Peter Örebech tekur dæmi af streng á milli Íslands og Noregs

Á grundvelli þekkingar sinnar á Evrópurétti hefur norski lagaprófessorinn Peter Örebech varað Íslendinga eindregið við afleiðingum þess að innleiða Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB í EES-samninginn. Hið sama gerði hann í Noregi, þegar umræðan um þennan "orkupakka" stóð yfir þar í aðdraganda þinglegrar meðferðar málsins.  Það breytir engu um afstöðu þessa lögfróða manns til málsins, að EES-samningurinn hefur spannað orkumál frá upphafi. Þótt Íslendingar hafi ásamt Norðmönnum og Liechtensteinum innleitt 1. og 2. orkupakkann í Viðauka IV EES-samningsins, þá ber Íslendingum og hafa fulla heimild til að taka sjálfstæða afstöðu til Þriðja orkumarkaðslagabálksins.

Með pakkanum er nefnilega innleidd ný vídd í fjórfrelsi orkugeirans, sem er alveg ný af nálinni hérlendis, þ.e.a.s. frjáls markaðsviðskipti með rafmagn við útlönd.  Það er meginskýringin á því, að þessi nýjasti orkupakki ESB hefur fengið marga hérlandsmenn til að staldra við og spyrja, hvort e.t.v. sé nú þegar nóg komið af svo góðu.  Hingað og ekki lengra er niðurstaða margra, því að með gildistöku greinar EES#12, sem bannar hömlur á vöruútflutningi (rafmagn er vara að Evrópurétti), mun það verða talið brot á EES-samninginum að þvælast fyrir fjárfestum aflsæstrengs til Írlands, svo að ESB-ríki sé nefnt, eða að takmarka slíkan útflutning fyrr en orkuskortur er hér orðinn að veruleika.  Mikil verðhækkun rafmagns hér er alls ekki talin næg ástæða til að stöðva þennan útflutning.

Það, sem máli skiptir fyrir hagsmuni Íslands í þessu sambandi er, að Þriðji orkupakkinn leysir úr læðingi "fjórfrelsið" í orkugeiranum á þeim sviðum, þar sem það gildir ekki alfarið nú þegar.  Það þýðir skilyrðislausa markaðsvæðingu hérlendis með orkukauphöll, sem ekki er valkvæð samkvæmt orkupakka 2, og að samkeppnishindranir, t.d. vegna stórrar markaðshlutdeildar, verða þá vart liðnar lengur. Útflutningshindranir á raforku að hálfu íslenzka löggjafans og íslenzkra yfirvalda (framkvæmdavalds, dómsvalds) verða ólögmætar. Með öðrum orðum mun Evrópuréttur ríkja á sviði milliríkjaviðskipta með rafmagn. Rökrétt afleiðing af því er, að innlend yfirvöld hafa þá framselt ákvörðunarvald um millilandatengingar til markaðarins, Landsreglarans og ACER.  ESA hefur ekkert sjálfstætt úrskurðarvald í þessum efnum.  Það verður hjá ACER og framkvæmdastjórn ESB.  Með því að framselja vald til yfirþjóðlegrar stofnunar er tekin sú áhætta, að ákvarðanir, er Ísland varða, verði ekki í þágu íslenzkra hagsmuna.  Þess vegna bannar Stjórnarskráin þennan gjörning.  

Á minnisblaði Ólafs Jóhannesar Einarssonar, 12. apríl 2018, er skautað léttilega framhjá þessum atriðum.   Það er sláandi að bera saman 6. lið samantektar iðnaðarráðuneytisins á téðu minnisblaði og athugasemdir prófessors Peters Örebech við þennan lið.  Samanburðurinn kastar ljósi á þann bullandi túlkunarmun, sem einkennir umræðuna og er á milli þeirra, sem í raun rökræða fátt í þessu sambandi, en virðast helzt halda, að allt sé búið og gert, þótt þrjár nefndir Alþingis hafi á árunum 2014-2016 verið upplýstar um gang mála í Sameiginlegu EES-nefndinni og um viðhorf nokkurra sérfræðinga, aðallega embættismanna ráðuneyta.  Slíkt fyrirkomulag bindur á engan hátt hendur Alþingis, þegar það fær samþykkt Sameiginlegu EES-nefndarinnar til lokaafgreiðslu.   

Svipað fyrirkomulag er viðhaft í norska Stórþinginu, og það hefur hafnað Evrópugerð um póstdreifingu, og enginn efaðist þar í landi um fulla heimild Stórþingsins til þess.  ESB tók þetta gott og gilt, hafði ekki uppi nokkrar mótaðgerðir, og viðskipti Norðmanna við ESB-ríkin gengu snurðulaus.  Ákafir aðdáendur fjarstjórnar helztu þjóðmála frá Brüssel fá hins vegar hland fyrir hjartað, ef einhverjum dettur í hug að reisa burst við valdaráni Brüssel-búrókratanna um hábjartan dag:

Iðnaðarráðuneytið (6): "Heimildir ACER til að taka bindandi ákvarðanir eru að meginstefnu bundnar við ákvæði, sem gilda um orkumannvirki, sem ná yfir landamæri (t.d. sæstrengi); eðli málsins samkvæmt eiga slíkar valdheimildir ekki við á Íslandi, svo lengi sem hér eru engin slík orkumannvirki."

Þetta er rökleysa hjá ráðuneytinu, enda væri ACER í sömu sporum bæði fyrir og eftir innleiðingu Þriðja orkupakkans varðandi það að koma hér á sæstrengstengingu við útlönd, ef þetta væri rétt.

Hvað skrifaði prófessor Peter Örebech um þessa útlistun ráðuneytisins ?:

"Af því að mikilvægasta réttarheimildin, orðanna hljóðan í sáttmálanum, hér grein 12, er skýr og þess vegna ákvarðandi, leiðir það, að sú léttvægasta, "eðli máls", er þýðingarlaus.  EES-samningurinn, grein 12, túlkaður samkvæmt almennri málnotkun, er hér skýr og þess vegna ákvarðandi.  

Ef einhver í Noregi vill leggja rafstreng á milli Noregs og Íslands, og Ísland hafnar slíkum sæstreng, verður um að ræða "magntakmörkun á útflutningi", sem stríðir gegn grein 12.  Ágreiningur á milli t.d. Landsreglarans (RME) í Noregi fyrir hönd einkafyrirtækis, t.d. Elkem, og Landsreglarans á Íslandi um lagningu sæstrengja frá Íslandi og til vesturstrandar Noregs (u.þ.b. 1500 km) verður útkljáður hjá ACER samkvæmt gerð nr 713/2009, grein 8 (1) a." 

Þetta þýðir með öðrum orðum, að strax eftir innleiðingu Þriðja orkupakkans verður það úr höndum íslenzkra yfirvalda og í höndum ACER að ákveða, hvort fjárfestir fær leyfi til að leggja aflsæstreng frá Íslandi til útlanda.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórhallur Pálsson

Styttsta leið milli Íslands og Skotlands er um 830 km.

Styttsta leið milli Íslands og Noregs er um 980 km.

Þórhallur Pálsson, 19.11.2018 kl. 22:45

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Já, einmitt.  Ég veit ekki, hvaða staði í löndunum tveimur prófessorinn hafði í huga, enda var þetta bara lögræðilegt dæmi til að sýna, hvaða ákvæði EES-samningsins virkjast, þegar svona viðskiptahugmyndir koma upp.  Hann hefði líka getað nefnt sæstreng á milli Íslands og Írlands.

Bjarni Jónsson, 20.11.2018 kl. 10:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband