athugasemdir við öll frávik frá "fjórfrelsinu" í orkugeiranum hér og ágreiningur verður útkljáður af EFTA-dómstólinum.  Umræddri grein lauk þannig:

"HS-Orka er í meirihlutaeigu (51 %) kanadískra auðjöfra, en fyrirtækið greiddi á árinu 2017 sem næst MISK 35 í auðlindagjald fyrir afnot af jarðhitasvæðinu á Reykjanesi.  Við Íslendingar verðum að spyrja okkur, hvort eðlilegt geti talizt, að erlendir fjárfestar geti keypt land eða hlut í íslenzkum orkufyrirtækjum og þannig komizt í að virkja íslenzk fallvötn og jarðhitakerfi.  Lagabókstafurinn gagnvart slíku eignarhaldi er því miður óljós á Íslandi, ólíkt því, sem gildir víða erlendis.  Lögin eru hins vegar afar skýr, þegar kemur að fiskveiðum í íslenzkri lögsögu.  Hér verður heilbrigð skynsemi að ráða för.  Þótt Ísland sé smáríki, eru helztu auðlindir þess samt sem áður sameign allra Íslendinga, þ.m.t. árnar og þeir stórkostlegu fossar, sem er að finna upp af Ófeigsfirði."

 Um þetta er það að segja, að kanadískir fjárfestar eru ekki verri en aðrir erlendir fjárfestar og flestar þjóðir sækjast eftir beinum erlendum fjárfestingum.  Eignarhald virkjana er mjög einsleitt hérlendis, og þær eru að langmestu leyti í opinberri eigu.  Það veitir ekkert af erlendum viðhorfum og þekkingu í þennan geira til að fá vott af samkeppni á milli fyrirtækjanna.

Hér þarf hins vegar að gera einn alvarlegan fyrirvara.  Þegar um grundvallarhagsmuni landsins er að ræða, eins og eignarhald á landi og helztu náttúruauðlindir landsins og lífríki hafsins umhverfis landið, er forræði og lögsaga íslenzkra yfirvalda algert skilyrði fyrir því, að nýtingin verði í samræmi við stefnumótun rétt kjörinna fulltrúa þjóðarinnar og sem hagfelldust fyrir almenning.  Af þeim sviðum, sem nefnd eru að ofan, á þetta einvörðungu við um lífríki hafsins, af því að það var undanskilið í EES-samninginum 1992.  Það má alls ekki virkja "fjórfrelsi" EES innan íslenzka orkugeirans.

Það er rangt hjá höfundum tilvitnunarinnar, að lagabókstafurinn um eignarhald orkulindanna sé óljós á Íslandi.  Nýtingarréttur frumorkunnar fellur í hlut fyrirtækisins, sem fær virkjunarleyfið og hefur keypt vatnsréttindi eða keypt/leigt land til jarðborana og gufunýtingar.  Allt þetta mun lenda á Innri markaði EES með samþykkt Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB og lúta þar reglum hans um frelsin fjögur. Innlendir aðilar hafa ekki bolmagn til að keppa við erlend orkufyrirtæki um eignarhald á virkjunum hér. Þess vegna má Alþingi alls ekki samþykkja þennan ólánsbálk, en er hins vegar komið á fremsta hlunn með það.

Ekki er síður mikilvægt fyrir fulltrúana á löggjafarþinginu og aðra að átta sig á breytingunni, sem verða mun á markaðnum fyrir afurð orkulindanna en að átta sig á, hvert eignarhald á virkjunum og fasttengdum orkulindum þeirra getur farið.  Mest og skýrast hefur Elías B. Elíasson, verkfræðingur, tjáð sig opinberlega um raforkumarkaðinn, og það er skylda þeirra, sem taka eiga ákvarðanir um þessi mál, og hollt fyrir alla aðra, að kynna sér rækilega skrif Elíasar um þessi mál.  Þann 2. október 2018 birtist grein eftir hann í Morgunblaðinu:

"Hetja er sá sem skilur þá ábyrgð sem fylgir frelsi hans".

Verður nú vitnað í þessa grein til að átta sig á, hvað bíður íslenzka raforkumarkaðarins eftir innleiðingu Þriðja orkupakkans:

"Önnur lagaskylda landsreglarans er sú að stuðla að uppsetningu á frjálsum markaði með raforku til hagsbóta fyrir notendur.  Það er sannað, að slíkum vel virkum markaði verður ekki komið á hér án þess, að byggt sé á sameiginlegri auðlindastýringu vatnsafls og jarðvarma, sem engin fordæmi eru fyrir í Evrópu, heldur ekki í Noregi. 

Landsreglarinn hefur engar lagaheimildir til að setja reglugerðir eða yfir höfuð skipta sér af þeim málum.  Það yrði væntanlega ekki vel séð af því fólki, sem andmælir orkupakkanum, að aðili með slík lögformleg tengsl við ACER, sem landsreglarinn hefur, taki að sér stjórn á orkuvinnslu úr auðlindum Íslands.  Það hygg ég myndi ofbjóða fólki og af almenningi [verða] talið stjórnarskrárbrot, þó svo að landsreglarinn sé íslenzkur aðili og geri þetta í nafni orkuöryggis, sem hann eigi að bera ábyrgð á."

Síðan segir Elías frá því, að árið 1993 hafi Norðmenn sett á laggirnar frjálsan raforkumarkað og hafi áður verið tengdir við Svía og Dani.:

"Nokkrum árum síðar hækkaði orkuverð í Norður-Noregi vegna vatnsskorts, svo að aldrað fólk hafði ekki efni á rafmagnsreikningnum, og þess [voru] dæmi, að það frysi í hel í rúminu. Þeir urðu að gera ráðstafanir til að samhæfa stýringu sína á miðlunarlónum, til að þetta endurtæki sig ekki.  Tilvik sama eðlis komu upp víða um heiminn í kjölfar markaðsvæðingar."

Hérlendir ráðamenn verða í tæka tíð að gera sér grein fyrir hrikalegum afleiðingum þess að setja raforkugeirann á Innri markað EES, því að vegna smæðar og gerðar íslenzka raforkukerfisins og vegna þess, að rafmagnið er enn mikilvægara fyrir íslenzka hagkerfið en hið norska, verða afleiðingar þess að fjarlægja núverandi samhæfðu orkulindastýringu Landsvirkjunar á sama tíma og markaðsvæðing rafmagns fer fram, geigvænlegar.  Það þýðir ekkert fyrir þá að stinga hausnum í sandinn, hvorki nú né þegar tjónið er orðið.  

Á rafkerfum og orkulindanýtingu í þágu raforkuvinnslu verður að vera miðstýring, af því að ein bilun getur haft keðjuverkandi áhrif og fellt heildarkerfið.  Þetta hafa bæði ESB-ríkin og Bandaríkin rekið sig illilega á.  Hjá okkur stundar Landsnet nauðsynlega miðstýringu flutningskerfisins og getur fjarstýrt virkjunum, en Landsnet má hins vegar ekki skipta sér af vatnsbúskapnum né samhæfingu á milli vatnsorkuvera og gufuvera. Auðlindastýringin blessast hérlendis vegna stærðar Landsvirkjunar, en örlög Landsvirkjunar verða algerlega óræð undir samkeppnisreglum Innri markaðarins.

"ESB markaðsvæddi hjá sér laust fyrir aldamót og skildi þá á milli fyrirtækja, eins og gert var hér eftir 2003, en um leið slitu þeir samhengið í áhættustjórnun flutningskerfanna.  Afleiðingin varð víðtækt kerfishrun, sem kom upp í nokkrum löndum Evrópu 2003, og hlauzt af mikill kostnaður."

Þannig er ljóst, að þessi þróun ESB er rekin meira af kappi en forsjá, og við ákveðin tímamót hefur ekki verið tekið nægilegt tillit til ráðlegginga kunnáttumanna, heldur vaðið áfram í krafti lagasmíðar og hugmyndafræði markaðsvæðingar, sem illa fellur að viðfangsefninu.

Grein sinni lýkur Elías með ádrepu í garð ráðamanna og alvarlegum varnaðarorðum til þeirra.  Fyrri hlutinn er þannig:

"Ráðamenn virðast ekki skynja þær hættur, sem tengjast orkupakkanum.  Þeir virðast heldur ekki reikna með, að gegnum orkupakkann tengjast raforkumál og auðlindamál Íslands öðrum EES-samningum á þann veg, að hætturnar vaxa.  Sé á það bent, svara þeir gjarnan: "það tengist ekki orkupakkanum".  Frá þeim kemur lítið annað en lögfræðihjal um allt annað en þau áhrif pakkans, sem skipta máli."

Það er sorglegt til þess að hugsa, að ofangreint er rétt lýsing á því, sem sézt hefur frá þeim tveimur ráðherrum, sem mest hafa tjáð sig opinberlega og í ranni síns flokks um þetta mál.  Lýsingin á líka við um þá ráðuneytisstarfsmenn utanríkis- og iðnaðarráðuneytis ásamt ráðgjöfum hins síðar nefnda, sem tjáð hafa sig opinberlega og í einkasamtölum um innleiðingu téðs orkubálks ESB.  Hér er um fullkomna strútshegðun að ræða, og þjóðarskútan mun verða hætt komin, ef þeir, sem það geta, grípa ekki í taumana í tæka tíð.  Þeir hafa það sér þá ekki til málsbóta, að þekkingu hafi skort hérlendis og að þeir hafi ekki verið varaðir við.  

 

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus Valsson

Frábær úttekt hjá þér að vanda Bjarni. Íslenskir ráðamenn hafa þegar orðið sér til háborinnar skammar í þessu mikilvæga máli. Þeir sigla með okkur hraðbyri inn í ESB með eintómum klækjum. Íslenska þjóðin hefur sterka trú á fullveldi og sjálfstæði sínu. Hún hafnaði Icesave og mun hafna yfirráðum ESB yfir íslenskum orkumarkaði þegar hún skilur hvað er í húfi. Hafðu þökk fyrir þína hetjulegu framgöngu og baráttu fyrir sjálfstæði þjóðarinnar.  

Júlíus Valsson, 14.10.2018 kl. 22:33

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þakka þér fyrir, Júlíus.  Ég vorkenni hálfpartinn þeim íslenzku stjórnmálamönnum, sem hafa komið sér í þá vonlausu stöðu gagnvart kjósendum sínum að mæla með innleiðingu þessa gjörnings ESB, sem hingað upp til Íslands á ekkert erindi, en ylli stórtjóni á hagkerfinu, yrði hann í kjánaskap innleiddur.  

Bjarni Jónsson, 15.10.2018 kl. 10:44

3 Smámynd: Jón Þórhallsson

Prófessorinn bendir á, að allar reglur Innri markaðar EES taki gildi um allan íslenzka orkugeirann strax eftir samþykkt pakkans, sem þýðir, að allt í raforkugeiranum íslenzka, nema einokunarstarfsemin, verður falt gegn "réttu" gjaldi.  Þetta á við um rafmagnið sjálft og um fyrirtækin á þessum markaði, sem eiga nýtingarrétt, t.d. vatnsréttindi, í  orkulindunum. Uppskipting Landsvirkjunar með sína 80 % markaðshlutdeild verður óhjákvæmileg.

Ef að þetta er það sem koma skal að þá er væntanlega ástæða til að hafna 3 orkumálapakkanum.

Jón Þórhallsson, 16.10.2018 kl. 09:45

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Engum íslenzkum lögmönnum né öðrum verður ætlað það að reyna vísvitandi að blekkja fólk með lagatúlkunum sínum um, að orkugeirinn verði undanþeginn fjórfrelsinu, nema afurðin sjálf, rafmagnið.  Nú er hins vegar komin fram ný lögskýring, sem gengur þvert á hina hingað til viðteknu lögskýringu.  Sú nýja er reist á því, sem máli skiptir í þessu sambandi, þ.e. lögsýringum ESB-dómstólsins.  Með vísunum til dómafordæma er sýnt fram á, að með innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins virkjast fjórfrelsið fyrir allan orkugeirann.  Ef t.d. Landsvirkjun verður skipt upp vegna yfirgnæfandi markaðshlutdeildar sinnar, þá má hvaða fjárfestir, sem er, í EES kaupa hluti, og það er algerlega óheimilt að mismuna fjárfestum eftir þjóðerni.  

Bjarni Jónsson, 16.10.2018 kl. 13:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband