Auðvelt að verzla við ESB án EES

Utanríkisráðuneytið, Félag atvinnurekenda (heildsalar), sumir þingmenn o.fl., hafa lengi þann steininn klappað, að viðskiptahagsmunum Íslendinga muni verða hætta búin, ef Alþingi hafni Þriðja orkumarkaðslagabálkinum.  Þetta er hrein fjarstæða og flokkast undir hræðsluáróður í anda "Icesave"-tímans, enda eiga margir hinna sömu  skúma þar hlut að máli. Þegar viðskiptasamningur er á góðri leið með að breyta þingræðinu í landinu í "póstlýðræði", þar sem drjúgur hluti lagasetningarinnar kemur með pósti frá Brüssel, þá er vissulega eitthvað að og rík ástæða til að horfa til annars konar viðskiptalíkans við Evrópusambandið, ESB. Að breyttu breytanda getur þetta fyrirkomulag minnt Íslendinga og Norðmenn á stöðu landanna, þegar þau voru hjálendur Danakóngs.

Myndin af tollgæzlumönnum að störfum á landamærum, sem skoða alla farma við landamærin og fylla í hægðum sínum út eyðublöðin sín og stimpla þau að lokum, er löngu orðin úrelt. Eftirlitið er nú stafrænt, og farmurinn er skráður við upphaf ferðar.  95 % af innflutningi ESB kemur frá löndum utan EFTA-landanna  þriggja í EES, Íslands, Noregs og Liechtensteins.  Aðeins u.þ.b. 1 % af innflutningi ESB-landanna er tollskoðað.

Megnið af útflutningi Íslands og Noregs til ESB eru hrávörur og hálfunnar vörur.  Þessar vörur fara inn í framleiðsluferli ESB-landanna, og fyrirtækin þar, sem í hlut eiga, vilja auðvitað helzt fá þessar vörur sem ódýrastar.  Það myndi skaða efnahag ESB-landanna talsvert að útiloka vörur frá þessum EFTA-löndum á borð við fisk, málma, svo að ekki sé nú minnzt á olíu og gas frá Noregi, eða að hækka kostnað við að kaupa þessar vörur með því að leggja á þær innflutningsgjöld.  

Það, sem Ísland kaupir frá ESB-löndunum, eru að mestu leyti vörur tilbúnar til notkunar, allt frá skrúfum og pizzum til bíla og vélbúnaðar.  ESB-löndin hafa í heild aukið markaðshlutdeild sína bæði á Íslandi og í Noregi frá gildistöku EES-samningsins, og Ísland hefur líka aukið útflutning sinn til ESB-landanna sem hlutfall af heildarútflutningi, en minna fer fyrir viðskiptum við t.d. Bandaríkin og Rússland en fyrir 1973-langt á undan EES-samninginum. Sumpart er þetta vegna tæknilegra hindrana, sem EFTA-löndunum er gert að innleiða til að geta verið á Innri markaði ESB. Síðan er skemmst að minnast refsiaðgerða gegn Rússum undir forystu Angelu Merkel, sem leiddi til viðskiptabanns Rússa á matvæli frá Íslandi. Þetta olli landinu tugmilljarða ISK tjóni. Angela Merkel klæðskerasneið þessar refsiaðgerðir þannig, að Þjóðverjar urðu fyrir sáralitlu tjóni, en Norðmenn og Íslendingar fyrir stórtjóni, og Færeyingar hlupu í skarðið.

ESB hefur ekkert að vinna með því að reisa tollmúra gagnvart Íslandi og Noregi. 

ESB bauð Bretum fríverzlunarsamning í upphafi BREXIT-viðræðnanna, en Bretar höfnuðu honum vegna Írlandsmálanna.  Með fríverzlunarsamningi ESB við Bretland myndi Norður-Írland hafa lent utan tollabandalags við Írska lýðveldið, sem Írar vilja alls ekki.  Engin slík vandamál mundu koma upp í samningaviðræðum EFTA-landanna við ESB um víðtækan fríverzlunarsamning. Þegar Norðmenn og Íslendingar verða búnir að fá sig fullsadda af lýðræðishallanum og fullveldisframsalinu, sem í EES-samninginum felst, þá er einboðið, að þeir í sameiningu, eða undir merkjum EFTA, leiti eftir fríverzlunarsamningi og víðtækum samstarfssamningi við ESB.

Það er líklegt, að samningaviðræður EFTA og ESB um fríverzlunarsamning myndu ganga greiðlega, ef t.d. Ísland og Noregur ákveða að segja upp EES-samninginum, og má í því sambandi benda á fríverzlunarsamninga, sem ESB hefur á síðustu árum gert við Suður-Kóreu, Japan og Kanada.  

Hvers konar rammasamningar eru fyrir hendi fyrir viðskipti utan EES ?  Frá degi 1 fyrir Ísland utan EES myndu viðskiptin lúta ákvæðum gamla  fríverzlunarsamningsins frá 1973 á milli Íslands og ESB ásamt WTO-reglum Alþjóða viðskiptastofnunarinnar.  

Fríverzlunarsamningur Íslands og Noregs við ESB frá 1973, sem enn er í gildi, kveður á um  núll toll á iðnaðarvörum, þó ekki  á tilreiddum fiski og öðrum matvörum, og samningurinn hefur verið uppfærður nokkrum sinnum á þessari öld.  EES-samningurinn gefur heldur ekki núll toll á fiski og á laxi, sem er vaxandi útflutningsvara.  Þar yrði tollurinn óbreyttur, 2 %.  

Röksemd, sem stundum heyrist fyrir EES-samninginum, er, að hann fjarlægi tæknilegar viðskiptahindranir úr vegi inn- og útflytjenda.  WTO-reglurnar gegn mismunun á markaði kveða á um, að eftir að ESB eða sérhvert WTO-land (Ísland er aðili að Alþjóða viðskiptastofnuninni) hefur kunngert WTO-staðla sína, þá skulu þeir undantekningarlaust gilda um alla  útflytjendur þangað.  Eftir 25 ára samræmingarstarf og veru á Innri markaði ESB, þá fullnægir Ísland öllum kröfum ESB um vörustaðla.  Það þýðir, að eftir úrsögn standa engar tæknilegar hindranir í veginum fyrir útflutningi frá Íslandi til ESB-landa né öfugt.  Sértækar samþykktarkröfur verða óleyfilegar.  

WTO-samningar um tæknilegar viðskiptahindranir og um fyrirkomulag viðskipta ásamt Kyoto-samninginum um tollafgreiðslu um heiminn allan, skuldbindur ESB til eins greiðrar landamæraafgreiðslu og möguleg er. 

Íslenzk yfirvöld geta síðan valið þann kostinn að aðlaga sig nýjum, tæknilegum reglum vegna Innri markaðar ESB, þannig að viðskiptastaðlarnir verði áfram eins hér og þar.  Ef menn hérlendis vilja gera eigin kröfur til ákveðinnar vöru, þá er á vegum WTO gengið frá því með s.k. samsvörunarmati, að vörur, sem taldar eru gjaldgengar á Íslandi verði það einnig í löndum, sem Ísland flytur vörur út til.  Sömuleiðis hefur framkvæmdastjórn ESB vald til að slá föstu, að vörur með uppruna utan ESB séu jafngildar samsvarandi ESB-vörum og í samræmi við ESB-staðalinn.  Þar að auki má benda á, að viðskiptasamningar Sviss og Kanada við ESB veita réttum yfirvöldum í þessum ríkjum heimild til að samþykkja einhliða, að vara fullnægi ESB-stöðlum áður en hún er flutt út.  Það er engin ástæða til að ætla annað en EFTA-landið Ísland fengi slíka heimild fúslega viðurkennda af ESB.  

Vinnan við að semja alþjóðlega, tæknilega staðla fer fram óháð ESB, t.d. í Staðlanefnd Evrópu (CEN), þar sem lönd utan EES eru líka aðilar.

Fyrirkomulag við landamæraeftirlit hefur aðallega verið rætt í sambandi við fiskútflutning.  WTO er með eigin samning um matvæli, sem veitir heimild til landamæraeftirlits til að tryggja lágmarksgæði innflutningsins.  Eftirlitið verður að vera reist á málefnalegum rökum, og aðgerðirnar mega ekki mismuna útflytjendum eða innflytjendum.  Þetta tryggir öllum sams konar aðgang að ESB-fiskmörkuðum.  Hreinlætisreglur Íslands og ESB eru samræmdar og munu verða óbreyttar við uppsögn EES-samningsins.  Sérstakt eftirlit með dýrasjúkdómum á landamærum ESB stæðist ekki kröfur um málefnalegan rökstuðning og mundi vera í blóra við WTO-samninginn.  

Fiskurinn mun fljóta yfir landamærin næstum eins og núna.  Benda má á, að flutningabílar með fisk frá Noregi eru tollafgreiddir núna á landamærunum, og tíminn, sem í þetta fer eftir úrsögn Noregs úr EES mun varla lengjast nokkuð. Sama mun væntanlega gilda með íslenzkan fisk til meginlandsins, hvort sem hann er fluttur með flutningavögnum frá Englandi, skipum eða flugvélum beint frá Íslandi.  ESB-löndin flytja að auki mikið inn núna af fiskmeti frá löndum utan EES, t.d. Rússlandi, Víetnem og Ekvador.

Í bókinni "Myth and Paradoxes of Single Market" frá brezku hugveitunni Civitas eru verzlunartölur frá OECD í 40 ár, 1973-2012, bornar saman.  Þar kemur fram, að vöruútflutningur til ESB frá löndum með sérsamninga, þ.á.m. EES-löndunum Noregi og Íslandi, hefur ekki vaxið meir en útflutningur frá löndum, sem verzla við ESB á grundvelli WTO-reglna.  

Þegar um er að ræða þjónustuviðskiptin, sýnir bókin viðskiptaþróun u.þ.b. 50 landa við ESB á tímabilinu 2004-2012.  Þar kemur fram, að svo ólík lönd sem Sviss, Indland, Síle og S-Kórea (og mörg fleiri) juku þjónustuútflutninginn til ESB meira en Noregur.  Flest löndin verzla við ESB á grundvelli WTO-samnings um fríverzlun með þjónustu, GATS-samningsins.

ESB hefur mikinn hag af viðskiptum með jarðefnaeldsneyti, fiskmeti og málma frá Noregi, og hið sama gildir um viðskiptin við Ísland, þótt landið flytji ekki enn út eldsneyti, hvað sem verður. Noregur flytur inn þjónustu frá ESB fyrir 50 % hærri upphæð en andvirði þjónustunnar, sem landið flytur út til ESB. Viðskiptajöfnuður landsins gagnvart ESB í aldarfjórðung er klárlega ESB í hag.

Hvað Ísland varðar, var árið 2017 jákvæður vöruskiptajöfnuður við ESB upp á mrdISK 27,1, og þjónustujöfnuðurinn var jákvæður upp á mrdISK 35,7, svo að alls var vöru- og þjónustujöfnuðurinn jákvæður um mrdISK 62,8. 

Auðvitað viljum við áfram eiga mikil og góð viðskipti við ESB-löndin og getum lagað okkur að tæknilegum kröfum Innri markaðarins eftir þörfum, en það er orðið allt of íþyngjandi að taka upp umfangsmikla löggjöf Evrópusambandsins um málefni, sem ekki snerta okkar viðskipti við ESB-löndin, og þurfa að sæta ákvörðunarvaldi mismunandi stofnana ESB og úrskurðarvaldi EFTA-dómstólsins um málefni, sem varða landsmenn miklu. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband