Umhverfismál, aflsæstrengur og þróun raforkuverðs

Í margra augum er umhverfisvernd mál málanna, og það er hægt að fallast á, að sérhvert nýtt verkefni verði að meta út frá umhverfisáhrifum á land, loft, ár, stöðuvötn og sjó, en auðvitað líka út frá samfélagslegum áhrifum á byggðaþróun og hag íbúa nær og fjær. Allt þetta verður að meta saman, ef vel á að vera.  

Þann 18. febrúar 2019 birtist athygliverð grein í Morgunblaðinu eftir Hjörleif Guttormsson,

"Loftslagsháskinn, uppreisn æskufólks og íslensk viðhorf".

Grein sinni lauk Hjörleifur þannig:

"Æskufólk hérlendis veitir því eflaust athygli, sem er að gerast handan Atlantsála vegna loftslagsmála, enda sízt minna í húfi hér en annars staðar.  Þrátt fyrir ríkulegar endurnýjanlegar orkulindir er kolefnisfótspor Íslands, ekki sízt vegna stóriðju, með því hæsta, sem gerist, og því mikið verk að vinna.  Íslendingar eiga flestum þjóðum meira undir náttúrulegum auðlindum, og því er hófleg nýting þeirra og verndun lykilatriði fyrir framtíðarafkomu. 

Í því sambandi skiptir mestu, að Ísland, sem fullvalda ríki, haldi óskertum yfirráðum sínum yfir auðlindum lands og hafs innan efnahagslögsögunnar.  

Annað nærtækt atriði er verndun íslenzkrar tungu og menningararfs, sem henni tengist, og einnig það brothætta fjöregg er í höndum þeirra, sem nú eru ungir að árum."  (Undirstr. BJo.)

Þetta er þörf brýning, einkum undirstrikaði textinn nú um stundir.  Varðandi losun koltvíildis frá stóriðju á Íslandi er þess að geta, að hýsing orkukræfs iðnaðar er stærsta framlag Íslendinga til þess að halda aukningu koltvíildisstyrks andrúmsloftsins í skefjum.  Bæði er, að Íslendingum hefur tekizt afar vel upp með tækniþróun kerrekstrar og vandlega vöktun óeðlilegra kera og ofna til að lágmarka þessa losun á hvert framleitt tonn málms, og vegna lítillar losunar gróðurhúsalofttegunda við orkuvinnsluna fyrir stóriðjuna er heildarlosunin aðeins um 1/10 af heildarlosun vegna sambærilegs iðnaðar erlendis. Þá er ótalinn eldsneytissparnaðurinn við notkun afurða álvera og kísilvera. Íslendingar þurfa þess vegna síður en svo að bera kinnroða fyrir orkukræfum iðnaði í landi sínu.

Sumir hérlendir menn ganga með þær grillur í kollinum, að samfélagslega hagkvæmara sé að selja raforku til útlanda um sæstreng en að selja hana framleiðslufyrirtækjum hérlendis.  Íslenzki orkugeirinn hefur haldið þessari firru að fólki, aðallega núverandi forstjóri Landsvirkjunar, Hörður Arnarson. 

Norski orkuiðnaðurinn hefur ekki lagzt svona lágt, en talsmenn hans, t.d. hjá NVE (norsku orkustofnuninni) og hjá Statnett (norska Landsneti), hafa aðeins fullyrt, að sala á rafmagni til útlanda um millilandatengingar væri þjóðhagslega arðsöm, af því að þar hefur verið til nóg umframorka til að flytja út.  Þess ber að geta, að þrátt fyrir rúmlega 6 GW flutningsgetu núverandi sæstrengja og loftlína yfir landamærin, nemur nettó raforkuflutningur Norðmanna til útlanda aðeins um 10 TWh/ár.  Þetta er aðeins um 10 % af almennri raforkunotkun í Noregi og 7,1 % af raforkuvinnslunni.

Í viðhengi með þessum pistli er birt greining  prófessors Anders Skonhoft við Þjóðhagfræðideild NTNU (Norska tækni- og náttúruvísindaháskólans í Þrándheimi) á áhrifum nýrra aflsæstrengja frá Noregi til útlanda á þjóðarhag, þ.e. á hag raforkuseljenda og á hag raforkukaupenda. 

Í stuttu máli er niðurstaða greiningarinnar sú, að áhrif sæstrengjanna á norskan þjóðarhag séu neikvæð.  Nýir sæstrengir muni leiða til enn meiri raforkuverðshækkunar en þegar er orðin af þeirra völdum.  Útflutt magn raforku fari eftir verðmuninum í sitt hvorum enda.  Munurinn sé svo mikill á raforkuverði á Englandi (nú er verið að leggja sæstreng á milli Noregs og NA-Englands, North Sea Link) og í Noregi, að flutningur muni nánast stöðugt verða í sömu áttina eftir strengnum.  Því meira sem flutt er út, þeim mun meira hækkar raforkuverðið í Noregi, því að það sneiðist um umframorkuna, þótt bætt sé við smávatnsvirkjunum og vindmyllum.  

Prófessor Skonhoft kemst að þeirri niðurstöðu, að ávinningur orkuseljenda af útflutninginum felist einvörðungu í sölu raforku í heimalandinu á hærra verði, sem útflutningurinn veldur.  Hagnaðinn af raforkuútflutninginum  sjálfum gleypir sæstrengurinn og kostnaðarhækkanir vegna nýrra virkjana.  Eftir sitja raforkunotendur innanlands, Kari og Ola Nordmann með sárt ennið, með hækkaðan rafmagnsreikning, fyrirtækin í landinu (raforkunotendur) með laskaða samkeppnisstöðu við útlönd og orkukræfan iðnað í tilvistarhættu. 

Á Íslandi yrði uppi sú afspyrnu slæma staða, að orkuútflutningur um einn streng myndi verða um 50 % meiri en nemur allri almennri raforkunotkun í landinu (þ.e. utan langtímasamninga), og umframorku af mjög skornum skammti og alls enga í sumum árum.  Í Noregi nemur útflutningur raforku aðeins um 10 % af almennri notkun (7,1 % af heildarraforkuvinnslu). 

M.v. hækkanir rafmagnsverðs í Noregi má búast við tvöföldun á raforkuverðinu frá virkjun við íslenzkar aðstæður, yfir 50 % hækkun flutningsgjalds til almennings og stóriðju vegna mannvirkja til að flytja orkuna frá stofnkerfi landsins að sæstreng (endabúnaður sæstrengs ekki innifalinn) og 20 % hækkun dreifingargjalds vegna aukinnar arðsemiskröfu Landsreglara á hendur dreifiveitunum.  Alls næmi þessi verðhækkun rafmagns tæplega 60 %.

Afleiðingar af hækkun tilkostnaðar hjá fyrirtækjum í núverandi árferði eru samdráttur, hagræðing, fækkun starfsfólks eða jafnvel stöðvun rekstrar.  Afleiðingarnar verða alltaf grafalvarlegar.  Þess vegna er aflsæstrengur til útlanda þjóðhagslega óhagkvæmur og verður það alltaf.

Í úrdrætti greinarinnar segir höfundur í snörun pistilhöfundar:

"Mikilvæg áhrif af fleiri aflstrengjum til útlanda  eru, að raforkuverðið í Noregi mun hækka.  Þetta þýðir, að hagnaður virkjanafyrirtækjanna mun vaxa, en að sama skapi munu raforkunotendur (fyrirtæki og heimili) tapa.  Hækkað rafmagnsverð íþyngir almennt norsku atvinnulífi og alveg sérstaklega orkusæknum iðnaði.  Hærra raforkuverð mun gera vindorkuverkefni, sem áður  voru óarðbær, bókhaldslega arðsöm.  Niðurstaðan verður fjölgun vindmyllna og meiri eyðilegging norskrar náttúru og víðerna."

Nú segir stuðningsfólk innleiðingar Þriðja orkumarkaðslagabálksins á Íslandi, að engin hætta sé á, að landið verði tengt við útlönd með aflsæstreng, þótt þessi ólánspakki verði innleiddur.  Þetta er í meira lagi barnalegur málflutningur, sem  sýnir óverjandi áhættusækni ráðamanna fyrir hönd þjóðarinnar og algert skilningsleysi á stöðu orkumála í ESB, hvers vegna og til hvers Framkvæmdastjórnin, Ráðherraráðið og ESB-þingið, börðu saman og gáfu út Orkupakka #3 og eru með Orkupakka #4, Vetrarpakkann, í burðarliðnum.  

Hvað skyldi verkfræðingur og sérfræðingur í orkumálum, Elías Elíasson, hafa um fyrirætlanir ESB að segja ?  Sýnishorn af því má sjá í Morgunblaðsgrein hans, 25. febrúar 2019,

"Að svara "röngum" spurningum":

"Með þriðja orkupakkanum er mörkuð stefna í átt til miðstýringar í raforkumálum af hálfu ESB, eins og kemur enn betur fram í þeim reglugerðum, sem við bætast fram að fjórða orkupakkanum.  Þessum viðbótum líta boðendur pakkans fram hjá, þegar þeir fullyrða, að þriðji orkupakkinn feli ekki í sér svo mikið afsal fullveldis, að um sé að ræða brot á stjórnarskrá.  

Það er ekki nóg að meta stefnumörkunina aðeins út frá þeim hluta pakkans, sem nú skal leggja fyrir Alþingi, heldur verður að lesa öll gildandi lög og reglur þriðja orkupakkans og hafa jafnframt til hliðsjónar þau ákvæði um fjórfrelsi, samkeppni og viðskipti milli landa, sem stuðzt verður við, þegar koma skal stefnunni í framkvæmd.  

Þetta verður að gera núna.  Það er of seint að fara fram á undanþágur, þegar komið er að ákvörðunartöku um einstakar framkvæmdir; að ekki sé talað um, þegar búið er að framselja réttinn til að taka þessar ákvarðanir fyrir okkar hönd, eins og varðandi sæstrenginn."

Það þarf enginn að velkjast í vafa um það, að eftir mögulegt samþykki Alþingis á Orkupakka #3, mun ESB leggja áherzlu á, að EFTA-ríkin samþykki allar gerðir og tilskipanir um orkumál, sem komið hafa í kjölfar orkupakkans, t.d. gerð #347/2013, og koma munu, en Orkupakki #4 er í burðarliðnum.  Þar er enn aukin miðstýring ESB á orkumálum aðildarlandanna réttlætt með því, að öðruvísi muni ESB ekki takast nógu hratt að innleiða raforku úr endurnýjanlegum orkulindum og  að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda til að standa við skuldbindingar Parísarsamkomulagsins. 

Allmargir hérlendis hafa velt fyrir sér framtíð orkukræfs iðnaðar á Íslandi.  Það er tímabært, að Samálsmenn og Samtök iðnaðarins átti sig á því, að eftir hugsanlega innleiðingu Þriðja orkumarkaðslagabálksins í EES-samninginn mun verða farið að fetta fingur út í langtímasamninga við stóriðju hérlendis, og látið verður sverfa til stáls við hver tímamót, t.d. endurskoðun þessara samninga.  Þá munu hvorki Landsreglari né ESA taka lengur í mál, að íslenzk stóriðja fái lægra raforkuverð en gerist og gengur á markaði meginlandsins. Við það mun einfaldlega samkeppnihæfni stóriðjunnar hérlendis hverfa vegna óhagræðis staðsetningarinnar fyrir flutninga að og frá.  

Um þetta skrifaði Elías í téðri grein sinni:

"Það kom Norðmönnum á óvart, þegar þeir ætluðu að endursemja um orkusölu til stóriðju, að ESA-nefndin taldi, að fjarlægð frá mörkuðum væri ekki lögmæt ástæða afsláttar [á raforkuverði-innsk. BJo]Þar skyldi miða við markaðsverð.  Eins verður [það] hér, þó [að] við séum fimm daga siglingu frá Evrópu."

ESB mun einskis svífast við að klófesta raforku frá endurnýanlegum orkulindum Noregs og Íslands.  Svigrúm til þess verður skapað með því að eyðileggja samkeppnisstöðu orkukræfra framleiðslufyrirtækja í þessum löndum.  Þau geta ekki keppt á heimsmarkaði, ef þau þurfa að borga markaðsverð raforku á meginlandi Evrópu, því að flest annað er þeim mótdrægt, flutningaleiðir og mönnunarkostnaður. ESB löndin geta keypt vörurnar á heimsmarkaði, sem ekki munu lengur berast frá Íslandi og Noregi.  Um þetta snýst Orkupakki #3 m.a. 

 

 

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband