Góð og ill tíðindi úr iðnaðarráðuneyti

Í lok janúar 2019 kynnti iðnaðarráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, "átak" til að flýta þrífösun sveitanna. Um hríð hefur verið við lýði áætlun um að ljúka henni árið 2035.  Þetta er afspyrnu metnaðarlaust markmið, enda leiðir dreifing raforku á einum fasa til orkusóunar á formi meiri orkutapa en ella, bæði hjá dreifingarfyrirtækinu og notandanum, og notandanum eru þröngar skorður settar með aflúttak og val á búnaði. Hvort tveggja stendur atvinnurekstri fyrir þrifum. 

Það er eitthvað bogið við það að leggja upp með, að sumar sveitir sitji uppi með einn fasa til ársins 2035 í ljósi þess, að orkusalan mun aukast við þrífösunina, og hagræði mun koma fram, sem vafalaust gerir þessa þrífösun þjóðhagslega hagkvæma.  Þá má ekki gleyma jákvæðum umhverfisáhrifum, minni rekstrarkostnaði og auknu afhendingaröryggi raforku, sem jarðstrengjavæðing og afnám loftlína hefur í för með sér.  Töluverð verðmæti í vír falla til við niðurrifið.

Upphæðin, sem ráðuneytið hyggst verja í þessu skyni næstu 3 ár, 2020-2022, er þó skammarlega lág m.v. þörf og notagildi eða aðeins MISK 240 og mun nema flýtikostnaði RARIK í tveimur sveitarfélögum.  Þessa upphæð þarf a.m.k. að tífalda og jafnframt að heimila veitufyrirtækjunum að taka lán með ríkisábyrgð, svo að ljúka megi þessu þarfa verkefni yfir 90 % árið 2025.  

Nú er gert upp á milli notenda innan hvers veitusvæðis eftir búsetu.  Þetta óréttlæti ætti að afnema með reglugerðarútgáfu ráðuneytisins og/eða lagasetningu, ef þörf krefur, um, að sama dreififyrirtæki megi ekki mismuna viðskiptavinum sínum út frá búsetu, heldur skuli ríkja sama gjaldskrá fyrir dreifingu í þéttbýli og dreifbýli.  Þetta er réttlætismál og mun einfalda reikningshald fyrirtækjanna. 

Er þetta ekki málefni fyrir þingmann að taka föstum tökum ?  Á að trúa því, að ráðuneytið beri fyrir sig Annan orkumarkaðslagabálk ESB, sem er jafnframt í lögum hér, að hann banni slíkan jöfnuð ?  Það er ekki verið að ræða um miðstýrða gjaldskrá allra dreifingarfyrirtækjanna.  Hins vegar verður það eitt hlutverka Landsreglarans, sem iðnaðarráðherra vill endilega fá til starfa hér á vegum ESA/ACER/ESB, að rýna og samþykkja (eða hafna) gjaldskrár dreifiveitnanna.  Hvaða áhrif það hefur á gjaldskrár þeirra, fer eftir arðsemiskröfunni, sem hann leggur til grundvallar fjárfestingunum.  Það er engin ástæða til að ætla, að gjaldskrár dreifiveitnanna muni lækka við tilkomu embættis Landsreglara.

Ef miðað er við viðmiðunar húsnæði Byggðastofnunar og Orkustofnunar, 140 m2 og 350 m3, 4,5 MWh/ár í almenna notkun og 28,4 MWh/ár til húshitunar, þá virðist raforkunotkun í dreifbýli án húshitunar kosta 60 kISK/ár meira en í þéttbýli eða 32 % m.v. sömu notkun.  Þessi munur er í raun mun meiri vegna þess, að í dreifbýli er yfirleitt um atvinnurekstur að ræða á sveitabýlum, og rafmagnsnotkun er þess vegna engan veginn bundin við íbúðarhúsið.  Hjá hverri sveitafjölskyldu gæti rafmagnsnotkunin numið 15 MWh/ár án rafhitunar.  Þá nemur kostnaður í dreifbýli án rafhitunar 200 kISK/ár umfram raforkukostnað þéttbýlisfjölskyldu.  

Þá er komið að húshitunarkostnaðinum.  Umframkostnaður beinnar rafhitunar ofangreinds húsnæðis m.v. sama orku-, flutnings- og dreifingarkostnað virðist nema um 80 kISK/ár umfram hitaveitukostnað eða 46 %.  Það er hægt að draga úr þessum mun og spara allt að 60 % rafkyndingarkostnaðar með uppsetningu varmadælu fyrir upphitað húsnæði og spara þannig 48 kISK/ár og í raun mun hærri upphæð vegna stærra húsnæðis, sem er upphitað í dreifbýli, e.t.v. 100 kISK/ár.  

Hér er um aðstöðumun fólks á "heitum" og "köldum" svæðum að ræða, sem eðlilegt er, að ríkissjóður leitist við að jafna.  Innkaupastofnun ríkisins gæti boðið út varmadælur og afhent þær þeim endurgjaldslaust, sem gera samning um varmadæluvæðingu húsnæðis síns á "köldum" svæðum.  Þetta er aðeins raunhæft, þar sem dreifiveita afhendir þriggja fasa rafmagn, því að þriggja fasa búnaður er mun ódýrari í stofnkostnaði og rekstri.  

Raforkuviðskiptin minnka við þetta, en á móti koma orkuskiptin, sem munu vega þessa minnkun upp og eru illmöguleg í dreifbýli án þriggja fasa rafmagns.

Nú vaknar spurningin, hvernig orkukostnaðinum mun víkja við, ef Ísland gengur ACER/ESB á hönd og hingað verður lagður sæstrengur frá útlöndum.  Flutningsgeta slíks sæstrengs gæti numið 1400 MW eða yfir 50 % af uppsettu afli á Íslandi.  Í Noregi er hlutfall flutningsgetu millilandatenginga um 20 %, en samt hefur orðið þar yfir 100 % hækkun í vetur á verði raforku frá virkjun til almennings. 

Þar leggjast á eitt minna orkuframboð innanlands vegna þurrka í sumar, mikil upphitunarþörf húsnæðis vegna kulda, vindstillur og miklar raforkuverðshækkanir í ESB. NVE, orkustofnun Noregs, hefur nú fundið það út, að verðlagsáhrif utanlandstenginganna eru tvöfalt meiri í Noregi en stofnunin hafði áður reiknað með. Þegar verðið varð hæst nú í byrjun febrúar, brá rafbílaeigendum heldur betur í brún, því að orkukostnaður þeirra gat jafnast á við orkukostnað sparneytinna eldsneytisbifreiða, nema þeir gættu þess að hlaða bíla sína utan álagstíma.  

ACER krefst þess, að flutningsmannvirki innanlands að tengistað millilandatengingar sé kostuð af raforkunotendum innanlands.  Þetta mun hækka flutningsgjald Landsnets til almennings og stóriðju um tugi prósenta.  Þá er ekki ólíklegt, að Landsreglarinn skipi svo fyrir, að gjaldskrár dreifiveitna verði hækkaðar til að auka arðsemi þeirra og auka hvatann til framkvæmda.  Í heild er varlega áætlað, að þessar hækkanir, sem allar má rekja beint til innleiðingar Þriðja orkupakkans, muni að jafnaði yfir árið hækka raforkukostnað almennings hérlendis um 50 %-100 %.  M.v. raforkuviðskipti almennings, fjölskyldna og fyrirtækja, næmi þessi hækkun að lágmarki 32 mrðISK/ár eða um 360 kISK/ár á hverja fjagra manna fjölskyldu. 

Þetta er svo mikil hækkun, að hún mun klárlega reynast mörgum fjölskyldum þung í skauti og valda stöðvun á rekstri sumra fyrirtækja.  Geta þeirra allra til launahækkana og fjárfestinga mun minnka, þannig að lífskjörin í landinu hríðversna.  Þau eru m.a. háð lágu raforkuverði.  Þess vegna er það almenningi í hag að halda áfram að miða við lága ávöxtunarkröfu orkumannvirkja.  Yfir endingartíma þeirra verður ávöxtunin samt mjög góð, því að hann er miklu lengri en bókhaldslegur afskriftartími mannvirkjanna. Stjórnvöldum verður óheimilt að niðurgreiða orkuverðið, því að slík ríkisaðstoð felur í sér óleyfilega mismunun samkvæmt EES-samninginum.  Hækkunin er gjörsamlega þarflaus, því að kostnaðaraukinn er óþarfur og ekki í neinu samræmi við verðhækkunina.  Hér er um svikamyllu að ræða.   

Skjaldarmerki lýðveldisins

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Jónsson

Þarfur pistill Kollege Bjarni

Halldór Jónsson, 10.2.2019 kl. 13:15

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Bjarni

Það er vissulega þörf á stórátaki í þrífösun rafmagns til sveita og útrýmingu loftlína. Hitt er svo annað mál, að ef orkupakki 3 verður samþykktur, mun þörfin sennilega verða lítil. Ástæðan er einföld, þeir sem fyrstir munu verða fyrir þeirri skelfingu eru bændur og varla verður mikið meira á þá lagt. Jafnvel þó þrífösun verði þeim til hagsbóta, mun það vera fjarri því að duga gegn þeirri hækkun á verði orkunnar sem fylgja mun 3. orkupakkanum. Því er hætt við að búum muni fækka verulega, jafnvel svo að þrífösun verði talin óþörf.

Kveðja

Gunnar Heiðarsson, 11.2.2019 kl. 09:27

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þetta er rétt athugað, Gunnar.  Búin eru að miklu leyti rafdrifin núna og eftir orkuskipti verða þau alfarið rafdrifin.  Hagur þeirra sveiflast þess vegna í vaxandi mæli með raforkuverðinu.  Innleiðing Orkubálks #3 getur ekki haft önnur áhrif á verðlag raforku hérlendis en til hækkunar, öfugt við það, sem við á á meginlandinu, því að þar er raforkukerfið allt öðruvísi en hér (að mestu eldsneytisknúið) og markaðurinn gjörölíkur, þ.e. margir, óháðir samkeppnisaðilar, en hér ríkir fákeppni og mun alltaf gera á þessu sviði.  Hluti af matvælastefnu landsins, sem nú er farið að tala um að setja, ætti að vera lágt og stöðugt raforkuverð, eins og verið hefur.  Þá verður Alþingi einfaldlega að hafna áformum stjórnvalda um Landsreglara, sem hér verði með ráðherravald á sviði orkumála, og leiki hér lausum hala í umboði búrókrata í Brüssel.  Honum ber að koma hér á uppboðsmarkaði með raforku, sem vissulega gæti leikið landbúnað hérlendis grátt.  Bændur verða að koma þingmönnum sínum í skilning um þetta.  Það er kjörið nú í "kjördæmavikunni".

Bjarni Jónsson, 11.2.2019 kl. 10:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband