Hagsmunir atvinnulífsins og Þriðji orkupakkinn

Það kemur á óvart, hversu afslappað forystufólk í Samtökum iðnaðarins, SI, og í Samtökum atvinnulífsins, SA, er gagnvart þeirri ógn, sem fyrirtækjum innan þessara samtaka stafar af innleiðingu Alþingis á Þriðja orkumarkaðslagabálkinum. Greini forystufólk í félögum þessara samtaka ekki þær ógnanir, sem í Þriðja orkupakkanum felast fyrir atvinnurekstur hér í landinu, þá er illa komið, og næsta víst, að samtök þeirra muni fljóta sofandi að feigðarósi við undirspil ráðuneytanna tveggja, sem mest koma við sögu í þessu máli og neita að koma auga á hætturnar úr sínum búrókratíska fílabeinsturni.  

Þessi áhætta er uppi, hvort sem hingað verður lagður aflsæstrengur frá útlöndum eður ei, þótt hún sé sýnu meiri með aflsæstreng en án. Það er kominn tími til, að þetta forystufólk átti sig á því, að ætlunin er að innleiða hér markaðskerfi raforku að hætti ESB án þess, að nokkur þeirra 5 forsendna, sem ESB sjálft gefur upp sem skilyrði þess, að slík markaðsvæðing verði notendum í hag, verði nokkru sinni uppfyllt á Íslandi. 

Afleiðingin af þessum blindingsleik í boði ESB verður hærra meðalverð og sveiflukennt raforkuverð auk verulega aukinnar hættu á raforkuskorti.  Allt mun þetta draga mjög úr eða breyta í andhverfu sína því  samkeppnisforskoti, sem sjálfbærar orkulindir Íslands hafa veitt íslenzku atvinnulífi.

Það er ennfremur engum vafa undirorpið eftir greiningu prófessors Peters Örebech, sérfræðings í Evrópurétti, á greinargerð Birgis Tjörva Péturssonar, lögmanns, að Alþingi mun framselja ákvörðunarvald um sæstrengsumsókn til Landsreglarans og ACER-Orkustofnunar ESB með því að samþykkja innleiðingu Þriðja orkupakkans í EES-samninginn.

  Bann Alþingis á sæstreng í kjölfar slíks valdaafsals til ESB væri asnaspark, algerlega út í loftið, sem í höfuðborgum okkar helztu viðskiptalanda og í Brüssel yrði túlkað sem hringlandaháttur í stjórnsýslu Íslands, sem eitra mundi samskipti landsins við ESB.  Þegar hér væri komið sögu hefði ESB lögformlegt afl til að brjóta vilja Alþingis á bak aftur, af því að slíkt bann brýtur gegn Evrópurétti, og sá er æðri landslögum samkvæmt EES-samninginum.

  Kæra framkvæmdastjórnar ESB til EES á hendur Íslandi í kjölfarið gengi vafalaust til EFTA-dómstólsins, og þar yrði dæmt að Evrópurétti í þessu máli. Dómsvaldið í slíkum málum hefur verið flutt úr landi. Það heitir í skrúðmælgi búrókratanna að deila fullveldinu með öðrum.  Eftir stæði sært þjóðarstolt hérlandsmanna, sem ómögulegt er að segja fyrir um til hvers myndi leiða.  Það er of seint að byrgja brunninn, þegar barnið er dottið ofan í. 

ESB hefur mestalla þessa öld viðhaft frjálst markaðskerfi með raforku og gas.  Hið opinbera hefur vissulega truflað markaðinn mikið með niðurgreiðslum á sólar- og vindorku, en hann hefur samt gagnazt notendum þokkalega þrátt fyrir miklar sveiflur á orkumarkaði.  Raforkuverð er hátt vegna dýrs eldsneytis og koltvíildisskatts, sem nú fer hækkandi til að örva framboð orkuvera, sem ekki brenna jarðefnaeldsneyti, þótt kjarnorkan sé á bannlista, nema í Austur-Evrópu, þar sem rússnesk kjarnorkuver eru í byggingu sums staðar.    

ESB hefur gefið út 5 skilyrði, sem hvert um sig er nauðsynlegt að uppfylla, til að frjáls markaður með raforku virki notendum í hag.  ESB-markaðurinn uppfyllir þau öll, en íslenzki markaðurinn uppfyllir ekkert þeirra og mun aldrei uppfylla þau öll.  Af því leiðir, að frjáls markaður með raforku á Íslandi verður brokkgengur, og fyrir það munu atvinnulífið og heimilin líða.  Fyrirtæki, sem eru algerlega háð tryggri raforkuafhendingu, munu geta orðið fyrir alvarlegu tjóni vegna skorts á samræmdri orkulindastýringu. 

Hækkað meðalverð raforku og aukin óvissa um orkuafhendinguna mun óhjákvæmilega draga úr fjárfestingum í orkukræfri og viðkvæmri starfsemi.  Samkeppnishæfni landsins, sem að miklu leyti hvílir á stöðugu og hagkvæmu raforkuverði fyrir notendur, mun þá rýrna að sama skapi.  Þessa sviðsmynd ættu atvinnurekendur ekki að leiða hjá sér. 

Frjáls markaður í orkukauphöll hérlendis mundi virka til að hámarka tekjur orkuseljenda, en notendur hafa ekki annað val en að greiða uppsett verð fyrir rafmagnið og e.t.v. að spara við sig, en flytja ella þangað, sem lífsskilyrði eru hagstæðari.  Vegna fákeppni skortir hér nauðsynlegt aðhald fyrir Innri markað ESB með rafmagn.  Það verður eitt af fyrstu verkum Landsreglarans að reka á eftir Landsneti með að stofna til slíks markaðar.  

Á margfalt stærri mörkuðum ESB nær hins vegar frjáls samkeppni að takmarka tekjur við kostnað og eðlilega arðsemi eigin fjár í orkufyrirtækjunum og jafnframt að tryggja afhendingaröryggi til notenda vegna nægs framboðs frumorku.  Verði ekkert af stofnun embættis Landsreglara, ætti Landsnet að leggja áform sín um orkukauphöll á hilluna. Sú mun ekki geta orðið þjóðarhag til eflingar.  Að öðrum kosti verður Landsnet rekið til þess óheillagjörnings.

Þegar síðan kemur að tengingu sæstrengs frá útlöndum við stofnkerfi Landsnets, þá mun verulega syrta í álinn hjá fyrirtækjum landsins og fjölskyldum.  Almenn efnahagsleg rök fyrir sæstreng væru, að umframorka sé næg í landinu til að standa undir arðsemi sæstrengs með raforkuflutningi um hann og að tekjuauki orkuseljendanna standi vel undir kostnaði þeirra við þessa umframsölu.  Þannig hefur það verið í Noregi, en því fer fjarri, að því verði að heilsa hérlendis.

  Sæstrengur til útlanda krefst nýrra virkjana, og rekstur hans mun valda því, að hér verður aldrei nein umframorka.  Allt mun þetta valda gríðarlegum raforkuverðshækkunum í landinu, sem éta mun upp allt það samkeppnisforskot fyrirtækja í landinu, sem þau hafa notið um árabil í krafti hagstæðra orkusölusamninga við iðnfyrirtæki í landinu.

Nú hafa þau ánægjulegu tíðindi orðið, að einn úr hópi sjálfstæðra atvinnurekenda, formaður Sambands garðyrkjumanna, hefur tjáð sig með eftirminnilegum hætti við Bændablaðið, fimmtudaginn 1. nóvember 2018.  Morgunblaðið greindi frá þessu daginn eftir undir fyrirsögninni:

"Íslenzk garðyrkja gæti lagzt af":

"Formaður Sambands garðyrkjumanna, Gunnar Þorgeirsson, telur ástæðu til að óttast um íslenzka matvælaframleiðslu, þegar þriðji orkupakki ESB verður innleiddur. Segir hann í viðtali við Bændablaðið það borðleggjandi, að íslenzk garðyrkja leggist af í núverandi mynd.  Afleiðingarnar verði ekki síður alvarlegar fyrir annan landbúnað, fiskiðnað og ferðaþjónustu.

"Ef Íslendingar ætla ekki að standa vörð um eigið sjálfstæði, þá veit ég ekki á hvaða vegferð menn eru í þessum málum.  Þetta er skelfileg staða og verst að hugsa til þess, að íslenzkir stjórnmálamenn virðast ekki skilja um hvað málið snýst, og ég efast um, að þeir hafi lesið sér til um það.""

Þetta er hárrétt athugað hjá Gunnari Þorgeirssyni.  Í ljósi þess, að 30 % rekstrarkostnaðar garðyrkjustöðva er rafmagnskostnaður, gefur auga leið, að þær mega ekki við neinni hækkun á raforkunni.  Þess má geta, að þetta er hærra hlutfall en hjá málmframleiðendum í landinu.  Það er tóm vitleysa hjá ráðuneytinu (ANR), að það geti beitt sér fyrir auknum niðurgreiðslum á flutningi og dreifingu raforku til garðyrkjubænda.  Öll slík ríkisaðstoð við fyrirtæki í samkeppnisrekstri er kæranleg til ESA, og eftir innleiðingu Innri markaðar EES í íslenzka raforkugeirann verða slíkar deilur útkljáðar að Evrópurétti.  

 Það er full ástæða til að spyrja, hverra hagsmunum sé verið að þjóna með því að berjast fyrir innleiðingu Innri markaðar EES í raforkugeirann og þar með að fjarlægja allar landshindranir úr vegi aflsæstrengs til útlanda.  Jón Baldvin Hannibalsson svarar því skilmerkilega fyrir sitt leyti í nýlegu viðtali á Útvarpi Sögu.  Á bak við áróðurinn standa gróðapungar, sem ætla sér að græða ótæpilega á viðskiptum með endurnýjanlega orku á Íslandi og með orkusölu frá Íslandi, hugsanlega einnig með eignarhaldi á sæstreng.  Þessu lýsti ábyrgðarmaður EES-samningsins 1992 sig algerlega mótfallinn og kvað sameiginlegan orkumarkað ekkert koma þessum EES-samningi við.  

Tíminn er núna fyrir SI og SA að taka skelegga afstöðu fyrir skjólstæðinga sína gegn þeirri vá, sem við atvinnurekstri í landinu blasir.  Það er lögfræðileg bábilja, að Orkustofnun eða Alþingi, ef allt um þrýtur, geti komið í veg fyrir áform strengfjárfesta, sem Landsreglarinn mælir með að samþykkja.  Þar mun fullveldisframsalið, sem fólgið er samþykkt Þriðja orkupakkans, birtast í verki.  

Stjórnun útflutnings rafmagns um sæstreng eftir samþykkt Þriðja orkupakka mun nánast ekkert tillit taka til íslenzkra hagsmuna, heldur lúta forskrift ACER í smáatriðum og ákvæðum EES-samningsins um útflutning, þar sem m.a. magntakmarkanir eru óheimilar. 

Afgangsorkan er sveiflukennd frá ári til árs og er af þessum sökum ekki markaðsvara um þennan streng, úr því að magntakmarkanir eru óheimilar. Takmörkun á sölu afgangsorku er einmitt það, sem einkennir viðbrögð Landsvirkjunar nú við vaxandi hættu á vatnsskorti miðlunarlóna.  Innlendum yfirvöldum verður ókleift að tryggja, að vatnsskortur í miðlunarlónum komi jafnt niður á útflutningi um sæstreng og viðskiptavinum orkufyrirtækjanna innanlands.  Á Innri markaðinum ræður greiðsluvilji orkukaupenda því alfarið, hvernig þessum takmörkuðu gæðum verður skipt.  Þar sem greiðsluviljinn er háður samkeppnisstöðunni, er hætt við, að fyrirtæki á Íslandi verði undir í þessum ljóta leik.  Ætla SI og SA að láta hjá líða að andæfa þessari hrikalegu, en þó raunhæfu, sviðsmynd í tæka tíð ?  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Erla Magna Alexandersdóttir

Er það vilji Islendinga að hætta gróðurhúsaræktun fyrir Álver sem nota lika kol ?

 Það virðast þær blikur á lofti að BÚIÐ SE að ganga frá þessum málum án samráðs við þjóðina.

Erla Magna Alexandersdóttir, 4.11.2018 kl. 21:01

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Ég myndi fremur spyrja í þessu samhengi, hvort það sé vilji ráðamanna að fórna gróðurhúsabúskapnum fyrir spákaupmennsku með rafmagn.  Embættismenn líta svo á, að með því að samþykkja tillögu ESB í Sameiginlegu EES-nefndinni sé búið að ganga frá málum.  Stjórnskipulega er það hins vegar alls ekki svo, enda er Ísland enn fullvalda, þótt af fullveldinu hafi verið sneitt nokkuð og að því sé sneytt.

Bjarni Jónsson, 5.11.2018 kl. 11:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband