Hráskinnaleikur ESB og Noregs

Í leiðara Morgunblaðsins, 5. desember 2018, var vakin athygli á tveimur hagsmunamálum Íslands, makrílmálinu og Þriðja orkumarkaðslagabálkinum.  Málin eru ólík, en eiga það sameiginlegt, að í báðum koma Evrópusambandið, ESB, og Noregur við sögu.

Ríkisstjórn Ernu Solberg í Noregi er höll undir ESB-aðild Noregs, þótt nú flæði undan fylgismönnum aðildar á Stórþinginu og andstæðingum aðildar á meðal þjóðarinnar vaxi fiskur um hrygg.  Þessi ríkisstjórn sýnir hvað eftir annað, að hún tekur samstöðu með ESB fram yfir samstöðu með Íslendingum.  Það á t.d. við í deilum strandþjóðanna við Norð-Austur Atlantshaf um veiðar á og veiðihlutdeild í makrílstofninum, og það á við um samstarfið í Sameiginlegu EES-nefndinni, þar sem sitja fulltrúar ESB, Noregs, Liechtensteins og Íslands. 

Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur lýst því í ræðu á Alþingi, að fulltrúi Noregs hafi verið alltof bráðlátur að hlaupa upp í hjá ESB, þegar íslenzki fulltrúinn hafði önnur samningsmarkmið. Það fórst sem sagt fyrir að mynda sameiginlega EFTA-stefnu. 

Í makríldeilunni hafa fulltrúar norsku ríkisstjórnarinnar beinlínis komið illa fram við Íslendinga og hagað sér með bæði óábyrgum og ósanngjörnum hætti með þeim afleiðingum, að makrílstofninn er stórlega ofveiddur og lætur nú undan síga.  Liggur þar e.t.v. fiskur undir steini, að Norðmenn vilji ekki, að makríllinn gangi lengur á Íslandsmið ?

Í sumar gerði utanríkisráðherra Noregs sér ferð til Íslands.  Látið var í veðri vaka, að ferðin væri í tilefni heykaupa norskra bænda af íslenzkum bændum, en aðalerindi utanríkisráðherrans var að hvetja íslenzku ríkisstjórnina til að framfylgja af fullri hörku samþykkt Sameiginlegu EES-nefndarinnar um innleiðingu Þriðja orkupakkans í EES-samninginn, og til að hvetja þingmenn stjórnarflokkanna til tafarlausrar og snurðulausrar afgreiðslu málsins á haustþinginu.  Þetta var ósvífin tilraun til áhrifa á framvindu í íslenzkum stjórnmálum að hálfu stjórnvalda, sem ætíð hafa sett hagsmuni Íslendinga til hliðar til að geta smjaðrað fyrir ESB og veifað skottinu.  Þessi norsku stjórnvöld eiga þess vegna engan greiða inni hjá íslenzkum stjórnvöldum. 

Þessi staða er hins vegar ekki í neinu samræmi við viðhorf og skoðanir norsku þjóðarinnar, sem ber vinarþel til íslenzku þjóðarinnar og er algerlega mótfallin afstöðu norsku stjórnarinnar gagnvart ESB og orkupakkanum.  Varðandi málsmeðferð norsku stjórnarinnar á makrílmálinu hafa Norðmenn tekið sér í munn orðið "dobbelmoral".  Hún leikur þar tveim skjöldum.

 Samanburður ritstjóra Morgunblaðsins á makrílsmáli og orkupakka var vel við hæfi og fróðlegur:

"Makrílveiðar hafa undanfarin ár verið langt umfram ráðgjöf Alþjóða hafrannsóknarráðsins, ICES, og á því verður engin breyting nú.  Heildarkvótinn var reyndar minnkaður um 20 %, en er engu að síður tvöfalt meiri en kvað á um í ráðgjöf ICES.  Með þessu framferði er ýtt undir rányrkju á makrílstofninum.

Af kvótanum fá ríki utan strandríkjahópsins, Ísland, Grænland og Rússland, rúm 15 %.  Það er naumt skammtað og ósvífið að ætlast til þess, að ríkin utan samningsins haldi sig á mottunni, á meðan þau, sem sömdu, skammta sér ríflega og láta sér á sama standa um ráðgjöf.  Í raun er þeim ýtt út í einhliða aðgerðir."

Hvernig getur norska ríkisstjórnin verið þekkt fyrir að meina Íslendingum aðgang að samningaborðinu um makríl, sem er mikið hagsmunamál fyrir Ísland og fyrir sjálfbærar nytjar af þessum flökkustofni, og heimta á sama tíma, að íslenzkir þingmenn kokgleypi stórfellt fullveldisframsal til Evrópusambandsins, sem setur íslenzkan raforkumarkað á annan endann án nokkurs sjáanlegs ávinnings á öðrum sviðum.  Þessari norsku ríkisstjórn þarf að kenna þá lexíu, að íslenzka ríkisstjórnin láti ekki bjóða sér slíka framkomu.  Stjórninni í Ósló er engin vorkunn að semja á eigin spýtur um áframhaldandi orkuviðskipti við ESB, þótt Íslendingar vilji þar hvergi nærri koma.  Þannig gerast kaupin á eyrinni.

Morgunblaðið tók eftirfarandi pól í hæðina:

"Óbilgirni Norðmanna þarf ekki að koma á óvart, þótt hvimleið sé.  Hún er hins vegar í litlu samræmi við þann þrýsting, sem norskir ráðamenn hafa beitt íslenzk stjórnvöld um að samþykkja þriðja orkupakkann vegna þess, hvað hann skipti miklu máli fyrir Norðmenn. Það er undarlegt, að Norðmenn ætlist til þess, að Íslendingar taki þeirra hagsmuni fram yfir sína eigin í orkumálum, en vilja ekki einu sinni hleypa Íslendingum að samningaborðinu um makrílinn.

Þá er rétt að halda því til haga, að Íslendingar voru ekki að biðja Norðmenn að setja sína hagsmuni til hliðar í makrílmálinu; bara, að Ísland fengi að taka þátt í samningum í stað þess að standa utan við þá."

Í apríl 2018 komu til Íslands tveir þingmenn stjórnarandstöðunnar norsku og áttu fund með íslenzkum stjórnarþingmönnum.  Erindi þeirra var algerlega öndvert við erindi norska utanríkisráðherrans um þremur mánuðum síðar.  Þeir báðu íslenzka þingmenn þess lengstra orða að taka ákvörðun í orkupakkamálinu á grundvelli hagsmuna íslenzku þjóðarinnar og að láta ekki áróður norskra stjórnvalda og hagsmunaaðila á hennar bandi villa sér sín.  Það hefur verið skammarlegt að fylgjast með málflutningi íslenzka  utanríkisráðuneytisins hingað til í þessu orkupakkamáli, því að þar á bæ hafa menn kysst á norska vöndinn og haldið því fram, að vegna mikilla viðskiptahagsmuna Norðmanna verði íslenzkir þingmenn að samþykkja pakkann.  

Þetta er alger hundalógikk hjá utanríkisráðuneytinu.  Kalt hagsmunamat verður að liggja að baki íslenzkri stefnumörkun, ekki undirlægjuháttur og gagnrýnislaus auðsveipni við erlent vald.  Mikill meirihluti norsku þjóðarinnar er algerlega andvígur orkupakka #3, og Alþýðusamband Noregs hefur lýst yfir andstöðu við hann.  Norska ríkisstjórnin er minnihlutastjórn, sem fékk orkupakkann illu heilli samþykktan í Stórþinginu með tilstyrk Verkamannaflokksins.  Sá flokkur er nú að snúast í afstöðunni til Þriðja orkupakkans.  Gott samband við Noreg er Íslendingum nauðsynlegt.  Til frambúðar verður það bezt tryggt, eins og sakir standa, með því að hafna Orkupakka #3.  Það er skrýtið, ef þetta fer ekki bráðlega að renna líka upp fyrir íslenzka utanríkisráðuneytinu.  

Í viðhengi eru nýlegar úrklippur úr norsku blaði, þar sem tíundaðar eru nokkrar ESB-gerðir, sem væntanlegar eru til umfjöllunar Stórþingsins 2019 og sem vekja munu miklar deilur í Noregi.  Líklegt er, að a.m.k. einhverri þessara ESB-gerða muni Stórþingið hafna.  Það er engin umræða um það í Noregi, að þess vegna muni EES-samstarfið verða í uppnámi.  Hvers vegna ?

 

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband