Orkumál Evrópusambandsins

Staða evrópskra orkumála er slæm og fer versnandi.  Ástæðan er sú, að álfan (vestan Rússlands) er algerlega ósjálfbær með þekkta orkugjafa.  Evrópusambandslöndin stefna nú á að afnema kolakynt orkuver fyrir 2035, og það mun gera ríkin enn háðari orkuaðdráttum erlendis frá, því að eini orkugjafinn, sem leyst getur kolakyntu verin almennilega af hólmi, úraníum-kjarnorkuverin, eiga ekki upp á pallborðið í Evrópusambandinu, ESB, og verða bönnuð í Þýzkalandi frá 2022. Í öðrum pistli verður sagt frá því, hvernig Þjóðverjar hyggjast bregðast við lokun kjarnorkuvera sinna.

Þess vegna er ESB á milli steins og sleggju í orkumálum, og örvæntingin vex.  Við þær aðstæður er ekki rétt að rétta "skrattanum" litla fingur.  Segja má, að Íslendingar hafi gert það með innleiðingu Orkupakka #1 árið 2003, og nú á að taka alla hendina með blöndu af hótunum og fagurgala um Orkupakka #3.

Annars vegar ber brýna nauðsyn til, að ríkin verði óháð kolefnisorkugjöfum, og hins vegar er efnahagsleg nauðsyn að sjá íbúunum og atvinnuvegunum fyrir nægri raforku á viðráðanlegu verði. Forysta Evrópusambandsins telur eðlilegt viðbragð við þessu vandamáli vera að liðka eftir megni fyrir orkuflutningum innan svæðisins, einkum frá jöðrunum, þar sem víða er umframorku að hafa, t.d. á Norðurlöndunum, og inn að framleiðslukjarnanum í ESB, þar sem mest fé er bundið í framleiðslutækjum. Um þetta snúast orkubálkar ESB, sérstaklega Orkupakki #3. Þar er enginn annars bróðir í leik í Evrópusambandinu.

Íslendingar eiga einfaldlega enga samleið með þessari stefnumörkun, og innleiðing Orkupakka #3 getur hreinlega valdið óafturkræfu tjóni á samkeppnishæfni landsins um fólk og fyrirtæki, sem að töluverðu leyti er reist á tiltölulega lágu og stöðugu rafmagnsverði.

Morgunblaðið birti 31. janúar 2019 fróðlega frétt,

"Evrópuríki leggja til atlögu við kolin".

Þar sagði m.a.:

"Fjöldi koladrifinna orkuvera er í Evrópu.  Aðildarríki Evrópusambandsins og Evrópuþingið náðu undir lok síðasta árs [2018] samkomulagi um umbætur á raforkumarkaði svæðisins, þ.á.m. að afnema opinbera styrki til kolaorkuvera fyrir árið 2025."

Á sama tíma og koltvíildisgjald leggst af þunga á rafmagnsverðið, eru skattpeningar sömu rafmagnsnotenda notaðir til að niðurgreiða evrópskar kolanámur í stað þess að flytja inn meira af ódýrari kolum.  Þetta er gert til að viðhalda kolavinnslu í ESB-löndunum, sem er gömul atvinnugrein þar (nú 20´000 manns), og fresta því, að þessi lönd verði enn háðari erlendum orkugjöfum, t.d. jarðgasafhendingu frá Rússum.

Í forysturíki ESB, sem einnig ætlaði að gegna forystuhlutverki við orkuskiptin í Evrópu með stefnunni, sem Þjóðverjar einfaldlega kölluðu "die Energiewende", hefur allt dregizt á langinn í þessum efnum.  Nýlega ráðlagði "Kolanefnd" Þýzkalands stjórnvöldum að loka ekki öllum þýzkum kolakyntum orkuverum fyrr en 2038, en kolakynt orkuver standa nú undir þriðjungi allrar raforkuvinnslu Þýzkalands, sem er meira en nemur allri orkuvinnslu landsins úr endurnýjanlegum lindum. Í Þýzkalandi fjölgar nú kolakyntum raforkuverum, en í Bandaríkjunum fækkar þeim mikið fyrir tilverknað markaðarins, sem velur fremur gaskynt orkuver.

Með þessum seinagangi verða Þjóðverjar eftirbátar  annarra fjölmennra þjóða í Evrópu á þessu sviði.  Frakkar ætla að loka sínum kolakyntu orkuverum fyrir 2022 og Bretar og Ítalir fyrir árið 2025.  

Skýringin á þessu óvenjulega seinlæti Þjóðverja er sú, að hluti af orkuskiptastefnu þeirra er að loka öllum kjarnorkuverum sínum fyrir árið 2022, en hinar þjóðirnar hafa ekki slík áform uppi og byggja jafnvel kjarnorkuver núna.  Tímasetning lokunar kolaorkuvera Þýzkalands er greinilega sniðin við það að veita vísindamönnum landsins nægt svigrúm til þróunar nýrra orkugjafa.  Raunverulegur viðsnúningur í orkumálum meginlandsins verður ekki fyrr en ný tækni hefur verið þróuð til orkuvinnslu.  Þangað til mun ríkja spenna í orkumálunum, orkuverðið mun fara hækkandi í Evrópu, þangað til þessi viðsnúningur verður, og það verður á sama tíma gríðarleg ásókn í allar endurnýjanlegar orkulindir í álfunni.  

Við þessar aðstæður væri algert óráð af okkur Íslendingum að afhenda Evrópusambandinu lykilinn að orkulindum okkar.  Það var áhætta á sínum tíma að fallast á, að EES-samningurinn skyldi spanna orkumálin, en gagnvart þeirri kröfu ESB og hinna EFTA-ríkjanna stóðu Íslendingar einir á móti og töldu sig væntanlega verða að fallast á málið í nafni samstöðu með hinum EFTA-ríkjunum.  Nú er hins vegar þróun þessa orkumálasamstarfs innan ESB komin á slíkt stig, að hagsmunum okkar stafar augljós bein hætta af að ganga lengra en gert var með Orkupakka #2.  

Við verðum að spyrna við fótum, nú þegar komið er að því að gera skylt (var valfrjálst) að innleiða hér uppboðsmarkað á raforku og að innleiða Evrópurétt yfir millilandatengingum fyrir orku; allt undir umsjón Landsreglara, sem verður óháður íslenzkum stjórnvöldum, en undir stjórn ESB (gegnum ESA).  Með því að samþykkja hér innleiðingu á gjörningi, sem gerir oss að leiksoppi ESB í orkumálum, Orkubálk #3, væri Alþingi að færa orkuhungruðu Evrópusambandi erfðasilfur vort á silfurfati.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Jónsson

Bravó Kollege Bjarni,

éger að reyhna að hamra á því að við getum ekki neitað Philp Green eða Sorosi eða álíka ríkum köllum  að leggja hingað sæstreng og við verðum að taka við honum eftir samþykkt 3. orkupakkans.Þar með erum við komnir á orkumarkaðinn með tilheyrandi afleiðingum. Enginn hlustar á mig og þingliðið b ara blæs á þetta.

Hefjuru spáð meira í vetnið og framlei'sluj þess  og flutning á því?

Halldór Jónsson, 22.2.2019 kl. 21:22

2 Smámynd: Bjarni Jónsson

Kollega Halldór: Til hvers heldur þingliðið eiginlega, að Þriðji orkupakkinn sé ?  Hann var saminn og út gefinn til að ryðja úr vegi hindrunum í einstökum löndum á millilandatengingum.  Þingliðið verður að skilja, að með innleiðingu Orkupakka #3 skuldbindur það stjórnvöld hérlendis til að styðja með ráðum og dáð við Kerfisþróunaráætlun ESB, og í henni er Ice-Link að finna.  Ef OS hafnar umsókn um streng, en hann fullnægir skilyrðum um samfélagslega hagkvæmni, eins og þau eru skilgreind í gerð #347/2013, þá kemur upp ágreiningur á milli Íslands og ESB, sem gæti farið til ESA og EFTA-dómstólsins.  ESA gæti sagt, að með höfnun sæstrengs væru íslenzk stjórnvöld að leggja hindrun í veg milliríkjaviðskipta með vöru, sem er bannað samkvæmt grein 12 í EES-samninginum.  Þingliðið hefur gengið í björg, ef það ber hausnum í steininn og ætlar að tefla hagsmunum Íslands á tæpasta vað.

Bjarni Jónsson, 23.2.2019 kl. 18:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband