Norðmenn súpa seyðið - málsmeðferð Stórþingsins kærð

Norðmenn búa við frjálsa samkeppni í orkukauphöll, þar sem spákaupmennska er stunduð með raforku að hætti Evrópusambandsins-ESB.  Raforkuverðið í Noregi sveiflast eftir framboði og eftirspurn þar og eftir verði í ESB vegna millilandatenginganna.  Nú, þegar koltvíildisskattur og verð á losunarkvótum koltvíildis fer hækkandi í ESB, hækkar raforkuverðið í Noregi, þótt Norðmenn framleiði nánast enga raforku með jarðefnaeldsneyti. Þetta er einn af göllunum fyrir land endurnýjanlegrar raforku við að vera á raforkumarkaði ESB.

Í september  2018 rigndi meira en dæmi eru um í Noregi, eftir mikla þurrka í sumar, og þess vegna er ekki útlit fyrir bráðan vatnsskort í miðlunarlónum í vetur, en samt er raforkuverð þar með hæsta móti vegna millilandatenginganna og og vöntunar á framlagi orku frá norskum vindmyllum vegna lítt vindasamrar veðráttu í umhverfi flestra vindmyllna Noregs.  

Vindorkuver eru farin að hafa áhrif á framboð raforku í Noregi, en útihitastigið ræður mestu um eftirspurnina.  T.d. í viku 50/2018 blés lítið og hitastig var í meðallegi.  Þá nam orkuverðið til almennings um 59 Naur/kWh eða 8,5 ISK/kWh (60 EUR/MWh).  Þetta er allt að 40 % hærra en hérlendis.  Ef nú kólnar um 3-4 °C, getur verðið hækkað um þriðjung og jafngildir þá 11,3 ISK/kWh, einvörðungu fyrir orkuhlutann (allt að 90 % hærra en hérlendis).  Þetta má tvöfalda vegna flutnings, dreifingar og skatta, svo að almenningur í Noregi má þá út með um 22 ISK/kWh, sem er talsvert hærra en hérlendis.  

Enn verra er þetta á meginlandinu.  Í Belgíu var verðið nýlega 350 EUR/MWh = 49 ISK/kWh fyrir rafmagnið án flutnings og skatta.  Þetta sýnir hrikalegar öfgar markaðskerfisins.  Kerfi af þessu tagi á ekkert erindi hingað til lands, enda myndi það fljótt kippa stoðunum undan velferðarsamfélaginu hér og samkeppnishæfni atvinnulífsins.  Fulltrúar atvinnulífsins ættu að kynna sér þessi mál og taka opinbera afstöðu í þessu brýna hagsmunamáli atvinnulífsins.   

Norðmenn eru eðlilega óánægðir með það, að afurð vatnsafls þeirra og vindafls, rafmagnið, skuli vera undirorpin gríðarlegum verðsveiflum á markaði og háð rafmagnsverði annars staðar í Evrópu.  Ef vindar blása veikt í Danmörku, Hollandi og Þýzkalandi, þá hækkar rafmagnsverð í Noregi.  Ef ESB ákveður að hækka koltvíildisskatt, þá hækkar rafmagnsverð í Noregi, og geta má nærri, að slíkt setji alvarlegt strik í heimilisbókhaldið hjá Ola Nordmann og Kari, sem eru Jón og Gunna Noregs, þegar þetta gerist á kuldaskeiði að vetrarlagi, en meðalheimili í Noregi notar um tífalt meira rafmagn að meðaltali yfir árið en meðalstórt íslenzkt heimili vegna þess, að í Noregi er rafmagn notað til húshitunar. Þar af leiðandi er raforkukerfi Noregs aflhannað, en hérlendis er það hins vegar orkuhannað, sem gefur mun betri nýtingu orkumannvirkjanna að meðaltali yfir árið.  Norðmenn hafa reynt að bæta sér þetta upp með aflsölu til útlanda.  Raforkukerfi okkar býður einfaldlega ekki upp á slíkt.  Þegar raforkuverðið hækkar og þröngt verður í búi hjá frændum vorum, er gengið á eldiviðarhlaðann og kynt upp með kamínunni, svo að á lygnum vetrardögum leggst reykjarmökkur yfir byggðina. Það léttir undir með buddunni, en ekki er það heilsusamlegt. 

Staða Noregs í þessum efnum á að verða Íslendingum víti til varnaðar.  Við eigum ekki að láta gróðapunga klófesta hér orkumarkaðinn og sameina hann Evrópumarkaðinum með sæstreng til að hefja spákaupmennsku með raforkuna á stórum markaði, sem óhjákvæmilega mun rýra kjör alþýðu hérlendis og veikja íslenzk fyrirtæki.  Munum hið fornkveðna: ef þú réttir skrattanum litla fingurinn, þá tekur hann alla hendina.  

Norðmenn eru að vakna upp við vondan draum.  Þeir eru ekki búnir að gefast upp, þótt Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn hafi verið samþykktur á Stórþinginu í vetur, reyndar með 8 skilyrðum.  Þegar ESB tekur að brjóta þessi skilyrði, þá munu Norðmenn verða æfir, einkum Verkamannaflokksmenn, sem sömdu þessi skilyrði.  ESB skrifaði aldrei undir þessi skilyrði, svo að þeir svíkja ekkert, þótt þeir hundsi þau. 

"Nei til EU"-samtökin hafa haldið uppi öflugu andófi gegn ESB í Noregi, og hafa nú kært ríkið fyrir það, að ekki var krafizt aukins meirihluta á Stórþinginu við afgreiðslu Orkupakka #3, eins og stjórnarskrá Noregs áskilur, þegar um skýrt fullveldisframsal er að ræða.  Hér fyrir neðan er þýðing pistilhöfundar á blaðagrein frá "Nei til EU" um þetta efni, en hún er birt á frummálinu í viðhengi með þessum pistli:

"ACER málsóknin snýst um heiðarleika":

"Ríkisstjórn og Stórþing hafa ekki frítt spil við að hola norskt fullveldi að innan; þess vegna ætlar "Nei til EU" að nýta réttarkerfið til að verja leikreglur Stjórnarskrárinnar.

"Nei til EU" hefur stefnt Ríkinu, sem Erna Solberg, forsætisráðherra, stendur sem fulltrúi fyrir, með kröfu um, að ríkisstjórnin setji Þriðja orkumarkaðslagabálk ESB ekki í framkvæmd, en sá fellir Noreg undir valdsvið Orkustofnunar ESB-ACER.  Röksemdin er sú, að ACER-samþykkið sé ógilt, af því að Stórþingið fylgdi ekki Stjórnarskrárgrein nr 115 um fullveldisafsal, sem m.a. áskilur aukinn 3/4 meirihluta.

     Þetta er í fyrsta skipti, sem "Nei til EU" fer í málsókn.  Við erum félag, sem er grundvallað á lýðræði, og erum gagnrýnin á að beina stjórnmálum á brautir réttarfars, eins og er háttur ESB.  Í EES-samninginum blasir þetta við með stöðugum inngripum eftirlitsstofnunarinnar ESA, sem yfirstýrir stjórnmálalegum áherzlumálum [t.d. banni Alþingis við innflutningi ófrosins kets o.fl.-innsk. BJo].  Við erum þeirrar skoðunar, að lýðræði og fullveldi séu nátengd, og Stjórnarskráin sé réttarfarsramminn, sem afmarkar leikreglurnar fyrir norskt lýðræði.  Þess vegna er úrslitaatriði, að hin sértæku skilyrði, sem Stjórnarskráin setur fyrir fullveldisafsali, séu virt í hvívetna.

Að sniðganga Stjórnarskrána:

Samkvæmt Stjórnarskrá eiga dómstólarnir að hafa alveg óháða stöðu.  Það felur í sér að gæta þess, að einnig þeir, sem setja lögin og framkvæma þau, fylgi lagabókstafnum.  Sjálfstæðið hverfur, ef réttarkerfið samþykkir tafarlaust Stjórnarskrártúlkanir, sem Stórþing og ríkisstjórn miða við.

     Í svo miklu deilumáli sem ACER-málinu hefði Stórþingið sjálft átt að óska eftir mati Hæstaréttar, eins og það á möguleika á með Stjórnarskrárgrein nr 83.  Það vildi hins vegar-eða þorði-Stórþingsmeirihlutinn ekki gera.  Kristilegi þjóðarflokkurinn, KrF, lagði fram tillögu um slíkt mat, en meirihlutinn hafnaði því.  Þegar Stórþingið gerir lítið úr lýðræðinu, er sú leið opin í stjórnskipun okkar, að réttarkerfið geti leikið stærra stjórnmálalegt hlutverk en ella til varnar Stjórnarskránni.  

     ACER-málið leysti úr læðingi gríðarlega krafta, og mjög mörgum finnst, að við Stórþingssamþykktina hafi Stjórnarskráin verið sniðgengin.  Við höfum safnað yfir MNOK 1,0 til málssóknarinnar, og enn bætist við söfnunarféð.  Ef nauðsyn krefur munum við reka málið fyrir Hæstarétti til að fá dómsúrskurð, sem eiginlega allir ættu að hafa hag af, að komi.

Meira en "lítil áhrif":

Aðalspurningin í væntanlegu dómsmáli er, hvort valdframsalið "hafi lítil áhrif", eins og ríkisstjórnin fullyrðir, og hvort þetta sé nógu góð röksemd til að hafna grein 115 og í staðinn að velja einfaldari samþykktarforskrift (gr. 26).  Talsverður fjöldi þekktra lögfræðinga var opinberlega mjög gagnrýninn á aðferð málsmeðferðarinnar í ACER-málinu.

     Fyrirkomulag ákvarðana orkustofnunarinnar ACER í EES er mjög sérstök.  Eftirlitsstofnunin ESA á formlega að taka ákvarðanirnar, en ákvarðanirnar eru skrifaðar hjá ACER.  Ákvarðanir ESA fara síðan til Landsreglarans, sem samkvæmt regluverki ESB verður að vera óháður yfirvöldum hvers lands.  Landsreglarinn á að afrita og framkvæma ákvarðanir ESA, og tekur hvorki við fyrirmælum frá ríkisstjórn né Stórþingi.  Með öðrum orðum er búin til röð afritunarákvarðana frá ESB-stofnuninni, sem verða bindandi fyrir viðkomandi aðila í Noregi.

Í álitsgerð um Stjórnarskrárgrein nr 115 og ACER-málið bendir Hans Petter Graver á marga veikleika við mat ríkisstjórnarinnar, m.a., að lagt hafi verið til grundvallar, að völdin, sem ESA fái, séu einvörðungu þjóðréttarlegs eðlis.  Graver skrifar: "Þar eð völdum ESA verður beitt í norsku réttarumhverfi, munu ákvarðanir ESA verða á lagalegum innanríkisgrundvelli, og þær verða bindandi og njóta forgangs samkvæmt EES-samninginum gagnvart þeim, sem þær beinast að.  Landsreglarinn verður að landslögum skyldugur til að framfylgja ákvörðunum ESA.  Þetta atriði hefði átt að hafa í huga við mat á "áhrifalitlu" valdi, og gæti þá hafa leitt til annarrar niðurstöðu."

Orka er viðkvæmt mál:

Hjá orkustofnuninni ACER hafa verið teknar ákvarðanir um rör og rafstrengi yfir landamæri að andvirði mörg hundruð milljónir norskra króna (MNOK).  ACER getur einnig ákvarðað úthlutun á flutningsgetu í evrópska orkukerfinu.  Þar að auki hefur hún heimildir til að afla upplýsinga hjá einkaaðilum í orkugeiranum og til að leggja á sektir, ef ekki er orðið við þessari upplýsingaskyldu.  

     Við þetta má bæta, að orka er miðlægt og viðkvæmt svið fyrir Noreg sem ríki, einkafyrirtæki og borgarana.  Er þá hægt, heiðarlega og hreinskilið, að halda nokkru öðru fram en því, að valdframsalið hafi mikil áhrif ? 

 Á Íslandi hefur ráðuneytisfólk og fólk á mála hjá  ráðuneytunum sett sig á háan hest og gert lítið úr röksemdum fyrir því, að innleiðing og framkvæmd Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB hérlendis sé utan leyfilegra marka íslenzku Stjórnarskrárinnar.  Hún er strangari, ef eitthvað er, en norska Stjórnarskráin að þessu leyti, en samt geisa um þetta harðar deilur í Noregi.  Íslenzkir embættismenn ættu að forðast að láta í ljós hroka sinn gagnvart þeim, sem brauðfæða þá.  Þeir eru enn ekki nema "smalar í hlutastarfi fyrir ESB".

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þeir eiga vitaskuld að vera smalar að störfum fyrir Ísland, en alls ekki "smalar í hlutastarfi fyrir ESB"!

Takk annars fyrir allt frá þér, Bjarni! smile

Jón Valur Jensson, 20.12.2018 kl. 00:02

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Með þjónkun á Íslandi við forréttindastétt búrókratanna í Brüssel kunna að leynast vonir í hugskoti sumra um að verða smalar í fullu starfi með drjúgri, skattfrírri umbun á höfuðbólinu í fyllingu tímans.  

Ég þakka þér sömuleiðis, Jón Valur, fyrir þitt drjúga og einarða framlag "í baráttunni um Ísland".  Það er vissulega barátta í þágu niðja okkar.

Bjarni Jónsson, 20.12.2018 kl. 11:10

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Svo sannarlega, Bjarni. En þeim mun sorglegra er þá hitt, að unga fólkið virðist of upptekið af námi og vinnu til að gefa sig að þessari umræðu, hvort heldur á fundum eða samskiptamiðlum og heyrist t.d. varla í Útvarpi Sögu. En hér er hver maður mikilvægur í baráttunni og nauðsynlegt í stóru sem smáu að þeir leggi henni lið. 

Jón Valur Jensson, 20.12.2018 kl. 12:57

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Það er alveg rétt.  Þetta er rannsóknarefni, þ.e. hvort pólitískur áhugi hafi í raun minnkað og þá hvers vegna.  Getur verið, að skólakerfið eigi þátt í þessu ?  Íslandssagan er t.d. reifuð með allt öðrum hætti í grunnskóla en í mínu ungdæmi.  

Bjarni Jónsson, 20.12.2018 kl. 21:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband