Verður Orkustofnun sjálfstæðari með Landsreglara innanborðs ?

Í Noregi er búið að stofna embætti Landsreglara (Reguleringsmyndighet for energi-RME), eins og þegar sé búið að lyfta hinum stjórnskipulega fyrirvara varðandi Orkupakka #3 í öllum þremur EFTA-löndum EES-samstarfsins.  Embættið er komið á norsku fjárlögin og er einhvers konar viðhengi við norsku orkustofnunina, NVE, en er ekki undir orkumálastjóranum, heldur undir ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) og ACER (Orkustofnun ESB).

Ekki er búið að stofna embætti Landsreglara á Íslandi, þó það nú væri, en enn kyndugra fyrirkomulag er fyrirhugað hér en í Noregi, þar sem Landsreglarann á að fella inn í embætti Orkumálastjóra. Sú naumhyggja gengur varla upp fyrir valdamesta embætti landsins á sviði orkumála. Ef hvort tveggja (Landsreglari og önnur viðfangsefni Orkumálastjóra) verður á hendi sömu persónu, verður hún stundum undir lögsögu ráðherra og stundum undir lögsögu ESA/EFTA/ACER/ESB.  Þetta er líklega einsdæmi, þótt víðar væri leitað.  

Í grein Þrastar Ólafssonar, hagfræðings, í Fréttablaðinu 11. janúar 2019,

"Vera með eða ekki",

virtist hann telja, að Orkustofnun yrði sjálfstæðari fyrir vikið.  Hjá Orkumálastjóra hefur þó komið fram, að ekkert vanti upp á sjálfstæði stofnunarinnar gagnvart ráðuneytunum. Í huga ESB-sinna virðist Ísland fyrst hljóta sjálfstæði við inngöngu í ESB. Þetta er óbjörgulegur hugarheimur, fullur af vanmetakennd gagnvart risavöxnu stjórnkerfi og skilningsleysi á gildi lýðræðis og ákvörðunarréttar sem næst þeim, sem ákvörðunina varðar um.  Er líklegt, að frelsi landsmanna og hagur vænkist við slíkt ?  Nei, af öllum sólarmerkjum að dæma getur innlimun í ríkjasamband ekki orðið til þess.  Þröstur skrifaði þó: 

"Þá gæti þurft að gera Orkustofnun sjálfstæðari en hún er.  Hvað gerist með orkuverð hérlendis, ef svo ólíklega vill til, að íslenzkur orkumarkaður tengist innri orkumarkaði ESB, þá mun þurfa að semja um það, þegar þar að kemur.  Orkupakkinn breytir í engu fullum yfirráðum okkar yfir orkuauðlindinni, um leið og við einir ráðum því á hverjum tíma, hvort orkustrengur verður yfirleitt lagður.  Við höfum öll ráð í hendi okkar."

Þetta er allt tóm vitleysa, eins og nú skal rekja.  Stefnumiðið með Orkupakka #3 var að færa Framkvæmdastjórn ESB völd yfir orkumálum aðildarlandanna, sem dygðu til að koma á nægilega öflugu flutningskerfi raforku og jarðgass á milli landanna til að koma á sæmilegu jafnvægi framboðs og eftirspurnar hvarvetna innan sambandsins, og jafnframt að sjá til þess að setja á laggirnar samræmda orkumarkaði, sem hagnýttu frjálsa samkeppni, svo að orkunotendurnir fengju hagstæðasta mögulega verð á hverjum tíma. 

Þetta er allt saman gott og blessað, en hængurinn á þessu fyrir Ísland er sá, að Íslendingar nota almennt ekki jarðgas (nema í útilegum og í einstaka eldhúsi), og viðskiptakerfi ESB með raforku er m.v., að eldsneytismarkaðir, en ekki náttúran sjálf, eins og á Íslandi, sjái fyrir frumorkuþörfinni.  Þetta misræmi leiðir óhjákvæmilega til þess, að markaðskerfi ESB með raforku getur ekki orðið íslenzkum raforkunotendum til hagsbóta, heldur þvert á móti mundi það einvörðungu virka raforkubirgjunum, virkjanaeigendum og sölufyrirtækjum, til hagsbóta á þeim fákeppnismarkaði, sem verður hér alltaf á raforkumarkaði. Þessu skautar hagfræðingurinn léttilega framhjá, og almannahagur hérlendis liggur þannig óbættur hjá garði. 

Ekki tæki betra við, ef ESB tækist að gera "Icelink" að raunveruleika, því að þá lenda landsmenn í samkeppni við útlendinga um íslenzka raforku.  Það verður "seljendamarkaður", svo að raforkuverð innanlands mun óhjákvæmilega togast í átt að og fylgja sveiflum evrópsks orkuverðs, eins og skýr merki eru um í Noregi.  Þar með fyki einn helzti kostur þess að búa á Íslandi og að stunda þar atvinnurekstur út í veður og vind.

Landsreglarinn gegnir lykilhlutverki hjá ESB við að koma þessu öllu í kring.  Mikilvægir þættir í starfsemi Orkustofnunar og iðnaðarráðuneytisins munu verða færðir til embættis Landsreglara. Stjórnsýsla þessara mikilvægu mála mun lúta erlendri yfirstjórn, þ.e.a.s. ESA/EFTA að forminu til, en ACER/ESB í raun.  Þetta heitir með ESB-tungutaki "að gera Orkustofnun sjálfstæðari en hún er". Þegar Þröstur skrifar, að "við" munum áfram ráða því, hvort sæstrengur verði hingað lagður, þá á hann í raun ekki við íslenzku ríkisstjórnina eða Alþingi, heldur verður úrslitavald þess máls í raun komið til Framkvæmdastjórnarinnar, sem kært getur allan þvergirðing í þessum efnum hérlendis til EFTA-dómstólsins, eftir að Alþingi hefur leitt Evrópurétt til öndvegis á þessu sviði þjóðmálanna með innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálks ESB í EES-samninginn.

Elías B. Elíasson, verkfræðingur, varpaði skýru ljósi á þessa stöðu mála í Morgunblaðsgrein sinni, 13. desember 2018:

"Raforkumarkaður Landsvirkjunar":

"Nauðsynlegt er að koma á auðlindastýringu yfir allt landið með þeim hætti, sem Landsvirkjun hefur og taka jarðvarmann þar með.  Ef við síðan ætlum að koma hér á frjálsum markaði, er álitlegast að þróa áfram þann vísi, sem Landsvirkjun kynnti á morgunverðarfundi sínum [haustið 2018] og hafa náið samráð við fyrirtækin á markaðnum.  Samþykkt þriðja orkupakkans mun gera þetta ferli ómögulegt."

Þröstur, hagfræðingur, opinberar skilningsleysi sitt á þessi mál með eftirfarandi skrifum, eða er hann e.t.v. ófær um að gagnrýna nokkuð það, sem úr ranni búrókratanna í Brüssel kemur ?:

"Það er því óskiljanlegt, hvernig hægt er að gera þjóðarógn úr orkupakkanum.  Komið hefur fram sú fullyrðing, að allt sé í lagi að hafna honum.  Ekkert muni gerast.  Það er nú svo.  Þá myndu tveir fyrri orkupakkar að öllum líkindum falla úr gildi, því að þeir mynda eina heild.  Það myndi valda okkur miklu andstreymi innan ESB og EES, kannski endalokum þess samnings."

Hér eru hafðir uppi tilburðir ESB-sinna til hótana gagnvart sjálfstæðri og lýðræðislegri ákvarðanatöku á Íslandi.  Þótt annar orkupakkinn, sem í raun yfirtók þann fyrsta, falli úr gildi, getur Alþingi fest í lög hér, það sem því sýnist ávinningur af að hafa hér í gildi af téðum orkupakka.  Ef EES-samningurinn verður brotinn með einhverjum öðrum aðgerðum gegn Íslandi í kjölfar fyllilega leyfilegrar höfnunar Alþingis á Þriðja pakkanum, þá væri það merki um svo slæman félagsskap, að réttast yrði að binda enda á hann.  Þá tækju við til bráðabirgða viðskiptaákvæði gamla fríverzlunarsamningsins á milli EFTA og ESB og/eða ákvæði WTO-Alþjóða viðskiptastofnunarinnar, á meðan leitað yrði hófanna um nýja, víðtæka fríverzlunarsamninga á milli Íslands og Bretlands og Íslands og ESB.  Áfram yrði Ísland auðvitað í EFTA.

Hugarheimur Þrastar kemur undarlega fyrir sjónir.  Hann spyrðir saman EES-samninginn og aðildina að NATO, sbr hér að neðan.  Honum er þó fullkunnugt um, að á vegum ESB er starfandi vísir að Evrópuher, Leiftursveitin, og uppi er ráðagerð um stofnun alvöru Evrópuhers, sem varizt geti Rússum, Kínverjum og Bandaríkjamönnum, eins og forseti Fimmta lýðveldisins orðaði það svo óhönduglega.  Gangi Íslendingar í ESB, munu íslenzk ungmenni hljóta herþjálfun hjá lautinöntum Bundeswehr, her Fimmta lýðveldisins og öðrum.  Tæpast verður Evrópuherinn til að styrkja samheldnina í NATO, og án Breta verður hann reyndar hvorki fugl né fiskur.

Aðild Íslands að NATO og EES-samninginum eiga ekkert sameiginlegt annað en það, að Ísland og Noregur eru aðilar að báðum samningunum.  NATO-samningurinn er þjóðréttarlegs eðlis til að styrkja öryggi og þar með fullveldi landsins, en EES-samningurinn felur í sér valdframsal til erlendra stofnana, sem hafa bein áhrif á daglegt líf landsmanna framhjá íslenzkum yfirvöldum og dómskerfi.

"Þrátt fyrir hugsanlegt valdaframsal þá styrkir samningurinn fullveldi þjóðarinnar, því [að] hann, ásamt aðildinni að NATO, neglir öryggi þjóðarinnar fast við nágranna okkar beggja vegna Atlantshafs."

Það er ekki heil brú í þessum texta.  Nú er Bretland, sennilega öflugasta herveldi Evrópu, að yfirgefa ESB, en öryggi Íslands haggast ekki hót við það, því að NATO stendur óhaggað.  

ESB-sinnar virðast vera ónæmir fyrir staðreyndum og faglegri röksemdafærslu um áhættuna, sem upptöku ýmissa lagabálka ESB hérlendis fylgir. Það er út af því, að þeir meta fullveldi landsins einskis. Það vanmat er reist á fullkomnu skilningsleysi á hagsmunabaráttu. Þetta á ekki sízt við um Þriðja orkumarkaðslagabálkinn.  Fyrir aðra lesendur en ESB-sinna verður hér klykkt út með tilvitnun í málsvara heilbrigðrar skynsemi í þessum efnum, Elías B. Elíasson, í umræddri Morgunblaðsgrein hans:

"Þegar orkulögin voru sett 2003 og við samþykktum að vera í innri orkumarkaði ESB, grunaði engan, að ESB mundi taka þá stefnu að gera allt svæði innri raforkumarkaðarins að einu verðsvæði og breyta mörkuðunum, svo [að] þeir virki betur í þá átt.  Til að koma þeirri stefnu örugglega fram lætur ESB þjóðþing landanna setja sérstakan yfirmann, landsreglarann, yfir raforkugeirann, utan valdsviðs hverrar ríkisstjórnar, en í reynd með ráðherravald og náin tengsl við ACER.  ESB tryggir síðan með reglugerðum, að landsreglarinn sé fulltrúi þjóðar sinnar í viðræðum, sem jafnvel geta valdið henni verulegum fjárskuldbindingum."

Þetta sýnir, hversu óútreiknanlegt EES-samstarfið er.  EFTA-löndin vita ekkert að hverju þau ganga, þegar þau innleiða Evrópugerð, því að hún getur tekið nýja stefnu, eins og breytingin frá Orkupakka #2 til Orkupakka #3 sýnir.  ACER hefur nú þegar úrskurðað í ágreiningsmálum aðildarlandanna, sem nema tugum milljarða ISK. Í þessu sambandi verður að hafa í huga, að Ísland mun ekki öðlast atkvæðisrétt í ACER án inngöngu í ESB.

"Hráorkan hér, vatn og jarðgufa, getur ekki farið gegnum orkumarkað, eins og eldsneyti aflstöðva Evrópu gerir, og því nær vald landsreglarans einnig yfir vinnslu úr auðlindunum.  Þannig virkar þriðji orkupakkinn hér á landiÞetta fyrirkomulag vegur of mikið að fullveldi okkar, og það er Alþingis að kveða fyrst upp þann dóm.  Þingið á að hafna þriðja orkupakkanum."(Undirstr. BJo.)

Elías hefur lög að mæla hér að ofan.  Það er viðkvæðið hjá þeim, sem eru á bandi búrókratanna um innleiðingu Orkupakka #3, að hann snerti ekki nýtingu orkulinda landsmanna.  Þessu halda þeir fram að óathuguðu máli og hafa ekki áttað sig á, að orkupakkinn snýst líka um afhendingaröryggi, og aðföng virkjananna hafa mikil áhrif á afhendingaröryggi raforku.  Þá hefur verið bent á, að erlend orkufyrirtæki geta hæglega keypt sér aðgang að orkulindunum með því að stofna hér til virkjanafyrirtækja.  Ekki má mismuna eftir þjóðernum við úthlutun virkjanaleyfa.  Ef öll raforkuviðskipti hér utan gildandi langtímasamninga verða sett á frjálsan markað og á meðal kaupenda er öflugur aðili, sem yfirbýður aðra, þá er afleiðingin ekki einvörðungu sú, að hann ryður veikari kaupendum af markaðnum hérlendis, heldur stjórnar hann þá óbeint nýtingu orkulinda landsins.

Líklega hugnast fáum Íslendingum þessi skefjalausi kapítalismi á orkusviðinu, heldur vilja þeir líta á orkuna sem afurð sameiginlegra náttúruauðlinda, sem nýta eigi heimilum landsins og fyrirtækjum til hagsbóta.  Það þýðir, að gæta á mikils hófs í arðsemiskröfum til orkufyrirtækjanna, eins og gert hefur verið fram að þessu, og halda spákaupmennsku með orkuna fjarri.  

 

 

 

 

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Sannarlega góð grein, Bjarni, þú berst fyrir land okkar og þjóð, daginn út og inn, og yfirburðir þekkingar þinnar og þíns góðra samherja Elíasar blasa við af þessu vefsetri þínu.

Jón Valur Jensson, 22.1.2019 kl. 00:30

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þakka þér fyrir, Jón Valur;

Nú eru ýmsir gosar farnir að halda því fram, að hvergi sé minnzt á sæstreng í Orkupakka #3.  O, sancta Simplicitas.  Á stofnanamáli ESB er átt við eldsneytispípur, loftlínur, jarðstrengi og sæstrengi, þar sem skrifað er um orkuinnviði á milli landa.  Það er heimskulegt að fara af stað með fullyrðingaflaum um málefni, sem fólk þekkir hvorki haus né sporð á, eins og við eigum í mörgum tilvikum við að etja, sbr Viðreisnarmyndbandið, sem þú bentir mér á.

Hafðu sömuleiðis beztu þakkir fyrir þína einörðu varðstöðu.

Bjarni Jónsson, 22.1.2019 kl. 11:03

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Tek undir með Jón Val hér að ofan.

Virkilega góð og vönduð skrif, heill hafsjór að þekkingu og rökum.

Fer í geymslu sem heitir grundvallar, því þetta þarf að geymast.

Stríðið um orkuna er rétt að hefjast.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 23.1.2019 kl. 08:37

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Hárrétt, stríðið um orkuna er rétt að hefjast.  Í okkar tilviki er það angi af öðru stríði, sem kann að vera í uppsiglingu, en það er stríðið um fullveldi landsins vegna aukinnar ásælni ESB gegnum EES-samninginn.  Bendi á tímamótagrein Tómasar Inga Olrich, fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins, í Morgunblaðinu í dag um afstöðuna til EES.

Bjarni Jónsson, 23.1.2019 kl. 14:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband