Valdheimildir ACER (Orkustofnunar ESB)

Greinarkorn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, í Morgunblaðinu 8. nóvember 2018, hefur valdið fjaðrafoki á meðal þeirra stjórnarliða, sem trúa áróðri ESB um, að Orkupakki 3 feli í sér sáralitlar breytingar frá Orkupakka 2.  Geta má sér þess til, að áhyggjur í röðum stjórnarflokkanna stafi þó ekki af greinarkorninu, "Suma pakka er betra að afþakka", heldur af hinu, að nýlega haldinn flokksráðsflokkur Miðflokksins gagnrýndi harðlega það framsal á stórfelldum hagsmunum til ESB, sem sýnt hefur verið fram á með lögfræðilegum rökum (Peter Örebech), að óhjákvæmilega mun leiða af innleiðingu Orkupakka 3. Skiptir þá engu í þessu sambandi, þótt utanríkismálanefnd Alþingis hafi fyrir 3-4 árum ályktað á grundvelli tiltækra upplýsinga þá að heimila EES-nefndinni að komast að samkomulagi um Þriðja orkupakkann.  Rýni sýnir, að lausnin, sem ofan á varð með Landsreglara, ESA og ACER, er algerlega ótæk fyrir íslenzku Stjórnarskrána.  

Þeim lúalega andróðri gegn Sigmundi Davíð og Gunnari Braga er nú beitt af áköfustu talsmönnum orkupakkans, að í ráðherratíð sinni 2013-2016 hefðu þeir átt að sjá í gegnum áróður ESB og láta hart mæta hörðu í Sameiginlegu EES-nefndinni, þar sem málið vissulega var til umræðu.  Sá er hængurinn á, að þá höfðu engar upplýsingar komið fram um, hvað þessi orkupakki í raun fæli í sér. Allar upplýsingar um þennan nú alræmda orkupakka voru matreiddar af Evrópusambandinu, ESB, og vafðar inn í bómull, sem enn sér stað í málflutningi utanríkisráðuneytisins og iðnaðarráðuneytisins.

Það er þess vegna ósvífni og ómálefnalegt að álasa nú þessum tveimur Miðflokksmönnum fyrir að hafa ekki veitt andspyrnu þá.  Höfuðið er þó bitið af skömminni með því að deila á þá fyrir að hafa skipt um skoðun, þegar þeim hafði veitzt ráðrúm til að kynna sér málið betur.  Aðeins forstokkaðir pólitískir steingervingar ríghalda í sína gömlu skoðun, þótt nýjar upplýsingar leiði í ljós, að gamla skoðunin og afstaðan er  þjóðhættuleg.  Skömm slíkra  mun lengi uppi verða.

Téða grein sína endaði Sigmundur Davíð þannig:

"Það að koma í veg fyrir, að erlendar stofnanir öðlist yfirþjóðlegt vald á Íslandi, og aðrir hagsmunir samfélagsins verði veiktir, ætti ekki að vera pólitískt þrætuepli innanlands. Ekki frekar en önnur mál, sem snúa að því að verja hagsmuni landsins út á við eða sjálft fullveldið.

Það er grátlegt, að stjórnvöld telji það ekkert tiltökumál að framselja sneið af sjálfstæði landsins á sama tíma og haldið er upp á, að 100 ár séu liðin frá því, að Ísland endurheimti fullveldi sitt.  Um leið fara svo fram umræður um, hvort eigi að afnema svokallað fullveldisákvæði stjórnarskrárinnar til að auðvelda slíkt framsal í framtíðinni.

Ég skora á ríkisstjórnina að fara nú þegar fram á, að Ísland fái undanþágu frá orkupakkanum og skila honum svo til sendanda.  Í því efni getur ríkisstjórnin reitt sig á stuðning Miðflokksins."

Hvað hefur íslenzka iðnaðarráðuneytið að segja um þá ESB-stofnun, sem valdframsalið frá íslenzkum stjórnvöldum um málefni orkuvinnslu og orkuflutninga mun fara fram til, ef Alþingi samþykkir orkupakkann ?:

"ACER hefur engar valdheimildir gagnvart einkaaðilum, heldur eingöngu opinberum eftirlitsaðilum."

Þessi fjórði liður samantektar ráðuneytisins á minnisblaði Ólafs Jóhannesar Einarssonar til iðnaðarráðherra er gott dæmi um þann orðhengilshátt, sem ráðuneytið telur sér sæma að viðhafa í þessu alvarlega máli í stað þess að nefna hlutina sínum réttu nöfnum og sleppa þar með blekkingarhjali.  

"Opinberir eftirlitsaðilar", sem ACER hefur valdheimildir gagnvart, er Landsreglarinn.  Hann verður ekki hluti af eftirlitskerfi íslenzkra yfirvalda með orkugeiranum, því að hann heyrir alls ekkert undir þau, heldur undir ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) að nafninu til, en í raun alfarið undir ACER.  Embætti Landsreglarans verður þó á íslenzku fjárlögunum.  Hann mun létta af iðnaðarráðuneytinu og Orkustofnun öllum eftirlitsskyldum þeirra með raforkugeiranum, og Landsreglarinn verður í raun valdamesta embætti íslenzka orkugeirans, fjarstýrt frá Framkvæmdastjórninni í Brüssel.      

  Í tilraun til að hylja stjórnarskrárbrotið, sem í þessu felst, var ESA sett upp sem milliliður Landsreglara og ACER án nokkurs sjálfstæðs hlutverks.  Þjónkunarlöngunin við ESB varð stjórnarskrárhollustunni yfirsterkari í vissum kreðsum íslenzka stjórnkerfisins, og er svo enn, þótt skrýtið sé.  Skinhelgin svífur svo yfir vötnunum, þegar sömu aðilar taka þátt í hátíðarhöldum Lýðveldisins í tilefni aldarafmælis fullveldisendurheimtu.  Lágkúran ríður ekki við einteyming.

Hvað hefur Peter Örebech að segja um þessa gagnslausu og beinlínis villandi túlkun á valdheimildum ACER.  Eftir að hafa rakið í hvaða gögnum ESB þessum valdheimildum er lýst, bendir hann á þá staðreynd, að þessar valdheimildir eru enn í mótun hjá ESB, og við höfum auðvitað engin áhrif á þá mótun, en yrðum að gleypa við öllum nýjum gerðum og tilskipunum um aukna miðstýringu orkumálanna og aukin völd ACER, sem Framkvæmdastjórninni tekst að troða ofan í kokið á aðildarlöndum ESB með spægipylsuaðferðinni.  Prófessor Örebech skrifar:

 "Völd ACER eru skráð í framangreindum gerðum og tilskipunum, en þessi skjöl gefa mynd af völdunum m.v. ákveðinn tíma.  ESB hefur lagasetningarvaldið og getur fyrirvaralítið breytt hinum mörgu verkefnum/heimildum ACER.  ACER hefur ákvörðunarvald í einstökum málum.  Þau geta t.d. varðað millilandastrengi, sjá gerð nr 713/2009, grein 8 (1)."

Landsreglarinn mun sjá til þess, að reglum Evrópuréttar verði stranglega fylgt hérlendis eftir innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins.  Það felur t.d. í sér stofnsetningu raforkukauphallar á Íslandi að hætti ESB með þeim skaðlegu áhrifum á hagsmuni atvinnulífsins og alls almennings, sem slíkt kann að hafa í landi, þar sem orkukerfið er með allt öðrum hætti en orkukerfið, sem markaðskerfi ESB er sniðið við.  Fyrir hagsmunagæzlu almennings, sem kerfið á að þjóna, getur þetta markaðskerfi hæglega snúizt upp í andhverfu sína við íslenzkar aðstæður, sem er hagsmunagæzla fyrir raforkuseljendur.  Hér er því, auk alls annars, um stórfellda ógnun við neytendavernd að ræða í landinu.  

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Heyr, heyr, Bjarni. Lágkúran ríður ekki við einteyming, þar er sannarlega rétt að orðið komist.

Sindri Karl Sigurðsson, 14.11.2018 kl. 18:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband