Ætluð framtíðarsýn ESB í orkumálum

Orkumál skipa veglegan sess hjá Evrópusambandinu, ESB, vegna þess, að þar á bæ hafa menn fyrir löngu skynjað ógnina, sem afkomuöryggi Evrópu vestan Rússlands stafar af orkuskorti í bráð og lengd.  Í bráð getur hann stafað af pólitískum refsiaðgerðum Rússlands, eins og dæmin sanna, en um fjórðungur af öllu eldsneytisgasi, sem brennt er í ESB-löndunum, kemur frá Rússlandi, og hlutfallið gæti vaxið, þegar Nord Stream #2 lögnin verður tekin í notkun 2019-2020.

Að frumkvæði ESB er verið að leggja aðra lögn til ESB-landanna í suð-austri frá löndum sunnan Rússlands við Kaspíahafið.  Framboð jarðefnaeldsneytis mun dragast saman til lengdar litið, og ESB hefur skapað orkumarkað í aðildarlöndunum, sem með hækkandi orkuverði á að skapa nægilegan sterkan hvata til að þróa sjálfbæra orkugjafa, sem leyst geti jarðefnaeldsneytið af hólmi.

Þannig er langtímastefna ESB sú í orkumálum, að EES-svæðið verði sjálfu sér nægt um sjálfbæra orku.  Umhverfisvernd er ekki gild ástæða að Evrópurétti sem útflutningshindrun orku.  Með áherzlu ESB á orkupakkann er verið að tryggja Framkvæmdastjórninni tögl og hagldir á orkumarkaði alls Evrópska efnahagssvæðisins, fulla nýtingu allra endurnýjanlegra orkulinda á svæðinu, afnám flöskuhálsa í flutningi orku á milli landa og þar með í raun orkuflutning frá jöðrum EES og inn að miðjunni, þar sem mesta og verðmætasta framleiðslugeta auðjöfranna, sem stjórna ESB í raun, er staðsett. 

Stefnumarkendur ESB sjá fyrir sér mikla hækkun eldsneytisverðs, þegar þekktar orkulindir taka að dvína.  Þeir vita, að það er kapphlaup við tímann að þróa kolefnisfrí orkuver, sem nýta orkugjafa, sem ekki er hörgull á.  Til að flýta þessari þróun er tekið að gera notkun jarðefnaeldsneytis dýrari en efni standa til, markaðarins vegna.  Það er gert með úthlutun koltvíildiskvóta og síðan hækkun á verði umframlosunar koltvíildis.  

Hlutverk Íslands í þessari ætluðu sviðsmynd ESB er að virkja sem allra mest af endurnýjanlegum orkulindum sínum, þar sem jarðgufan er talin vera endurnýjanleg, og síðan að senda raforkuna út með sæstreng í átt að auðlegðarmiðju Evrópu.  Þetta er slæm viðskiptahugmynd vegna þess, að lengsti sæstrengur í heimi, og á að jafnaði mesta dýpinu undir illviðrahafi, býður upp á rekstrartruflanir, langvinnar og dýrar viðgerðir, gríðarleg orkutöp og háan stofnkostnað. 

Fyrir Íslendinga verður slíkt verkefni ekki þjóðhagslega hagkvæmt fyrr en evrópskt orkuverð hefur 2,5 faldazt m.v. núverandi stöðu.  Það kann að koma að því, en það verður þá áreiðanlega skammært, því að ekkert hagkerfi getur keppt á þeim grundvelli við umheiminn.  Orkuskipti Evrópu, reist á umhverfisvænni tækni í einingum á borð við núverandi kjarnorkuver, um 2 GW, munu gera slíkan sæstreng algerlega verðlausan og verkefnalausan.

Ef hérlendir menn vilja taka þátt í orkuskiptunum með Evrópu, létta undir bagga með henni og samtímis stunda arðbæra framleiðslu og viðskipti, er nær að virkja fyrir vetnisverksmiðju og flytja þann hluta framleiðslunnar, sem ekki er þörf fyrir hér, t.d. til Norð-Austur Englands, þar sem áform eru uppi um að leysa jarðgas til húshitunar af hólmi með vetni.  

Jónas Elíasson, prófessor emerítus við Verkfræði- og náttúruvísindadeild HÍ, skrifaði athyglisverða grein,

"Þriðja þverbeygjan í orkumálum",

sem birt var í Morgunblaðinu 30. janúar 2019.  Þar voru orkumálin reifuð í ljósi Þriðja orkupakka ESB, sem Jónas varar Alþingismenn sterklega við að innleiða á Íslandi.  Nú verður gripið niður í grein hans:

"Það er samt greinilegt, að almenningur, einkum sá hluti hans, sem fæst við stjórnmál, botnar ekkert í þessum pakka.  Þetta kemur greinilega fram í endurteknum fullyrðingum alþingismanna og ráðherra: Þó [að] við samþykkjum orkupakkann, þarf ekki að leggja neinn sæstreng til útlanda.  Hvað er rangt við þetta ?  Málinu er þveröfugt farið.  Ef við leggjum engan sæstreng til útlanda, þarf engan orkupakka; hann verður bara til trafala.  Orkupakkanum er ætlað að undirbúa komu okkar inn á evrópska raforkumarkaðinn, sem er miðstýrt frá Ljubljana í Slóveníu. 

Ef við tengjumst ekki þeim Evrópumarkaði, þ.e.a.s. leggjum ekki sæstreng, er bezt að vera utan áhrifasvæðis þeirrar miðstjórnar.  Það er bezt fyrir okkur og bezt fyrir Ljubljana.  Norðmenn gætu reiðst okkur og rekið landið úr EES, segja einhverjir á Alþingi.  Þetta er hræðsluáróður, sem ekkert er á bakvið."

Allt er þetta hárrétt hjá Jónasi.  Þingmenn, sem enn hafa ekki tekið afstöðu gegn Orkupakka #3, verða að íhuga þessi orð Jónasar og gera sér grein fyrir eðli málsins.  Orkupakkinn er sniðinn til að greiða götu millilandatenginga í ESB til að varna staðbundnum orkuskorti og til að auðvelda og flýta fyrir orkuskiptunum, sem verða ESB-löndunum þung í skauti vegna þess, hversu jarðefna eldsneytisdrifin hagkerfi þeirra eru.

Dágóður meirihluti íslenzku þjóðarinnar virðist vera algerlega andsnúinn tengingu raforkukerfis landsins við útlönd.  Þar af leiðandi er ólýðræðislegt með öllu, að þingheimur samþykki lagasetningu, sem auðveldar ríkjasambandi að hafa áhrif, jafnvel úrslitaáhrif, á það, að hingað verði í fyllingu tímans lagður sæstrengur til þess eins að fegra orkubókhald viðtakandans.  Þessi gjörningur mun ekki fegra orkubókhald Íslands, heldur þvert á móti, og hleypa raforkuverðinu upp úr öllu valdi, á meðan áhugi er á þessum millilandaviðskiptum með rafmagn.

Það fer að verða tímabært að kryfja þingmennina um afstöðu þeirra til þessa óláns Orkupakka #3, svo að þeir, sem velja fólk á framboðslista fyrir næstu Alþingiskosningar og aðrir kjósendur, viti, hvernig forgangsröðun frambjóðendanna er háttað, þ.e. með hagsmunum almennings eða með hagsmunum ESB, orkuseljenda og braskara.  

Um þetta reit Jónas:  

"Ef orkupakkinn verður samþykktur, mun skapast mikill og viðvarandi þrýstingur á að leggja sæstreng.  Hann mun vara, þangað til sæstrengurinn kemur, því að orkuverð á hinum endanum er mun hærra en hér."

Þetta er laukrétt.  Æstustu fylgismenn Þriðja orkupakkans hérlendis halda því jafnvel fram, að Íslendingar geti ekki neitað viðtöku slíks sæstrengs, ef farið verður fram á slíkt nú, væntanlega af einhverjum fjárfesti, með stuðningi ACER. 

Þetta er misskilningur, sem stafar af því, að innleiðing Evrópuréttar yfir íslenzkum orkumarkaði náði ekki yfir millilandatengingar með Fyrsta og Öðrum orkumarkaðslagabálkimum.  Úr þessu var ráðin bót með Þriðja orkupakkanum, eins og norski lagaprófessorinn, Peter Örebech, hefur sýnt fram á í greinargerð sinni frá 23. september 2018, sjá viðhengi, t.d. bls. 11. Að Evrópurétturinn spanni millilandatengingar fyrir rafmagn, þýðir m.a., að lýðræðislega kjörnum yfirvöldum hvers ríkis EES verður óheimilt að torvelda eða koma í veg fyrir millilandaviðskipti með rafmagn, sem til þess bær aðili kann að vilja koma á, sbr EES-samninginn, gr. 11 og 12.  

Þar sem íslenzk löggjöf gildir nú um þetta svið hérlendis, millilandatengingar, geta íslenzk stjórnvöld núna hafnað umsókn um slíkan sæstreng.  Orðagjálfur að hálfu þeirra, sem með trúarhita rembast, eins og rjúpan við staurinn, við að "sýna fram á", án nokkurra haldbærra raka, að innleiðing Orkupakka #3 muni nánast engu breyta í lagalegu tilliti hérlendis, er algerlega út í loftið.

Annað mikilvægt atriði, sem Orkupakki #3 breytir, eins og prófessor Peter Örebech leiddi glögglega í ljós í fyrirlestri sínum í Háskóla Íslands, 22. október 2018, er stjórnun innleiðingar á frjálsum uppboðsmarkaði rafmagns í orkukauphöll, og síðan eftirlit með rekstri hennar og virkni.  Gapuxarnir, sem hæst láta og telja goðgá að vinda ofan af mistökum Sameiginlegu EES-nefndarinnar 5. maí 2017, með því að Alþingi synji Orkupakka #3 staðfestingar, virðast ekkert botna í því, hvað þetta markaðsmál raforku snýst um, en vaða í villu og svíma áfram, eins og þeir gefi sér, að markaðskerfi ESB hljóti að henta almenningi hér á Íslandi.  Það hefur verið sýnt fram á, að við íslenzkar aðstæður er markaðsfyrirkomulag þetta stórvarasamt atvinnurekstri á Íslandi og hag almennings.  Þetta skilur hins vegar Jónas Elísson, prófessor emerítus í verkfræði, mæta vel og skrifar:

"Ef svona ástand [enginn ábyrgur fyrir því að eiga vatn í miðlunarlónum] leiðir til þess, að virkjanir standa vatnslausar í einhvern tíma, verður orkuskortur.  Síðasta dæmi um slíkt er, þegar RARIK tæmdi Smyrlabjargalón 1976, Hornafjörður varð rafmagnslaus og fullt af fólki flúði heimili sín."

Síðan hélt Jónas áfram að fjalla um markaðsmál rafmagns og um mikinn ábyrgðarhluta iðnaðarráðherra og annarra Alþingismanna, ef þeir hundsa ráðleggingar þeirra, sem gerst mega vita, við afgreiðslu Orkupakka #3, og láta jafnvel nauðhyggju um Alþingi sem óvirka afgreiðslustofnun fyrir nefnd EFTA og ESB í Brüssel ráða för.  Meira að segja Stórþingið, norska, virti svo viðundurslegan málflutning að vettugi fyrir nokkrum árum (pósttilskipun) og er líklegt til að endurtaka leikinn við afgreiðslu Járnbrautarpakka #4, sem er illa þokkaður í Noregi og fjallar um frjálsa samkeppni allra járnbrautarfyrirtækja EES á opinberum teinum Noregs og annarra EES-ríkja, þar sem járnbrautarteinar eru í eigu hins opinbera :

"Landsvirkjun hefur sinnt sínu hlutverki með prýði og landið haft nóg rafmagn.  Auðvitað þarf að koma málum þannig fyrir, að Landsvirkjun geti selt orku, bæði til iðnaðar og útlanda, án þess að auka hættuna á orkuskorti.  Það er lágmarkskrafa, að úr þessu verði bætt með viðeigandi lagasetningu áður en tenging inn á uppboðsmarkað ESB kemur til greina.

Auk þess er sala á rafmagni inn á uppboðsmarkað ESB samkvæmt reglum ACER í Ljubljana varhugaverð.  Þá er verið að yfirgefa þá stefnu, að íslenzka orku skuli nota til atvinnuuppbyggingar innanlands fyrir fullt og allt.  Fórnarlömbin verða almenningur og iðnaðurinn í heild sinni, ekki bara áliðnaðurinn og landbúnaður í gróðurhúsum.  Þessar atvinnugreinar lifa ekki án orku á viðráðanlegu verði, eftir að Ísland verður framleiðandi hráorku fyrir uppboðsmarkað ESB; hann er ófær um að bjóða innlendum iðnaði orku á viðunandi verði.  Skipaðar hafa verið nefndir og skrifaðar skýrslur af minna tilefni en þessu.  Það verður að fresta þessu orkupakkamáli, svo [að] ríkisstjórnin nái áttum og geti undirbúið málið með fullnægjandi hætti."

(Undirstr. BJo.)

 Það eru engin teikn á lofti um, að ríkisstjórnin undirbúi setningu einhverra lagalegra varnagla, sem tryggi hér í sessi nauðsynlega stýringu allra orkulinda landsins, sem nýttar eru til sölu raforku inn á stofnrafkerfi landsins.  Hún virðist líka hafa heykzt á boðaðri lagasetningu um, að aflsæstrengur til útlanda útheimti samþykki Alþingis, enda væri slík lagasetning stjórnsýslulegt örverpi, þar sem um er að ræða málefni framkvæmdavaldsins.  Um báðar þessar umræddu lagasetningar gildir, það sem prófessor Peter Örebech, sérfræðingur í Evrópurétti, hefur gert grein fyrir, að með gildistöku Orkupakka #3 að vopni geta Landsreglari, ACER og Framkvæmdastjórnin hrundið slíkum lagasetningum Íslendinga fyrir ESA og EFTA-dómstólinum.  

Þá vekur furðu sú kokhreysti iðnaðarráðherra að halda því enn til streitu, að ríkisstjórnin stefni að innleiðingu Orkupakka #3 á vorþingi eða haustþingi 2019, þrátt fyrir samþykkt Miðstjórnar Framsóknarflokksins í fyrrahaust um, að leita skuli samninga við EFTA/ESB um allsherjar undanþágu fyrir Ísland á þessum orkupakka gegn því, að hann verði formlega innleiddur án nokkurra skuldbindinga að Íslands hálfu.  Þar með mundi hann öðlast gildi í EES utan Íslands.  Stendur utanríkisráðuneytið e.t.v. í slíkum samningaviðræðum ?  Hvers vegna heyrist hvorki stuna né hósti frá ríkisstjórninni um þessa blessuðu samþykkt ?

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

 

Þakka þér Bjarni Jónsson fyrir að upplýsa þjóðina.

 

Þeir sem það gera eða frekar geta gert og komið því í dreifingu eru alltof fáir.

 

Ég rakst á grein um Kalíforníu, 

 

Endursagt,

 

Enron sveik milljarða dollara frá Kaliforníuríki

 

með orkukreppunni,  svikamillunni..

 

UPPBOÐS MARKAÐS KERFINU.

 

Enron defrauded California out of billions during energy crisis

 

https://www.wsws.org/en/articles/2002/05/enro-m10.html 

 

https://jonasg-eg.blog.is/blog/jonasg-eg/entry/2225221/

Egilsstaðir, 08.02.2019  Jónas Gunnlaugsson

 

Jónas Gunnlaugsson, 8.2.2019 kl. 13:27

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þetta er alveg rétt, Jónas.  Eftir markaðsvæðingu orkugeirans í Kaliforníu gátu orkuvinnslufyrirtækin spilað á markaðinn.  Sama hættan er fyrir hendi hérlendis við myndun orkukauphallar.  Það getur orðið til svikamylla, þar sem orkusalar og spákaupmenn maka krókinn á kostnað almennings, gjörsamlega að óþörfu; eru hreinar afætur á þjóðfélaginu.  

Bjarni Jónsson, 8.2.2019 kl. 14:26

3 Smámynd: Jóhann Elíasson

Bjarni, er það ekki rétt skilið hjá mér, að ef þriðji orkupakkinn verður samþykktu, þá afsala Íslendingar sér forræðinu yfir því hvort "STRENGURINN" til Evrópu verði lagður.  Og svo í framhaldinu geti LANDSREGLARINN sem er ekkert undir Íslensk stjórnvöld settur heldur ACER, sem er stofnun sem stjórnar orkumálum innan ESB.  Og hann skipar okkur svo að virkja hverja einustu sprænu í landinu þar með talið GULLFOSS og DETTIFOSS....

Jóhann Elíasson, 9.2.2019 kl. 17:01

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Sæll, Jóhann; Ef Þriðji orkubálkur ESB og Evrópugerð #347/2013, sem er náskyld efni bálksins, verða innleidd í lög hér, þá verður ferlið þetta, ef umsókn um leyfi til að leggja aflsæstreng berst Orkustofnun: kostnaðar- og nytjagreining verður gerð á verkefninu undir eftirliti Landsreglara/ACER til að finna út, hvort það sé samfélagslega arðsamt, þar sem samfélagið í þessu sambandi er EES.  Ef strengurinn er á PCI-forgangsverkefnalista framkvæmdastjórnar ESB, eins og Ice-Link er, þá má telja víst, að niðurstaðan verði sú, að verkefnið verði talið samfélagslega arðsamt, og þá getur, að mínu mati, ekkert stöðvað verkefnið.  Landsneti verður jafnframt gert skylt að hanna og reisa öll mannvirki, sem nauðsynleg eru til að flytja orkuna frá íslenzka stofnkerfinu og að sæstrengnum.  

Eins og staðan virðist vera núna, munu rammaáætlanir um nýtingu eða verndun virkjunarstaða á Íslandi og í Norgi gilda, en við vitum líka, að allt er breytingum undirorpið, þegar ESB er annars vegar, og sífellt meiri völdum yfir orkumálum aðildarþjóðanna verður safnað á miðlægan stað hjá ESB, því að þar á bæ eru miklar áhyggjur út af ósjálfstæði Evrópu vestan Rússlands í orkumálum og þess, hversu eldsneytisknúin hagkerfi ESB-landanna eru.  Með væntanlegum Fjórða orkubálki ESB munu málin að einhverju leyti skýrast.  

Bjarni Jónsson, 9.2.2019 kl. 21:06

5 Smámynd: Jóhann Elíasson

Kannski RÚV ætti að koma umfjöllun um þetta í Krakka Fréttirnar, svo Iðnaðarráðherra og aðrir forráðamenn ríkisstjórnarflokkanna og þingmenn skilji hvað þarna er á ferðinni??????

Jóhann Elíasson, 9.2.2019 kl. 21:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband