Mesta breytingin með Þriðja orkupakkanum

Þann 22. október 2018 hélt norskur sérfræðingur í Evrópurétti, prófessor Peter Örebech, fyrirlestur í Háskóla Íslands, sem hann nefndi,

"EUs energibyrå (ACER), utenlandskabler og beslutningene" eða "Orkustofnun ESB (ACER), utanlandsstrengir og ákvarðanirnar".

Þar sýndi hann, að núverandi ákvarðanatökuferli um millilandatengingar á orkusviði fyrir EFTA-löndin er reist á tveggja stoða fyrirkomulagi, þ.e.a.s. samkvæmt Orkupakka 2 fer ákvörðun um sæstreng á milli EFTA-lands og ESB-lands fram í Sameiginlegu EES-nefndinni, sem tekur annaðhvort sameiginlega ákvörðun með samþykki allra eða enga ákvörðun.  

Síðan birti og ræddi Peter Örebech um stefnumið ESB í Sameiginlegu EES-nefndinni, þegar rætt var um upptöku Þriðja orkumarkaðslagabálksins í EES-samninginn, Viðhengi IV:

"Hér má sjá, að við upptöku Orkupakka III í EES-samninginn verður litið á orku sem vöru, sem "frelsin fjögur" spanna að fullu ásamt stjórnmálalegum markmiðum - þar með allar skyldar stefnur í EES.  Þessi krafa kemur fram í EES-grein 7: "Löggjöf, sem er fjallað um eða tekin upp í viðhengi við þennan samning eða í samþykktum Sameiginlegu EES-nefndarinnar, skulu vera bindandi fyrir aðila samningsins og skulu vera eða verða hluti af innra réttarkerfi þeirra."

Þetta þýðir, að eftir innleiðingu Þriðja orkupakkans verður ekki lengur undan því vikizt að koma hérlendis á því markaðskerfi fyrir raforku, sem ESB á við með skilvirkum og hagstæðum samkeppnismarkað fyrir orkunotendur, þar sem orkan er tryggð þeim fyrst, sem hæsta verðið vill borga.  Þannig telja hugmyndafræðingar ESB, að orkan muni skapa mest verðmæti. 

Skuggahliðin á þeirri mynd er, að þeir, sem minnst fé hafa á milli handanna, verða undir í samkeppninni og leggja upp laupana. Þannig grisjar ESB hafrana frá sauðunum. Þetta miskunnarlausa markaðslögmál hefur ekki átt upp á pallborðið hérlendis, heldur hafa flestir landsmenn viljað líta á raforkuna sem afurð sameiginlegra orkulinda þjóðarinnar, þótt eignarhaldið reyndar sé með ýmsum hætti.  

Af þessu síðast talda sjónarmiði leiðir, að stilla á verðlagningu orkunnar, rafmagns og hitaveitu, í hóf eftir föngum, og nýta orkuna til uppbyggingar samkeppnishæfra atvinnugreina vítt og breitt um landið.  Þáttur í að halda orkukostnaði hóflegum eftir föngum er að viðhafa samræmda orkulindastýringu til að nýta miðlunarlónin og virkjaðan jarðgufuforða ásamt vindorkuverum sem bezt og forða notendum undan orkuskorti í lengstu lög, en slík inngrip í markað með frjálsri samkeppni að hætti ESB er bannað á þeim bæ.

Það eru fjölmörg fleiri atriði, sem valda því, að orkukauphöll að hætti ESB getur ekki orðið hagkvæmasta markaðsfyrirkomulagið yrir orkukaupendur á Íslandi. Þar má nefna fákeppni og ójafna samkeppnisstöðu orkubirgjanna, sem eru mjög mismunandi að stærð og ráða yfir mismunandi virkjunum að gerð.  Frumorkan er dyntótt, umframorkan og umframaflið lítið, svo að iðulega þarf að skerða ótryggða orku.  Við slík skilyrði hækkar raforkuverð mjög á markaði. Að efna til orkukauphallar við ríkjandi íslenzkt orkukerfi  kann ekki góðri lukku að stýra fyrir orkunotendur hér á landi.  Þar sem auðlindastýring verður bönnuð, getur orkukauphöll ekki orðið orkunotendum til hagsbóta á Íslandi, heldur þvert á móti.

Síðan taldi Peter Örebech upp greinar EES-samningsins um "fjórfrelsið", sem taka munu gildi um viðskipti með rafmagn við útlönd við innleiðingu Þriðja orkupakkans:

  • gr.11 og 12 banna takmarkanir á umfangi innflutnings og útflutnings.  Vegna ákvæðis #11 getur Landsreglarinn hafnað ósk íslenzkra yfirvalda um að draga úr útflutningi raforku af verðlagsástæðum.   
  • gr.13 setur takmörkunum á ofangreindu þröngar skorður.  Íslendingar munu ekki einhliða geta takmarkað útflutning á rafmagni, þótt raforkuverðið hækki mjög vegna hraðrar lækkunar í miðlunarlónum. Landsreglarinn getur sagt sem svo, að Íslendingar geti flutt inn rafmagn, ef lónin tæmast, en hvað gerist í þeirri stöðu, ef sæstrengurinn bilar ?  ACER setur markaðinn í öndvegi, og í hans nafni verða Íslendingar settir á Guð og gaddinn í þessum efnum, þ.e. þeir verða að bjarga sér sjálfir í neyð.  Staðan er ósambærileg við lönd með margar millilandatengingar og alls konar frumorkuaðdrætti.
  • gr. 40 bannar takmarkanir á fjárfestingum erlendra aðila innan EES og öll mismunun er bönnuð.  Að reisa virkjun á Íslandi til að flytja út rafmagn getur orðið vænlegur fjárfestingarkostur, ef orkuverð hækkar erlendis eða flutningskostnaður um sæstreng lækkar, t.d. vegna styrkveitinga ESB í nafni "grænnar orku" eða við lok afskrifta sæstrengsins. Þetta ákvæði er líklegt til að koma í veg fyrir einokun Statnetts á öllum millilandatengingum Noregs, þótt Stórþingið gerði það að einu af 8 skilyrðum sínum fyrir samþykki Orkupakka #3.  Samþykkt Orkupakka #3 gæti orðið í uppnámi í Noregi af nokkrum ástæðum.  Hinir pólitísku vindar í Noregi eru að snúast þessa mánuðina gegn orkupakkanum, og skilyrðin 8 eru sem tímasprengja.
  • gr. 4 og gr. 124 banna alla mismunun eftir þjóðernum innan EES.  Raforkunotendur í ESB-löndunum munu þess vegna keppa á jafnræðisgrundvelli um rafmagn úr íslenzkum orkulindum eftir tengingu íslenzka rafkerfisins við rafkerfi erlendis.  Þetta eyðileggur mikilvægt forskot atvinnurekstrar á Íslandi, sem óhjákvæmilega mun rýra hér lífskjörin. Það er kominn tími til, að fleiri atvinnurekendur feti í fótspor gróðurhúsabænda og láti í sér heyra um Þriðja orkupakkann.   
  • gr. 125 um, að EES-samningurinn skuli ekki breyta neinu um gildandi eignarhaldsreglur aðildarlandanna hefur sáralítið gildi hérlendis annað en ríkinu væri ekki bannað að Evrópurétti að þjóðnýta allan raforkugeirann.  Þetta ákvæði er fjarri því að ónýta samkeppnisákvæði Evrópuréttarins, sem eiga að tryggja frjálsa samkeppni eftir föngum.  Markaðshlutdeild eins fyrirtækis upp á yfir 70 % samræmist ekki Evrópurétti, enda hafa ritgerðir hagfræðinga, t.d. Lars Christensen, fjallað um uppskiptingu Landsvirkjunar.  Þá standa allir jafnt að vígi innan EES til að kaupa bútana úr Landsvirkjun.  Erlend fyrirtæki fá óneitanlega aukinn áhuga á íslenzka orkugeiranum, ef landið samþykkir Orkupakka #3, því að þannig mun hilla undir aflsæstreng til landsins.  

Í viðhengi með þessari færslu er fyrirlestur Peters Örebech, 22.10.2018, í HÍ á norsku, en hann hefur ekki verið þýddur.

 

Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband