Orkupakki ESB nr 3 og ESA

Í samantekt sinni á minnisblaði Ólafs Jóhannesar Einarssonar til iðnaðarráðherra frá miðjum apríl 2018 skrifar Iðnaðarráðuneytið svofellt í 5. lið samantektarinnar:

"Við upptöku þriðja orkupakkans í EES-samninginn var um það samið, að valdheimildir gagnvart eftirlitsstjórnvöldum í EFTA-ríkjunum yrðu ekki hjá ACER, heldur hjá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA)."

Hér lætur ráðuneytið í það skína, að ESA sé að formi og innihaldi sjálfstæður málsmeðferðaraðili í orkumálum, sem semji sjálfstæð fyrirmæli, tilmæli og leiðbeiningar til hefðbundinna íslenzkra eftirlitsaðila í raforkugeiranum, sem lúti innlendum stjórnvöldum.

Þetta er hrein fjarstæða, því að ekkert af þessu stenzt rýni.  ESA hefur ekkert hlutverk EFTA-megin sem Orkustofnun EFTA í líkingu við hlutverk ACER ESB-megin.  Það er mjög einkennileg ráðstöfun að setja ESA sem lið á milli ACER og Landsreglarans án eiginlegra valdheimilda á orkumálasviði EFTA-ríkjanna.  Ef það var gert til að draga dul á, að Landsreglarinn, æðsta valdstofnun orkumála á Íslandi eftir innleiðingu Orkupakka 3 í EES-samninginn, verður alfarið undir stjórn ACER, var það alveg út í hött, því að svo er búið um hnútana í gerð ESB um Landsreglarann, að hann skuli verða algerlega óháður yfirvöldum hvers lands og hagsmunaaðilum þar.  Hann verður ríki í ríkinu undir stjórn ACER.  Að æðsta stofnun orkumála á Íslandi verði óháð lýðræðislega kjörnum fulltrúum og yfirvöldum landsins er óhæfa og hlýtur að verða farið með tiltektir Landsreglarans fyrir íslenzka dómsstóla, ef Alþingi leiðir þennan óskapnað í lög hér.  

Hvað skrifaði Peter Örebech í athugasemdum sínum, sem nú eru birtar í íslenzkri þýðingu sem viðhengi með pistli þessum ?:

"Já, það er rétt, að ACER á að taka sínar ákvarðanir og að ESA á að taka sams konar ákvarðanir (við þýðingu á ACER-ákvörðun á íslenzku, norsku o.sfrv.).  Þeim er síðan beint að Landsreglaranum, sem framkvæmir ACER-ákvarðanirnar á Íslandi og í Noregi, en þar sem þetta eru afritaðar ákvarðanir, og þar eð Ísland eða Noregur geta ekki sagt Landsreglaranum fyrir verkum - samtímis sem Landsreglaranum ber skylda til að fylgja reglum EES-réttarins, sbr grein 7 í EES-samninginum, þá er hið valda fyrirkomulag hrein sýndarmennska til að komast hjá stjórnarskrárhindrunum, sem varða breytinguna frá tveggja stoða kerfi til hins stjórnarskrárbrotlega einnar stoðar kerfis."

Á fundi í Háskóla Íslands 22. október 2018, þar sem prófessor Peter Örebech var aðalfrummælandinn, tók prófessor emeritus og sérfræðingur í Evrópurétti, Stefán Már Stefánsson, til máls og lýsti sig sammála lögfræðilegum útlistunum Örebechs.  Á fundi í Valhöll, 30. ágúst 2018, þar sem Stefán Már var einn fjögurra framsögumanna, lýsti hann því yfir, að ef hlutverk ESA í sambandi við Þriðja orkupakkann væri sýndargjörningur, en ekki raunverulega sjálfstætt hlutverk, eins og ACER hefur EFTA-megin, þá gæti ESA ekki talizt vera næg trygging fyrir tveggja stoða kerfið í þessu tilviki.  Sé nú þetta hvort tveggja lagt saman, þá kemur í ljós, að framkvæmd Þriðja orkumarkaðslagabálksins mun óhjákvæmilega leiða af sér stjórnarskrárbrot á Íslandi.  Þess vegna geta Alþingismenn ekki með góðri samvizku aflétt hinum stjórnskipulega fyrirvara af þessum gerningi hinnar sameiginlegu EES-nefndar embættismanna í Brüssel, heldur verða þeir að synja honum staðfestingar.  

Geri þeir, mót vonum, hið gagnstæða, gera þeir EES-samninginn sjálfan að miklu bitbeini á Íslandi, og sú eðlilega krafa fær líklega byr undir báða vængi í kjölfarið, að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að EES.  Slíkar deilur um EES eftir innleiðingu Þriðja orkupakkans með hækkandi raforkuverði í landinu og sæstreng í sjónmáli gætu orðið stjórnmálaflokkum, sem ekki standa í ístaðinu núna, æði skeinuhættar.  "Kalt mat" er, að minni vandræði muni hljótast af höfnun Þriðja orkupakkans en af samþykki hans.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband